08.02.1979
Sameinað þing: 49. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2455 í B-deild Alþingistíðinda. (1928)

36. mál, fisklöndun til fiskvinnslustöðva

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Ég vil lýsa mig mjög sammála efni þeirrar þáltill. sem hér er til umr.

Á sínum tíma, þegar skipulagi var komið á loðnulöndun, þótti mörgum það mjög fráleitt, töluðu um frelsissviptingu og ég veit ekki hvað og hvað og höfðu mjög stór og mörg orð um það. Nú þykir öllum þetta sjálfsagt, og þó að þessar reglur hafi verið hertar eftir hendinni eru allir sammála um þær í öllum höfuðatriðum.

Sams konar fyrirkomulagi eða svipuðu þyrftum við að koma á um löndun annars fisks. Mér finnst satt að segja með öllu fráleitt að sum byggðarlög þurfi að flytja inn tugi, ef ekki hundruð af stúlkum frá Ástralíu til þess að vinna úr fiski sem þar berst á land, á meðan jaðrar e.t.v. við atvinnuleysi í næstu byggðarlögum. Þetta finnst mér með öllu fráleitt, auk þess, eins og hér hefur komið fram, að heilir landshlutar eru í svelti.

Það er ekki hægt að kaupa fiskiskip fyrir alla sem það vilja, vegna þess að fiskstofnar þola það ekki. Þess vegna held ég að þetta sé það sem koma skal, a.m.k. nú fyrst um sinn. Ég styð sem sagt mjög efni þeirrar þáltill. sem hér er til umr.