06.02.1979
Sameinað þing: 48. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2342 í B-deild Alþingistíðinda. (1886)

165. mál, fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Hér hefur verið margt sagt og misjafnt um þá samninga sem gerðir voru við Færeyinga. Sú ræða, sem hæstv. sjútvrh. var nú að enda við að flytja, er að mínum dómi góð að því leyti, að hann lýsir þeirri afstöðu sinni að við þurfum að draga úr og helst fella niður veiðar útlendinga í íslenskri fiskveiðilögsögu. Er það í samræmi við það sem hann hefur sagt áður, að hann hafi verið mótfallinn því að veita Færeyingum áframhaldandi veiðiheimildir hér, eins og gert hefur verið, og viljað draga úr þeim eftir mætti.

Það má segja að það er nýnæmi fyrir mig og aðra hv. þm. að heyra hæstv. sjútvrh. tala hér um sjávarútvegsmál, því um þau mál hefur verið afar lítið fjallað á þinginu síðan það kom saman í haust og í þeim málum lítið sem ekkert verið að gerast. Sem dæmi má nefna að aðeins einn fundur hefur verið haldinn um mál í sjútvn. Nd. og þá um þingmannafrv. Frá hæstv. sjútvrh. hefur ekkert mál varðandi sjávarútveg komið fram. Og mér er ekki kunnugt um að hann hafi haft nokkurt minnsta samráð við sjútvn. Alþingis eða Alþingi um það sem hann hefur verið að gera í sjávarútvegsmálum, ef það hefur þá verið eitthvað, því ekki vitum við það. Það er góðra gjalda vert að reyna að grípa inn í erfiðleika útgerðar og fiskvinnslu á Suðurnesjum og nauðsynlegt. En það er það eina sem ég hef heyrt um að hæstv. sjútvrh. hafi gert í þeim efnum. Sjálfsagt hefur það verið meira, en það höfum við ekki fengið að vita og þaðan af síður að við höfum verið spurðir um eitt eða annað í þeim efnum.

Síðasta afrek hæstv. sjútvrh. í þessu efni var að loka ágætis togveiðisvæðum í því skyni að hleypa á það línubátum og netabátum. Það átti sem sagt að vera betra að veiða þorskinn, ef hann var þá á svæðinu, í net heldur en að fiska hann í troll. Allir vita þó, sem eitthvert vit hafa á þessum efnum, að fiskur, sem kemur úr trolli, er nýr og skorinn lifandi, en fiskur, sem kemur úr neti er meira eða minna gallaður og steindauður. Það er röng stefna að mínum dómi og þar held ég að hæstv. ráðh. hafi stigið rangt skref. En í þessu efni sem öðrum hafði hæstv. ráðh. ekkert samband við þá menn hér á Alþ. sem fjallað hafa um fiskveiðar og fiskveiðimál á undanförnum árum.

Annar galli við þessa reglugerð var sá, að þar var lokað svæði sem einmitt er helst unnt að veiða á karfa og ufsa, þær fisktegundir sem okkur er bent á að sækja í staðinn fyrir þann þorsk sem stendur nú afar illa.

Ég er með fyrir framan mig skýrslu frá Hafrannsóknastofnun, og þar er margt mjög merkilegt að sjá og finna. En það alvarlegasta er þó það, að þar er sagt frá því, að hrygningarstofninn hafi á síðasta ári ekki verið nema 165 þús. tonn. Á árinu 1978 var þorskaflinn 330 þús. tonn. Nú leggur Hafrannsóknastofnunin mjög mikla áherslu á að ekki verði veiddur meiri þorskur við Ísland en 250 þús. tonn. Það er lagt til og varað alvarlega við hættunni við að fiska meira en þetta. Það er lagt til að skerða þorskafla Íslendinga um 25% á milli þessara ára. Á sama tíma og þetta gerist erum við að leyfa útlendingum að veiða þorsk á Íslandsmiðum. Hver þorskur, sem útlendingar veiða á Íslandsmiðum úr þessum minnkandi stofni, er frá okkur tekinn og er hrein gjöf af okkar hálfu.

