06.02.1979
Sameinað þing: 48. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2374 í B-deild Alþingistíðinda. (1892)

165. mál, fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Það er nú orðið nokkuð langt um liðið síðan ég bað um orðið á fyrri fundi um þetta mál, samninga um gagnkvæmar fiskveiðiheimildir við Færeyinga, og margt er búið að segja síðan, kannske sumt sem ég hefði viljað sagt hafa. En þó finnst mér að ég hafi hér nokkru við að bæta og ætla mér að gera það.

Ég vil í fyrsta lagi minnast á þau vinnubrögð sem viðhöfð voru í sambandi við þessa samningsgerð, og ég vil í því sambandi taka undir það sem áður hefur verið sagt hér, að mér kemur það nokkuð spánskt fyrir sjónir að í máli eins og þessu skuli vera gengið frá samningum og þeir undirritaðir án þess að um efnisatriði málsins hafi verið rætt í ríkisstj. landsins og reyndar ekki heldur í þingflokkunum, eins og fram hefur komið. Ég held að eðlilegra væri að haga vinnubrögðum á annan veg, þegar um milliríkjasamninga af þessu tagi er að ræða, þannig að a.m.k. þeim, sem í ríkisstj. sitja, gefist kostur á að fjalla nokkuð um málin áður en frá þeim er gengið og helst að tóm gæfist til hjá þingflokkunum að ræða um efnisatriði. Ég get því hvað þetta varðar tekið undir það sem fram kemur í bókun ráðh. Alþb. varðandi þetta atriði.

Ég vil þá snúa mér að öðru og því sem veigameira er í sambandi við það dagskrármál sem við ræðum á þessum kvöldfundi. Það er ljóst, að enda þótt hér hafi verið allhart deilt í umr. í dag og umr. í síðustu viku um þessa samninga við Færeyinga um gagnkvæmar fiskveiðiheimildir, þá virðast þó allir vera sammála um tvennt; annars vegar sammála um að lýsa yfir þungum áhyggjum vegna ástands okkar eigin fiskstofna og hins vegar sammála um að lýsa yfir sérstakri vináttu við grannþjóð okkar Færeyinga. En þegar kemur síðan að útleggingunum frekar greinir menn nokkuð á.

Ég vil þegar taka fram að ég mun við atkvgr. hér á Alþ. styðja það að samningarnir, sem undirritaðir voru 10. jan. við Færeyinga um gagnkvæmar fiskveiðiheimildir, verði staðfestir. Þetta mun ég styðja. Það kann að virðast vera hreinlegust afstaða að segja: Alls engar veiðiheimildir til handa útlendingum koma til greina við núverandi aðstæður. — Þetta kann að virðast hreinlegast. En ég geri hér afdráttarlausan greinarmun á Færeyingum annars vegar og öllum öðrum erlendum þjóðum hins vegar. Ég tel að við eigum sem fyrst að losa okkur við samningana við bæði Norðmenn og Belga. En ég fellst ekki á það, að sköpum geti skipt fyrir okkur, hvort Færeyingar fá að veiða hér 1–2% þorskaflans og 1–2% loðnuaflans, ef við veiðum sjálfir svo sem 98% þess afla af þorski og 98% þess afla af loðnu sem veitt verður á Íslandsmiðum. Sérstaða Færeyinga er að mínu viti alger, þó ekki væri nema af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi eru þeir algerlega háðir fiskveiðum, meira að segja enn háðari fiskveiðum en við Íslendingar, en hjá öllum öðrum þjóðum, sem við höfum átt í samningum við um fiskveiðar á undanförnum árum, eru tekjur af fiskveiðum aðeins örlítið brotabrot af þjóðartekjunum. Þetta eitt út af fyrir sig vegur mjög þungt.

