06.02.1979
Sameinað þing: 48. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2402 í B-deild Alþingistíðinda. (1900)

165. mál, fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef talað áður í málinu og það nokkuð langt, svo það verður ekki ástæða til þess af minni hálfu að halda hér langa ræðu. En mér finnst ég varla komast hjá því að minnast á örfá atriði sem hafa komið fram í umr. Sum þeirra eru þannig, að það er varla hægt annað en að bera af sér sakir, eins og ég hlýt að gera vegna orða hæstv. utanrrh. En það hefur líka verið sagt hér ýmislegt skemmtilegt, eins og t.d. hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson gerði, eins og hans er vandi þegar hann kemur hér í ræðustól, þá er það yfirleitt heldur á skemmtilegri og léttari nótunum. Ég gleðst yfir því, að Færeyingar skuli hafa getað fimmfaldað útflutning sinn á þorskflökum til Bandaríkjanna á árunum 1972 til 1978, úr 2 þús. í 10 þús. tonn, og bendir það atriði ekki fyrst og fremst til þess að þeir séu nú á horleggjunum í þessum efnum, enda vita menn, að Færeyingar eru sífellt að auka afla sinn á milli ára á meðan þorskafli okkar minnkar þrátt fyrir talsvert aukna sókn. g held að menn ættu að hafa þetta í huga.

Hins vegar var það auðvitað kjarninn í ræðu hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar, að hann vill semja við Færeyingana og láta þá hafa botnfiskinn vegna þess að Coldwater fær fiskinn hvort sem er. Þetta er auðvitað það sem upp úr stóð í ræðu hv. þm.

Hv. þm. Jónas Árnason heillaðist svo af samverunni við Færeyinga á færeyskri skútu hér í gamla daga, að hann vill láta þá hafa fisk út á það.

Það, sem hv. þm. Stefán Jónsson nefndi, vil ég ekki endurtaka, því það er á hans sérsviði.

Menn hafa verið að segja hér hvað eftir annað, að Færeyingar hafi gert mikið fyrir okkur, og ágætur þm., Bragi Níelsson, hv. 8. landsk., flutti mjög dramatíska tölu, svo að ég var í þann veginn að taka upp vasaklútinn, þetta var allt saman svo hugnæmt og fallegt, að þeir hefðu nú séð um uppeldið á þeim þarna fyrir austan o.s.frv. Hann og fleiri hafa verið að tala um að Færeyingar hafi bjargað íslenskri útgerð með því að koma hingað og vera á íslenskum fiskiskipum, þeir hafi streymt hingað til lands til þess að ráða sig á íslenska báta og togara.

Og Jónas vinur okkar sagði að Íslendingar hefðu ekki viljað vera á togurunum árið 1956. Það vill nú svo vel til að ég var á s jó allt árið 1956, á togara, og þar um borð var þó ekki nema einn Færeyingur. Við komumst alveg af án þess að hafa þá. En Færeyingar komu hingað ekki fyrst og fremst til þess að bjarga okkur, heldur vegna þess að þá vantaði vinnu. Þannig var ástandið í færeyskri útgerð í þá daga. Þá voru þeir orðnir mjög langt á eftir. Það hafði verið vanrækt að byggja upp fiskiskipaflota þar. Þeir voru vissulega velkomnir, og það gerði okkur auðvitað gagn að fá mikið vinnuafl frá Færeyjum á þeim tíma. En það var ekki eingöngu í þeim tilgangi að bjarga okkur. Við útveguðum þúsundum Færeyinga vinnu, og ég sé enga ástæðu til þess, að við þurfum endilega að liggja á hnjánum og þakka þessu ágæta fólki fyrir það. Ætli það hafi ekki einmitt verið gagnkvæmt? Ég veit ekki betur en að við höfum líka sent þeim sjómenn. Jónas Árnason var einmitt á færeyskri skútu 1956 og það var þó í áttina.

