06.02.1979
Sameinað þing: 48. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2367 í B-deild Alþingistíðinda. (1891)

165. mál, fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Þessar umr. um fiskveiðisamninga við Færeyinga eru nú þegar orðnar alllangar og enn eru nokkrir hv. alþm. á mælendaskrá. Ég hefði að vísu haft tilhneigingu til þess að víkja að ýmsum atriðum, og býsna mörgum, sem fram hafa komið hér í umr., en mun nú reyna að teygja ekki lopann allt of mikið. Ég tel þó að ég verði að víkja að nokkrum atriðum, sem hér hafa komið fram, og gera einnig lítils háttar grein fyrir afstöðu minni til þessa máls, enda þótt ég muni væntanlega eiga þess kost í þeirri n., sem fær málið til meðferðar, að koma henni á framfæri þar. Mér þykir bera helst til mikið á því, einkum af hálfu þeirra hv. þm. sem harðast hafa andmælt þessari samningagerð, að þeir eru að rugla saman tveimur málum sem a.m.k. eru, þó að þau séu e.t.v. skyld, tvö, en ekki eitt. Það bar, þótti mér, æðimikið á því í máli þeirra flokksbræðra minna, hv. 1. þm. Austurl. og í dag í máli hv. 3. þm. Suðurl., að þeir eru að rugla saman tveimur málum. Af langri viðkynningu veit ég að þetta eru báðir bráðskýrir menn, og ég veit ekki hvernig á því stendur að þeir eru að rugla þarna saman málum. Ég held að ástæðan hljóti að vera sú, að þeir hafa ekki að þeirra eigin dómi alveg nægilega sterk rök fyrir ýmsum þeim fullyrðingum sem þeir koma fram með um þennan samning. En það, sem þeir eru að rugla saman, er annars vegar sá samningur, sem nú er hér til umr. um gagnkvæmar veiðiheimildir Færeyinga og Íslendinga, og hins vegar annar samningur við Færeyinga sem gerður var fyrir nokkrum árum og er, eins og tveir aðrir hliðstæðir samningarm, með 6 mánaða uppsagnarfresti. Það er vissulega ástæða til að ræða það, þegar lítið er á stöðu fiskveiða okkar, hvort nú sé svo komið að ástæða sé til að segja upp öllum þessum þremur samningum, En við verðum að muna í sambandi við þennan samning, sem hér er til umr., að enginn þm. hefur enn lagt fram till. um að segja þessum þremur samningum upp, sem þó verður að gera með 6 mánaða uppsagnarfresti. Það hafa verið um þetta umr. og menn hafa sagt ýmsir: Það er orðið tímabært og meira en tímabært að segja þessum samningum upp. - En ég vek á því athygli, að enn er engin till. um það komin fram hér á hv. Alþ. Þess vegna er alrangt að vera að tala um þá samninga í tengslum við það mál sem hér er til umr. Ég tel að það mál þurfi að taka upp og ræða fyrst e.t.v. á öðrum vettvangi en í hv. Sþ., hvort tímabært er að segja þessum þremur samningum öllum upp og e.t.v. að endurnýja einhvern þeirra að einhverju leyti eða engan. En það er allt annað mál en það sem hér er til umr í dag.

Það hefur verið rakið af svo mörgum, hvernig þetta mál bar að í utanrmn., að ég sé ekki ástæðu til að fara að endurtaka það að öðru leyti en því, að ég vil leggja á það áherslu, þegar menn hafa verið að telja að utanrmn. menn úr ýmsum flokkum hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni að ræða málin innan flokkanna, að það var einfaldlega þannig í mínum huga í fyrstu, um miðjan desember þegar mest var að gera, og síðan í byrjun janúar, eftir að þm. voru komnir í jólaleyfi og ekki komnir til starfa að nýju, aðeins spurningin um þetta: Átti að neita að tala við Færeyinga? Þeir höfðu tilkynnt komu sína. Átti að taka á móti þeim og neita að ræða við þá um nokkra samninga eða átti að ganga til samninga með einhver meginsjónarmið í huga? Það var í rauninni ekki hægt að leggja neitt annað en þetta fyrir þingflokkana.