Í öðru lagi eru Færeyingar eins og við gömul nýlenduþjóð sem enn hefur ekki tekist að brjóta sér braut til fulls stjórnarfarslegs sjálfstæðis, og íbúatala í Færeyjum er reyndar innan við fjórðung af íbúafjölda okkar nú, sem flestum þykir þó vera ærið smár. Erlendur Pétursson, forustumaður Þjóðveldisflokksins í Færeyjum, hefur bent á það, að verði Færeyingar algerlega útilokaðir frá veiðum við Ísland verði þeir fyrir bragðið enn háðari Efnahagsbandalagi Evrópu, sem allir sjálfstæðismenn — ég tek fram að hér tala ég um sjálfstæðismenn með litlum staf — allir sjálfstæðismenn í Færeyjum vilja umfram allt forðast.

Þau rök hafa helst verið færð fram fyrir því að útiloka Færeyinga algerlega af Íslandsmiðum, að þeir leyfi Efnahagsbandalagi Evrópu, fiskiskipum frá aðildarríkjum þess, að veiða mikinn fisk á sínum heimamiðum og þess vegna séum við í rauninni að afhenda Efnahagsbandalaginu þann fisk sem Færeyingar veiða hér, þannig séum við að hleypa Bretum og Þjóðverjum hér inn um bakdyrnar. En lítum á þetta nánar. Dettur mönnum í hug að Færeyingar geri það að gamni sínu að veita skipum Efnahagsbandalagsins heimildir til veiða við Færeyjar í svo miklum mæli sem þar er um að ræða? Ég held varla. Ég held að menn geti tæplega haldið því fram að svo sé. Reyndar hafa geisað um það miklar deilur í Færeyjum á síðustu árum, hversu mikið kapp Færeyingar ættu að leggja á að færa sínar veiðar af fjarlægum miðum og á heimamið. Það er öllum kunnugt, sem eitthvað þekkja til þeirra mála, og ég hygg öllum hér á hinu háa Alþingi, að á undanförnum árum hafa Færeyingar tekið mikinn meiri hluta síns heildarafla á fjarlægum miðum og aðstaða þeirra í þeim efnum til algerra og snöggra breytinga því að sjálfsögðu með öðrum hætti en við þekkjum varðandi okkar eigin mál, þar sem við höfum borið gæfu til þess að veiða okkar fisk að langsamlega mestum hluta til eingöngu innan þess svæðis sem nú tilheyrir okkar landhelgi.

Í Færeyjum hafa menn haft nokkurt misjafnt mat á því, hvað fært væri og hvað hyggilegt væri varðandi það að færa veiðarnar af fjarlægum miðum og á heimamið. Þar hefur að sjálfsögðu m.a. verið um að ræða átök milli þeirra stjórnmálaafla annars vegar, sem viljað hafa efla sjálfstæði Færeyinga sem allra mest og gera þá sem allra óháðasta bæði þeirri dönsku stjórn og Efnahagsbandalaginu, og hins vegar þá hinna, sem þar hafa viljað fara vægar í sakirnar. Og að sjálfsögðu á Efnahagsbandalagið og danska ríkisstj. sína erindreka líka í Færeyjum. En það er alkunna að þeir Færeyingar, sem best studdu okkur Íslendinga í okkar landhelgisbaráttu, þeir sömu Færeyingar sem ákveðnast berjast fyrir fullu efnahagslegu og stjórnarfarslegu sjálfstæði Færeyja, hafa lagt allt kapp á það að færa sem stærstan hlut af veiðum Færeyinganna á þeirra eigin heimamið og gert það sem þeir hafa megnað við þar ríkjandi aðstæður til að draga úr veiðum Efnahagsbandalagsríkjanna á Færeyjamiðum, en flytja í staðinn sín eigin skip af fjarlægum miðum og á heimamið. Árangurinn í þessum efnum er vissulega nú þegar allnokkur, en því miður ekki meiri en sá sem raun ber vitni, að enn veiða erlendir flotar mikinn afla á Færeyjamiðum, öllu meiri afla heldur en Færeyingar taka þar sjálfir.

