07.02.1979
Efri deild: 54. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2410 í B-deild Alþingistíðinda. (1903)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Í sambandi við það frv., sem hér er til meðferðar, langar mig til að hafa örstuttan formála að því máli sem ég hyggst flytja.

Strax og fyrstu stórvirkjanir hér á landi höfðu komið til framkvæmda, Sogsvirkjunin og Laxárvirkjun, kom fram mikill áhugi hjá mönnum um að rétt væri að vinna að því að dreifa þessum aflgjafa, raforkunni, um allt landið þannig að gefa sem allra flestum landsmönnum kost á að njóta þess hagræðis, sem felst í því að hafa nægilega orku og það að sjálfsögðu með sanngjörnu verði.

Í þessu sambandi má minnast þess, að 1942 báru nokkrir sjálfstæðismenn fram frv. um stofnun raforkusjóðs og var það samþ. Var með þeirri löggjöf lagður grundvöllur að föstum fjárframlögum til raforkumála. Og í framhaldi af þeirri löggjöf voru svo raforkulögin sett árið 1946. Eru þau miðuð við samræmdar aðgerðir ríkis og sveitarfélaga til þess að leiða sem allra fyrst raforku um allt land.

Í framhaldi af þessari lagasetningu er svo stofnað til Rafmagnsveitna ríkisins, sem höfðu það fyrst og fremst að hlutverki að sjá um útvegun og dreifingu rafmagns í dreifbýli landsins. Ég vil minna á í þessu sambandi að það var öllum ljóst þó ekki hafi verið nægilegt tillit tekið til þess, að þarna var um erfiðasta verkefnið að ræða í sambandi við það hlutverk sem Rafmagnsveitum ríkisins var ætlað, sem sé að dreifa rafmagni til afskekktustu héraða landsins, hafa með sölu og annað þess háttar að gera á þeim mörkuðum sem voru hvað lélegastir og ólíklegastir til þess að geta staðið undir miklum fjárfestingarkostnaði. Var það svo, að af hálfu löggjafans voru gerðar þær ráðstafanir að mjög var stillt í hóf ýmsum kostnaði gagnvart neytendum, og bendi ég á að heimtaugagjöld og annað, sem neytendur greiddu, voru ekki nema að litlu leyti miðuð við þær miklu upphæðir sem kostaði að koma þessum veitum á.

Mér þykir hlýða í sambandi við þetta mál að leggja ríka áherslu á að eftir því sem maður kynnir sér þessi mál betur og fer ofan í þau, þá leynist ekki að það er eindræg samstaða hjá löggjafarvaldinu og öllum ráðamönnum þjóðarinnar og öðrum þeim aðilum, sem hafa ákvörðunarvald í þessum málum, að standa svo að þessu mikla verkefni að það megi koma fólkinu, sem bjó og býr í hinum ystu byggðum þessa lands, að sem mestum og skjótustum notum. Um þetta var enginn ágreiningur.

Hér var um gífurlega viðamikið hlutverk og verkefni að ræða sem hlaut eðli málsins samkv. að kosta mjög mikið fé miðað við hvaða tímabil sem maður vill taka mið af. Hins vegar verður maður var við það, þegar maður fer að kynna sér sögu þessa máls, að það virðist ekki hafa verið nægur skilningur á því hjá löggjafanum og ráðamönnum, sem fjölluðu um þessi mál, að sjá til að nauðsynlegt fjármagn væri tryggt til þess að standa undir þessum kostnaðarsömu framkvæmdum. Leið ekki á löngu þangað til þetta gagnmerka fyrirtæki, Rafmagnsveitur ríkisins, sem í almennu máli hefur nú fengið skammstöfunina RARIK, komst í fjárhagsleg vandræði. Og þegar maður fer að kynna sér þessi mál eru þessi fjárhagsvandræði að mörgu leyti skiljanleg. Að fyrirtækinu var þannig staðið, eins og ég hef lýst fyrr í máli mínu, að því var ætlað ákaflega erfitt og kostnaðarsamt hlutskipti, en á hinn bóginn hafði því ekki verið séð á tryggan og öruggan háu fyrir nægilegu fjármagni til þess að eðlilega væri hægt að standa straum af þeim útgjöldum sem þessar framkvæmdir höfðu í för með sér, fyrir utan það, að öllum mátti vera ljóst að markaðurinn, sem þarna var um að ræða, var þess eðlis að engan veginn var hægt að búast við að hann gæti nokkurn tíma staðið undir því að skila því fjármagni aftur til baka sem umræddar framkvæmdir mundu kosta. Það er við þessar aðstæður, þegar fjárhagur Rafmagnsveitna ríkisins er orðinn svo erfiður að fyrirtækið er nánast komið í greiðsluþrot, að farið er að fjalla um þessi málefni á vegum Alþingis og ráðamanna þjóðarinnar og farið að sinna því að reyna að finna þarna einhverja úrlausn.