Það er þess vegna að mínum dómi alrangt að þessu staðið og að þessum samningum öllum og ekkert einkamál hæstv. utanrrh. að gefa útlendingum, í þessu tilfelli Færeyingum, hlut úr þeim fiskstofnum sem nú þegar eru svo mjög ofveiddir hér við land sem raun ber vitni um þorskinn.

Það er sannleikur, það er staðreynd, og fram hjá henni verður ekki farið, um hvert tonn sem við látum til þessara þjóða, þótt þær séu vinir okkar og frændur kannske í þokkabót, að við erum að gefa þessu fólki þennan afla. Við erum að gefa nokkra milljarða. Er það ákaflega rausnarlega gert og þessi afli er frá okkur tekinn.

Málsmeðferðin öll hefur verið rakin hér, og að mínum dómi hefur þar verið rangt að öllu staðið. Hæstv. ráðh. sagði í umr., að það væri svo með utanrmn., að hún hefði algera sérstöðu í þinginu. Ég verð að segja það, að mér finnst að þetta mál sé ekki aðeins utanríkismál, heldur líka sjávarútvegsmál og þess vegna eigi sjútvn. þingsins að fjalla um það ekki síður en utanrmn. Þetta eru samningar við útlendinga og heyra að sjálfsögðu undir hæstv. utanrrh. og utanrmn., það er rétt. En þetta mál er að því leyti sérstakt, að þarna er verið að fjalla um meginauðlind íslensku þjóðarinnar, um fiskinn í sjónum sem við lifum allir á, beint eða óbeint, og þess vegna ber þinginu að fjalla um þetta og sérstaklega sjútvn. þess.

Ég vil ekki vera að skattyrðast um málsmeðferðina frekar en gert hefur verið af hálfu okkar Alþb.-manna við hæstv. utanrrh., en mér finnst málsmeðferðin röng, jafnvel þó hefði verið haft samband við alla flokka. Það er athyglisvert, að fram kom hér í umr. að í samninganefnd Færeyinga voru fulltrúar allra flokka í Færeyjum, en þar voru ekki fulltrúar allra flokka á Íslandi. Þeir höfðu fulltrúa allra stjórnmálahreyfinga í Færeyjum með, en við skildum eftir stærsta flokk þjóðarinnar, Sjálfstfl. og Alþb., næststærsta flokkinn, sem hefur óneitanlega haft mikið með sjávarútvegsmál að gera hér með þjóðinni um allmörg ár. Þó deilt sé um ýmis atriði, þá fer ekki á milli mála að formaður Alþb. hefur verið þar mikill áhrifamaður og skilið margt eftir sig, og mér finnst að það sé einstakur dónaskapur að ganga fram hjá þessum flokkum þegar um slíkt mál er að ræða.

Það var að skilja á hæstv. utanrrh. hér í umr., að það væri eðlilegt að standa svona að málum og hann hefði til þess fullan rétt — lagalegan rétt. Ekkert kann ég í því. En það sem mér fyndist réttast í þessu væri að bera málið fyrst undir Alþingi, a.m.k. alla þá sem eiga að fjalla sérstaklega um utanríkismál og sjávarútvegsmál. Þegar búið er að fjalla um þetta í Alþ. má að mínum dómi fyrst fara að setjast að samningaborði með útlendingum. Það fyndist mér rétta málsmeðferðin og allar aðrar aðferðir rangar.

Það kann að vera að sú aðferð, sem nú var notuð, þ.e.a.s. að hæstv. ráðh. gerði fyrst samningana ásamt fulltrúum tveggja flokka, skrifaði undir þá og legði þá síðan fyrir Alþingi, — það má vera að hún sé lögleg, en ég tel það ranga aðferð. Það á að fara í þessu aðra leið, þveröfuga, fyrst að ræða um þetta við þá aðila, sem fjalla um þessi efni í þinginu, og síðan að fara í samningagerð.

