06.02.1979
Sameinað þing: 48. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2350 í B-deild Alþingistíðinda. (1887)

165. mál, fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði satt að segja vænst þess, að í upphafi þessa fundar mundi hæstv. utanrrh. eða þá hæstv. forsrh. koma hér í ræðustól og gefa Sþ. skýrslu um Jan Mayen-málið. Þannig er mál með vexti, að það mál var rætt í Ed. í gær utan dagskrár og hæstv. utanrrh. sagði þar, að vísu ekki úr ræðustól, heldur í lok umr., þegar forseti leit til hans, væntandi þess auðvitað að hann svaraði, að hann mundi gera það í dag. Ég tók það svo, að það væri ákvörðun hans og við mættum treysta því, og þess vegna hélt umr. ekki lengur áfram í Ed. í gær. Ég spurði hæstv. utanrrh. að því þegar fundir hófust kl. 2, hvort hann mundi gefa þær yfirlýsingar sem farið var fram á í Ed. í gær. Hann yppti öxlum. Ég fékk engin svör. Ég spurði hann hvort ríkisstj. hefði rætt málið í morgun. Hann svaraði því ekki heldur.

Annar ráðh. hefur tjáð mér að ríkisstj. hafi nú í morgun rætt Jan Mayen-málið, í fyrsta skipti á nær hálfs árs ferli sínum, að því er hæstv. utanrrh. hefur upplýst í Morgunblaðinu s.l. föstudag, en þar stendur orðrétt, með leyfi forseta: „Þá var hann“ — þ.e.a.s. ráðh. — „spurður, hvort málið hefði verið rætt innan íslensku ríkisstj., og svaraði hann því neitandi.“ Sem sagt, það var fyrst í morgun sem Jan Mayen-málið var rætt í hæstv. ríkisstj. Nú er mér auðvitað ljóst að Jan Mayen-málið er ekki hér á dagskrá fyrst og fremst, en það mál hefur þó mjög blandast inn í þessar umr., og svo alvarlegir hlutir gerðust í síðustu viku að óhjákvæmilegt er að fjalla um þetta mál af fullri alvöru og festu. Það er ekki lengur hægt að skjóta sér undan því að horfast í augu við staðreyndir. Að þessu kem ég síðar, en vík fyrst að Færeyjasamningnum.

Mér er mjög ljúft að lýsa yfir fyllsta stuðningi við hæstv. utanrrh. og samstarfsmenn hans við gerð Færeyjasamninganna. Ég held að þar hafi hyggilega verið að málum staðið og við Íslendingar hefðum verið minni menn, ef við hefðum ekki mætt óskum Færeyinga. Og ég m.a.s. held því fram, að við hefðum gjarnan getað gengið skrefi lengra en við gerðum. En úr því að samningar náðust á þessum grundvelli og Færeyingar vilja við þá una, þá er það heillaspor.

Það var þegar fyrir áratug samþykkt hér í Sþ. till. um aukin samskipti við Færeyinga, m.a. á sviði fiskveiða. Við Íslendingar höfum sáralítið gert að því að framfylgja þessari ályktun. Það var ályktað hér í des. s.l. á þann veg, að við ættum að taka upp samvinnu við Færeyinga á öðru sviði, sem ég nú mun víkja að.

Þar var gerð ályktun þess efnis, að Alþ. lýsti yfir að ytri landgrunnsmörk Íslands til suðurs yrðu ákveðin án tillits til Rockall og að samvinna yrði höfð við Færeyinga til að tryggja sameiginleg réttindi á landgrunnsvæðinu utan 200 mílna marka landanna. Mál það, sem hér er nefnt, hefur ekki vakið nægilega athygli á Íslandi. Menn hafa ekki gert sér grein fyrir því, hversu mikið getur þarna verið í húfi. Sannleikurinn er sá, að suður af Íslandi og suðvestur af Færeyjum er sokkið meginland, geysivíðáttumikið, þar sem talið er að mikil auðæfi geti verið fólgin í jörðu, svo sem málmar, olía, gas, og það sem meira er, að þar kunna auðvitað að vera lífverur á botninum, en allar lífverur, sem ekki hreyfast án snertingar við botninn, eru taldar tilheyra honum í drögum að hafréttarsáttmála.

Um það má auðvitað deila, hvort hugsanlegt sé að Íslendingar geti náð yfirráðum yfir þessu svæði með samvinnu við Færeyinga. Hitt er óumdeilanlegt, að það eru miklar líkur til þess, að þetta sé framhald íslenskfæreyska landgrunnsins, en alls ekki hins írska eða skoska, þó að Bretar og Írar geri nú tilkall til þessa hafsvæðis. Í öllu falli er sjálfsagt að við gætum réttar okkar, og það eigum við að gera í samvinnu við Færeyinga.