Okkur er öllum kunnugt um að úrlausnin fannst. Hins vegar deila menn mjög um það, hvort þar hafi verið valin rétt leið. Sú úrlausn, sem var notuð, var að tekin var upp sú venja að leggja svokallað verðjöfnunargjald á alla selda raforku í landinu og nota það fé, sem þannig fékkst, til að jafna með halla Rafmagnsveitna ríkisins. Að mínu mati var þarna farin mjög óheppileg leið. Við álagningu verðjöfnunargjalds er hægt að benda á tvo höfuðókosti: Í fyrsta lagi verður verðjöfnunargjaldið til þess beinlínis að hækka verð á útseldri raforku til þess aðila, sem kaupir hana með óhagstæðasta verði, og í öðru lagi verkar verðjöfnunargjaldið til þess beinlínis að draga úr þeirri hagkvæmni sem náðst hefur hjá þeim raforkuveitum sem tekist hefur með hagsýni og forsjá að byggja upp á þann veg að þeim var kleift að selja neytendum sínum raforku á mjög hóflegu verði.

Ég efast ekki um að þessar raddir munu áreiðanlega hafa komið fram þegar fyrst var hafið máls á því að leysa úr fjárhagsvandræðum Rafmagnsveitna ríkisins á þann hátt sem ég hef verið að lýsa. En um það þýðir ekki að tala nú. Þessi aðferð, að leggja á verðjöfnunargjaldið, varð ofan á og henni hefur verið framfylgt síðan, að ég held báðum aðilum til tjóns, bæði því fyrirtæki, sem átti að bjarga, og eins neytendum.

Úr því að ég er að tala um þau fjárhagsvandræði sem steðjuðu að Rafmagnsveitunum, þá má geta þess að auk þessa erfiða hlutskiptis, sem þeim var í upphafi skapað með því að þurfa að standa fyrir þessum framkvæmdum á óhagstæðum markaði, var einnig brugðið svo við lánsfjárþörf þeirra að Rafmagnsveitur ríkisins, eftir því sem ég hef fengið upplýst, hafa ávallt verið fjármagnaðar á þann allra dýrasta hátt sem þekkist um fjármagn í sambandi við framkvæmdir í þessu landi. Að sjálfsögðu er ekki heldur úr vegi, þegar við erum að ræða þessi mál almennt, að minnast á áhrif söluskattsins, fellur og hefur fallið á lokastig raforkusölunnar allrar í landinu að undanskilinni raforku sem seld er til hitunar.

Ég minnist á söluskattinn vegna þess að ég held að það sé kominn tími til fyrir þing og stjórnvöld að taka til alvarlegrar athugunar allt það frumskógarþykkni sem er orðið í kringum þennan svokallaða söluskatt. Þessi skattstofn er orðinn, að mér skilst, einn af aðalskattstofnum ríkissjóðs, en verkar í mörgum tilfellum mjög til óhagræðis fyrir þá sem eiga að gjalda þennan skatt svo og fyrir ríkið sjálft sem tekur við honum. Í mörgum tilfellum er ég ekki í nokkrum vafa um að söluskattsálagningin sem slík er hreinn bölvaldur í sambandi við verðbólguna. Í þessu sambandi vil ég benda á t.a.m. samskipti ríkissjóðs og sveitarfélaga í sambandi við söluskattinn og öll þau mannár og öll þau störf sem unnin eru á vegum hins opinbera til þess að greiða fyrir gangi þeirra mála sem í mörgum tilfellum gefa hreint núll þegar upp er staðið. Þessar staðreyndir held ég að ættu að vera mönnum hvatning til þess að taka þessi mál öll til mjög gagngerrar endurskoðunar. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ef þessi mál væru skoðuð betur ofan í kjölinn og unnið að því af dugnaði, þá væri hægt að koma við mjög mikilli hagræðingu í þjóðfélagi okkar ríkissjóði og skattgreiðendum — ég tala ekki um sveitarfélögum til gagns.