Mér var að verulegu leyti kunnugt um það, að mál stóðu þannig í mínum flokki að um það voru skiptar skoðanir, eins og ég hygg að hafi verið og sé í fleiri flokkum, hvort ætti að endurnýja þessa gagnkvæmu veiðiheimildarsamninga við Færeyinga eða ekki. Ég vissi ekki nákvæmlega hvernig hlutföllin voru, en ég vissi að þarna voru skiptar skoðanir. Ég ræddi þetta mál við nokkra flokksbræður mína, áður en síðari fundurinn í utanrmn. um þetta mál var haldinn í byrjun janúar, og skýrði þá frá því ásamt hinum fulltrúa míns flokks í n. að um þetta væru skiptar skoðanir í okkar flokki, en ekki hefði unnist tími til að leggja málið formlega fyrir, enda var það svo, að áður en gengið var til þessara samninga gat ekki verið um neitt annað að ræða fyrir flokkana en segja til um það, hvort þeir vildu að rætt væri við Færeyinga eða vildu ekki að það yrði gert. Það kom svo í ljós, að enginn flokkur hafði á þessum tíma haft tök á því eða hafði tekið formlega afstöðu til þess, hvernig ætti að fara með þetta mál.

Það er svo annað mál, sem ég ætla ekki að fara langt út í hér, að ég tel að það hafi ekki verið alls kostar heppilega á þessum málum haldið og nokkuð öðruvísi en ég átti von á og áður hefur verið gert í sambandi við mál af þessu tagi, sem vitanlega eru viðkvæm og mikils virði að sem mest samstaða geti orðið um, ef um hana getur orðið að ræða. Þá á ég við það, að svo virðist sem málið hafi harla lítið verið rætt í ríkisstj. og eins og fram hefur komið höfðu tveir stærstu flokkar landsins enga fulltrúa í þessari samninganefnd. Þetta hefur þegar verið gagnrýnt og með nokkrum rökum. Ég tel að í sambandi við gagnkvæma samninga eða hugsanlega við aðrar þjóðir um eins viðkvæmt mál og fiskveiðilögsögumál eru eigi ekki að standa á þennan hátt að samningagerð, heldur svipað því sem löngum hafði tíðkast áður, meðan landhelgismálið var í brennidepli. Það tókst ekki alltaf að samræma sjónarmiðin, það urðu átök á vissum stundum, en það var þó alltaf reynt að ná sem víðtækustu samkomulagi og mjög oft tókst það. Ég held að þegar lítið er til framtíðarinnar, eða réttara sagt, þegar um slíka samningagerð er að ræða við aðrar þjóðir, þá eigi að hafa hina fyrri aðferðina, að reyna að ná sem víðtækastri samstöðu eftir því sem fært er.

Ég skal í stuttu máli gera grein fyrir afstöðu minni í þessu efni. Ég lét hana koma fram á fundi utanrmn. í byrjun janúar, og þá sagði ég eitthvað á þá leið, að það væri mín persónulega skoðun, — ég talaði fyrir mig persónulega og vissi að um það væru skiptar skoðanir í mínum flokki, þar væru þm., sem væru svipaðs sinnis og ég, og aðrir, sem væru algerlega andvígir, — en það væri mín skoðun, að með þremur skilyrðum væri rétt að ganga til þessara samninga:

1) Þar sem það lægi nú fyrir að dómi fiskifræðinga, að við kynnum að þurfa að fara að takmarka eigin loðnuveiðar og hefðum þegar raunar byrjað á því, ætti þessi loðnukvóti að minnka nokkuð.

2) Nota ætti þetta tækifæri, eins og gert var í fyrra, til þess að skera niður eða fá Færeyingana til þess að fallast á að minnka til nokkurra muna þann afla sem þeim væri leyfilegt að veiða hér af þorski samkv. hinum öðrum samningi.

3) Gengið yrði rækilega frá þeim hnútum að sem fyllst eftirlit yrði með veiðum Færeyinga hér, þar sem í ljós hefði komið að það sætti verulegri gagnrýni og e.t.v. rökstuddri gagnrýni, að eftirlit væri ekki nægilega fullkomið af okkar hálfu og þess vegna hlyti það að vera mjög mikils virði, ef sú gagnrýni væri á rökum reist, að fá settar sem rammastar skorður við. Með þeim hætti kynni einnig að vera hægt, án þess að bíða í 6 mánuði samkv. uppsagnarfresti, að takmarka til muna þessar veiðar Færeyinga, sem ég hygg að flestir telji nú að sé í sjálfu sér stærra mál en þessi gagnkvæmi samningur um loðnu og kolmunna.

