07.02.1979
Neðri deild: 49. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2446 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

73. mál, samvinnufélög

Flm. (Finnur Torfi Stefánsson):

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur ör þróun átt sér stað til lýðræðis í atvinnulífi hjá ýmsum þeim nágrannaþjóðum sem mestum þroska hafa náð um lýðræðislega stjórnarhætti. Hér á landi hefur lítið áunnist í þessum efnum og mikið verk er þar óunnið. Eitt form lýðræðis í atvinnulífi hefur þó náð mikilli útbreiðslu hérlendis og gefið góða raun, þar sem er samvinnurekstur. Það er þess vegna mikilvægt, jafnframt því sem nýjar leiðir til atvinnulýðræðis eru ruddar, að hagnýta þá möguleika, sem samvinnuhreyfingin býður, og gæta þess, að hún haldi lýðræðislegum einkennum sínum.

Á umliðnum árum hefur samvinnuhreyfingin iðulega verið þrætuepli á Íslandi og ýmiss konar gagnrýni verið beint að henni. M.a. hafa menn stundum haldið því fram, að samvinnuhreyfingin væri auðhringur sem jafnvel ógnaði stjórnvöldum með þeim miklu áhrifum sem hún hefur í efnahagslífinu, og ýmis önnur gagnrýni hefur beinst að þessari hreyfingu. Nú er það svo, að hættan af auðhringum er auðvitað fyrir hendi. En auðvitað skiptir mjög miklu máli hver er uppbygging þessara stórfyrirtækja sem menn kalla gjarnan auðhringa. Það er mjög mikill munur á því, hvort um er að tefla stórfyrirtæki sem eru á valdi örfárra einstaklinga, þar sem er fámenn stjórn ríkjandi, eða hvort um er að tefla stórfyrirtæki þar sem valdinu er dreift milli margra manna og byggt er á félagslegum grundvelli. Og þannig verður auðvitað að líta á samvinnuhreyfinguna. Hún er lögum samkv. byggð á samtökum fólks í landinu með fjölmörgum félagsmönnum og gera má ráð fyrir að lýðræðið sé haft í heiðri. Þetta verður auðvitað að skoða þegar menn eru að ræða um það, hvort Sambandið eða samvinnuhreyfingin teljist til auðhringa.

Sú löggjöf, sem nú gildir um samvinnustarfsemi, miðast fyrst og fremst við að skipa málum í samvinnufélögunum sjálfum og tryggja félögum þar lýðræðisleg réttindi. Hins vegar eru ákvæði laganna um samband samvinnufélaga fátækleg. Lögin draga í þessu dám af sínum tíma, þar sem umsvif samvinnuhreyfingarinnar voru þá mest hjá samvinnufélögunum sjálfum. Á seinni tímum hefur orðið á þessu mikil breyting, þar sem umsvif Sambands ísl. samvinnufélaga hafa vaxið mjög ört og eru nú mun meiri en umsvif aðildarfélaganna. Samband ísl. samvinnufélaga er, eins og öllum er kunnugt, stórveldi í íslensku efnahagslífi sem kemur með myndarlegum hætti inn á öll svið íslensks athafnalífs og hefur mikla þýðingu í efnahagslífi þjóðarinnar. Og ekki er einungis um að tefla í þessu hinn eiginlega rekstur Sambandsins, heldur á Sambandið ein 13 dótturfyrirtæki sem flest eru hlutafélög að vísu. Þetta eru hin svokölluðu samstarfsfyrirtæki. Sum þeirra eru mjög stór og áhrifamikil.

Núgildandi lög um samvinnufélög eru við þessar breyttu aðstæður orðin mjög ófullnægjandi. Það, sem einkum skortir á, er að almennum félagsmönnum séu tryggð nægileg áhrif á stjórn Sambandsins og samstarfsfyrirtækjanna, en það er þó óumdeilanlegur réttur þeirra. Skal þetta skýrt með því að taka dæmi af réttindastöðu félagsmanns í venjulegu deildskiptu kaupfélagi. Félagsmaðurinn neytir félagsréttinda sinna á deildarfundi þar sem kosnir eru fulltrúar til setu á aðalfundi kaupfélagsins. Á aðalfundi kaupfélagsins eru kosnir aðrir fulltrúar sem fara á aðalfund Sambandsins. Á aðalfundi Sambandsins er stjórn Sambandsins kosin og hún ræður síðan forstjóra og framkvæmdastjóra og skipar framkvæmdastjórn. Þessir aðilar munu síðan skipa í stjórnir samstarfsfyrirtækjanna. Það sést ljóslega af þessari upptalningu, að milliliðir eru mjög margir milli hins óbreytta félagsmanns og hinna æðstu stjórnenda og nánast ómögulegt fyrir félagsmanninn að koma þar fram áhrifum og ábyrgð. Þessu er mjög mikilvægt að breyta, og þess vegna er gerð í frv., sem hér er til umr., till. um að teknar verði upp beinar kosningar í stjórn Sambandsins. Með því móti er komið á beinum ábyrgðartengslum milli félagsmanna og stjórnarinnar og lýðræði þar með stóraukið.