Mér finnst samt einhvern veginn að það, sem kallað hefur verið samningur við Færeyinga og gagnkvæmur fiskveiðisamningur, sé alls ekki neinn samningur. Mér finnst þetta vera ósköp einfaldlega það, að við séum að kalla þá til þess að tilkynna þeim hvað við ætlum að gefa þeim mikið af því sem við megum ekki missa, því við erum vissulega að gefa þeim úr fiskstofnum sem við höfum ekki of mikið af og flestir þeirra ofveiddir, þó sagt sé af sumum að við höfum hér vannýtta fiskstofna, t.d. karfa. Það getur vel verið að menn geti reiknað það á borðum sínum niðri í Hafrannsóknarstofnun, að karfinn sé vannýttur. Þá hefðum við átt að geta nýtt hann betur. En íslenskum fiskimönnum hefur gengið illa að finna hann, og ekki gengur betur að ná í hann nú þegar búið er að gera eitt helsta karfasvæðið út af Reykjanesi að línu- og netasvæði.

Sá afli, sem Færeyingum er heimilt að taka hér nú, eru 17 500 tonn af loðnu. Loðnumagnið var skorið niður um helming, líklegast með tilliti til þess, að fiskifræðingar hafa lagt til að við sjálfir takmörkum veiðar okkar og miðuðum heildarafla okkar á þessari vertíð við 350 þús. tonn. Með því fá þó Færeyingar allt að 5% af því sem talið er leyfilegt að veiða. Ég skal út af fyrir sig ekki hamast mjög mikið á móti þessu. Þetta er ekki stórt hlutfall, og ég gæti trúað að ef við hefðum efni á að missa eitthvað slíkt að þessu sinni, þá væri það kannske frekast af þessum fiskstofni. Þetta er ekki heldur mjög verðmætur fiskur, ekki eins og botnfiskurinn. Samt sem áður er það staðreynd, að við þurfum sjálfir að takmarka veiðar okkar, og ég vona að þær takmarkanir verði framkvæmdar skynsamlega með tilliti til verðmætis loðnuaflans á hverjum tíma, sem breytist mjög á þessum árstíma.

Ég er hins vegar ekki sammála hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni þegar hann fullyrti það, sem auðvitað var rangt, að loðnuveiðar hefðu verið stöðvaðar í desember af veðurfarsástæðum. Það var ósköp einfaldlega gert vegna þess að við ætluðum að draga úr veiðunum. Þar skaut hann svolítið fram hjá raunveruleikanum, hv. þm. Matthías Bjarnason, eins og í fleiri atriðum, og kem ég kannske að því síðar.

Það, sem mér finnst alvarlegt, er að Færeyingum er enn þá leyft að veiða hér 17 þús. tonn af botnlægum fiski. Okkur Íslendingum veitir ekkert af því að ná öllum þessum afla. Það má jafnvel líta svo á, að þessi 6 þús. tonn, sem frændur okkar og vinir Færeyingar mega nú taka af þorski, séu miklu dýrmætari 6 þús. tonn heldur en reikna má til verðs. Það eru e.t.v. 6 þús. tonn af þeim hrygningarstofni sem nú er orðinn svo lítill að hann fer að nálgast það að þorskstofninn geti hreinlega hrunið. Við vorum alveg sérstaklega heppnir með hrygninguna og framgang seiða á þessu ári vegna þess að hitastig í sjónum við landið var sérstaklega hátt, þannig að hrygning þessa litla stofns tókst tiltölulega vel. En hefðum við haft tvisvar til þrisvar sinnum stærri hrygningarstofn við þessi skilyrði fengjum við hrygningarstofn eftir 7–8 ár sem væri a.m.k. þrisvar sinnum stærri, því afföllin getum við reiknað í nokkuð fastri prósentu.