Ég skal ekki fara langt út í þá sálma að bera saman, þótt það væri dálítið freistandi, Ísland annars vegar í sambandi við baráttu þess fyrir fiskveiðiréttindum og fiskveiðilögsögu og svo Færeyjar og baráttu þeirra. En ég kemst ekki hjá því að víkja þó að því atriði í örstuttu máli, þar sem það hefur verið notað bæði hér í umr. og í blaðaskrifum, að það væri gersamlega ástæðulaust að vera að semja eða liðka á einn eða neinn hátt til gagnvart Færeyingum, vegna þess að þeir leyfðu þjóðum Efnahagsbandalags að veiða ákveðið magn á Færeyjamiðum. Það þarf ekki að minna hv. alþm. á baráttu þessara tveggja þjóða: Íslendinga sem nú eru um 200 þús., voru á sínum tíma, að því er fróðustu menn telja, komnir niður undir 30 þús. að tölu, Færeyinga sem nú eru 50 þús., en voru að fróðra manna sögn komnir niður í 4–5 þús. Barátta þessara þjóða fyrir lífi sínu hefur verið ákaflega hörð og hún hefur verið barátta um að mega hagnýta aðalauðlind landanna, fiskimiðin við landið. Við þekkjum baráttu okkar. Barátta Færeyinga hefur verið ákaflega svipuð að öðru leyti en því, að hún hefur verið enn þá harðari og er í dag enn þá harðari. Það er ekki aðeins að þeir eru þetta fámennari en við, heldur er þannig háttað, að þeir eru í ákveðnum tengslum við Danmörku. Danmörk er í Efnahagsbandalagi Evrópu. Færeyingar urðu að horfa á það öldum saman að Bretar, Þjóðverjar og fleiri útlendingar sóttu á þeirra mið og nánast skildu þannig við þau að Færeyingar urðu á síðustu áratugum 19. aldar og fram eftir 20. öld að flýja bókstaflega af sínum miðum og á fjarlæg mið. Þannig var orðið ástatt hjá Færeyingum, að um það bil 4/5 af því, sem þeir gátu aflað, var tekið á erlendum miðum. Það var að sjálfsögðu af mjög brýnni og sárri nauðsyn að þeir leituðu á þessi fjarlægu mið, þ.e.a.s. þeir leituðu á miðin við Ísland, við Grænland og svo á hinn bóginn í Norðursjó og Barentshaf og víðar.

Nú er það þannig með Færeyinga, að þeir eru komnir ótrúlega langt í því að snúa þessu dæmi við, og með hverju ári, allmörg síðustu árin, hafa þeir getað minnkað veiðar útlendinga á heimamiðum sínum, en aukið eigin veiðar.

Ég verð að segja það, að þegar við lítum á baráttu þessara tveggja þjóða og hugsum til þess, sem oft hefur verið bent á réttilega af okkar hálfu og var ein aðalröksemd af okkar hálfu í sambandi við útfærslu fiskveiðilandhelginnar og baráttuna við Breta, að við værum svo háðir fiskveiðum, svo stórlega háðir fiskveiðum að við ættum, ef ekki lagalegan, þá a.m.k. siðferðilegan rétt til þeirra fiskimiða sem liggja hér umhverfis landið, þá á þessi röksemd í enn þá ríkara mæli og ríkara mæli en hjá nokkurri annarri þjóð við Færeyinga. Of við eigum að mínu viti að hlusta á þessi sömu rök Færeyinga, þegar þeir halda þeim fram, eins og rökin sem við notuðum á sínum tíma með hvað bestum árangri gagnvart t.a.m. Bretum.

Ég verð að segja það, og vil þá gerast nokkuð stórorður og tel að það sé að gefnu tilefni, að framtíðarhagsmunum okkar Íslendinga er vissulega enginn greiði gerður með því, að við fáum með röngu — ég tala nú ekki um ef það yrði með réttu — á okkur þann stimpil að við værum orðnir gráðugustu hákarlarnir í Norðurhöfum sem í engu sinntum um þá nágranna okkar sem enn fremur en við verða að heyja lífsbaráttu sína hér á norðurslóðum og berjast fyrir því að ná fullum tökum á efnahagslögsögu sinni.