Hv. þm. Gils Guðmundsson, hæstv. forseti, flutti hér auðvitað mjög snjalla ræðu, eins og hans er vandi og hann hefur vald á, og flutti þar auðvitað mál sitt mjög vel. Við erum á öndverðum meiði í málinu. Hann hefur hins vegar ævinlega verið þeirrar skoðunar að leyfa Færeyingum að fiska hér og gera við þá samninga, og ég skil alveg afstöðu hans í því máli. Hann hefur flutt sin rök, en ég er hins vegar á allt annarri skoðun. Hann nefndi það í byrjun, sem ég kemst varla hjá að víkja að, að bæði ég og fleiri hefðum ruglað saman hlutunum varðandi þessi mál, að við hefðum verið að taka inn í þetta botnfiskaflann þegar eingöngu hefði verið að semja um loðnu. Þetta er að vissu leyti rétt hjá hv. þm. Gils Guðmundssyni. En mér finnst alls ekki óeðlilegt, þegar slíkir samningar eru til umr. á annað borð, að einnig sé minnst á þetta, sem er auðvitað miklu stærra en þessi samningur sem verið er að gera, kannske ekki síst vegna þess að bókunin um þann veiðiskap allan er í fskj., þannig að það liggur beint við að taka þá hluti til umr. um leið. Það á ekki síður við að ræða þann hluta samskipta okkar við Færeyinga í fiskveiðimálum heldur en að ræða Jan Mayen-málið, þó það sé mjög mikilvægt mál.

Hv. þm. Gils Guðmundsson sagði að það gæti kannske verið að við hefðum ekki nægilega sterk rök gegn þessum samningum einum út af fyrir sig. Ég veit ekki betur en ég hafi fram komið með röksemdir í því efni. Kannske tekur hann þær röksemdir ekki gildar, þær falla ekki inn í hans skoðanir. Ég hins vegar met röksemdir okkar alveg nægilega sterkar. Við eigum að láta þarna dýran, auðveiddan fisk í staðinn fyrir ódýran og langsóttan fisk, sem erfitt er að ná í og dýrt. Ef við hefðum átt að hafa gagnkvæm viðskipti við Færeyinga, þá lá beint við að þeir fengju að fiska hér sömu fisktegund. Þeir fiska nefnilega mikið að kolmunna og veiða hann bæði fyrir vestan Írland og í kringum Færeyjar op víðar. Þeir kunna að veiða kolmunna, en það kunna íslendingar líka.

Hann nefndi það hér, hv. þm. Bragi Níelsson, að Íslendingar kynnu ekki að veiða kolmunna. Það er hinn mesti misskilningur. Það er einn gamall nemandi minn, sem er þekktur skipstjóri á Austfjörðum, sem er sérfræðingur í að veiða kolmunna og er núna að reyna að fá keypt skip til landsins í því skyni, Magni Kristjánsson. Og það eru margir aðrir Íslendingar sem hafa gert garðinn frægan í þessum efnum, bæði hér við land og erlendis, kannske ekki síst sá mikli aflamaður sem á danska skipið, — hvað heitir það nú aftur? — já, Ísafold, mikill aflamaður á kolmunnann. Við getum ósköp auðveldlega fiskað hann alveg eins og aðrir og ekkert síður.

Hv. þm. Gils Guðmundsson minntist einnig á að enginn hefði lagt til að samningum væri sagt upp. Það er rétt að því leyti, að það hefur ekki verið flutt um þetta þingmál. En hv. þm. veit vel að ég hef hreyft þessu máli oftar en einu sinni í mínum þingflokki, hvort það ætti ekki að flytja mál um það að fella alla fiskveiðisamninga við útlendinga úr gildi. Þá hafa komið upp raddir þar sem menn hafa sagt að það gæti ekki verið að það yrði samið aftur við útlendinga og allra síst um þorsk. Ég hins vegar lagði það til skýrt og greinilega, bæði í byrjun og lok ræðu minnar í dag, að nú ættum við að segja upp þessum samningum, öllum þessum samningum, þannig að við hefðum frían sjó og frjálsar hendur og gætum þá tekið það mál allt saman upp á nýtt.

