06.02.1979
Sameinað þing: 48. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2391 í B-deild Alþingistíðinda. (1896)

165. mál, fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Stefán Jónsson:

Herra forseti. M.a. sökum þess, hversu langt er nú liðið á kvöld og tími orðinn naumur, hygg ég að ég muni leggja áherslu á það að vera ósammála eða sammála í samtímanum, þótt freistandi hefði verið að rifja upp smávegis í tengslum við ræðu hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar áðan og aðdraganda pólitískra ágreiningsmála í sambandi við útfærslu landhelginnar. Einnig lýtur það að upplýsingum hæstv. utanrrh. það tímabil þegar utanrmn. var lögð niður.

Ég var ekki með öllu ánægður með yfirlýsingu hæstv. utanrrh. í hinni fyrri ræðu hans í dag varðandi Jan Mayen-málið og þóttist verða þess var í hinni seinni ræðu hans, að hann hefði gleymt hvernig á því stóð, að gengið var á hann persónulega og ríkisstj. í gegnum hann um yfirlýsingar um það, að Íslendingar viðurkenndu alls ekki rétt Norðmanna til einhliða útfærslu efnahagslögsögu við Jan Mayen. Ástæðan var sú, að birt var í norska sjónvarpinu viðtal við utanrrh. Íslands, sem túlkað hefur verið á þá lund, að hann hafi lýst yfir viðurkenningu á einhliða rétti Norðmanna til að færa út efnahagslögsöguna við Jan Mayen. Hæstv. utanrrh. tjáði okkur í Ed. í gær, að þarna væri um misskilning að ræða, en ekki að viðtalið hefði verið á þá lund, að menn hefðu getað, svo sem raun sýndi, mistúlkað það á þessa lund. Var farið fram á við hann af þremur þm. d., að hann gerði annað tveggja eða hvort tveggja: að lýsa yfir því ljósum orðum til þess að leiðrétta þennan misskilning, sérstaklega úti í Noregi og einnig hér heima, að þetta væri rangt, að hann væri þeirrar skoðunar að Norðmenn hefðu ekki rétt til þess að færa út efnahagslögsöguna við Jan Mayen einhliða, ellegar þá, og þess var æskt fyrst og fremst af hálfu hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar og Ragnhildar Helgadóttur, að hann flytti okkur í Sþ. nú í dag yfirlýsingu frá ríkisstj. í heild um að ríkisstj. teldi að Norðmenn hefðu ekki rétt til þess að flytja út efnahagslögsöguna við Jan Mayen einhliða. Við óskuðum eftir ljósum orðum um þetta. Ég vil telja það svar, sem hæstv. utanrrh. flutti okkur hér í dag, fullnægjandi af hans hálfu. En að því er lýtur að túlkun þessa máls úti í Noregi, þar sem leiðrétta þarf missögn eða mistúlkun á ummælum hæstv. ráðh., tel ég þessi orð ekki nógu ljós. Ég er ákaflega uggandi um, eins og þetta kemur fyrir nú, þar sem talað er um að við áskiljum okkur allan rétt o.s.frv., að þetta kunni úti í Noregi, þessi skilaboð af fundi ríkisstj. í dag, að verða túlkað sem svo t.d., að Alþb.-kommarnir hafi knúið „den gode socialdemokrat hr. Gröndal, vor ven“ til að flytja þessi skilaboð á ríkisstjórnarfundi, þó að enn sé óbreytt skoðun hans eins og hún hefur verið túlkuð eftir viðtalið í sjónvarpinu. Þetta kynni að verða í Noregi. Ég tek það fram, að það má alls ekki skilja þessi orð mín svo, að nein undirmál hafi verið í þeim skilaboðum sem Benedikt Gröndal utanrrh. flutti okkur á Alþ. í dag, en þannig kynni þetta að verða túlkað í Noregi, þannig að hin yfirlýsta skoðun hans, eins og hún var túlkuð, standi þar enn. Þess vegna vil ég óska eftir því, að hæstv. utanrrh. geri okkur þann greiða að kveða þannig að orði að það yrði ekki hártogað né vefengt lengur.