Eins og ég sagði áðan, eru ekki ýkjamörg ár síðan Færeyingar urðu að sækja mjög mikinn meiri hluta, meginhluta afla síns á fjarlæg mið. Ástæðan til þess, að þeir hafa ekki enn þá losnað við Efnahagsbandalagsþjóðirnar af heimaslóðum sínum, er beinlínis sú, að þeir eru enn verulega háðir því að geta fiskað á þeim miðum sem nú eru, með svo miklum siðferðilegum rétti sem það kann nú að vera, kölluð fiskimið eða höf Efnahagsbandalags Evrópu, þar sem eru m.a. fiskimiðin við Grænland.

Nú er það svo, að Færeyingar og Íslendingar hafa margtekið fram að þær eru ekki einungis frændþjóðir og vinaþjóðir og nágrannaþjóðir — og gersamlega ástæðulaust að segja slíkt í hæðnistón, en þessar tvær þjóðir eru og verða nágrannar hér í Norður-Atlantshafi, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Mér líkar það ágætlega og kysi mér ekki aðra nágranna fremur en Færeyinga á aðra hlið og Grænlendinga á hina. Það má í rauninni segja, að þegar við erum að fjalla um þessi mál megi líkja Íslandi og Færeyjum við tvær bújarðir. Þeir, sem þar búa, hafa nú orðið náð eignarhaldi og eru að ná eignarhaldi að fullu á stórri landareign sem þær höfðu ekki full yfirráð yfir áður, þau höfðu aðrir, og lönd jarðanna liggja saman og munu gera það um ókomna framtíð. Ég held að við verðum þess vegna að læra það hér eftir í enn þá ríkara mæli en hingað til, að það er nokkurs virði að eiga góða granna, og við hljótum sjálfra okkar vegna að taka tillit hvorir til annarra og vinna saman. Það stýrði aldrei góðri lukku áður fyrr, og kann að tíðkast enn í undantekningartilfellum, þegar svo hart varð á milli granna að þeir, sem áttu jafnvel sameiginlega bithaga eða afréttir, siguðu hundum sínum hver á annars búfé. Slíkt eigum við ekki að gera og munum ekki gera, og það mun enginn mæla með því hér á landi að slíkt verði gert gagnvart Færeyingum, það er ég viss um.

Það stendur þannig á, að einmitt núna, þegar umr. fara fram um þessa samningagerð við Færeyinga, eru Grænlendingar að stiga ákaflega merkilegt skref. Þeir eru fyrir örskömmu búnir að taka þá örlagaríku ákvörðun að koma á hjá sér heimastjórn með líku sniði að mér skilst og Færeyingar hafi komið á hjá sér. Ég sé það í huga mér sem mjög mikilvægt framtíðarmál, að þessar þrjár þjóðir í Norður-Atlantshafi: Grænlendingar, 50 þús. manna þjóð, tæplega þó, Íslendingar, 200 þús. manna þjóð, og Færeyingar, 45 þús. manna þjóð, — þessar þrjár þjóðir, sem koma til með að ráða yfir þessu víðlenda hafsvæði, verða í fyrsta lagi að læra — og eftir því betur sem lengra líður — að vinna saman að margvíslegum hagsmunamálum sínum og þær verða að læra að hagnýta þau auðæfi, sem auðlindalögsaga þeirra hvers um sig hefur að geyma, á þann hátt að ekki verði með mjög veigamiklum rökum að því fundið. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að lýsa yfir úr ræðustól, að ég vænti góðs af því, að teknir verði upp samningar ekki aðeins við Færeyinga um eitt og annað, heldur einnig við Grænlendinga um mörg atriði varðandi fiskveiðar og hagnýtingu þeirra auðæfa, sem hér getur verið um að ræða, á komandi áratugum og öldum. Ég veit að eins og sakir standa eru Grænlendingar ásamt Dönum í Efnahagsbandalagi Evrópu, og það gerir það að verkum að fiskimið þeirra eru jafnframt talin fiskimið Efnahagsbandalagsþjóða. En e.t.v. er að nálgast sá tími að Grænlendingar fari að dæmi Færeyinga, sem eru utan Efnahagsbandalagsins. Ég vona að svo verði og hygg að það sé vilji fyrir því í Grænlandi einnig. Það virtist koma fram við atkvgr. um þessi mál á sínum tíma, enda þótt Grænlendingar, þar sem Grænland var þá aðeins talið amt í Danmörku, hefði ekki tök á að ráða þessum málum sjálfir eða meiri hluti manna þar. Enda þótt ég hefði tilhneigingu til þess að hafa um

