06.02.1979
Sameinað þing: 48. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2336 í B-deild Alþingistíðinda. (1884)

165. mál, fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Þetta mál hefur þegar verið rætt nokkuð á síðasta fundi í hv. Sþ. Engu að síður hef ég áhuga á að fara um það nokkrum orðum og ætla nú að leyfa mér að gera það og vil þakka hæstv. forseta fyrir að fá að ræða þetta mál á venjulegum þingfundartíma, en ekki á öðrum tímum sem síður henta í því skyni.

Eins og hér hefur verið vikið að og allir hv. alþm. auðvitað vita, er um að ræða samning við Færeyinga, gagnkvæman fiskveiðisamning um loðnuveiðar þeirra og kolmunnaveiðar Íslendinga. Það er auðvitað nauðsynlegt að hafa það rækilega í huga, að við Færeyinga eru í gildi tvenns konar samningar: Annars vegar samningur um það sem hefur verið kallaður botnfiskur og var gerður fyrir 4 eða 5 árum og fjallaði um 17 þús. tonna veiðar Færeyinga á ýmsum fisktegundum, þar af upphaflega 8 þús. tonn af þorski. Hins vegar er svo samningurinn um loðnuveiðar sem nú mun framlengdur í þriðja sinn, ef Alþingi ljær samþykki sitt til þess. Og ég held að það sé mjög nauðsynlegt fyrir alla, sem þessi mál láta sig varða, að gera sér grein fyrir því, að hér er í reynd verið að draga úr veiðum útlendinga á íslenskum fiskimiðum. Upphaflega var þorskaflinn 8 þús. tonn, eins og hér hefur komið fram, nú er hann kominn niður í 6 þús. tonn. Þetta þykir kannske ekki stökkbreyting, en hér er þó um drjúga prósentulækkun að tefla á þeim fiski sem er hvað dýrmætastur fyrir okkur og í mestri hættu, að því er okkur er tjáð af fiskifræðingum. Hitt, sem hefur gerst í þessum samningum, er að loðnukvóti Færeyinga var helmingaður. Samningarnir, sem giltu árið 1978, hljóðuðu upp á 35 þús. tonn af loðnu gegn jafnmiklu magni af kolmunna sem við ætluðum okkur að veiða, þó minna hafi e.t.v. orðið úr því heldur en sumir höfðu gert sér vonir um. Þá má kannske enn fremur hafa það í huga, að hér var um tilraunastarfsemi að tefla sem vafalaust á fyrir sér að vaxa með tíð og tíma þegar skilningur og kunnátta Íslendinga á meðferð þessa fisks vex og farið verður að nota hann í öðru og ábatasamara skyni en fram að þessu hefur verið gert.

Nú eru, eins og hér hefur enn fremur verið margsinnis getið, í gildi tveir aðrir samningar við erlendar þjóðir. Það er upphaflegur samningur við Belgíu sem gerði ráð fyrir 19 skipa veiðum, en þessi skip eru nú orðin, síðast er ég vissi til, 12 talsins, og kannske eru þau orðin enn þá færri nú og eru þannig vaxin og þannig gerð að það er verið að leggja þær veiðar niður. Hér er um umþóttunartíma að tefla sem endar vafalaust í því mjög fljótlega að fiskveiðar Belga með þessu móti verða lagðar af. Auk þess ber að hafa í huga að þær veiðar, sem Belgar sóttust kannske hvað mest eftir, þ.e. humarveiðar, voru teknar af. Þær hafa aldrei verið leyfðar þessum bátum. Ég held að það sé hollt að minnast þess líka.