Samningurinn um fiskveiðar nú er auðvitað liður í alhliða samvinnu, sem við eigum að taka upp um verndun og nýtingu Norður-Atlandshafsins, ekki einungis við Færeyinga, heldur jafnframt við Grænlendinga og Norðmenn. Þessar þjóðir eiga að starfa saman að mínu mati og hljóta að gera það, ef sæmilega hyggilega er á málum haldið.

Ég skal ekki eyða mörgum orðum að því að lýsa þessu svæði þarna suður frá, til þess gefast betri tækifæri síðar, enda höfum við Íslendingar því miður mjög litla þekkingu á jarðfræðilegum aðstæðum þar. Hins vegar hafa Færeyingar þá þekkingu mun meiri, vegna þess að þótt skömm sé frá að segja höfum við Íslendingar nú á síðustu mánuðum miklu minna sinnt þessum málum en Færeyingar og mér skilst að af hálfu núv. hæstv. ríkisstj. hafi ekkert — í bókstaflegri merkingu ekkert verið gert í þessu efni, að rannsaka landgrunnið og jarðfræðileg atriði í því sambandi. Það er auðvitað mjög vítavert. Og það er ekki hægt að skjóta sér á bak við vanþekkingu í þessu efni, vegna þess að flutt var þáltill. þegar í upphafi þings um þetta mál og þess vegna hefði verið full ástæða til að taka það föstum tökum.

Það mun vera sameiginlegt álit jarðfræðinga að gliðnunin, sem byrjaði þegar landrek hófst, hafi einmitt verið á þessum slóðum, þ.e.a.s. á milli þessa sokkna lands núverandi og Írlands og Skotlands, þar sé hið upphaflega og elsta hafdýpi Atlantshafsins. Þetta land, sem þarna er um að ræða og nú er sokkið, var þá áfast Grænlandi. Það hefur sem sagt rekið til baka austur á við að nokkru leyti og Grænland frá því vestur á bóginn. Það er því a.m.k. mjög vel hægt að vefengja þá kenningu Íra og Breta að þetta sé eðlilegt framhald þeirra lands. Þar við bætast upplýsingar, sem ég aflaði mér nú fyrir örfáum dögum og líklega enginn Íslendingur hefur áður um vitað, að mjög mikil setlög frá Íslandi liggja vestan að þessu landi fast upp að því, þ.e.a.s. meira og minna allur framburður íslensku stórfljótanna á Suðurlandi og Austurlandi hefur borist þarna að. En það eru einmitt kenningarnar um setlögin sem Írar leggja mest upp úr og ýmsar þjóðir aðrar. Íslensk stjórnvöld sinna þessu að engu.

Þá kem ég að Jan Mayen-svæðinu. Auðvitað ætti hér innanlands að vera samstaða í því máli. Í umr. í gær í hv. Ed. hygg ég að allir ræðumenn hafi farið eins mjúkum höndum um hæstv. utanrrh. og nokkur kostur var til að reyna að hjálpa honum til að komast út úr þeim ummælum sem hann viðhafði við norska sjónvarpið og segir nú að hafi verið mistúlkun og ég vona að sé. En allir ræðumenn ekki einungis óskuðu þess, heldur kröfðust þess, að ríkisstj. og hæstv. ráðh. gerðu hreint fyrir sínum dyrum í þessu efni og gæfu hér og nú yfirlýsingu um að það væru engar vomur á Íslendingum í þessu efni, þeir teldu sig eiga þessi réttindi og það þyrfti ekki vitnanna við um það. Og það er áreiðanlegt, að ef ekki verður gefin slík yfirlýsing á þessum fundi, áður en honum lýkur, þá mun ég beita mér fyrir því að Alþ. taki í þessu máli ráðin af hæstv. ríkisstj. og utanrrh. og geri hreint fyrir dyrum Íslendinga í því, vegna þess að það er gersamlega fráleitt að Norðmenn geti haft nokkurn rétt á einhliða efnahagslögsögu við Jan Mayen.

