06.02.1979
Sameinað þing: 48. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2400 í B-deild Alþingistíðinda. (1899)

165. mál, fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það verður nú víst ekki sagt um okkar flokk, Framsfl., að við höfum verið að tefja fyrir þessum samningum eða í sambandi við umr. hér á hv. Alþ. Eftir því sem mér skildist á næstsíðasta ræðumanni, var hann með aðdróttanir um það, hvað okkar hlutur í umr. hefði verið lítill. Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessum umr. Það vildi svo til, að þegar var verið að enda við að gera þessa samninga var hringt til mín frá dagblaðinu Vísi og spurt um afstöðu mína. Ég svaraði ákveðið að ég mundi fylgja þessum samningum eins og þeir væru gerðir og ég teldi að vel hefði til tekist, í þessu tilfelli væri það svo, að við værum þeir sterku og Færeyingarnir þeir veikari, og yfirleitt væru mínar tilfinningar þannig, að ég stæði með þeim sem veikari væru. Yfirlýsing mín um fylgi við samningana var gefin án þess að ég hefði talað við nokkurn flokksbróður minn, en ég taldi mig þó vita um afstöðu þeirra. Ég þarf ekki í þessu máli að þakka fyrir gamla vinsemd Færeyinga, því ég hef aldrei kynnst þeim, aldrei verið á neinu sjómannaballi með þeim eða þess háttar, því ég hef ekki sjó stundað, heldur var afstaða mín algjörlega málefnaleg.

En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var sú, að mér fannst að hv. 5. þm. Norðurl. v. þyrfti ekki að fara út af veginum eins og hann gerði til þess að reyna að vera með aðdróttanir að hæstv. forsrh. Hann vitnaði í samtal sem hafði farið fram við hæstv. forsrh. í sjónvarpi fyrir alllöngu, og kom fram í því, sem hv. 5. þm. Norðurl. v, las upp, að það var eins og fyrr, að forsrh. hafði fulla gætni í því sem hann sagði og var ekki að gefa of mikil fyrirheit.

Þó að það hafi ekki verið minn háttur hér á hv. Alþ. að taka þátt í umr. um utanríkismál og ég hafi vitað að í þeim málum hafi ég ekki haft mikið að segja, hef ég þó setið í tveimur ríkisstj. þar sem ekki veigaminni mál hafa verið til meðferðar en að færa út íslensku fiskveiðilandhelgina úr 12 mílum í 200 mílur. Ég ætla ekki að hafa þann sið, eins og kom fram í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v., að ræða um hvað hefði verið talað saman í New York eða hvað væri talað um í utanrmn. og sagðar um það hálfkveðnar vísur, því það taldi ég vera í frásögn þessa hv. þm. (Gripið fram í.) Það er hálfkveðin vísa þegar sagt er: Einn sagði þetta, en ég nefni ekki hver sagði það, — eins og hv. þm. sagði þegar þeir ræddu við Breta þá og nefndi að sendiherra okkar í Washington nú, Hans G. Andersen, hefði talið að stjórnmálamennirnir ættu að svara.

Ég ætla ekki að fara að gera hér upp á milli ráðh. í síðustu ríkisstj., en ég vil segja það og það mun, að ég hygg, vera almæli allra sem í þeirri ríkisstj. sátu, að hlutur núv. hæstv. forsrh. lá þar ekki eftir. Ég vil segja að allir ráðh. hafi staðið vel að landhelgismálinu og það hefði ekki komist í höfn nema vegna þess að öll ríkisstj. stóð vel að málinu, og Ólafur Jóhannesson var þar ekki sístur. Þess vegna fannst mér það vera hálfpartinn að fara út af veginum þegar hv. 5. þm. Norðurl. v. þurfti að fara að beina geiri sínum að hæstv. forsrh. sem var fjarverandi.

