06.02.1979
Sameinað þing: 48. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2387 í B-deild Alþingistíðinda. (1895)

165. mál, fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég verð að játa, að mér er farið að líða eins og hrútum í Skagafirði kvað hafa liðið fyrir ekki löngu undir þessum ítrekuðu og eldheitu árásum frá hv. þm., sem raunverulega virðist vera komnar úr pólitísku jafnvægi. Ég verð að segja eins og er, að ég hefði svarið fyrir það, að ég þyrfti að standa hér í ræðustól á Alþ. og útskýra fyrir mönnum, sem hafa setið hér í nokkur ár, hvaða munur er á því að samþykkja till. eða vísa henni til ríkisstj. Að ég skuli leyfa mér að halda fram að það sé munur á þessu er kallað hið svívirðilegasta, og þegar ég á í hlut er það nú orðið töluvert upp í sig tekið. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, en aðeins lesa hér örfáar línur, með leyfi hæstv. forseta, upp úr tveimur ritum sem ég hafði með mér. Annað er þessi blessaði bæklingur sem heitir þingsköp Alþingis og hv. þm. virðist aldrei hafa litið í, og er hann þó löglærður og nýtur virðingar sem slíkur.

Í 42. gr. þingskapa segir svo: „Þyki þd. eigi ástæða til að gera ályktun um eitthvert málefni, getur hún vísað því til ráðherra.“ Ráðherra er það sama og ríkisstjórn, því að það er lítið sagt um ríkisstj. í stjórnarskránni. Síðan kemur svigi á eftir: „(stjórnarskrá 51. gr.)“ Það stendur í sjálfri stjórnarskránni og síðar í þingsköpunum: „Þyki þd. eigi ástæða til að gera ályktun um eitthvert málefni, þá vísar hún því til ríkisstj. eða ráðh.“

Við skulum rétt svona, ef hæstv. forseti vill umbera það og leyfa, sjá hvað einn mesti fræðimaður okkar í þessum efnum, Ólafur Jóhannesson, hefur um þetta að segja í þeirri frægu bók: Stjórnskipun Íslands. Það er á bls. 268 sem talað er um afgreiðslu þingmála. Þar segir: „Eftir 56. gr. stjórnarskrár, sbr. við 41. gr. þingskapalaga, getur þd. vísað málefni til ráðh., ef henni þykir ekki ástæða til að gera aðra ályktun um það.... Þetta þykir vægari aðferð til að koma máli fyrir kattarnef en að fella það.“ Þetta er það sem Ólafur Jóhannesson segir, og á eftir kemur kafli þar sem segir að það séu ekki aðeins þd., heldur einnig Sþ. sem beiti þessari aðferð. Ef mönnum er ekki ljóst, hvaða munur er á þessu tvennu, þá er þeim varla viðbjargandi hvað vinnubrögð þessarar stofnunar snertir.

Nú er það svo, og það þekkjum við af reynslu, að þó að þd. eða Sþ. vilji ekki gera ályktun um mál, þá getur hún með orðalagi vísað því til ríkisstj, á mismunandi vinsamlegan hátt. Af því að allir vilja hafa sem mestan einhug og forðast deilur varðandi það sem snertir þessi málefni, þá var um það almennur vilji í utanrmn., að þessari till. væri vísað á vinsamlegan hátt til ríkisstj. En það breytir ekki þessum grundvallaratriðum. Og það er fyrir neðan allar hellur, að alþm. og lögfræðingur skuli tala og skrifa eins og það að vísa till. til ríkisstj. sé sama og að samþykkja hana.

Nú er það svo, að tillagan, sérstaklega með þeirri skýringu sem henni fylgdi frá n., er þannig, að það er ekki nema örlítill munur á henni og því sem raunverulega var gert og utanrmn. var kunnugt um. Og það er mála sannast, sem hv. þm. sagði að ég hygg nú í síðustu ræðu sinni, þegar hann ræddi um formlegar eða óformlegar umr., að það gæti ekki verið nema tímaspursmál hvenær óformlegar umr. breyttust í formlegar. Ég er sammála honum um það. Það kemur að því, en aðstæður hafa verið þær, að það hefur ekki verið hægt að fara öðruvísi að en við höfum gert. Eins og ég hef margsagt, tel ég náð þeim árangri, sem var fyrsta nauðsynlega skref okkar, að fá að vita hvort útfærsla við Jan Mayen væri yfirvofandi af hálfu Norðmanna eða ekki, og hvort sem hún væri yfirvofandi eða ekki að fá þá til að lofa okkur því að gera það ekki án þess að hafa ítarlegt samráð við okkur. Við höfum fengið vitneskju um hvort tveggja, nú síðast fyrir helgina eftir áður nefndan fimmtudagsfund í Osló. Þá lýsti utanrrh. Norðmanna yfir í blaðaviðtali sem birt var þar ytra, að útfærslan við Jan Mayen yrði að bíða, færði rök fyrir því og ég hygg að hann muni gera það enn frekar. Landið liggur þannig að norska ríkisstj. telur að þetta mál verði að bíða. Ég vil ekki, get ekki og má ekki fara nánar út í það af hverju hún er ekki til í að hefja viðræður við okkur um einstök atriði, en málið liggur þannig fyrir. Þess vegna er sú leið, sem hefur verið farin, sú eina, sem við áttum kost á, og sú eina, sem kom til greina. En auðvitað er það rétt hjá hv. þm., að þegar tíminn liður kemur að því að þetta breytist og þá hefjast formlega miklu efnislegri viðræður á bak við tjöldin, því áð ég hef ekki farið út í neinar viðræður við norska ráðamenn um einstök atriði. Ég hef enga heimild til þess, að ég tel. Ég tel mig hafa heimild til að kanna hver vilji þeirra sé, og þegar í ljós kemur að þeir virðast ekki ætla að færa út alveg á næstunni, að taka þá af þeim bestu loforð sem hægt er að fá um að þeir muni ekki gera neitt slíkt án þess að tala við okkur.