Ég býst við að flestir hv. alþm. minnist þess, hvers vegna lögð var áhersla á að gera þennan litla samning við einmitt þessa þjóð. Það voru Belgir sem brutust undan oki Efnahagsbandalags Evrópu og féllust á að bókun 6 í samningi okkar við Efnahagsbandalagið mætti taka gildi og komu þar með í veg fyrir hefndarráðstafanir þýskra stjórnvalda, sem ætluðu sér að knýja okkur til undanláts í fiskveiðisamningunum með því að neita okkur um að þau réttindi, sem búið var að semja um, næðu til sjávarafurða. Það var aldrei deilt um að þessi réttindi næðu til iðnaðarvara, en sjávarafurðirnar voru undanþegnar. Það var bókun 6 sem átti sérstaklega við þær, og það var vitanlega sú bókun sem var okkur miklu meira virði en allt annað sem í þeim samningi stóð. Þess vegna var það að mínu mati geysilegur sigur og drengileg framkoma þegar belgísk stjórnvöld gerðu það sem ég áðan var að segja, brutust undan oki Efnahagsbandalagsins og féllust á að réttindi okkar yrðu þar viðurkennd. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég sé ekkert eftir þeim uggum sem þeir hafa fengið í umbun fyrir að koma málum þannig fyrir af okkar hálfu.

Það er auðvitað kunnara en um þurfi að ræða að allir slíkir samningar um fiskveiðar annarra þjóða hljóta að fara eftir efnum og ástæðum hverju sinni. Ástæðan fyrir því, að talið var áhættulaust með öllu að fallast á 35 þús. tonna loðnuveiði í fyrra, var sú, hversu spárnar um loðnustofninn voru þá hagstæðar. Það er alveg rétt sem hefur komið fram, að síðan hafa fiskifræðingar nokkuð skipt um skoðun og kannske ekki í eina skiptið sem það hefur komið fyrir. En ég minnist þess, að þegar verið var að semja um 35 þús. tonna afla til handa Færeyingum, þá var fullum fetum talað um að það, sem óhætt væri að veiða af loðnu, væri allt upp í 1500 þús tonn, a.m.k. meira en milljón tonn. Nú hins vegar eru þær tölur, sem gefnar eru upp tæp milljón, skulum við segja. En þá hefur líka það gerst í þessum samningum, að aflahlutur Færeyinga er skorinn niður um helming. Ég tel að í þessu sé fullkomið samræmi, og ég tel að þeir hæstv. ráðh., sem fjölluðu um þessa samninga, hafi unnið gott starf. Ég vil gjarnan staðfesta það hér, hef raunar gert það áður annars staðar, og ég vil lýsa því yfir og draga það ekki lengur, að ég mun fylgja þessum samningum gegnum þykkt og þunnt. Hitt er svo annað mál, að það getur vel verið að að því komi, að það sé ráðlegt og skynsamlegt að taka til endurskoðunar þá samninga alla sem í gildi eru, og hér hafa komið fram raddir um að það ætti að gerast. En hverjir eru það sem eiga að gera kröfu um endurskoðun þessara samninga, ef það eru ekki þeir sem samþ. þá, þ.e.a.s. alþm. sjálfir? Ég hef ekki orðið var við að hér á hv. Alþ. hafi komið fram till. um að segja þessum samningum upp. Hver einasti alþm. hlýtur að eiga þennan rétt, og þeir, sem telja endurskoðunina ekki einungis heppilega, heldur jafnvel sjálfsagða, ættu þá að hafa frumkvæði um að slík till. yrði borin fram. Alþm. mundu þá allir mynda sér skoðun um hvort slíka till. ætti að samþ. eða hvort enn um skeið væri hægt að bíða og leyfa samningunum að gilda nokkurn tíma enn. Ég vil aðeins í þessu sambandi ítreka það sem mína skoðun, að auðvitað geta engir slíkir samningar verið gerðir um aldur og ævi. Það hljóta ævinlega að verða þær aðstæður sem eru á höfunum umhverfis okkur, það ástand fiskstofna sem við búum við hverju sinni, sem hefur úrslitaáhrif um það, hvort við getum gert slíka samninga eða ekki. Það er skoðun mín, að enn þá getum við þetta. Og ég minni á það, að frá 15. sept. 1972, þegar fiskveiðireglugerðin þáverandi var gefin út, hafa fiskveiðar útlendinga á Íslandsmiðum dregist saman um 350 þús. tonn. Ég skal ekki segja að þessi tala sé alveg hárnákvæm, en hún er mjög nálægt því. Og þegar nú þessi staðreynd blasir við, þá finnst mér það ekki stórmannlegt og ekki heldur rétt að telja eftir þau tæplega 20 þús. tonn af botnlægum fisktegundum sem enn er fallist á að útlendingar veiði hér við land. Ég skal ítreka til að firra hugsanlegum misskilningi, að ég er ekki að tala fyrir því að þessa samninga megi aldrei hreyfa, þeim megi aldrei breyta. Það eru ástæðurnar hér í kringum landið sem ráða því, hvort við getum veitt þessa heimild eða ekki.

