08.02.1979
Sameinað þing: 49. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2455 í B-deild Alþingistíðinda. (1929)

36. mál, fisklöndun til fiskvinnslustöðva

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég held að hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson þurfi að lesa betur til um þessi mál áður en hann varpar fram slíkri fullyrðingu sem hann gerði áðan um uppbyggingu fiskiskipaflotans og dreifingu hans um landið.

Ég vil lýsa stuðningi við þáltill., sem hér er til umr. Hér er hreyft mikilvægu máli fyrir íslenskan sjávarútveg. En ég vil leggja alveg sérstaka áherslu á það atriði, sem kom fram í framsögu hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, að það sé haft mjög náið og gott samstarf og samráð við hagsmunaaðila í sjávarútvegi um þetta mál: útgerðaraðila, fiskverkendur og ekki síður byggðarlögin og samtök sveitarfélaga í landinu sem þetta mál hlýtur að snerta mjög alvarlega. Á þetta atriði vil ég leggja mikla áherslu.

Málið í heild þarf mikla skoðun. Ég vil láta það koma fram hér, til þess að undirstrika að eitthvað hefur verið gert í þessum málum, að víða um landið hefur tekist samvinna og samstarf um miðlun afla milli fiskvinnslustöðva, og er það mjög til fyrirmyndar og gefur vísbendingu um að þetta er hægt.

En þetta mál tengist miklu vandamáli sem blasir nú við þjóðinni. Það er álit okkar ágætu fiskifræðinga að minnka verði stórlega sókn í þorskstofninn. Það er ljóst að taka verður alvarlega þessa skýrslu og menn þurfa að taka höndum saman til að finna skynsamleg úrræði svo að ekki verði atvinnuleysi og mikill samdráttur í fiskiðnaði okkar, en fiskiðnaðurinn á Íslandi er okkur stóriðja og um leið undirstöðuatvinnuvegur. Við verðum því að gera allt sem mögulegt er til að efla hann, ekki aðeins til frumvinnslu hráefnis, heldur til fullkominnar matvælaframleiðslu. Skipulag í þessum málum er brýn nauðsyn sem varðar alla hluta lands okkar. Þess vegna styð ég þessa þáltill. sem spor í rétta átt.