Samningar við Norðmenn eru auðvitað æskilegastir. Ég held að við ættum að ræða það rólega, hvort ekkí væri miklu betra að ná samningum á þeim grundvelli að efnahagslögsaga yrði við Jan Mayen, en þó því einungis að báðar þjóðirnar, sem hagsmuna eiga að gæta, samþykki það. Hafréttarsáttmálinn er opinn að þessu leyti enn þá og m.a.s. lítið verið rætt um þessi sérstöku málefni, vegna þess að hin stóru mál sátu auðvitað fyrir, eins og efnahagslögsaga strandþjóða, sem er auðvitað allt annað en einhverra smáeyja sem eru óbyggðar eða lítt byggðar. Það verður að hugsa um þjóðirnar og hagsmuni þeirra, ef strandríki eiga í hlut, en ekki kletta eða eyjar. Það er allt, allt annað sem þar kemur til greina. Ég held að það væri mjög æskilegt að ná samvinnu og samstarfi um að friða þetta svæði, allt Norður-Atlantshafið, og síðan mundu þessar þjóðir, sem ég áðan nefndi, hagnýta þessi auðæfi og vernda þau fyrst og fremst.

Ég álít það eiga fyrst og fremst við um landgrunnsmörk til suðurs. Það er ekki lítils um vert að geta verndað svæðið þar frá því að stórþjóðir hefji þar olíuboranir, gasboranir og annað slíkt, sem gæti spillt náttúru Norður-Atlantshafsins. Það er ekki endilega að við ætlum að fara að vinna þessi auðæfi, heldur a.m.k. að hafa stjórn á því að aðrir geri ekki jarðrask þar, sem kynni að verða óbætanlegur skaði. Þess vegna ætti að vera líka samstaða um að beita áhrifum þar suður frá.

En Jan Mayen-svæðið ættu Norðmenn og Íslendingar í sameiningu að friða og vernda og nýta hæfilega botninn, sjóinn og auðæfi hans. Það gerist auðvitað ekki nema samningar séu teknir upp og það sé gert af einhug og festu og ekki sé látið að því liggja að Norðmenn eigi réttindi sem þeir eiga engin. Og það ætla ég nú að rökstyðja nokkru frekar. Ég raunar gerði það, held ég, allítarlega í ræðu í gær í Ed., sem þeir, sem nenna að kynna sér, gætu gert, því að hún er í heild birt í Morgunblaðinu, en ég vil þó víkja að nokkrum atriðum.

Jan Mayen er á íslenska landgrunninu, það er óumdeilanlegt. Hún er ekki á hinu norska í neinum skilningi. Austur og norður af Jan Mayen er hyldýpi, 1500 metrum dýpra en sú slétta sem Jan Mayen er á. Þetta er númer eitt. Jan Mayen er óbyggð smáeyja. Það er aðeins veðurathugunarstöð þar og slíkt. Hún er nánast klettur í því tilliti, þó að hún sé nokkuð stór. Eignarhald Norðmanna á Jan Mayen hefur varað — hvað lengi halda menn, af eignarhald skyldi nefnast? Jú, það hefur varað nokkra áratugi, það er að vísu rétt, en Jan Mayen var gerð að norskri annexíu 8. maí 1929. Ég er ekki sögufróður maður, en mér er nær að halda að Íslendingar hafi staðið í þeirri meiningu fyrr á öldum, að Jan Mayen væri íslensk, en ekki norsk. Við skulum láta það út af fyrir sig liggja á milli hluta.

Hér er ég með gamlan Ægi, frá 1924, og langar að lesa örlítið upp úr honum, með leyfi hæstv. forseta. Það er smágrein sem heitir Jan Mayen:

„Norðmaður hefur selt eyjuna Jan Mayen; er kaupandi amerískur auðmaður, og hefur greitt fyrir hana 150 þús. norskar kr.

Í blaðinu Lofotstidende, sem gefið er út í Narvík, er skýrt frá því 18. sept. s.l., að norska ríkið hafi selt amerísku félagi eyna, fyrir 150 þús. kr.

Hið sanna er að seljandinn er norskur veiðimaður, sem fyrir tveimur árum settist að á eynni til að afla sér dýraskinna. Fyrir nokkru bauð hann norska ríkinu að selja því eyna fyrir mikið fé, en Norðmenn vildu ekki kaupa.

Þá mun hann hafa boðið hana fram á amerískum markaði, og einhver ríkismaður tekið boðinu og keypt fyrir áður nefnda upphæð.“

Þetta gerist sem sagt 1924 og þessi herramaður hefur þá sest að á Jan Mayen 1922 samkv. þessu.