Hæstv. utanrrh. vakti athygli okkar Alþb.-manna á því, að ef svo ólíklega færi að embætti utanrrh. félli einhvern tíma í skaut Alþb., sem hann taldi raunar mjög ólíklegt, yrði ráðh. þess flokks að ræða við sósíaldemókrata ef hann vildi eiga þess háttar viðskipti við ýmis lönd Vestur-Evrópu, og taldi að samskipti íslenskra sósíaldemókrata jafnt í ráðherrastól sem hinum lægri stólum við skandinavíska sósíaldemókrata, t.d. á liðnum árum, hefðu ekki verið þess háttar, að það væri neitt þess vert að fetta fingur út í þau samskipti. En þá vil ég leyfa mér að rifja upp fyrir hæstv. utanrrh., að svo bar til á síðasta þingi að hv. Alþ. varð að samþykkja sérstök lög til þess að banna sérstaka tegund af samskiptum íslenskra sósíaldemókrata við norska sósíaldemókrata. Ég er, herra forseti, ekki með þessum orðum mínum að tengja viðræður hæstv. utanrrh. Benedikts Gröndal við utanrrh. Norðmanna, Frydenlund, um Jan Mayen- deiluna á nokkurn þann hátt við tortryggileg mál tengd samskiptum íslenskra sósíaldemókrata við skandinavíska sósíaldemókrata. Ég er aðeins að minna á þetta atriði í beinum tengslum við þau ummæli hæstv. utanrrh., að hann teldi ólíklegt að ráðh. úr Alþb. yrði nokkurn tíma treyst til þess að fara með utanríkismál.

Aðeins í lokin, áður en ég vík að því máli sem fyrst og fremst er hér á dagskrá, ætla ég raunar að vík ja að því, — vegna þess að tæpast er hægt að ætlast til þess að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson rísi hér aftur upp í ræðustól þess vegna, ekki vegna þess að ég vorkenni honum kárínur sem hann er verður að fá í ýmsum málum, heldur vegna þess að ég vil minna á það, með hvaða hætti þáltill. þær voru afgreiddar í fjárlagaönninni í desember hér á Alþ. sem hæstv. utanrrh. telur að nánast hafi verið felldar, vegna þess að þeim var vísað til ríkisstj.hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson vítaverður fyrir það, lögfræðingurinn, að bera nú ekki alveg í minni þingskapargrein sem að þessum málum lýtur, þá tel ég að hæstv. utanrrh. sé vítaverður fyrir að hafa ekki kynnt sér afbrigðilega afgreiðslu þessara mála á þinginu síðasta dag fyrir þingfrestun. Hann hefur að vísu þá afsökun, að einmitt í fjárlagaönninni og jólaönninni, á þeim vikum rösklega tveimur, sást hann ekki hér í þingsölum. Fallist var á það af hálfu 1. flm. að vísa þessum till. til ríkisstj. Það var sátt af hans hálfu. Það var komið að lokadegi í afgreiðslu fjárl. Hann hótaði því þá, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, og hafði raunar stuðning þm. úr fleiri flokkum á bak við þá hótun, að ef þessar þáltill. þeirra sjálfstæðismanna hlytu ekki afgreiðslu fyrir jól, vegna þess hversu brýnt væri að afgreiða þær, þá skyldi verða haldið uppi þess háttar umr. um einstaka liði fjárl. að fjárlagaafgreiðslan drægist fram yfir jól af þeim sökum. Reyndar var þá viðbúið að fjárlagaafgreiðslan drægist fram yfir jól af öðrum sökum. En forustumenn stjórnarflokkanna sömdu um það við 1. flm. þessara þáltill., að þær yrðu afgreiddar með þessum hætti. Það var það sem kallast á enska tungu „gentlemen's agreement“, sem var á vitorði ég vil segja allra þm. og hann féllst á í því trausti að með till. yrði farið eins og þær hefðu hlotið þinglega meðferð. Þetta vissi hver maður sem var hér í þingsölunum þá. Ég er þess fullviss, að hæstv. utanrrh., slíkur drengskaparmaður sem hann er, mælti þau orð, sem hann lét falla áðan, vegna þess að honum hefur verið ókunnugt um þetta atriði. (Utanrrh.: Ég gerði þennan samning við formann Sjálfstfl. á sínum tíma með samþykki forsrh. og fleiri.) Þess þá heldur ef hæstv. utanrrh. hefur vitað betur en kom fram í ræðu hans áðan, því meiri verður drengskapur hans ef hann dregur til baka þessi orð um afgreiðslu till., því að sannleikurinn er sá, ef dýpra er kafað, að þá munu hin fornu drengskaparatriði hafa meira gildi við afgreiðslu þáltill. hér heldur en þingsköp og jafnvel heldur en ritgerðir Ólafs Jóhannessonar forsrh.