Rökin fyrir þessari breytingu eru í fyrsta lagi þau, að það virðist vera brýn þörf á að auka lýðræði í hreyfingunni, enda er því ábótavant, eins og ég hef gert grein fyrir. Bæta þarf tengsl milli hinna almennu félaga og stjórnarinnar, því að það er auðvitað ljóst að Sambandið er eign félagsmanna og eignarréttur þeirra er lítils virði ef þeir geta ekki haft veruleg áhrif á það, hvernig farið er með þessi eignarréttindi þeirra.

Þá er það önnur sterk röksemd með breytingu af þessu tagi, að samvinnufélögin liða fyrir það eins og margur annar félagsskapur í landinu að það skortir mjög á nægilegan áhuga félaganna á því að taka þátt í félagsstarfinu. Menn kalla þetta félagsdoða og er alkunnugt fyrirbrigði. Ég er sannfærður um að með breytingu af þessu tagi, ef yrðu teknar upp slíkar beinar kosningar, þá mundu þær geta verkað mjög í þá átt að lækna þennan félagsdoða, því að áhuginn kemur gjarnan þegar áhrifin aukast og völdin. En ekki þarf að óttast að þessi breyting skerði um of virkni æðstu stjórnenda Sambandsins, þar sem framkvæmdastjórnin, sem langmesta þýðingu hefur fyrir daglega stjórn, er eftir sem áður skipuð af stjórninni.

Það hefur verið vandamál í samvinnuhreyfingunni um nokkurt skeið, eins og ég hef þegar getið, að virkni almennra félagsmanna er í lágmarki. Þessi breyting mundi geta bætt hér verulega úr og samvinnuhreyfingunni verið það mjög til góðs. Og það má geta þess líka, að ef þessi breyting nær fram að ganga, þá hefur Samband ísl. samvinnufélaga skapað sér alveg einstaka sérstöðu meðal allra íslenskra fyrirtækja um lýðræðislega uppbyggingu og þróað atvinnulýðræði. Þess vegna held ég að það væri mjög verðugt fyrir samvinnuhreyfinguna, að þetta kæmist í gegn, og henni mjög til sóma.

1. gr. frv. hljóðar svo með leyfi forseta: „1. mgr. 32. gr. laganna orðist svo:

Sambandsstjórn skal kosin árlega beinni, leynilegri kosningu, sem fer fram samtímis í öllum aðildarfélögum í samvinnusambandi. Kosningarrétt og kjörgengi eiga allir félagsmenn. Eigi færri en 3 menn skulu vera í sambandsstjórn“ o.s.frv.

Brtt. er fólgin í þessum setningum sem ég hef nú lesið, og eins og þar kemur fram er þarna gerð till. um árlegar beinar, leynilegar kosningar, sem fara fram samtímis í öllum aðildarfélögum í samvinnusambandi, enn fremur, að kosningarrétt og kjörgengi eiga allir félagsmenn. Hér er ekki gerð till. nánar um það, með hvaða hætti þessi kosning fer fram. Mér virðist langeðlilegast, að aðalfundur Sambandsins setji nánari reglur um þetta. En ég gæti mjög vel hugsað mér sjálfur, að kosningin yrði framkvæmd einhvern veginn á þann hátt, að haldnir yrðu venjulegir kjörfundir í öllum aðildarfélögunum, þar sem allir félagsmenn komi á kjörstað. Fyrir kjördag mundu þeir, sem hug hefðu á að bjóða sig fram, gefa um það yfirlýsingar, þannig að það lægi fyrir hverjir væru frambjóðendur, og síðan færi þessi kosning fram með venjulegum hætti.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta miklu frekar. Í eðli sínu er málið einfalt og þarfnast ekki mikilla skýringa. Ég held að það sé mjög þarft og brýnt að gera lagabreytingu af þessu tagi, og ég er sannfærður um að það yrði samvinnuhreyfingunni til góðs. Ég ætla að ítreka það, því að það kann að koma fram hjá einhverjum að þetta þyki einhver atlaga að samvinnuhreyfingunni, þetta sé gert henni til hnjóðs, að svo er alls ekki. Þetta er gert af góðum hug, enda hef ég sjálfur mikið álit á þessari hreyfingu og tel hana hafa þýðingarmiklu hlutverki að gegna í okkar þjóðfélagi. En menn mega ekki láta það fara svo, jafnvel þótt þeir telji sig samvinnumenn, að þeir verði blindir fyrir umbótum. Einmitt samvinnumenn hafa miklu ríkari skyldur en allir aðrir til þess að halda vöku sinni og reyna jafnan að gera þær umbætur og koma fram þeim bótum, sem þeir telja nauðsynlegar, jafnskjótt og þeir sjá þess þörf.