En það, sem ég vildi segja, er að þegar við höfum þessar aðstæður í huga og þær pólitísku sviptingar sem fram hafa farið í Færeyjum í þessum efnum, þá kemst ég ekki hjá að líta svo á að það væri heldur köld kveðja — ég vil segja heldur köld kveðja til þeirra stjórnmálaafla í Færeyjum sem best hafa staðið víð okkar hlið og harðast hafa beitt sér í sjálfstæðisbaráttu þeirra, m.a. í baráttunni fyrir fullum yfirráðum Færeyinga yfir eigin fiskimiðum, ef við sendum þá orðsendingu héðan frá okkur sem segir: Hér á Íslandsmiðum fáið þið ekki lengur, Færeyingar, nokkurn einasta ugga, — og ef við segjum við þá í framhaldi af þessu: Snúið þið ykkur bara að Efnahagsbandalagi Evrópu og standið ykkur betur við að brjóta vald þess á bak aftur.

Það er vissulega sjálfsagt að hvetja Færeyinga til dáða í sjálfstæðisbaráttu þeirra, í baráttu þeirra gegn ofurvaldi Efnahagsbandalags Evrópu. En ég held að við gerum það ekki með því að reka síðasta skip Færeyinga af Íslandsmiðum. Þeir hafa við stóran að deila þar sem Efnahagsbandalagið er, og enn þá eru Færeyingar í raun meira eða minna háðir veiðum á þeim fiskimiðum, sem stórveldi Efnahagsbandalagsins drottna yfir nú, svo sem við Grænland. Við höfum að mínu viti vel efni á því að rétta Færeyingum a.m.k. litlafingur í þeirra lífsbaráttu í þeirra sjálfstæðisbaráttu, og eigum að gera það. Og ekki er þetta nú meira en litlifingur, það sem í þessum samningum felst. Enginn þarf að óttast að þeir gleypi höndina alla.

Ég hefði gjarnan viljað að við hefðum getað boðið Færeyingum meiri fiskveiðiheimildir til að losa þá úr klóm Efnahagsbandalagsins. En það er vissulega ekki auðvelt og um það geri ég hér ekki till. við þær erfiðu aðstæður sem fyrir hendi eru hjá okkur sjálfum. Slíkt er ekki auðvelt þegar fyrir liggur skýr ábending frá Hafrannsóknastofnun um nauðsyn þess að skera þorskafla okkar niður um fjórðung og setja á sama tíma takmarkanir á loðnuveiðar og það enda þótt orðið hafi að leggja okkar eigin veiðiflota vikum saman á síðasta ári, áður en slíkur niðurskurður á þorskveiðum kom þó til.

Það hefur verið á það drepið í þessum umr., að erfitt sé að samþykkja þessar takmörkuðu veiðiheimildir til Færeyinga nú vegna þess að sjómenn okkar verði að hverfa frá veiðum, hafi orðið að gera það vegna verndunarráðstafana vikum saman á síðasta ári og verða af þeim ástæðum fyrir tekjutapi. Og það hefur jafnvel verið sagt, að það væri þá kannske nær að þeir, sem vilja styðja þessa samninga við Færeyinga, sendu til Þórshafnar eða Klakksvíkur eitthvað brot af launum sínum. Þetta kann að vera ágæt kenning og ekki stæði á mér að leggja í þann sjóð ef á þyrfti að halda. En ég vil af þessu tilefni koma því að við þessar umr. sem mínu eindregna sjónarmiði, að fari svo, eins og því miður eru nokkrar líkur á, kannske ærnar líkur, að við þurfum að grípa til mun alvarlegri veiðitakmarkana hjá okkar eigin flota heldur en verið hefur til þessa, — þá er auðvitað lítið og ég segi ekkert réttlæti í því, að slíkar veiðitakmarkanir bitni eingöngu á okkar sjómönnum, sem bannað væri að róa, eða því fiskvinnslufólki, sem tapaði af atvinnu sinni vegna slíkra þjóðhagslega nauðsynlegra og brýnna ráðstafana, ef til kæmi. Þvert á móti yrði þá að sjálfsögðu að haga málum svo, að þessu fólki, sjómönnum og fiskvinnslufólki, væru tryggð a.m.k. ákveðin lágmarkslaun og þjóðarbúið í heild tæki á sig þann skell sem af veiðitakmörkunum í stærri stíl hlyti að leiða, og það kæmi þá í þeirra verkahring, sem sitja hér á hinu háa Alþingi, að jafna þeim byrðum niður.