Ég ætla þá að víkja aðeins, sem er við hæfi, að máli því sem hér er til umr., þar sem eru færeysku samningarnir. Ég heyrði ekki, enda gæti ég ekki bætt þar um, þar sem lýst hefur verið fögrum og sönnum orðum frændskap okkar við Færeyinga og vináttu ágætri. Hv. ræðumönnum láðist aðeins að gera grein fyrir kynslóðagamalli aðdáun Íslendinga á Færeyingum. Ég þekkti þá í uppvexti mínum fyrir austan og þeir stóðu okkur þarna á Suðausturlandinu t.d. mun nær en Sunnlendingar. Ég man eftir gamalli konu á Borgarfirði eystra sem var að segja mér sögur af því, og því útvarpaði ég raunar á sínum tíma, hver hefðu orðið örlög systra sinna sjö. Svo kom hún að þeirri síðustu, yngstu: „Og hún var nú okkar fallegust og gáfuðust, best. En það fór svona fyrir henni, hún lenti í því að giftast Sunnlendingi.“ sagði hún. En allar þrjár næstu þar á undan, þær voru giftar í Færeyjum.

Ég mun nú stilla mig um að gera tilraun til þess að láta í ljós meiri þekkingu á sögu Færeyinga en fram kom í ræðu hv. þm. Gils Guðmundssonar eða meiri hlýhug en fram kom í ræðu Kjartans Ólafssonar eða gleggra mat á manngildi þeirra en fram kom hjá Jónasi Árnasyni, hv. alþm. Ég er þeirrar skoðunar líka, að það sé ekki bara drengskaparatriði, frændskaparatriði og vinskaparatriði að við styðjum á bakið á Færeyingum, heldur er ég einnig þeirrar skoðunar, að það sé okkur pólitísk nauðsyn að efla þessa frændþjóð okkar, sem getur talað íslensku svo að segja frá blautu barnsbeini, þó að við eigum dálítið erfitt með að skilja íslensku þeirra nema með dálitilli þjálfun. Ég er þeirrar skoðunar, að þetta sé okkur höfuðnauðsyn. Eigi að síður leitar sú hugsun á mig, að vera kunni að við neyðumst til þess og jafnvel að vera kunni að það væri heppilegt fyrir Færeyinga sjálfa að við bindum nú endi á þessa veiðiheimild þeirra að því er botnlægar fisktegundir varðar hér við land. Það er nefnilega ekki alveg rétt, að Færeyingar séu, þegar til kastanna kemur, svo óskaplega háðir fiskveiðunum við Ísland, fiskveiðunum á Efnahagsbandalagssvæðinu, sem hv. þm. Kjartan Ólafsson taldi áðan og vinir okkar í Færeyjum hafa uppi við okkur í aðsogi nýrra samninga um þessi mál. Færeyingar leyfa Bretum og Þjóðverjum nú að veiða 12 þús. tonn af þorski við Færeyjar. Pétur Reinert, sjútvrh. Færeyinga, sagði mér er ég hitti hann um árið hér í Reykjavík, þegar hann kom til þess að ræða um fiskveiðisamningana, að miðað við að þetta fiskmagn og svo raunar þau 5 þús. tonn af öðrum botnlægum tegundum, sem Bretar og Þjóðverjar fá að veiða á heimaslóðum hjá Færeyingum, væri verkað heima í Færeyjum, þá jafngilti það að verðmæti meiru en því sem Færeyingar taka á hinum svokallaða Efnahagsbandalagssjó, því að sá fiskur, sem þeir taka þar, er ýmist gúanófiskur, bræðslufiskur ellegar fiskur sem siglt er með ísaðan á erlendan markað, en það er hið sama hjá Færeyingum eins og Íslendingum, að fiskurinn, sem verkaður er í landinu, eykst stórlega að verðgildi.