Það kom í ljós að hv. þm. Gils Guðmundsson lagði á það mikla áherslu, — og það var mér mikið fagnaðarefni að heyra það af hans vörum vegna þeirra fullyrðinga sem ég kom fram með í dag og bar á hæstv. utanrrh. að þarna hefði verið óeðlilega að málum staðið og ég hefði allt aðrar meiningar í þeim efnum, — en hv, þm. Gils Guðmundsson sagði að það hefði ávallt fyrr verið haldið öðruvísi á þessum málum, málið hefði verið lítið rætt í ríkisstj. Hann fann einnig að því, að tveir stærstu flokkar landsins hefðu ekki haft fulltrúa í viðræðunefndinni við Færeyinga og þar með ekki eðlilegt samband við aðra flokka, hins vegar hefðu Færeyingar haft fulltrúa úr öllum stjórnmálaflokkum. Það, sem í mínum huga stendur upp úr efnislega í ræðu hv. þm. Gils Guðmundssonar, voru þessi orð sem ég náði orðrétt: „Það á ekki að standa þannig að samningagerð,“ sagði hv. þm. og hæstv. forseti Sþ. Það fór þó aldrei svo að við gætum ekki verið sammála um eitthvert atriði varðandi fiskveiðar og fiskveiðiheimildir Færeyinga eða annarra.

Mér leiddist það svolítið, að mér fannst eins og hv. þm. Gils Guðmundsson væri að beina því til mín þegar hann sagði að ýmsir hér hefðu verið að tala um Færeyinga eins og frændur okkar og vini í hæðnistón. Ég sagði nefnilega nokkuð oft þessi orð: frændur og vinir okkar Færeyingar. En það var svo langt frá því að í því ætti að vera nokkur hæðnistónn, og bendir það þá ekki til neins annars en að ég sé hættur að hafa vald á því, hvers konar tónn kemur fram í orðum mínum, og það þykir mér slæmt. En bæði í ræðu hans og margra annarra kom greinilega fram hver er höfuðóvinurinn á bak við allt málið. Það skín alls staðar í svart tröll á bak við í þessu máli, sem er fjandinn í þessu öllu saman, og það er stórt og andstyggilegt tröll. Það er skuggi Efnahagsbandalagsins sem hvílir yfir þessu öllu saman, okkar mikli óvinur og vinur í NATO að vísu, en óvinur a.m.k. annars staðar.

Að lokum vil ég segja örfá orð varðandi það sem hæstv. utanrrh. sagði. Ég vil áður aðeins minnast á það, hvað mér finnst, og ég vil segja það einu sinni enn: Ég tel málsmeðferðina ranga. Mér finnst það ekki skynsamleg spurning hjá hæstv. utanrrh. þegar hann spyr spurningar eins og þessarar: Hvar annars staðar en í utanrmn. á að hafa samband við flokkana? — Ég benti á það í dag, að ég líti á þetta mál þannig að þar væri ekki einungis um utanríkismál að ræða. Þarna er um fiskveiðimál að ræða, stórt efnahagsmál o.s.frv., og þess vegna hefði átt auk utanrmn. að hafa samband við sjútvn. þingsins um málið. Þar á ofan bætist að þetta er gert í þinghléi. Það virðist vera eins og það sé skipulagt að gera þetta á þeim tíma þegar verst er að ná til þm. almennt, sem sagt á óheppilegasta tíma.

Ég vil þá segja þetta við hæstv. utanrrh.: Það er alrangt, að ég hafi farið hér með árásum á hæstv. sjútvrh., eins og hann bar mér á brýn. Það er alrangt að ég hafi ráðist á hæstv. ráðh. Það, sem ég sagði, voru eingöngu staðreyndir. Ég fagnaði því, sagði ég fyrst, að heyra hæstv. ráðh. ræða sjávarútvegsmál hér í þinginu, það hefði ég ekki heyrt fyrr. Ég efast ekki um að hæstv. ráðh. er að vinna að sjávarútvegsmálum, en við vitum ekki hér í þinginu hver þau mál eru. Við vitum það ekki, við heyrum aldrei um það. Hæstv. ráðh. hefur ekki haft samband við sjútvn. þingsins. Við vitum sem sagt ekkert hvað hann er að gera. Ég efast ekki um að hann er að vinna mikið fyrir utan að sitja í þessari vitlausu nefnd þarna, —- hvað heitir hún? — já, ráðherranefnd. Það er mikið starf sjálfsagt, en það er auðvitað ekkert annað en satt að hér hefur ekkert mál verið lagt fram í sjávarútvegsmálum af hans hálfu. Ég tel vissulega að það sé hægt að vinna mikið í þessum efnum og það sé hægt að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til þess að gæta þess vandlega að ekki verði gengið óhæfilega illa um þann hrygningarstofn sem nú fer að nálgast landið og hrygna hér í mars og apríl. Og það skaðaði ekki fyrir hæstv. sjútvrh., sem er þaulmenntaður maður, en ekki á þessum sviðum, að hann hefði samráð um það, — samráð er í tísku núna, — að hann hefði samráð um þessi mál við þá menn sem hafa unnið að sjávarútvegsmálum hér í þinginu í fjöldamörg ár. Við vitum auðvitað miklu meira um þetta heldur en hann, og það er ekkert verið að sneiða að honum með því, það er eðlilegt. Þetta hafa aðrir hæstv. ráðh. gert áður.

Hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason, sem er kannske ekki heimsfrægur fyrir að fara varlega að málum, eins og ýmsar deilur sanna, svo maður nefni Blönduós eða eitthvað annað, það er eiginlega sama hvar drepið er niður, hann hefur verið duglegur og ákveðinn maður í sínum störfum og ekkert læðst með veggjum, — hann hafði þann sið, þegar hann var að taka ákvarðanir í ráðuneytinu, setja reglugerðir og gera þessar eða hinar breytingar, að hafa samráð við okkur í sjútvn. Hann hélt fundi með okkur án þess að þessi mál væru hér á dagskrá. Hann bað okkur um að flytja mál fyrir sig o. s. frv., menn úr öllum flokkum, og það gerðum við. Hann hafði gott samband við okkur og samráð. En það hefur hæstv. núv. sjútvrh. ekki gert, það er satt. Þetta eru ekki árásir á ráðh. (GHG: Var ekki haft samband við verkalýðinn?) Er nú Coldwater kominn í gang aftur?

Hæstv. ráðh. sagði einnig að það skipti ekki mestu máli að menn flyttu hér glás af frv., það væri miklu meira virði hver framkvæmdin væri. Ég er alveg hjartanlega sammála hæstv. ráðh. Benedikt Gröndal um það, að aðalatriðið er, hvað kemur út úr þessu, ekki hver aðferðin er og mér liggur við að segja: mér er næstum sama þó að það sé farið fram hjá nefndum eða ráðum í þessum efnum ef útkoman er skynsamleg. Það er númer eitt auðvitað. En það er einkennilegt ef það er orðið aðalatriðið hver framkvæmdin er, en ekki hvernig hún er, og að það eigi að vinna að þessum málum fram hjá þinginu, að það eigi að gera þetta einungis í ráðuneytinu. Er ekki verið að flytja með þessu móti vald Alþingis og hið pólitíska vald yfir til embættismannanna? Margir hv. þm. Alþfl. hafa þó verið að leggja áherslu á að draga úr ofurvaldi hins þunga kerfis og færa ekki embættismönnunum í landinu allt vald í hendur.