Ég sagði áðan að ég hefði gjarnan viljað geta boðið Færeyingum meira, en það sé því miður ekki hægt að sinni. Og hvers vegna er það ekki hægt? Það er ekki hægt vegna þess að ástand þorskstofnsins er jafnalvarlegt og við öll þekkjum og berum öll sameiginlega þungar áhyggjur af. Okkur greinir hins vegar nokkuð á um það, hvernig eigi að bregðast við. Og okkur greinir kannske líka dálítið á um það, hvernig á því standi að þessi meginfiskstofn hér á Íslandsmiðum, þorskstofninn sem við eigum svo mikið undir, er svo illa kominn sem staðreyndir segja okkur.

Við erum nú að ræða um fiskveiðisamninga við Færeyinga. Þeir samningar ráða í sjálfu sér engum úrslitum. En menn mættu gjarnan minnast þess, að ástæðurnar fyrir hinu hörmulega ástandi þorskstofnsins á Íslandsmiðum er ekki síst að rekja til þess, að hér var erlendum veiðiflotum leyft að veiða miklu meira magn og miklu lengur en nokkur minnsta glóra var í. Það efast trúega fáir um nú þegar komið er árið 1979.

Við fyrri hluta þessarar umr. nú í síðustu viku sá Matthías Bjarnason, hv. 1. þm. Vestf., ástæðu til að guma af því að hann hafi átt hlut að því að tryggja Íslendingum 200 mílna landhelgi. Og hann sá ástæðu til að hafa uppi nokkurt spé um andmæli ýmissa aðila við þeim samningum um fiskveiðiheimildir sem gerðir voru við Breta og Vestur-Þjóðverja á síðasta kjörtímabili. Þessi hv. þm. er því miður ekki viðstaddur hér í kvöld, en mér finnst að ég komist ekki hjá því í tilefni orða hans að minna á að þegar stjórnarskipti urðu hér á Íslandi á árinu 1971, fyrir aðeins 7–8 árum, og vinstri stjórnin tók við þá, þá var heildarbotnfiskafli útlendinga hér við land hvorki meiri né minni en 384 þús. tonn árið 1971, á þessum sama áratug og við erum enn stödd á í tímanum, það er ekki lengra síðan: 384 þús. tonn. Skyldi ekki ærið mörgum verða hugsað til þess, að það hefði kannske verið ástæða til að hefjast handa um útfærslu landhelginnar einhvern tíma á síðasta áratug út fyrir þær litlu 12 mílur sem við þá bjuggum við. En í upphafi þessa áratugs, sem við lifum nú, vorum við Íslendingar bundnir í báða skó af samningi þeim sem ríkisstj. undir forustu Sjálfstfl. hafði gert við Breta og Vestur-Þjóðverja 10 árum fyrr, — samningum sem bönnuðu okkur útfærslu fiskveiðilandhelginnar út fyrir 12 mílur nema með samþykki Haagdómstólsins, þess dómstóls sem fjandsamlegastur var hagsmunum okkar Íslendinga. Skyldi þessi staðreynd, að mál stóðu svona við upphaf þessa áratugs, ekki eiga sinn stóra þátt í því, að þorskstofninum er komið eins og honum er komið nú? Og það var reyndar utanrrh. þessarar sömu hæstv. ríkisstj., sem samninginn gerði 1961 við Breta og Vestur-Þjóðverja, sem lýsti því yfir 10 árum síðar, lýsti því yfir árið sem útlendingar veiddu hér 384 þús. tonn af botnfiskum, árið 1971, að það væri siðlaus ævintýrapólitík að færa íslenska landhelgi einhliða út fyrir 12 mílur.