Það var mikið talað um það á sínum tíma, þegar vissir menn komu frá Osló og höfðu skrifað undir tiltekin skjöl, að þar væri heldur illa frá málum gengið, Bretar hefðu algerlega neitað að undirrita nokkurt skilyrði um að fara héðan burt 1. des. þegar samningstímabilið, sem var 5 mánuðir, væri á enda. En þetta er ekki rétt, vegna þess að Bretar gáfu þá skýlausu yfirlýsingu í Osló, að eftir að þetta samningstímabil væri runnið á enda væri það Efnahagsbandalag Evrópu sem færi með fiskveiðisamninga fyrir þeirra hönd, sem auðvitað þýðir það og var skilið þannig af öllum, að Bretar sem slíkir mundu ekki framar gera kröfur til fiskveiða á Íslandsmiðum.

Hitt er svo annað mál, að Efnahagsbandalag Evrópu tók mjög fljótlega upp viðræður við okkur um hugsanlega gagnkvæma samninga. Við ræddum við þá og við fengum frá þeim yfirlit yfir hvað það væri, sem þeir teldu sig geta látið okkur hafa í gagnkvæmum viðskiptum. Það var mjög lítið. Þau skjöl eru öll til í viðkomandi rn. og þar geta allir þm. kynnt sér þau. Auk þess bentum við á að ástand fiskstofna okkar væri þann veg, að við hefðum heldur ekkert að láta. Það voru haldnir þrír fundir. Þetta hefur verið rakið, en ég ætla að endurtaka það í stuttu máli. Það voru haldnir þrír fundir, tveir með Finn Gundelach og aðstoðarmanni hans og þar að auki einn fundur með aðstoðarutanríkisráðh. Bretlands. Þessir menn sættu sig við svör okkar. Þeir skildu það þegar búið var að tala við þá í tvo eða þrjá daga eða hvað það nú var og þegar búið var að leiða saman fiskifræðinga, bæði breska og íslenska, og þeir urðu sammála um hversu mikill fiskur væri hér í sjónum. Þá sýndu þessir menn þann skilning að þeir féllu frá öllum frekari viðræðum og hafa mér vitanlega ekki tekið þær upp enn.

Ég hef að vísu ekki unnið í stjórnarráðinu undanfarna 4–5 mánuði, en ég hef ekki haft neinar fréttir af því, að þangað hafi komið sendiboðar frá Efnahagsbandalagi Evrópu til þess að krefja okkur um uppfyllingu einhverra loforða sem við hefðum skv. sögusögnum átt að hafa gefið í Osló á sínum tíma, enda er það rangt, slíkar yfirlýsingar voru ekki gefnar. Enginn getur knúið íslensk stjórnvöld til þess að semja um fiskveiðar útlendra þjóða ef þau vilja það ekki sjálf. Ef íslensk stjórnvöld, hverjir sem með ráðherraembætti fara, hafa kjark og þor til þess að neita slíkum beiðnum, þá gerist ekki neitt, þá höldum við okkar fiski, og við höfum fullt og óskorað vald til að neita öllum slíkum kröfum. Ég treysti því fastlega, að við þær ákvarðanir verði staðið meðan ástand fiskstofna er svo sem nú ber raun vitni. Takist aftur á móti svo heppilega til að fiskstofnar nái sér á ný, þá hefur það ævinlega verið skoðun mín, að við eigum ekki að einoka fiskimið, við eigum ekki að halda fæðu fyrir fólki sem vantar hana ef við erum aflögufærir.