Þessi 17 þús. tonn, sem Færeyingar mega skv. þessum samningum taka hér á þessu ári, eru ekki lítill afli. Lítum t.d. á það, hver afli Íslendinga var í þeim síðasta mánuði á árinu 1978 sem skýrslur eru til um, í nýjasta hefti Ægis, tímarits Fiskifélags Íslands. Þar er birt síðasta skýrsla sem til er um aflann og sundurgreind eftir verstöðvum, liggur fyrir í 11. tölublaðinu frá 1978. Það er byrjað á Vestmannaeyjum og haldið svo vestur með landi: Stokkseyri, Eyrarbakki, Þorlákshöfn, Grindavík, Sandgerði, Keflavík Vogar, Hafnarfjörður, Reykjavík, Akranes, Rif, Ólafsfjörður, Stykkishólmur, Grundarfjörður o.s.frv., og svo koma Vestfirðirnir allir, Norðurlandið allt og Austfirðirnir. Ef við tökum svæðið frá Vestmannaeyjum til Stykkishólms, að báðum meðtöldum, bátaafla, síld og togaraafla samanlagt í þessum mánuði, það sem allir sjómenn á þessu svæði kröfsuðu upp með mikilli vinnu og við mikla erfiðleika vissulega í þeirri tíð sem þá var, þá voru það 10 þús. tonn. Þá er miðað við óslægðan fisk, og ber mönnum að draga frá a.m.k. 20%. En afli Færeyinganna er að sjálfsögðu miðaður við slægðan fisk. Ef tekið er næsta svæði, Vestfirðingafjórðungur, frá Patreksfirði til Drangsness, að báðum meðtöldum, og allt þar á milli, með togaraafla, þá varð aflinn í september ekki nema 4 800 tonn. Og það er óhætt að bæta Norðurlandinu við, þ.e.a.s. frá Vestmannaeyjum til og með Þórshöfn og allir staðir þar á milli. Samanlagður afli togara og báta gerir heldur minna en að ná upp í þá botnfiskaflatölu sem Færeyingar frá. Færeyingar máttu veiða meira á síðasta ári. (Gripið fram í: Önnur skipting.) Það er að vísu dálítið önnur skipting, það er rétt. En ég efast um að þar skakki mjög miklu vegna þess að Vestfjarðatalan er svo lág, þar sem þeir fiska eingöngu þorsk. Og þó við tökum Akureyri og reynum að skoða dæmið þannig, þá held ég að þessi skipting sé ekki mjög brengluð. Hún er að vísu nokkuð önnur, en þarna er ég að taka dæmi um veiði allra fiskimanna á Íslandi í heilum mánuði.

Ég er sjálfur persónulega mikill vinur Færeyinga og hef verið með þeim mikið til sjós árum saman og vil því fólki auðvitað vel. En við vitum öll hvernig þessu er háttað. Þeir þurfa að láta Efnahagsbandalagið fiska í sinni lögsögu. Það tekur þar afla sem er eitthvað sambærilegur við það sem þeir fá hér, þannig að þarna eru eiginlega óbein skipti milli Íslendinga í gegnum Færeyinga yfir til Efnahagsbandalagsins.

Verið er að tala um gagnkvæma samninga við Færeyinga, að við megum taka sama magn af kolmunna við Færeyjar og þeir mega taka hér af loðnu. Það er alveg ósambærilegt, ekki aðeins vegna þess að þetta eru misverðmætar fisktegundir, heldur fyrst og fremst vegna þess, að kolmunninn við Færeyjar er alls ekki aðgengilegur. Hann er á því tímabili, sem við megum fiska, á ákaflega takmörkuðu svæði þar sem um mjög stóran fiskiflota er að ræða, því að þeir hafa gert gagnkvæma samninga, eins og kallað er, við margar aðrar fiskveiðiþjóðir og hafa ekki getað vísað í annað en þennan kolmunna á þessu sama svæði og á þessum sama tíma. Þarna verður þess vegna afar þröngt á þingi, enda hefur reynslan orðið sú, að Íslendingar hafa átt í miklum erfiðleikum með að ná í þennan kolmunna. Í raun og veru er staðreyndin sú, að við höfum ekki efni á að sækja þennan kolmunna svona langt við svona erfið skilyrði. Hráefnisverð á kolmunna á Íslandi er það lágt, að það borgar sig ekki með allan tilkostnað útgerðar við olíu, mannskap og fleira að sækja þennan afla þangað, því að ef það á að borga sig að fiska kolmunna á annað borð, þá þarf að geta gengið í hann og fiskað mikið á stuttum tíma með tiltölulega litlum siglingum. Það er staðreynd. Þannig er með allan bræðslufisk. Þarna er þess vegna alls ekki um nein skipti að ræða.

