06.02.1979
Sameinað þing: 47. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2328 í B-deild Alþingistíðinda. (1871)

328. mál, nafnlausar bankabækur

Fyrirspyrjandi (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að þakka hæstv. ráðh. kærlega fyrir skýr og góð svör. Gjarnan vildi ég bíða nokkrar vikur hverju sinni eftir svari við fsp. upp á þau býti að fá svörin jafnljós og ég fékk nú við þessari fsp. minni.

Hér hefur það komið fram, að um er að ræða upphæðir sem eru öllu meiri samkv. mínu mati heldur en sá skítur á priki sem bankastjórar töldu í blaðaviðtölum og öðru sem þeir létu eftir sér hafa fyrir jólin í vetur að hér væri um að ræða. Hér er sannarlega um að ræða fundið fé. Ef svo er sem hv. síðasti ræðumaður, Jón G. Sólnes, gaf í skyn, að þetta muni fyrst og fremst vera skattsvikið fé, þá eigum við þarna opna innheimtuleið til að ná í fé sem við hefðum ærið við að gera nú. Ef meðferð bankanna á hinum fávísu fjármálamönnum er slík sem hv. þm. Jón G. Sólnes lýsti áðan, að þeir hefðu af þeim þarna vexti og hefðu þessa fjármuni á verðbólgubáli og veittu ekki eigendum þessa fjár hæfilegar og sjálfsagðar upplýsingar um það, hvernig varðveita beri fé, þá er þar um að ræða vitavert athæfi af hálfu bankanna.

Ég er ekki að halda því fram, að hér sé um að ræða illa fengið fé, síður en svo. Ég er efins um að öllu þessu fé hafi verið stungið undan skatti, einhverju sennilega. En ég staðhæfi aftur á móti, að þessi meðferð, þessi aðferð til þess að laða fólk til þess að geyma sparifé er óhæfileg. Nafnleyndin í sambandi við þetta geysilega fjármagn er fyrir neðan allar hellur og til þess fallin að vekja tortryggni. Og síðast, en ekki síst: þessi aðferð er til þess fallin að auðvelda mönnum, á hvaða greindarstigi sem þeir svo kunna að vera, að stela fé undan skatti og að fela e.t.v. illa fengið fé, hvernig svo sem meiri hlutinn af því fé, sem hér um ræðir, sem nemur hvorki meira né minna en 3 milljörðum kr., er til kominn. Ég óska eindregið eftir því, að kveðið verði á um það með lögum að þessi aðferð við varðveislu sparifjár verði ekki heimil framvegis.