07.02.1979
Efri deild: 54. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2422 í B-deild Alþingistíðinda. (1907)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa stuðningi mínum við það frv. sem hér liggur fyrir, þar sem það stuðlar að vissu marki að verðjöfnun á raforku til heimilisnota, þó að á því séu augljósir gallar, eins og margoft hefur verið rætt um. Ég vil vekja athygli á því, að eins og nú er háttað í fjármálum er brýn nauðsyn að RARIK og Orkubú Vestfjarða fái þessar tekjur nú og það verði ekki skilist við þetta mál þannig á Alþ. að það fái ekki afgreiðslu.

Ég vil leggja áherslu á brýna nauðsyn þess, að ráðstafanir verði gerðar til að jafna þann óviðunandi mismun á raforkuverði í landinu sem er nú að skapa vissa hættu á byggðaröskun til tjóns fyrir alla, ef ekki hillir undir úrbætur. Þær ráðstafanir, sem þetta frv. felur í sér, jafna þennan aðstöðumun að litlu leyti, en eru þó viðleitni í rétta átt og hamla gegn frekari hækkunum, og þetta er það form sem áður hefur tíðkast. Hins vegar get ég fallist á þau rök, að e.t.v. sé réttara að leysa fjárhagsvanda RARIK á annan hátt. Það þarf að skoða með framtíðarlausn í huga og er hlutverk Alþingis.

Ég minni á eitt mikilsvert atriði í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna sem fram kemur í aths. með þessu lagafrv., að mörkuð verði ný stefna í orkumálum með það að markmiði að tryggja öllum landsmönnum næga og örugga raforku á sambærilegu verði. Við dreifbýlisfólk bindum miklar vonir við þetta atriði. Framsfl. hefur barist fyrir þessu máli, og vil ég vísa um það til þáltill. þm. flokksins frá síðasta þingi um skipulag orkumála sem undirstrikar stefnu flokksins. En þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar, að stefnt skuli að jöfnun orkukostnaðar um land allt. Í því skyni skal lögð áhersla á að tengja saman raforkukerfi einstakra landshluta og tryggja þannig sem hagkvæmastar framkvæmdir og rekstur með samkeyrslu allra orkuvera og dreifikerfa. Í þessum tilgangi skal stefnt að eftirgreindu skipulagi orkumála:

1. Unnið verði að því að koma á fót einu fyrirtæki, sem annist alla meginraforkuvinnslu og flutning raforku á milli landshluta. Ríkisstj. taki í þessu skyni upp samninga við Landsvirkjun, Laxárvirkjun, Andakílsárvirkjun, Rafveitu Vestmannaeyja, Rafveitu Siglufjarðar og aðrar rafveitur, sem eiga og reka orkuver, um sameiningu slíks rekstrar í einni landsveitu. Aðilar að þessu fyrirtæki og stjórn þess verði ríkissjóður og landshlutaveitur. Eignarhluti ríkissjóðs skal aldrei vera minni en 50%. Fyrirtækið undirbýr virkjanir og lætur virkja.

2. Unnið verði að því að koma á fót landshlutaveitum, sem annist alla dreifingu og sölu á raforku í viðkomandi landshluta. Landshlutaveitur þessar geti einnig annast rekstur hitaveitna. Þær sjái um framkvæmdir sem nauðsynlegar eru vegna viðkomandi rekstrar. Aðilar að slíkum landshlutaveitum og stjórnum þeirra verði sveitarfélögin og landsveitan.

3. Orkustofnun verði ríkisstj. til ráðuneytis um orkumál og annist upplýsingasöfnun hvers konar um orkulindir þjóðarinnar, geri áætlanir um nýtingu þeirra og annist frumrannsóknir fyrir virkjanir. Orkustofnun veiti landsveitunni og landshlutaveitum nauðsynlega þjónustu.“

Ég vænti þess að núv. hæstv. ríkisstj. dragi ekki lengi að leggja fram stjfrv. um þetta mál sem verði í samræmi við stefnu okkar framsóknarmanna. Raunar hefur hæstv. orkumrh. lýst því yfir hér á Alþ. að slíkt frv. sé á lokastigi.

Ég get ekki stillt mig um að vekja athygli á málflutningi hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur um þetta mál í hv. d. í gær, þar sem hún andmælti þessu frv. harðlega. Sagði hv. þm. m.a. að það væri mikið óréttlæti að byggðarlag, er býr við góða aðstöðu, væri látið greiða til annars byggðarlags, er býr við lakari aðstöðu. Mín skoðun er sú, að þessi túlkun sé bæði röng og hættuleg. Við Íslendingar erum fámenn þjóð í stóru og um margt erfiðu landi. Velferð okkar byggist á því, að byggð sé sem víðast í landinu framleiðsla, bæði til innanlandsþarfa og útflutnings, fari fram sem víðast, þar sem hagkvæmt er, og að samstarf og samvinna milli þéttbýlis og strjálbýlis séu víðtæk og traust, allir íbúar landsins njóti sömu réttinda sem nútímaþjóðfélag á að gefa þegnum sínum á öllum sviðum. Til þess að svo megi verða byggjum við upp lýðræðisskipulag okkar og m.a. sitjum hér á Alþ. til að setja lög er tryggi þetta jafnræði, þessi sjálfsögðu mannréttindi þegnanna. Um þetta ættu allir að vera sammála.

Ég vil benda hv. alþm. Ragnhildi Helgadóttur og öðrum skoðanabræðrum hennar á þá staðreynd, að enn er langt í land að við íbúar þessa lands búum við sambærilega aðstöðu hvar sem við búum í landi okkar. Ég minni á hinn mikla mun á raforkuverði, upphitunarkostnaði, símkostnaði, flutningskostnaði á nauðsynjum, þar sem getur munað allt að 12–20 kr. á einu sykurkg úti um land eða hér í Reykjavík. Ég minni á öryggisleysi í samgöngum, lélegt vegakerfi. Ég þarf t.d. að endurnýja bifreið á tveggja eða þriggja ára fresti þegar þm. hér í Reykjavík þurfa ekki að endurnýja hana nema á 8–10 ára fresti.

Hv. þm. minntist einnig á byggingarkostnaðinn. En ég vil minna á að byggingarkostnaður úti um land er miklum mun hærri en á Reykjavíkursvæðinu, m.a. vegna þeirrar aðstöðu sem ég minntist á áðan. Þar við bætist að endursala slíkra íbúða er mun lægri úti um land en á Reykjavíkursvæðinu vegna hins óhagstæða aðstöðumunar til búsetu sem ég hef áður minnst á.

Hvað segðu hv. þm. Reykjavíkursvæðisins ef byggðarlögin úti um landið, sem framleiða meiri hluta af útflutningsvörum þjóðarinnar, sem getur numið frá 2 til 3 millj. kr. á hvern íbúa, gerðu þá kröfu að ráðstafa stórum hluta gjaldeyristekna, sem þeir afla, að eigin geðþótta til sérþarfa byggðarlaganna og láta önnur byggðarlög, er ekki afla gjaldeyris, greiða sérstaklega fyrir að fá að nota gjaldeyrinn? Í umr. sem þessum hefur þetta sjónarmið oft heyrst. En ég endurtek að við eigum ekki að tala svona. Við erum öll á sama báti í litlu þjóðfélagi. Við eigum að styðja hvert annað, hvort sem við búum í þéttbýli eða strjálbýli, og stefna markvisst að því, að þjóðin hafi góð og sem jöfnust lífskjör hvar sem hún býr í landinu. Þá mun okkur vel farnast.