Færeyingar mega hins vegar koma hingað og taka loðnuna þegar hún er í bestu ásigkomulagi, miklu verðmætari og feitari fiskur, hvað þá ef þeir fá að veiða hana með hrognum, þar sem hvert hrognakíló er á við fjöldamörg loðnukíló, mjög verðmætur afli, og að henni er hægt að ganga, þessari loðnu hér. Komi menn á loðnuveiðar á þeim tíma þegar loðnan hefur þjappast vel saman og örugglega á göngu sinni með Suðausturlandinu, þá er hægt að ganga að þessari loðnu og hirða hana ef það er veður til þess. Þar er ólíku saman að jafna eða að sækja langt suður í haf og ná í þann reyting af kolmunna sem þar er.

Við höfum ekki efni á því að ná í þennan kolmunna og við eigum ekki heldur að vera að því. Hins vegar eigum við að gera samninga við Færeyinga um afla hér við Ísland. En þá á það að vera gagnkvæmt í raun og veru. Það á ekki að vera að leika sér með neinar blekkingar. Ef þeir vilja láta okkur hafa kolmunna sem við höfum ekki efni á að ná í, þá segjum við þeim bara: þið megið hins vegar fá kolmunna frá okkur. — Það er meira að segja þægilegra að ná í hann, ekki síst á Norðaustursvæðinu, út af Héraðsflóanum og víðar, þó að við höfum vísað á kolmunna á öðrum svæðum, þar sem er mjög mikið af honum, enda er kolmunnastofninn stærsti fiskstofninn núna, eins og norsk-íslenski síldarstofninn var á sínum tíma, talinn nema mörgum millj. tonna. Ég man þegar mér var sagt af fiskifræðingum að þessi kolmunnastofn væri talinn nema 10 millj. tonna. Þó hefur komið orð frá fiskifræðingum okkar um að nú beri meira að segja að horfa nokkuð öðrum augum á kolmunnaveiðar en við höfum gert að undanförnu, vegna þess að það séu svo margir og svo víða að komnir sem sækja í þennan stofn, bæði vestur af Írlandi, norður af Færeyjum og víðar, þannig að menn leggja til, að farið verði að því með meiri gát en verið hefur.

Ef við eigum að leyfa Færeyingum að veiða á Íslandsmiðum, þá er það skoðun mín að við eigum að vísa þeim á kolmunnann, jafnvel þó að menn séu farnir að efast um að hann sé eins mikill og var, en alls ekki að gefa þeim leyfi til þess að ná hér í botnlægan fisk.

Það hefur verið skrifað um það hér í blöðum, ungir og reiðir stjórnmálamenn hafa skrifað skammargrein um okkur Alþb.-menn sem vorum á móti þessum samningum, að það hefði verið hneyksli að senda Færeyinga tómhenta heim eftir besta aflaár í sögu þjóðarinnar. Það er rétt, þetta var besta aflaár í sögu þjóðarinnar. En hvernig var þessi afli? Þorskaflinn var mjög mikill. þó hefur togaraaflinn dregist saman þó við höfum bætt við togurum. Og við erum enn að bæta við fleiri togurum, þó að ég skilji ekki þá fiskveiðipólitík, á sama takmarkaða aflamagnið, sem þýðir auðvitað að hver togari fær minna, tilkostnaður verður meiri. Í því er auðvitað ekkert vit. Það er ekki heldur vit í því að vera sífellt að bæta við risavöxnum, gömlum, stórum síðutogurum til þess að vísa þeim á loðnustofninn sem nú þegar er takmarkaður, svo að ég tali nú ekki um að fara að kaupa frá útlöndum mjög stór loðnuveiðiskip, sem kosta hálfan annan milljarð kr. eða þaðan af meira, og smíða ný hérlendis til þess að sækja afla úr þessum stofni. Það þýðir auðvitað að verið er að stórauka afkastagetu fiskveiðiflotans til þess að sækja í loðnuna, sem er takmörkuð og verður ekki aflað meiri af en var á síðasta ári. Þetta er auðvitað röng stefna líka. Það kemur bara minna í hvers hlut og útgerðin verður erfiðari. Allt þetta er líka rangt.