En sögu eyjarinnar er sjálfsagt að athuga. Eins og ég sagði áðan, var lítið á hana sem íslenska eyju. Það má t.d. geta þess, að skip eitt íslenskt, sem Snorri hét, fór til Jan Mayen árið 1918, hinn 24. júlí var lagt út frá Siglufirði og lent í Jan Mayen 29. s. m., — og til hvers? Til þess að sækja rekavið, skipið kom hlaðið af rekavið til baka. Engum datt í hug annað en eyjan væri íslensk eign og skipið væri í fullkomlega lögmætum erindum þarna.

Við skulum ekki vera að halda því fram, taka upp deilur við Norðmenn um það, úr því sem komið er, að þeir eigi ekki skerið, en þeir verða auðvitað að gæta allra atriða í því efni. Frumatriði í drögum hafréttarsáttmálans er einmitt það, að allir samningar eigi að byggjast á sanngirnissjónarmiðum, þar sem hliðsjón sé höfð af öllum atriðum sem máli skipta, þ. á m. sögulegum atriðum, sem ég hef verið að nefna hér. Einhverjir menn þurfa nú að taka sér fyrir hendur að tala líka um þetta atriði, þótt það kannske vegi ekki mjög þungt er þetta sögulegt atriði, því að ég á ekki von á að hæstv. núv. ríkisstj. geri eitt eða neitt í því frekar en öðru sem þessi mál varðar.

Ef við nefnum fjórða atriðið, það jarðfræðilega, þá hefur Jan Mayen ætíð verið talin tilheyra íslensku „hásléttunni“. Í öllum jarðfræðibókum, sem um þetta fjalla, er talað um Icelandic plates eða Iceland plateo, þ.e.a.s. íslensku „hásléttuna“. Á máli jarðfræðinga í þessu tilfelli er átt við neðansjávarhásléttu. Þetta er á öllum jarðfræðikortum líka. Þetta heitir íslenska „hásléttan“. Þetta er íslenska landgrunnið. Á þetta hefur því miður ekki verið nægjanlega rækilega bent, vegna þess að við höfum vanrækt, bæði fyrri ríkisstj. og við allir og núv. stjórn, að kynna okkur málið nægilega og láta skoða það til hlítar.

Fimmta atriðið er auðvitað hagsmunirnir sem á að hafa að meginsjónarmiði samkv. drögunum að hafréttarsáttmála. Hverjir eru hagsmunir Íslendinga annars vegar og Norðmanna hins vegar á þessu svæði? Það er alveg ljóst, að okkar hagsmunir eru miklu meiri, í sambandi við loðnuna, síldina o.s.frv.

Sjötta: 200 sjómílna efnahagslögsaga umhverfis Jan Mayen mundi beinlínis skerða hafsbotnsréttindi Íslendinga, því að samkv. 55. gr. draganna að hafréttarsáttmálanum, ef hún yrði samþ. eins og hún er, tilheyrir botninn efnahagslögsögunni og allt sem í honum er að finna og á honum. Ef ekki er efnahagslögsaga á þessu svæði eiga Íslendingar rétt á mjög miklu svæði þar út af, þ.e.a.s. botninum og þeim lífverum sem á honum kunna að finnast. Þetta yrði skert. Ef Noregur fengi óskerta efnahagslögsögu, væri verið að taka af okkur réttindi sem við ella ættum. Af þeirri einni ástæðu hlyti hvert einasta stjórnvald að eiga að mótmæla öllum slíkum tilraunum og gera það strax.

Og sjöunda: Það er verið að segja að bera eigi saman réttarreglur varðandi eyjar og slíkt við réttarreglur um efnahagslögsögu út af strönd strandþjóða. Mér er ekki kunnugt um að neins staðar í veröldinni hafi smáeyja sem þessi fengið slík réttindi, þar sem hún hefur skorið efnahagslögsögu annars ríkis eða verið á landgrunni annars ríkis o.s.frv. Það, sem ræður því að 200 sjómílna efnahagslögsaga er orðin alþjóðalög, því að hún er það, ég held að við höfum sigrað þar og unnið fullan sigur, er auðvitað að hún er það „de facto“. Ríkin hafa tekið sér hana, hún er „de facto“ orðin alþjóðalög. Hún er það kannske alls ekki „de jure“ fyrr en hafréttarsáttmálinn verður samþykktur, ef það gæti orðið.

En eru einhver „de facto“ réttindi sem Norðmenn hafa öðlast kringum Jan Mayen? Ég veit ekki til þess, að eitt einasta ríki, sem eins er ástatt með, hafi náð undir sig slíkri eyju. Þeir hafa engin réttindi, hvorki „de facto“ né „de jure“.