Herra forseti. Þá hef ég lokið við að senda mínar diplómatísku nótur til hæstv. utanrrh. og vil þá aðeins minnast á það sem ég heyrði af ræðu hv. þm. Kjartans Ólafssonar. Hv. þm. Kjartan Ólafsson vill gefa Færeyingum loðnu. Hann vill gefa Færeyingum 6 þús. tonn af þorski og þótti ekki mikið, því að tveir togarar af Vestfjörðum, Guðbjörg og Páll Pálsson, eða hvað þeir nú heita, væru ekki lengi að skófla þessu inn tveir og þó meira væri. Þetta væri nú aflinn hjá togurunum. En það er nú svona með fulltrúa alþýðunnar í þessu landi, að þeir eru nú ekki alltaf í mjög beinu sambandi við hinn vinnandi lýð. Samband þeirra hefur oftast verið meira í gegnum pappírinn, margra okkar ágætu alþm., og þeir vita ekki hver er þorskafli togara yfirleitt. Ég get þó upplýst hv. þm. Kjartan Ólafsson um það, þó að nokkrir togarar á Vestfjörðum fiski geysilega mikið — og fjandinn vorkenni þeim það, þeir hafa fiskinn við bæjardyrnar og geta komið með hann að landi hvenær sem þeim sýnist, þegar við hinir þurfum að leita að honum frá Vestmannaeyjum og austur á Vopnafjarðargrunn og þaðan vestur á Hala og hver veit hvað og allt þar á milli, þar sem lítinn þorsk er auðvitað víða að finna, en allir fjórir togarar Vestmanneyinga náðu ekki að fiska 6 þús. tonn af þorski í fyrra samanlagt. Var þó afli þeirra mikil búbót fyrir það pláss, og ég er hræddur um að ef sá þorskur hefði ekki komið þar á land fyrir utan síldina, þá hefði þar verið mjög mikið atvinnuleysi. Allt þetta vil ég gefa þér, segir hv. þm. Kjartan Ólafsson við Færeyinga, og meira til, 11 þús. tonn í viðbót af botnlægum fiski, sem sagt a.m.k. 17 þús. tonn af botnfiskafla. 17 þús. tonn af botnfiskafla skapa ekki aðeins sjómönnum okkar og útgerð tekjur, heldur eru ærið margar vinnustundir á bak við vinnslu á þessum afla ef hann kemur á land í íslenskri höfn, en fer ekki með viðkomu í Færeyjum til Coldwaters og Guðmundar H. Garðarssonar. Það eru ærið margar vinnustundir, og ég efast ekki um að hv. þm. hefur löngum haft mikinn áhuga á að bæta og halda við sem bestum kjörum íslenskrar alþýðu. En eitt af því, sem íslenskt verkafólk við fiskvinnslu verður að hafa, er auðvitað vinna og helst stöðug vinna. En það er nú svo með mörg sjávarþorpin í mínu kjördæmi og raunar víðar og alveg vestur á Snæfellsnes, að þar hefur atvinna verið stopul og tímabundið atvinnuleysi á öllum þessum stöðum vegna hráefnisskorts. Og svo er nú illa komið fyrir okkar dýrmætasta fiski, eins og ég sagði í dag, að nú er lagt til að við veiðum ekki meira en 250 þús. tonn og verðum sem sagt að minnka veiðarnar um næstum 25%. Á sama tíma vilja menn gefa Færeyingum 17 þús. tonn. Mér finnst ekkert samræmi í þessu. Ég verð að segja það. (Gripið fram í.) Hitt er líka fiskur og það er erfitt að ná í hann. Efnahagsbandalagið fær að veiða 25 þús. tonn af ufsa í Færeyjum.

Ég vil aðeins segja það að lokum, að þó að ég hafi ekki verið á skútu hjá Færeyingum, þá hef ég verið til sjós með þeim bæði á togurum og á loðnuskipum og öðrum skipum, og ég álit að ef við eigum að láta nokkra fiska í okkar landhelgi, þá eigum við náttúrlega að horfa fyrst til Færeyinga. Það er mín skoðun. Þeir eiga í vissum erfiðleikum með að endurheimta sína landhelgi, ég viðurkenni það. Það er mjög erfitt mál. En nú stöndum við e.t.v. frammi fyrir því, að viðkomubrestur geti orðið í íslenska þorskstofninum. Það er orðað þannig í skýrslu Hafrannsóknastofnunar, sem ég fékk í dag og er að koma út á næstunni: „Sem betur fer hefur ekki enn orðið viðkomubrestur í íslenska þorskstofninum,“ segja þeir þar, allir okkar færustu sérfræðingar. Þeir meta stöðuna þannig að við séum komnir alveg á rauða strikið í þessu efni. Og það er mín skoðun að við verðum að koma í veg fyrir að aðrir fiski þetta en við, og við verðum líka að koma í veg fyrir að við eyðileggjum þetta sjálfir, því séu Færeyingar grimmir fiskimenn, þá eru Íslendingar næstum því villimenn í fiskiríi, eins og sannaðist af því dæmi sem var tekið áðan, að þeir hefðu eyðilegt hundruð og jafnvel þúsundir tonna af fiski í sumar með því að drepa meira en þeir gátu „étið“, eins og minkurinn. Svona lagað má auðvitað ekki koma fyrir.

Ég er sem sagt þeirrar skoðunar, að ef við höfum afgangsafla, ef við komum hrygningarstofninum vel á fót á nýjan leik, þá eigum við að leyfa Færeyingum að veiða hér. En eins og málin standa nú tel ég að það séu alls ekki efni til þess.