Það hefur ekki staðið á fiskiflotanum að ná í þessi loðnukvikindi hér við Ísland. Við hefðum getað fiskað miklu meira. Það, sem hefur staðið á í sambandi við loðnuveiðarnar, er að afkastageta vinnslustöðvanna er of lítil og að ýmsu leyti erfiðleikar að koma hráefni á milli landshluta. Það hefur ekki staðið á því, að fiskiflotinn hafi ekki getað náð í miklu meiri afla. En svo fara menn að skrifa í blöð, eins og ég sagði áðan, áhugasamir, en því miður þekkingarlausir. Það er það sorglega í málinu. Menn eiga ekki að leyfa sér að skrifa greinar í blað eftir blað um sérfræðileg efni, er mér óhætt að segja, án þess að hafa hundsvit á þeim. Það sýnir bara að menn þykjast vera pólitíkusar án þekkingar. Þeir þóttust vera vitrir, en urðu heimskingjar. Þetta er úr Prédikaranum, ef ég man rétt. Ég þekki hins vegar þessi mál persónulega, vegna þess að ég hef stundað þessar veiðar sjálfur undanfarin ár, við Norðurland, Jan Mayen, á öllum þessum svæðum, og þarf ekki að fara að kenna mér neitt um það í kjallaragreinum sorpritanna hér í þessu landi.

Það er skoðun mín, að við eigum að segja upp samningum við útlendinga um veiðar í landhelginni á okkar viðkvæmu fiskstofnum. Við eigum að gera það. Það er búið að skrifa undir þennan samning núna og verður ekki snúið til baka með það að mínum dómi. Ég tel að það hafi verið rangt staðið að málinu, málsmeðferðin hafi verið röng, og það er bara misskilningur að við höfum efni á að gefa nokkuð af þessu. Það er hins vegar búið að fá fulltrúa Færeyinga, allra flokka á Færeyjum, hingað til lands og það er búið að skrifa undir þessa samninga, og ég tel að ekki verði úr þessu snúið til baka með þennan samning. Hins vegar eigum við að mínum dómi á þessu ári að segja upp þessum fiskveiðisamningum öllum með eðlilegum fyrirvara og á réttan hátt og taka síðan upp samninga við einhverjar fiskveiðiþjóðir ef við sjáum ástæðu til. En við skulum ekki einu sinni enn falla í þá gryfju, að við höfum nokkur efni á því að gefa hið minnsta úr þorskstofninum okkar.

Ég er ekki sömu skoðunar og ýmsir í okkar flokki varðandi afstöðu til þess sem fiskifræðingar okkar hafa sagt. Ég er ekki sammála sumum þeim aðilum og áhrifamiklum um það, að við höfum getað rótað upp þessum fiski á s.l. ári vegna þess að ástand þorskstofnsins hafi verið gott. Það er blekking, því miður. Það er staðreynd, að nú þessar vikur hefur ekki fengist fiskur austan frá Bugtum og vestur undir Grindavík, þar hefur ekki verið neinn fisk að fá, hvorki þorsk né annað. Og það er staðreynd, að hrygningarstofninn má ekki minni vera. Líklega verður hann og vonandi — ég segi: vonandi verður hann stærri á þessu ári, með því að árgangurinn 1972 kom inn, og vonandi verður hann enn stærri 1980, þegar árgangurinn 1972 og sá stóri frá 1973, sem kallaður var meðan hann var og hét, koma inn til hrygningar.