Það hefur talsvert verið rætt hér um meðferð þessa máls, og út af fyrir sig get ég viðurkennt að hún var með nokkuð öðrum hætti en ég t.d. átti að venjast þau ár sem ég starfaði í stjórnarráðinu. Ég minnist þess mjög vel, og það hljóta aðrir þm. að muna líka, að á þeim tíma starfaði svokölluð landhelgisnefnd, skipuð fulltrúum úr öllum flokkum, ekki einungis stjórnarflokkunum, heldur einnig úr Sjálfstfl. sem var utan stjórnar á tímabilinu 1971–1974, og ég tel að það hafi verið rétt ráðið. En jafnframt vil ég staðfesta það fyrir mitt leyti, að ég tel að hæstv. utanrrh. Benedikt Gröndal hafi haft, ef ekki fullmótað umboð frá utanrmn., þá a.m.k. leyfi, — ég vil orða þetta öðruvísi, ef ég má: hann hafði ekki bann við því að taka upp viðræður við Færeyinga.

Ég ætla að leyfa mér að minnast á það enn einu sinni og rifja það upp, hvernig þessi mál bar að í utanrmn. Það gerðist með því móti að utanrmn., eins og hv. þm. vita væntanlega og eiga að vita, starfar þannig að hún heldur reglulega fundi einu sinni í mánuði, og í tilteknum mánuði gerist það að þessi n. heldur hefðbundinn fund. Þar eru tekin fyrir ýmis þau mál sem þá voru á dagskrá og ég hirði ekki um að nefna hver voru. Ráðh. skýrir n. frá því sem er að gerast í utanrrn. og í umheiminum. Þessi siður hefur verið hafður á nokkuð lengi. Ég tel að hann sé með þeim hætti að honum eigi að halda áfram. Í lok þessa fundar tók hæstv. utanrrh. sérstaklega fram, að ósk hefði komið frá Færeyingum um, að fá að senda hingað sendinefnd tiltekinna manna, sem búið var að upplýsa hverjir voru, til þess auðvitað að leita eftir samningum um veiðar, annað erindi áttu þessir menn ekki, það held ég að hafi verið öllum ljóst sem á fundinum voru. Hæstv. utanrrh. gerði meira en þetta. Hann gerði meira en að segja okkur frá þessu. Hann fór fram á það við okkur öll sem þarna vorum, að við leituðum eftir afstöðu þingflokka okkar til þessara samningaviðræðna. A.m.k. skildi ég það þannig, að það væri afstaða til þess, hvort ætti að semja við Færeyinga og um hvað mikið átti að semja við þá, en ekki eitthvað annað, hvort ætti að bjóða þeim í kvöldmat eða eitthvað slíkt. Það var ekki það sem var verið að spyrja okkur um. Það, sem verið var að spyrja okkur um, var það einfaldlega, hvort flokkar okkar mundu geta hugsað sér að framlengja samninginn með einum eða öðrum hætti. Hitt er svo annað mál, sem hér hefur líka verið upplýst, að vegna óvenjulegra anna Alþingis á þessum tíma, svipaðra anna og alltaf eru um miðjan desember, kom það í ljós á næsta fundi sem n. hélt, að ekkert okkar hafði haft tíma til þess eða tækifæri að bera þessa ósk ráðh. upp í flokki sínum. Ég tel að þar sé ekki við hann að sakast. A.m.k. tel ég hvað varðar þann flokk sem ég starfa í, að það sé mitt mál að ég kom því ekki í verk. Og ég er alveg óhræddur um afstöðu þess flokks, sem ég fylli, til þessa máls. Við höfum áður staðið að svipuðum samningum og þeim stærri, og ég hef ekki trú á því, að nokkur maður í þeim flokki sem ég starfa í, Framsfl., fari nú að hlaupa frá smærri samningi en hann hefur áður staðið að. Þess vegna var það að ég sagði daginn eftir að samningunum lauk í viðtali við Morgunblaðið, og það liggur þarna, það var svo þungt að ég gat ekki verið að halda á því, að ég teldi að hæstv. utanrrh. hefði mátt skilja utanrmn. á þann veg, að hún hefði ekki á móti því að slíkir samningar yrðu gerðir. Þess vegna tek ég því ekki með neinni þögn eða þolinmæði, að ég sé borinn einhverjum sökum um það, eins og hér hefur átt sér stað, að ég hafi sagt ósatt til um það sem gerðist hjá utanrmn. Hitt skal ég játa, að ég hef ekki hugmynd um hvað gerðist uppi í stjórnarráði. Það getur vel verið að þar hafi þessu öllu saman verið mótmælt. Ég hef að vísu ekki heyrt þess getið, en það má vera að svo sé. En í utanrmn. var þessu ekki mótmælt nema af einum nefndarmanni, og n. starfar þannig að enginn má segja frá því sem annar lætur frá sér fara, þannig að ég fer ekkert nánar út í það. En þetta er sannleikurinn sem hér er um að ræða.