Ég ætla ekki að rekja hér baráttuna fyrir 50 mílna landhelginni, en innan hennar er talið að veiðst hafi á undanförnum árum um 98% af þorskafla okkar, og ekki heldur ætla ég að rekja hér baráttuna fyrir 200 mílna landhelginni. Það var vissulega stór stund í íslenskri sögu 1. des. 1976, þegar síðustu bresku togararnir héldu heim úr íslenskri landhelgi. En talsmenn Sjálfstfl. ættu sannarlega ekki að hreykja sér hátt í þessum efnum eða þakka sér sérstaklega þann sigur sem þá vannst, þann mikla lokasigur. (Gripið fram í: Var það ekki sigur þjóðarinnar í heild?) Allir vita — (Gripið fram í: Vill ekki ræðumaður svara þessu?) Hvort það hafi verið sigur þjóðarinnar í heild þegar síðasti breski togarinn fór hér út úr landhelginni? (Gripið fram í. ) Jú, það var svo sannarlega sigur þjóðarinnar í heild, herra þm., og vegna þess að það var sigur þjóðarinnar í heild, þá ættu nú allir flokkar að fara svolítið gætilega í það að þakka sér þann heiður sérstaklega. En um Sjálfstfl. vil ég segja það, að hann ætti að fara gætilegar en allir aðrir flokkar í að þakka sér þann heiður. Það er kunnugt, ekki aðeins hér á Íslandi, heldur um allan heim, að þegar þarna var komið í sögunni undir árslok 1976, þá höfðu Bretar og aðrar Efnahagsbandalagsþjóðir ákveðið að taka sér til handa 200 mílna efnahagslögsögu, og þeir gerðu það í árslok 1976 eða um sama leyti og Bretar viðurkenndu að lokum í raun okkar 200 mílna landhelgi. Ég sagði í raun. Og reyndar höfðu á þessum tíma allar eða nær allar fiskveiðiþjóðir í okkar heimshluta tekið sér 200 mílna landhelgi. Og hver er sá sem hefur rétt til að þakka sér það sérstaklega að Íslendingar skyldu þó teljast með í þeim hópi sem fékk í reynd 200 mílna landhelgi í árslok 1976, en að við skyldum ekki sitja einir og aleinir eftir? Þannig var söguþróuninni í landhelgismálunum komið, alþjóðlegri söguþróun, sem við höfum átt okkar þátt í að hrinda fram, — þannig var henni komið undir árslok 1976 og það er með engu móti hægt að hugsa sér að nein sú ríkisstj. hefði staðist deginum lengur á Íslandi sem ætlað hefði Bretum að halda hér áfram veiðum eftir að þeir höfðu sjálfir tekið sér 200 mílna landhelgi, enda datt ekki Bretum einu sinni í hug að fara fram á slíkt í neinni alvöru, svo fráleitt var það. Það er því ekki fyrir neitt sérstakt að þakka þar sem eru gerðir þeirrar ríkisstj., sem hér fór með völd á síðasta kjörtímabili, í þessum efnum. Ég fagna því að gæfan varð þeim þó hliðholl, og kunna að felast í því nokkrar bætur þegar sagan kveður upp sinn dóm, að þeir ágætu menn, sem í þeirri ríkisstj. áttu sæti, voru svo lánsamir að sitja í ráðherrastólunum þegar hin alþjóðlega þróun leiddi til þess, að punktur hlaut að verða settur aftan við baráttu okkar fyrir útfærslu fiskveiðilandhelginnar.

Ég þarf ekki að hafa um þetta miklu fleiri orð. Ég hef lýst afstöðu minni í sambandi við þá samninga, sem hér eru til umr., og fært fyrir henni nokkur af þeim rökum sem mér eru handbær. Ég gæti haft þau fleiri.

Ég vil taka það fram, að ég er mjög sammála því sem hv. 3. þm. Reykn., Gils Guðmundsson, sagði fyrr í dag um nauðsyn þess, að þær þrjár þjóðir, sem byggja hér eyríki í norðurhöfum: Færeyingar, Íslendingar og Grænlendingar, efli með sér sem besta og nánasta samvinnu á sem flestum sviðum.