þetta atriði fleiri orð skal ég ekki gera það. En með tilliti jafnt til nútíðar- sem framtíðarhagsmuna þessara tveggja þjóða, sem hér eru að semja, Íslendinga og Færeyinga, taldi ég rétt að gengið yrði til þeirra samninga um gagnkvæmar veiðiheimildir á loðnu og kolmunna sem Færeyingar óskuðu mjög eindregið eftir. Og að uppfylltum þeim þremur atriðum sem ég lagði megináherslu á, bæði á fundi í utanrmn. og í orðum mínum áðan: takmörkun loðnuaflans, takmörkun þorskaflans, þess sem heimilaður er samkv. öðrum samningi, og að settar verði strangari reglur en áður hafa gilt um eftirlit með veiðum, þá lýsti ég yfir að slíkum samningi væri ég tilbúinn að greiða atkv. mitt, og svo mun verða. Þetta náðist allt fram. Ég tel að þegar á þessa samningagerð er lítið megi báðir sæmilega við una og þá kannske ekki síður Íslendingar. Ég vissi að færeysku samningamennirnir töldu að hér væri um býsna mikinn niðurskurð að ræða, en undu þó allsæmilega við sinn hlut. Ég hika því ekki við að greiða á sínum tíma atkv. með því að þessi samningur, sem hér liggur fyrir, verði staðfestur.

Að lokum örfá orð í sambandi við þau orðaskipti sem hér hafa orðið um Norðmenn og Jan Mayen. Því miður varð ég að hverfa af fundi um tíma í dag og heyrði þess vegna ekki ræðu hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar og ekki svarræðu hæstv. utanrrh. sem ég hefði þó gjarnan viljað hlusta á — báðar þær ræður. En ég vil samt fara um þetta mál örfáum orðum. Ég ætla ekki að bæta miklu við það sem þegar hefur verið sagt um að hafi verið hægt að misskilja. Hafi einhverjir hér á landi, og ég tala nú ekki um úti í Noregi, misskilið viðtalið við hæstv. utanrrh. á þá lund að hann hafi verið að gefa undir fótinn með einhvern rétt Norðmanna, annaðhvort í sambandi við fiskveiðilögsögu eða efnahagslögsögu í sambandi við hafsbotninn varðandi Jan Mayen, þá hlýtur það að verða leiðrétt og er nauðsynlegt að það verði leiðrétt.

Það má segja eins og stendur í Grettissögu, að allt orkar tvímælis þá er gert er. Svo var á sínum tíma um þá ákvörðun sem tekin var þegar reglugerð var gefin út sumarið 1975, þar sem tekið var fram að enda þótt Íslendingar telji sig eiga rétt á 200 mílna efnahagslögsögu í átt að Jan Mayen, þá muni þeir ekki framfylgja útfærslunni út fyrir miðlínu gagnvart þeirri eyju að svo stöddu. Þetta mun hafa verið gert til þess að forðast þá hugsanlegar deilur við Norðmenn og í von um að línurnar skýrðust fljótlega á Hafréttarráðstefnu og þar fengist greinilega úr því skorið, hver væri réttur slíkrar eyjar eins og Jan Mayen er. Ég hef verið og er þeirrar skoðunar, að það hafi verið mjög vafasamt að gefa þessa yfirlýsingu og kunni hugsanlega að verða til þess að torvelda að við náum þarna þeim rétti sem við teljum að sé tvímælalaust fyrir hendi og hljótum að telja. En þó skal ég ekki hafa uppi neina svartsýni. Ég undirstrika það, sem margir hafa sagt, að við afsöluðum okkur ekki neinum rétti í þessu sambandi, en ákváðum að taka okkur ekki að fullu í bili þann rétt sem við töldum og teljum okkur hafa.