Blandast hafa í þessi mál önnur atriði viðkomandi hafréttarmálum, og síðast í gær voru umr. í hv. Ed. um þáltill. sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson var 1. flm. að og afgreiddar voru hér fyrir jólin, að því er ég tel með viðunandi hætti. Það er auðvitað annarra að gera grein fyrir því, hvernig hefur verið unnið að því að framfylgja þessum málum. Ég ætla ekki að spá neinu um það. En ég hlýddi að vísu á þessar umr. sem áttu sér stað í gær, og ég hlýt að segja það, að þess vegna samþykktum við till. og vísuðum þeim til ríkisstj. að við ætluðumst til að það yrði gert eitthvað í málinu, ekki bara að afgreiða till. frá okkur til þess að við sjálfir værum lausir. Ég hygg að þeir, sem skrifuðu undir nál., þ.e. allir viðstaddir, hafi skilið málið á þann veg, að samþykktin hefði verið gerð til þess að efni till. yrði framkvæmt.

Ég hef einnig heyrt að menn hafa verið að tala um það, að hæstv. utanrrh. hafi komist óheppilega að orði í Osló. Það má út af fyrir sig vel vera. En mér dettur ekki eitt andartak í hug, að hann hafi ætlað sér að afsala Íslandi einhverjum réttindum. Það hefur enginn maður, sem nálægt þessum málum hefur komið svo lengi sem ég man, afsalað Íslandi nokkrum réttindum, og ég trúi því ekki að það hafi átt sér stað í sjónvarpssamtalinu um daginn.

Það má vel vera, eins og ég áðan sagði, að það hefði verið hægt að komast heppilegar að orði. Og ég heyrði það í gær í hv. Ed., að ýmsir þm. beindu þeim áskorunum til hæstv. utanrrh., að hann tæki nú af allan vafa um það, hvað hann hefði meint. Ég vonast til þess, að þegar hann tekur næst til máls hér verði ekki lengur neinn vafi í nokkurs manns huga um það, hvaða afstöðu við höfum í þessu tiltekna máli, þ.e.a.s. fiskveiðilögsögu og efnahagslögsögu í kringum Jan Mayen. Ég a.m.k. leyfi mér að vona að sé einhver í vafa um það enn, þá verði sá vafi tekinn af.

Herra forseti. Það er auðvitað ákaflega margt sem ég hef áhuga á að ræða í sambandi við fiskveiðimál, bæði samninga við aðrar þjóðir, það sem er að gerast á Hafréttarráðstefnu og það sem er fram undan fyrir Ísland í þeim efnum. En mér er jafnframt ljóst að tími Alþingis er takmarkaður. Margt af þessu hef ég áður sagt. Þess vegna ætla ég nú að láta þessu máli lokið og með þeirri yfirlýsingu endurtekinni, að ég styð þessa samninga og þá þáltill. sem hér er til umr.