Ég vil ekki hverfa úr þessum ræðustól án þess að orða það sem mér kemur nú í hug, að þess verður stundum vart, að ýmsir sjá ástæðu til að hafa í frammi ásakanir gegn okkur, sem höfum skipað okkur í raðir Alþb., fyrir það að við höldum uppi óhæfilega ákveðinni eða eindreginni þjóðernisstefnu. Stundum sjást ásakanir um þjóðrembing og annað í þeim dúr. Ég held, að þessar ásakanir hafi ekki við nein rök að styðjast, og vil ekki við réttmæti þeirra kannast. Hitt er rétt, að við í Alþb. höfum yfirleitt verið nokkuð sammála um að það væri rétt fyrir okkur Íslendinga að halda býsna fast á málum okkar gagnvart ýmsum þeim erlendu stórþjóðum sem við höfum átt samskipti við, stundum vinsamleg, stundum miður vinsamleg, hvort sem þar hefur verið um að ræða landhelgismál, hernaðarmál, viðskiptamál eða annað slíkt. Og ég vona að við höldum áfram uppi slíkum kröfum, enda þótt það kunni að kalla fram ásakanir af því tagi sem ég minntist á áðan. Ég held að þessi þjóð þurfi á því að halda að ekki bara þeir, sem skipa raðir Alþb., heldur landsmenn sem allra flestir og helst allir temji sér að standa sæmilega uppréttir gagnvart erlendu valdi. En það er ósköp sjaldan sem við Íslendingar eigum þess kost að eiga opinber samskipti við þjóðir sem standa í ýmsum efnum hallari fæti í þessari hörðu veröld heldur en við sjálfir, að ég nú ekki tali um þjóðir sem eru við hliðina á okkur og eru að mannfjölda til aðeins lítið brot af því sem við teljum. Og ég held að við þurfum að hafa það öll, ekki síst allir þeir sem sitja á hinu háa Alþ., vel í huga að það hæfir dálítið annar móður þegar við slíka viðsemjendur er að eiga heldur en stórveldi heimsins.

Ég lýk þessum orðum mínum með því aðeins að minna á það, að enda þótt ýmsum kunni að virðast, ekki síst ýmsum af okkar ágætu sjómönnum og þeim sem við útgerð fást, að það sé sárt að sjá á eftir þessum 17 500 tonnum af loðnu í ár til Færeyinga, þá er þetta ekki nema milli 1 og 2% af því sem fiskifræðingarnir telja að hér sé óhætt að veiða, sem eru milljón tonn. Og ég fæ mig ekki til að líta á þetta sem eitthvað meira, þetta sem við erum þarna að rétta Færeyingum, heldur en í mesta lagi sem því svarar að rétta litlafingur.

Samningarnir um þorskinn koma út af fyrir sig ekki til atkv. hér. Það fylgir þarna ákveðin bókun sem hefur verið kynnt og felur það í sér, að þorskkvótinn verði lækkaður um 1000 tonn, frá því að vera 7000 og niður í 6000 tonn. Með tilliti til þess, sem ég hef áður sagt, sé ég ekki ástæður til að gera aths. við þá niðurstöðu. Það verða vafalaust margir sem telja miður farið að láta þessi 6000 tonn af hendi, og það gildir að sjálfsögðu ekki síst um marga af okkar ágætu sjómönnum og útgerðarmönnum, ég tala nú ekki um ef niðurstaðan yrði sú, að þorskveiðar okkar yrðu færðar niður í eitthvað nálægt því sem Hafrannsóknastofnun leggur til. En hvernig sem á málin er litið, þá eru þetta samt ekki nema svo sem 1–2% af okkar þorskafla líka, kannske rétt rúmlega 2%, en við höldum eftir um 98%. Verði þorskaflinn á þessu ári hjá okkur 300 000 tonn eða 30 þús. tonnum lægri en hann var á síðasta ári, þá eru þetta 2%. Þetta samsvarar því, að Færeyingar væru hér með svona 2–3 togara. Okkar aflamestu skip veiða á fimmta þúsund tonn í heildarafla yfir árið og þar af hygg ég að þorskaflinn sé a.m.k. ekki minna en 3000 tonn. Það eru að vísu toppskip.

Þetta get ég látið duga og hef gert þá grein fyrir afstöðu minni eins og ég ætlaði mér.