Ég tek það fram enn á ný, að ég tel að öll ríkisstj. hafi staðið að 200 mílunum, og mér er það fullkomlega ljóst, að það er mikil firra að halda því fram, að slík útfærsla hafi gerst án þess að fyrir því hafi verið haft, mikið hafi verið unnið og vel og hyggilega að staðið. Það gerðist ekki af sjálfu sér. Ég tek undir það með hv. 5. þm. Norðurl. v. En hlutur Ólafs Jóhannessonar, hæstv. forsrh., var síst minni en annarra manna þar.

Ég vil svo segja það í framhaldi af þessu, að sagnfræði er góð, en vafasöm getur hún verið, og ef sagnfræði um útfærslu íslenskrar fiskveiðilögsögu ætti að vera í stíl við það sem hv. 4. þm. Reykv., Guðmundur H. Garðarsson, sagði hér áðan, þá yrði myndin ekki rétt. Nú hef ég ekkert við það að athuga þó þeir hæli hvorir öðrum, hv. sjálfstæðismenn og hv. Alþb.-menn. Það er þeirra mál, en ekki mitt. En sagnfræði hv. 4. þm. Reykv., Guðmundar H. Garðarssonar, var skrýtin. Hann sagði að það væru tveir flokkar sem hefðu unnið vel að þessum málum. Það var Sjálfstfl. og það var Alþb. Veit ekki sagnfræðingurinn, hv. 4. þm. Reyk., að það eru til fleiri flokkar á Alþingi. Hv. þm. þarf að kynna sér betur sagnfræði til þess að geta farið inn á þann vettvang. Förum yfir söguna.

Árið 1946 flytja þeir Hermann Jónasson og Skúli Guðmundsson þáltill. um að segja upp samningnum frá 1901. Í kjölfar þess komu svo landgrunnslögin frá 1948, sem sjálfstæðismenn stóðu að, eins og kunnugt er, eins og aðrir alþm. Veit ekki hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, að í öllum ríkisstj., sem hafa fjallað um útfærslu landhelginnar, hefur Framsfl. verið með, ýmist haft forsæti eða önnur rn.? T.d. 1952 hafði Framsfl. forsætið, Sjálfstfl. sjútvrh. 1956 hafði Framsfl. forsætið, Alþb. sjútvrh. 1971 hafði Framsfl. forsætið, Alþb. sjútvrh.

1974 hafði Sjálfstfl. forsætið, Framsfl. var þar með utanrrh., Sjálfstfl. hafði þá sjútvrh. (Gripið fram í.) Hv. þm. Einar Ágústsson var eini framsóknarmaðurinn sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson nefndi. Þetta segi ég að sé að segja söguna öðruvísi en hún gerðist að halda því fram að Framsfl. hafi ekki staðið framarlega við útfærslu landhelginnar. Það geta ekki aðrir hv. þm. gert en þeir sem vilja ekki hafa það sem rétt reynist.

Þessum ummælum hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar vil ég mótmæla, og þetta var ástæðan til þess að ég kvaddi mér hljóðs. Ég sagði áðan að ég ætlaði ekki að fara að gera upp á milli ráðh. í þeim ríkisstj. sem ég hef setið í, því að ég tel að það hafi verið fyrir sameiginlega baráttu ráðh. í heild að það tókst að þoka frá 4 mílum upp í 200 mílur. Þó að einhverjir hv. þm. reyni að segja annað, þá eru þetta staðreyndir. Og hlutur Ólafs Jóhannessonar hefur síst verið þar minni en annarra, og þess vegna harma ég að hv. 5. þm. Norðurl. v. skyldi skeiða svona út af veginum, því það var alveg óþarfi að leggja þessa lykkju á leið sína.

Svo skal ég ekki, herra forseti, þreyta hv. þm. með lengri ræðu, og undan flokki okkar þarf ekki að kvarta í þeim efnum. En það er aukaatriði. Við höfum ætlað okkur að fylgja samningunum við Færeyinga. Ýmislegt af því, sem hæstv. utanrrh. hefur sagt, hef ég talið eðlilegt að fram kæmi af hans hálfu. Og ég tel að við munum ekkert síður en aðrir meta þá baráttu sem Færeyingar eiga fyrir tilveru sinni sem smáþjóð því svo vel þekkjum við til þeirra mála.