07.02.1979
Neðri deild: 49. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2441 í B-deild Alþingistíðinda. (1918)

69. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins koma að örfáum aths. vegna ræðu hv. frsm.

Í fyrsta lagi gerði hv. þm. aths. við það sem ég sagði um þann samanburð sem kemur fram í töflu 2 á útflutningsbótum og framfærsluvísitölu. Ég taldi þann samanburð vera óeðlilegan vegna þess að þar væri um gagnverkandi þætti að ræða, og e.t.v. skýri ég þetta eins og hann með dæmi. Við gætum t.d. hugsað okkur að heimild væri til þess í lögum að ná verði á sauðfjárafurðum með verðlagningu innanlands. Þá þyrfti að hækka verð innanlands, reiknast mér til í mjög fljótu bragði, á kjöti um u.þ.b. 400 kr. Það mundi að sjálfsögðu hækka framfærsluvísitölu, en þá yrðu útflutningsbætur engar. Þetta er það sem ég átti við. Þetta er gagnverkandi. Reynt er að hafa áhrif á framfærsluvísitölu með því að halda verðinu innanlands niðri. Því er í lögum óheimilað að ná þessum tekjum bænda með því að hækka verð innanlands. En þetta ákvæði laganna verður til þess, að framfærsluvísitalan verður lægri en útflutningsbætur hærri. Það er þetta sem ég átti við. Ef menn vilja reikna þetta sem greiðslubyrði ríkissjóðs, þá er ekki óeðlilegt að hafa þann samanburð sem ég hafði, þ.e.a.s. sem hundraðshluta af útgjöldum ríkissjóðs. E.t.v. væri réttast að reikna þetta sem hlutfall af þjóðartekjum. Ég er ekki með þann samanburð. En þá kæmi út greiðslubyrði sem hlutfall að sjálfsögðu af tekjum þjóðarinnar í heild. Ég hugsa að sá samanburður yrði töluvert annar en fram kemur í töflunni. Rétt er vitanlega svo hitt, og það fer eftir því hverju menn eru að leita að, eins og hv. ræðumaður sagði. Hann er að leita þarna að hárri hundraðstölu, heyrist mér, og notar því þennan samanburð. Ég tel að sú gagnverkun, sem þarna er svo mikil á milli, geri þennan samanburð ákaflega óeðlilegan. Ég er út af fyrir sig alls ekki að vefengja að tölulega sé það rétt sem kemur fram í töflunni. Ég vil ekki nota orð eins og hann notaði um það sem ég sagði, að þetta væri mesta fásinna eða eitthvað þess háttar. Þetta er, eins og hann sagði sjálfur, allt undir því komið að hverju menn eru að leita.

Hv. ræðumaður notaði töluna 30 milljarða sem stuðning við landbúnaðinn. Ég hef oft leitast við að leiðrétta þetta. Þetta er mjög óeðlileg fullyrðing. Niðurgreiðslur eru alls ekki stuðningur við landbúnaðinn nema að litlum hluta. Rétt er að við það að greiða niður landbúnaðarafurðir verður að gera ráð fyrir að neysla innanlands aukist, og að því leyti má líta á það sem stuðning við landbúnaðinn. En þetta er að sjálfsögðu ekki síður viðleitni ríkisvaldsins til að halda vísitölunni niðri. Þetta er — get ég tekið undir með mörgum — nokkur skollaleikur að þessu leyti, og því hef ég persónulega lengi verið fylgjandi því að taka óbeina skatta og niðurgreiðslur út úr vísitölunni og binda þá niðurgreiðslurnar við hæfilegt stig framleiðslukostnaðar. Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm., og reyndar hefur oft verið talað um áður, að eðlilegt er að niðurgreiðslur lækki ekki verð til neytenda umfram það sem það er til bænda. Þarna er ekki um ósk bænda að ræða, að niðurgreiðslur eru nú orðnar svo miklar sem raun ber vitni. Þarna er um allt aðrar ástæður að ræða sem hv. þm. þekkir vel. Ef hann er að tala um aðstoð við landbúnaðinn, þá eru þetta mjög óeðlileg viðmiðun, þessir 30 milljarðar, og jafnframt, þegar talað er um aðstoð við landbúnaðinn, verða menn að hafa það í huga, að bæði styrkir og útflutningsbætur eru fyrst og fremst viðleitni ríkisins eða ríkissjóðs til að ná þeim viðmiðunartekjum sem lagðar hafa verið til grundvallar. Allt kemur þetta inn í verðgrundvöll landbúnaðarafurða og kemur þannig til frádráttar í tekjum bænda, getum við sagt, eða þeim tekjum sem bændur yrðu annars að leita eftir á hinum almenna markaði.