Þegar við höfum grun um að það fari að nálgast, þá þurfum við að setjast á rökstóla um mörg smáatriði. Þá kemur, eins og ég sagði í fyrri ræðu í dag, mjög til greina hvort við eigum að setja upp landhelgisnefnd aftur eins og við höfðum áður. Þetta er stórmál og það eru önnur stórmál sem munu fylgja í kjölfarið. Þar á ég m.a. við austurströnd Grænlands, sem er mjög mikilvægt mál fyrir okkur. Ég hef þegar skýrt frá því, að norskir blaðamenn hafa gert ítrekaðar tilraunir þegar þeir hafa til mín náð, — ég hef yfirleitt reynt að forðast þá þó að það hafi því miður ekki tekist að fullu, — og þá hafa þeir undantekningarlítið byrjað að tala um einstök atriði, miðlínu og gráa svæðið, og eru þá fljótt komnir í samanburð við gráa svæðið í Barentshafi og annað slíkt. En ég hef alltaf sagt nei, ég tala ekki nm þetta, það er ekki tímabært af minni hálfu.

Ég tel að ég sé búinn að gefa ljósar yfirlýsingar í sambandi við afstöðu mína og ríkisstj., sem ég held að sé algerlega í samræmi við þá augljósu afstöðu sem við höfum haft. Þrátt fyrir pex og deilur, eins og við höfum staðið í hér, hefur gengið eins og rauður þráður í gegnum landhelgismálið sterkur sameiginlegur vilji, þjóðarvilji, sem öll sú barátta hefur byggst á og hinir stóru sigrar sem við erum búnir að vinna.

Ég notaði hér orðin, að við hefðum ekki afsalað neinum rétti, og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur þetta að háði og spotti. Þetta er haft eftir fyrrv. sjútvrh. Matthíasi Bjarnasyni. Ég tók þessi orð upp vegna þess að hann sagði þau 1975 þegar hann gaf út reglugerðina. Þá notaði hann þessi orð, og ég segi að þau hafi ekki verið neitt bla bla. Þetta eru orð sem hafa sterka merkingu og ákveðna, eins og fyrirvari getur verið í hvers konar samningum. Það er ástæðulaust hjá hv. þm. að kalla þetta eitthvert bla bla hjá Matthíasi. Hann er kunnur að öðru, þó að það gusti stundum um hann.

Ég hafði líka jafnákveðin orð um það í dag, að við mundum á allan hátt standa á rétti okkar á þessu svæði. Það er kannske bla bla líka? En ég verð að segja, að það er erfitt að fullnægja þessu fólki, sem dag eftir dag kemur aftur og aftur og aftur og heimtar yfirlýsingar um sömu atriði sem búið er að segja og enginn ágreiningur er um í raun og veru. Þetta áframhaldandi nagg um að enn vanti einhverjar frekari yfirlýsingar og enn vanti einhverja svardaga er ekkert annað en eitthvert taugastríð gagnvart mér, sem ég læt mér þó algerlega standa á sama um.

Ég get ekki rætt um þá tilviljun, að sósíaldemókratar séu við völd í Noregi, en ef t.d. Alþb. ætti að fara með utanríkismál Íslands, — menn hafa nú yfirleitt ekki talið það sérlega líklegt,-þá held ég að í skiptum við Vestur- og Norður-Evrópulönd væri býsna erfitt fyrir það að halda uppi nokkrum samskiptum, ef það vill ekki tala við sósíaldemókrata eða trúa einu orði sem þeir segja. Þeir eru þrátt fyrir allt kunnir að því að standa við það sem þeir hafa sagt í embættum. Þar að auki vil ég geta þess, að það hafa verið stjórnir annarra flokka á Norðurlöndum síðustu ár og eru nú t.d. í Svíþjóð. Að svo miklu leyti sem ég þekki til hefur í samskiptum okkar við þessi lönd ekki fundist nein breyting við það, svo að ég hygg að í öllum meginatriðum sé óþarfi að vera með flokkadrætti hvað þetta snertir.