Við verðum að fara mjög varlega, því að þarna eru menn að fara með sjálft fjöregg þjóðarinnar. Mistakist eitthvert kast í þessu máli getur það orðið afdrifaríkt. Þá verða efnahagsvandræði hjá þjóðinni, ekki eins og þau sem við erum að eiga við núna, heldur allt önnur og miklu erfiðari, þegar sjálfum grundvellinum getur kannske orðið kippt undan. Þarna verða menn að stíga hvert spor mjög varlega. Og ég vil leyfa mér að segja það, vegna þess að ég sé að hæstv. sjútvrh. er enn í sjónmáli, að mín skoðun er að það sé nauðsynlegt nú þegar að setja reglugerðir um veiðar á hrygningarstofninum nú í vetur. Þetta segi ég jafnvel þó að það kunni að koma einna verst við umbjóðendur mína og kjósendur í Vestmannaeyjum og á Suðurlandi. Við megum ekki láta það henda einu sinni enn, að fiskimenn þverbrjóti reglugerðir um netafjölda, að þeir komi með kannske þriðjunginn af afla sínum hálfónýtan eða alónýtan á land af þeim stofni sem við verðum að gæta fyrir alla muni. Öll önnur mál eru smámál við hliðina á þessu.

Þarna verður að taka málin föstum tökum, t.d. að menn geti ekki leyft sér að vera með 15–20 trossur á víð og dreif og draga kannske upp af mjög djúpu vatni, taka 2–3 lagnir og koma með allan fiskinn óaðgerðan í land. Það er skylda að koma með allt aðgert sem ekki er úr síðustu lögn. Það hefur verið sniðgengið með því að það er sagt: Það kom sama og ekkert í fyrstu lögn, — og gert þá að nokkrum tittum. Þessi afli er auðvitað meira og minna skemmdur, úr sjálfum hrygningarstofninum.

Þó að það kosti meiri vinnu og þó að menn verði neyddir til þess að hafa minni veiðarfæri, þá verður að taka fast á þessu. Ég ætla að vona að hæstv. sjútvrh. heyri þetta þó að hann sé nú ekki í salnum. Þetta er verkefni sem hæstv. ráðh. verður að snúa sér að nú næstu daga, ef hann vill á annað borð sinna af alvöru sjávarútvegsmálum, en ekki láta allan tíma sinn fara í að vera að þvarga um prósentur við samstarfsflokka sína í ríkisstj., — prósentur, sem skipta kannske engu máli miðað við það þegar við horfumst í augu við að hrygningarstofninn á þeirri fisktegund, sem stendur undir þjóðarbúinu, er í hættu.

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér í upphafi, þegar ég kvaddi mér hljóðs, að hrekja ýmislegt af því sem hv. þm. og fyrrv, hæstv. sjútvrh. fór með í sinni ræðu. Ég sé nú ekki ástæðu til að eyða í það tíma, ekki síst vegna þess að hv. þm. er ekki viðstaddur. Þó verð ég að segja það, að ég undraðist að hann skyldi enn nota tækifærið, þegar hann kom í þennan ræðustól, til þess að hæðast að fiskifræðingum okkar og öllu starfi þeirra og gera lítið úr þeim niðurstöðum, sem þeir hafa fengið, og gera lítið úr þeim varnaðarorðum fyrst og fremst sem þeir hafa haft í frammi. Menn kunna að hafa haft á þessu misjafnar skoðanir. En þær rannsóknir, sem fram hafa farið, misjafnlega fullkomnar að sjálfsögðu vegna þess að til rannsókna í þessum efnum höfum við takmarkað fjármagn, takmarkaðan mannafla, þannig að þessar upplýsingar eru kannske ekki eins fullkomnar og best yrði á kosið, — þessar rannsóknir eru þó þær einu rannsóknir sem við höfum, og ekki dugar brjóstvitið eitt í þessum efnum. Það er of hættulegt að beita því þegar rannsóknir sýna allt annað.