Hitt er svo allt annað mál, að það á að leysa vandamál á hverju svæði heimshafanna fyrst og fremst með samkomulagi og sanngirni. Og það eru aðliggjandi ríki sem eiga að leysa þetta. Þess vegna held ég að væri alveg gullið tækifæri, bæði fyrir Norðmenn og okkur, að taka upp samninga og ná þessu svæði undir þessi ríki til verndar og varðveislu og hagnýtingar. Ef Norðmenn ætluðu að fara út í einhliða aðgerðir er mér nær að halda að þeir kæmust ekki upp með moðreyk. Þeir geta ekkert gert nema í samvinnu við okkur. Þess vegna eigum við að bera höfuðið hátt í viðræðum við þá. Það eru alveg eins þeir sem hafa til okkar að sækja og við til þeirra. Það er tími til þess kominn.

Ég er orðin langþreyttur á því að bíða fyrst eftir samþykktum þessara tillagna og sjá síðan ríkisstj. eitthvað aðhafast. Ég vil helst ekki þurfa að rekja alla þá sögu. Ég vona að við getum allir sæst og unnið að íslenskum hagsmunum og gert það af myndarskap. En það verður ekki nema hér verði gefnar skýlausar yfirlýsingar um að þessi hæstv. ríkisstj. ætli sér að fara að haga sér eitthvað öðruvísi en að bíða í nærri því hálft ár áður en hún getur svo mikið sem einu sinni rætt málið á fundum sínum. Það er óverjandi, þó að mikið sé að gera að rífast innbyrðis. Ég fagna mjög ummælum hv. þm. Einars Ágústssonar, fyrrv. utanrrh., þar sem hann sagði að þess vegna auðvitað samþykkti utanrmn. tillögurnar um hafréttarmálin fyrir jólin og fjallaði um þau með þeim hætti sem gert var og vísaði þeim að nokkru til ríkisstj., að við ætluðumst til að þeim yrði fylgt fram. Það var öllum mönnum ljóst. Ég vona að það þurfi ekki til þess að koma, að Alþ. þurfi að gera nýjar ályktanir. Ég vona að hæstv. utanrrh. gefi strax á þessum fundi yfirlýsingar sem skiljast og hann hafi umboð til að gefa þær í nafni ríkisstj. allrar. Ef ekki, þá yrði óskað eftir því að hæstv. forsrh. gerði það. Ég segi þá, og ég meina það, og ég segi það innilega, að enginn maður yrði fegnari en ég, ef ekki þyrfti að rífast um þetta mál. Ef hæstv. núv. ríkisstj. gæti unnið fullan sigur fyrir Íslands hönd yrði ég fyrsti maður til að fagna því. Það er misskilningur ef menn halda að þetta sé illgirni í garð hæstv. utanrrh. Hann veit vel að það hlýtur að vera misskilningur. En það er ekki hægt að sitja þegjandi undir þeim vinnubrögðum sem hér hafa verið viðhöfð.

Hér hefur ýmislegt borið á góma í umr., m.a. hjá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni, um afstöðu fyrrv. ríkisstj. og samninga við aðra o.s.frv., o.s.frv. Ég ætla ekki að fara að rifja upp þessi gömlu mál núna að tilefnislausu. Ég er með í höndunum allar upplýsingar, sem sýna afstöðu t.d. þriggja ráðh. í núv, hæstv. ríkisstj. til baráttunnar um 200 mílurnar, og ýmis plögg önnur. Ef boðið er upp á dans, þá skal ég stiga spor. Þessi plögg ætla ég að hafa hér við höndina ef menn óska að dansa. En við skulum nú heldur snúa okkur að hinu, að reyna að sameinast um það sem nú er mál dagsins, að framfylgja réttindum okkar í hafréttarmálum og þá auðvitað í dag Jan Mayen og á morgun að taka upp samninga við Færeyinga, og þá mundi vera kominn fimmtudagur, og ganga þá í það að ráða Guðmund Pálmason til þess að fara t.d. utan og safna saman öllum jarðfræðikortum og fá sér til aðstoðar t.d. 1–2 sérfræðinga, þó svo þetta kostaði kannske eins og 2 til 3, 4 eða 5 millj., þannig að íslenska sendinefndin færi ekki algerlega óvopnuð á fund Hafréttarráðstefnunnar, — eða á kannske ekki að senda einhverja nefnd? Hún þarf ekki að vera eins stór og síðast og hefur verið að undanförnu. Ég held að hún væri alveg jafngóð þó að hún væri eitthvað fámennari. En kannske er hugmyndin að vera ekkert að eiga við þetta.