Hv. þm. Jónas Árnason gaf mér það ágæta ráð, að Emil Jónsson hefði gert ýmislegt til að bæta samstarf í utanríkismálum og ég ætti að taka hann til fyrirmyndar. Það, sem Emil Jónsson gerði framar öðru á þessu sviði, var að hann endurvakti sambandið á milli utanrrn. og utanrrh. og utanrmn. Þessu hélt Einar Ágústsson áfram, og ég man vel eftir því, að á fyrstu árum Einars hældi hann Emil fyrir þetta, og allir hafa talið að þetta hafi verið rétt gert. Málsmeðferð mín hefur verið gagnrýnd, og ég mun að sjálfsögðu taka þá gagnrýni til alvarlegrar íhugunar, en ég tel að mér hafi orðið það á að gera mér of miklar vonir um utanrmn. sem samkv. lögum og reglum Alþingis og samkv. venju í öllum sambærilegum þingum er höfuðaðili við að tengja þingflokkana saman, ræða utanríkismál og gefa síðan ríkisstj. ráð. Varðandi Færeyjasamningana t.d. byggði ég mest á því, ég verð að játa það. Við skulum láta hitt kyrrt liggja, sem er innan stjórnarheimilis, en það hefur farið svo, að í umr. hér er eins og samráð við utanrmn. séu einskis virði, en bæði formaður þeirrar n. og margir nm. hafa viðurkennt hér í ræðum að þau hafi verið fullnægjandi. Ég hef farið eftir því sem var augljóslega sterkur meirihlutavilji í n., kannske gengið heldur harðar að Færeyingum en nefndarvilji var fyrir. En þegar málið kemur hér inn á þingið kemur í ljós að hin og þessi stórmenni á þessu sviði rísa upp og forakta n., hún er ekki til í þeirra augum! Sagt er að það hefði átt að reyna að ná sem víðtækustu samstarfi allra flokka. Hvar í ósköpunum er, eftir að landhelgisnefndin var lögð niður fyrir nokkrum árum, hægt að ná til allra flokka á eðlilegri hátt en í nefndinni og biðja fulltrúa flokkanna í utanrmn. um að kanna viðhorf í flokkum þeirra. Þetta var gert. Ég held að þm. ættu að reyna að sýna örlítið meira stolt fyrir hönd Alþingis sem stofnunar. Það er talað um það nú, að við þurfum að gera nefndir þingsins virkari. Við ættum að reyna að gera það svo að utanrmn. Alþingis, sem hefur sérstöku hlutverki að gegna, eins og lesa má í litlu bláu bókinni, verði gerð virk og aðrir forustumenn flokkanna tali ekki um hana eins og hún sé ekki til eða telji að það hafi ekkert verið gert til að ráðgast við flokkana, af því að það var gert í þessari nefnd. Ég tel að á þessu þyrfti að verða breyting. Ég hafði ekki aðra stofnun, þar sem allir flokkarnir komu saman, sem ég gat snúið mér til. Þarna var fólk nýlega kosið í utanrmn. með þetta hlutverk. Átti að ganga fram hjá utanrmn. og velja forustumenn í öllum flokkunum og tala við þá einn og einn? Það var ekki hin rétta aðferð. Ég ræddi málið við marga, og síðan ræddu utanrmn.- menn ag konur við marga hver í sínum flokki og sjálfsagt öðrum flokkum. Ég vil gjarnan að menn íhugi þetta, hvort sú aðferð, sem ég beitti að þessu sinni og hefur orðið til þess að það hefur verið hellt yfir mig gagnrýni fyrir vinnubrögð, á ekki raunverulega rétt á sér og er ekki sú vinnuaðferð með utanríkismál sem er eðlilegust á Alþingi. Ég tel að svo sé og vildi óska þess, að utanrmn. gæti orðið eins og Emil Jónsson lagði að vissu leyti grunn að og Einar Ágústsson hélt með ágætum áfram, vegna þess að í kalda stríðinu var utanrmn. brotin mélinu smærra. Ég veit ekki hvort þm. er öllum kunn sú saga. En þegar Sósíalistaflokkurinn fékk mann í utanrmn. á kaldasta tímanum í kalda stríðinu, þá var talið óþolandi, að hann fengi að njóta þess trúnaðar sem menn njóta þar. (StJ: Það var þannig talað af einum manni, sem var utanrrh. Alþfl.) Hann fékk því ráðið, ég er ekkert að undanskilja minn flokk. Alþfl. réð því samt ekki alveg einn, og þá var kosin undirnefnd hinna rétttrúuðu og hún fjallaði um hin viðkvæmu mál.

Við hljótum allir að viðurkenna að þetta er ekki eðlilegt, svona má þetta ekki vera. Þess vegna eigum við að fagna því, að s.l. áratug hefur utanrmn. verið sett á rétt spor. Með því að byggja á henni til samráðs, eins og uppbygging Alþingis gerir ráð fyrir, tel ég að ég hafi í grundvallaratriðum verið á réttri braut. En því miður virðast aðstæður í þinginu vera þannig að því er ekki vel tekið. Ég verð því að láta það yfir mig ganga að sitja undir þeirri gagnrýni sem hér hefur fram komið fyrir það.