Ég get ekki, af því að ég er að ræða um söluskatt, annað en skotið því inn til þess að sýna fáránleik slíkrar skattheimtu sem söluskatturinn á mörgum sviðum er, að núna, vegna þess að t.a.m. á höfuðborgarsvæðinu hafa orðið einhver mestu snjóalög sem þekkst hafa síðan menn byrjuðu veðurathuganir — mér er sagt jafnvel á þessari öld, — þá eru allt í einu orðnar stórkostlegur tekjustofn fyrir ríkissjóð söluskattstekjur af snjóruðningstækjum sem eru notuð til þess að hreinsa götur og gangvegi borgarinnar. Þetta verður hvað ljósast af því að það gerist í höfuðborginni, en þetta ástand erum við búin að búa við úti á landsbyggðinni um ótal mörg ár, að óveður og það, sem truflar eðlilega umferð, skuli vera tekjustofn fyrir sameiginlegan sjóð þjóðarinnar, — tekjustofn sem við svo einhvern veginn eftir öðrum krókaleiðum náum aftur úr ríkissjóði. Á þessu vil ég vekja athygli.

Samkvæmt þessu frv., sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, á nú enn að hækka þetta verðjöfnunargjald. Eins og ég hef fyrr tekið fram í máli mínu er það bjargföst skoðun mín, að verðjöfnunargjaldið sem slíkt komi verst niður á þeim sem, eins og ég nefndi áðan, búa við dýrustu orkutaxtana. Um leið eyðir það beinlínis þeirri hagkvæmni sem áunnist hefur hjá þeim sem tekist hefur að reka rafmagnsveitur eða orkuveitur á hagkvæman hátt og þannig útvegar viðskiptamönnum sínum, neytendum, raforku með hagkvæmu verði. Að mínu mati er hrein óráðsía að halda svona áfram.

Við skulum líta á þessi mál af fullu raunsæi og viðurkenna þá staðreynd, að fjárhagsvandræði Rafmagnsveitna ríkisins verða ekki til frambúðar leyst á þennan veg. Ég held að okkur beri að taka þessi mál þeim tökum að mikill þáttur þeirra framkvæmda og þeirrar starfsemi, sem rekin er á vegum Rafmagnsveitna ríkisins, sé samfélagslegar framkvæmdir sem þjóðfélagið í heild eigi að standa undir. Það er vilji okkar allra að jafna aðstöðuna hjá þeim sem búa úti í dreifbýlinu og eiga við erfiðari skilyrði að búa en t.a.m. þeir sem hafa búsetu á þéttbýlissvæðinu.

Ég hef ekki lausnina, hvernig við leysum þetta mál, en í sambandi við þessi orkumál almennt vil ég láta koma fram í framhjáhlaupi, — ég hef nú eiginlega gert það áður, — að ég hef kannske haft nokkra sérstöðu í þeim málum miðað við marga aðra samflokksmenn mína. Ég held að þessi orkumál verði í heild aldrei leyst fyrr en annað tveggja gerist: Annaðhvort verður Landsvirkjun með samruna við Laxárvirkjun færð út, þannig að stofnað verði eitt landsfyrirtæki sem sér um þessi mál, eða þá að stofnað verður á landsvísu fyrirtæki sem hafi algjörlega sambærilega aðstöðu við Landsvirkjun. Ég hef það mikla reynslu í sambandi við orkumál, að ég veit að þó að við viljum stofna landshlutafyrirtæki, sem á margan hátt gætu kannske talist heppileg sem einingar, fá slík fyrirtæki aldrei þá fjárhagslegu fyrirgreiðslu sem t.a.m. Landsvirkjun hefur fengið. Ég hef reynslu af því sem stjórnarmaður í Laxárvirkjunarstjórn. Ég hef reynslu af því sem nefndarmaður í nefnd sem hefur unnið að orkumannvirki sem beinlínis var ákveðið af ríkisstj. og var ákveðið í stjórnarsamningi að skyldi komið á. Þessi mál verða ekki leyst nema með mjög víðtæku fyrirtæki sem spennir yfir stórt svið.

Herra forseti. Ég skal svo ekki lengja mál mitt frekar að þessu sinni. Ég get ómögulega fylgt ákvæðum þessa frv. um að hækka núverandi verðjöfnunargjald. Ég er í hjarta mínu algjörlega á móti því og tel að það nái ekki tilætluðum árangri, árangur af því verði neikvæður. Hins vegar vil ég gefa þá yfirlýsingu, að ég skal heils hugar stuðla að því og vera þátttakandi í því, að þessi mál öll verði tekin til uppstokkunar til þess að greiða úr þeim miklu vandræðum og vanda, sem ég veit að Rafmagnsveitur ríkisins eiga við að etja, og reyna að ná þeim árangri, sem við erum allir sammála um að í höfuðatriðum eigi að vera þannig að raforkan hjá þjóðinni, a.m.k. í heildsölu, sé á sama verði á helstu afhendingarstöðum. Til þess að svo megi verða þarf mikla skipulagsbreytingu. En ef góður vilji og samstaða fæst til þess að vinna á þann veg að þessum málum er ég ekki í nokkrum vafa um að hægt er að leysa þetta mikla vandamál á þann veg að allir geti vel við unað.