Nú er það svo, að Hafréttarráðstefna stendur enn yfir og enginn veit endanlega hvernig henni lýkur. Það er tvíþætt mál, sem hér er um að ræða í sambandi við Jan Mayen. Annars vegar er sjórinn og sá eðlilegi skilningur okkar, að við eigum þar fullan rétt í sambandi við efnahagslögsöguna út að 200 mílum. Hins vegar er svo aftur á móti hafsbotninn, þar sem getur verið um að ræða framtíðarhagsmuni sem við eigum í sambandi við hafsbotninn eða réttindi utan 200 mílna. Nú veit enginn hver endanleg niðurstaða verður á Hafréttarráðstefnu eða hvenær henni lýkur eða hvort svo fer að hún leysist upp og engin endanleg niðurstaða verði. Mér þykir mjög líklegt, hvort heldur sem gerist, að þær vonir rætist að þessu mikla verki geti lokið með jákvæðum árangri og allsherjar hafréttarsáttmála fljótlega, ellegar hitt, að það takist ekki að fullu og endanlega, hljóti að verða mjög mikið byggt á því verki sem þegar liggur fyrir eða kann að liggja fyrir þegar upp verður staðið, með hverjum hætti sem það verður. Og ég held að það sé enginn eða lítill efi á því, að hver sem niðurstaðan verður á Hafréttarráðstefnu, hljóti að verða um það að ræða að nauðsynlegt verði, ekki síst í sambandi við hafsbotn og raunar í sambandi við miðlínu eða 200 mílur líka, að byggja á þeirri grein draga að hafréttarsáttmála sem þegar er komin, að nágrannaríki verði að leitast við á grundvelli sanngirni og eðlilegrar niðurstöðu, eins og það hefur verið þýtt á íslensku, að ná samkomulagi um ákveðin atriði, sem kunna að vera jaðaratriði, eða ákveðnar greinar hafréttarsáttmála, sem taka ekki alveg af öll tvímæli. Þess vegna er enginn efi að við þurfum að ræða við Norðmenn eða láta þá vita vilja okkar í þessum efnum, og það vona ég að hafi raunar þegar verið gert nægilega. Ég hef hins vegar ekki verið alveg viss um það, hvort við ættum á þessu stigi að taka upp formlega samninga við Norðmenn um þessi atriði sem snerta rétt Jan Mayen gagnvart okkur, þar sem Norðmenn hafa ekki helgað sér eða gert tilkall til þess að Jan Mayen fengi auðlindalögsögu. Ég er að velta því fyrir mér: Er ekki viss viðurkenning í því fólgin að fara fram á formlegar viðræður við ríki um hugsanlegan rétt, sem við teljum að það eigi ekki og það hefur ekki gert formlega kröfu til? Hitt er annað mál, að ég tel að óformlegar umr. um þessi mál séu sjálfsagðar og nauðsynlegar.

Ég vil að síðustu leggja á það áherslu, að mér finnst að við alþm. verðum nú að vinna að þessu máli á svipaðan hátt og við leituðumst löngum við að gera þegar við vorum að taka okkar mikilvægustu ákvarðanir í sambandi við útfærslu fiskveiðilögsögu. Við verðum að ræða þessi mál meira sjálfir en við höfum gert og komast að niðurstöðu, ekki aðeins um stefnu okkar eða það sem við teljum vera rétt okkar, heldur einnig um málsmeðferðina.

Ég vil að síðustu leggja á það ríka áherslu, að þessi mál öll, sem snerta fiskveiðilögsöguna og auðlindalögsöguna í víðustu merkingu, eru svo mikilvæg og þau eru í rauninni svo viðkvæm að það er að mínum dómi skylda okkar að leggja okkur fram um að ná þar sem víðtækastri samstöðu, ekki aðeins um stefnuna, heldur um alla málsmeðferðina, eftir því sem það reynist unnt. Og það skulu vera mín síðustu orð nú við þessa umr., að ég hvet eindregið til þess, að þessi mál verði nú þegar tekin upp til frekari umr. og mætti þá hugsa sér ýmsar leiðir í þeim efnum. E.t.v. væri það ein, að utanrmn. og annaðhvort fulltrúar úr sjútvn. eða sjútvn. beggja deilda ræddu þessi mál sín í milli. Enn væri sú leið, að utanrmn. og væntanlegir fulltrúar okkar á Hafréttarráðstefnu ræddu þessi mál einhvern næstu daga. Væri í rauninni e.t.v. ástæða til að gera hvort tveggja. En sem sagt, þessi mál eru öll svo mikilvæg og að ýmsu leyti svo viðkvæm að það væri illt ef við þyrftum að vera að óþörfu ósammála um málsmeðferð, þar sem ég hygg að við séum sammála um meginstefnu.