Hv. síðasti ræðumaður hefur þegar rakið ítarlega þá viðleitni sem gerð var 1972 til að fá auknar heimildir Framleiðsluráðs til að hafa áhrif á þá þróun sem mönnum var ljós þá,-miklu, miklu fleiri mönnum en hv: þm. Alþfl., og satt að seg ja fannst mér heldur lítið bera á þeim skilningi hv. þm. þá, en hann er mjög mikið hafður frammi nú. Ég leyfi mér að fullyrða, að ef þær heimildir hefðu fengist, sem leitað var eftir 1972, væri vandinn núna allt annar. En ekki þýðir að syrgja það. Við þurfum fyrst og fremst að sameinast um að snúa við þeirri þróun sem orðið hefur undanfarin ár og á sínar skýringar, — það tek ég undir með hv, þm., — á sínar skýringar m.a. í því, að hér var iðulega skortur á fyrri árum, einkum á mjólkurafurðum, og því er eðlileg sú viðleitni sem fram kemur í mörgum lögum: afurðasölulögum, framleiðsluráðslögum o.s.frv., til að auka framleiðsluna.

Vandinn í dag er hins vegar ákaflega stór. Í dag vantar líklega um 5 milljarða til þess að bændur nái þeim tekjum, sem þeim eru ætlaðar samkv. lögum og reyndar ákvörðun sexmannanefndar í verðlagningu. Þetta þýðir líklega um 1.2–1.3 millj. tekjuskerðingu á hvern bónda í landinu. Þetta er gífurlegt vandamál sem ég treysti að þm. allir muni vilja skoða af raunsæi og reyna að leysa. Frv., sem hér liggur fyrir, leysir á engan hátt þennan vanda. Ef mér reiknast rétt í mjög fljótu bragði, þá mætti samkv. þessu frv., og þá miða ég við 18% útflutningsbætur af sauðfjárafurðum, greiða um 3.6 milljarða útflutningsbætur af sauðfjárafurðum og 2 milljarða af mjólkurafurðum, sem samtals nemur um 5.6 milljörðum. Það er að vísu mjög lauslega reiknað, og það er eitthvað svipuð tala og 10% koma líklega til með að gera, þannig að þetta leysir ekki vandann og eykur hann ekki heldur eins og nú er. Hins vegar ef leysa á þennan vanda nú, þá yrði að auka þessa aðstoð verulega.

Spurningin er sú, hvort marka megi þá stefnu sem dragi úr umframframleiðslu landbúnaðarafurða á nokkurra ára tímabili, t.d. á 5 árum, og með tilliti til þeirrar viðleitni hlaupa betur undir bagga nú í ár en heimildir eru til. Í þeirri langtímaáætlun, sem nú er unnið að í landbúnaðinum, mun sá möguleiki verða skoðaður, og það er vitanlega þáttur í þeirri heildarstefnumörkun, sem ég hef verið að tala um. Um þá stefnumörkun hafa þegar verið allmiklir fundir, m.a. með fulltrúum bænda og stofnana sem með afurðir bænda fara og með fulltrúum neytenda. Ég mun fljótlega leita eftir fundum með fulltrúum þingflokkanna um þetta stóra vandamál.

Ég endurtek svo að lokum það sem ég sagði áður, að þetta frv. eitt út af fyrir sig leysir á engan hátt þennan vanda, en getur aukið á hann, ef það er afgreitt sérstaklega. Það verður að skoðast í heildarsamhengi, og ég treysti því, að sú n., sem fær þetta frv. til meðferðar, fallist á slíka meðferð. Ég treysti því jafnframt, ekki síst með tilliti til yfirlýsinga frá hv. 1. flm. frv., að hann fallist á slíka meðferð þessa máls og taki þátt í að athuga heildarvandamál landbúnaðarins.