Herra forseti. Ég vil þá fara að ljúka máli mínu. En áður en ég geri það get ég ekki stillt mig um að minnast aðeins á þær reglur, sem eru kallaðar geysilega strangar, sem Færeyingum eru settar um fiskveiðar við Ísland. Þær eru auðvitað strangari en þær voru, sem betur fer, og fyrir það ber að þakka hæstv. sjútvrh. eða hæstv. utanrrh., því að þær reglur, sem við höfum sett útlendingum þegar þeir hafa fengið leyfi til að fiska hér við Ísland, hafa aldrei verið nógu góðar, ekki nógu strangar, og eftirlitið allt of lítið og kannske ekki neitt, því miður. Þær hafa aldrei verið nógu góðar, þannig að það var sannarlega kominn tími til að setja nokkru strangari reglur en verið hafa, til þess, eins og hæstv. ráðh. sagði áðan, að minnka tortryggni. Það var skynsamlega að orði komist, því að þessar reglur duga ekki alveg til að koma í veg fyrir tortryggni, og þær duga ekki heldur, fremur en kannske nokkrar aðrar reglur, til þess að koma í veg fyrir misnotkun í þessum efnum.

Færeyingar eru geysilega duglegir fiskimenn og hafa á mörgum sviðum slegið okkur Íslendingum við, sem þykjumst vera heimsmeistarar í öllum þessum greinum, — hörkufiskimenn. Það er sameiginlegt með þessum mönnum, sem eru hörkufiskimenn, að þeir fara eins langt og þeir mögulega geta komist, og er þá ekki verið að sneiða neitt að Færeyingum með því að gera minna úr þeim. Þeir eru bara hörkufiskimenn og reyna að komast eins langt og þeir geta og reyna að fá eins mikið og þeir geta. Og það er opinbert leyndarmál, eins og það er kallað, að þeir hafa oft og iðulega, þar sem þeir hafa fiskað eftir kvóta, t.d. á síld í Norðursjó og víðar, að sá kvóti hefur orðið í raun miklu stærri en leyfður var. Ég er ekki að fullyrða beint að það hafi verið mjög miklu meira hér, en það er hætt við að þeir reyni að ná í það sem þeir geta.

Eitt, sem talið var þessum reglum til gildis sérstaklega, var t.d. að þeir skyldu tilkynna daglega íslensku gæslunni um stað meðan þeir væru hér í landhelginni. Þetta er það sem íslensk skip þurfa alltaf að gera, meira að segja tvisvar á dag yfir vetrarmánuðina. Það er íslenska tilkynningarskyldan. Menn þurfa að tilkynna sig tvisvar á sólarhring. Mér þykir svo sem ekkert mikið þó að vinir okkar og frændur, Færeyingar, þurfi að gera það einu sinni og get ekki séð að það sé neitt stórkostlegt afrek að koma þessu inn. Og eins er með það, að þeir skuli senda aflatölur til Fiskifélagsins eftir hverja löndun. Þessar tölur eru alltaf sendar til Fiskifélagsins frá öllum fiskibátum og fiskiskipum á Íslandi.

Ýmislegt annað er dálitið merkilegt og skemmtilegt í þessum samningum, en ég sé ekki ástæðu til að rekja það. Að lokum vil ég segja það, herra forseti, að við stöndum því miður fyrir framan orðinn hlut. Ég tel, að aðferðin hafi verið röng, að Alþ. og nefndir þess hefðu fyrst átt að ræða málið og síðan hefðum við átt að tala við Færeyinga. Það má vera að það hefði orðið meiri hl. fyrir þessu, þá er ekkert við því að segja. Það er hin lýðræðislega aðferð. En þessi aðferð er að mínum dómi svo langt frá því að vera lýðræðisleg sem aðferðir geta verið.

Ég vil leggja það til að lokum, að við Íslendingar segjum upp fiskveiðisamningum við þær þjóðir, sem hér taka botnfiskafla og raunar allan afla, með eðlilegum fyrirvara, og ég vil endurtaka það, að ef ástæða þykir til að ræða við aðra eða leyfa öðrum að taka hér einhvern afla, þá verði það gert eftir að allir samningar eru gengnir úr gildi.