Það er ekki aðeins að Færeyingar taki okkur, eins og hv. þm. Jónas Arnason sagði, þeir séu farnir fram úr okkur, langt fram úr okkur raunverulega í útgerðarmálum, fiskiskipasmíði og veiðiaðferðum, og standi okkur fyllilega jafnfætis — ég mun víkja að því aftur seinna með sérstöku tilliti til hv. þm. og kunningja míns, Guðmundar H. Garðarssonar — einnig í fiskverkun, heldur eiga þeir líka betri fiska en við, betri þorska. Það felst í því að þorskurinn á Færeyjabanka verður kynþroska á þremur árum. Nú ber ég enn fyrir mér Pétur Reinert um þetta og einnig Kjartan Mohr fiskifræðing. Þorskurinn þeirra á Færeyjabankanum hefur verið svo fljótur að ná sér eftir þá takmörkuðu friðun sem hann hefur hlotið við það að þarna hefur verið bönnuð togveiði síðan 1974, að afli, sem þá var 1700 tonn á Færeyjabanka, komst upp í 5000 tonn á Færeyjabanka á línu og færi 1977. Fyrrnefndur Pétur Reinert segist hafa ástæðu til þess að ætla að með frekari friðunaraðgerðum, með því að losa sig við Bretana og Þjóðverjana úr fiskveiðilandhelginni færeysku, gætu þeir með undraskjótum hætti náð meiri verðmætum af Færeyjaslóð með því að stunda veiðarnar að heiman heldur en þeir hafa núna með sókninni á Efnahagsbandalagssvæðinu. Að vísu viðurkenndi hann að þá reiknaði hann með því, að Færeyingar héldu áfram möguleika á því að veiða annars staðar rækju og smáfisk.

Aftur á móti verð ég að segja alveg eins og er, þrátt fyrir að ég sé þeirrar skoðunar að við eigum að taka mjög alvarlega til athugunar að losa okkur úr samningunum við Færeyingana, þá hef ég ekki haft brjóstheilindi til þess í viðræðum við Færeyinga að halda því fram að við mættum ómögulega nú við því að sjá eftir þessum þúsundum tonna af botnlægum fiskum til þeirra, með sérstöku tilliti til þess að mér er kunnugt um það, — ég veit ekki hvort menn gera sér almennt grein fyrir því, — að í sumar leið fór mjög mikið af þorski hjá okkur í gúanó, í mjölvinnslu. Um gjörvalla Vestfirðina, Norðurland og Austurland fór þorskur í bræðslu. Þegar ég spurði gamlan skipsfélaga minn á Eskifirði, skipstjóra og útgerðarmann, hvort það væri satt að þeir væru núna, Austfirðingarnir að bræða þorsk, þá sagði hann: „Stefán minn, þeir bræða miklu meira í Krossanesi.“ Og ekki nóg með þetta. Síðsumars í haust og í vetur hafa sölusamtökin, — ég veit að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson leiðréttir mig ef hann telur að ég fari þar með rangt mál eða ýkjur, — þá hafa sölusamtökin haft mjög mikið að gera við móttöku á mönnum sem hingað koma frá okkar dýrasta markaði vestan um haf, vilja láta rífa upp pakkningar, við það að taka á móti kærum fyrir beinafisk, ormafisk og úldinn fisk á Ameríkumarkaði, — þorsk, herrar mínir, sem var veiddur af kappi þegar best gaf s.l. sumar, sem við mynduðumst við að verka í útflutningspakkningar okkur til stórskammar. Ég vil að við athugum þetta mál, hvort það gæti ekki verið að við gætum nú með ráðdeild bætt nýtinguna á fiskinum okkar, stillt okkur um ýmis óhæfuverk.

Hv. þm. vita efalaust líka að í stórfiskiríinu fyrir Vestfjörðum, þrátt fyrir skyndilokanir, þrátt fyrir lítils háttar eftirlit, hafa komið slíkir dagar að það hefur verið mokað frá borði 30 tonnum af smáfiski, undirmálsfiski sem ekki má drepa, fyrir hver 10 tonn sem hafa verið hirt. Gæti ekki átt sér stað, að við gætum með betra fyrirkomulagi sparað jafngildi Færeyingafiskirísins og jafnvel meira en það, þannig að við hefðum þá meiri efni á því að koma þarna sæmilega fram? En eigi að síður, ég ítreka þetta: Ég tel að við hljótum að taka til mjög svo alvarlegrar athugunar að segja upp þessum erlendu veiðiheimildasamningum, og við eigum að láta Færeyinga vita af því, að slíkt kemur til greina.

Herra forseti. Ég hef þegar talað mun lengur en ég bjóst við og lýk máli mínu.