08.02.1979
Sameinað þing: 49. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2464 í B-deild Alþingistíðinda. (1934)

36. mál, fisklöndun til fiskvinnslustöðva

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér er til umr., vekur athygli á mjög merku máli, sem er bætt skipulag á fisklöndun til fiskvinnslustöðva til að tryggja sem jafnasta vinnslu samhliða góðri nýtingu fiskveiðiflotans.

Það er ekkert vafamál og þarf varla að rökstyðja það, að góð nýting hráefnis og góð nýting fjárfestingar í sjávarútvegi er undirstaða undir þessum blómlega atvinnuvegi. Það eru mörg góð atriði í þessari þáltill. En hugmynd hv. flm. er að sett verði löggjöf um skipulag á fisklöndun. Mér er til efs að löggjöf um skipulagningu löndunar á ákveðnum löndunarsvæðum sé rétta leiðin til bætts skipulags.

Ég skil þessa þáltill. þannig, að átt sé við að fiskiskip landi sem áður í sínum heimahöfnum og síðan yrði fiskurinn fluttur á milli í kælibílum. Það er ekkert nema gott um þetta að segja. En eins og hér hefur reyndar verið drepið á er þetta fyrirkomulag víða fyrir hendi. Það er hins vegar staðreynd, að þeim fyrirtækjum í íslenskum sjávarútvegi vegnar best þar sem útgerð og vinnsla er á einni hendi. Það er ekki hægt að ná neinum viðunandi árangri í fiskvinnslu, ef útgerðin er ekki löguð að þörfum fiskvinnslunnar og þá aðallega með löndunardagana í huga.

Það eru mörg dæmi til um það hérlendis, þar sem vinnsla og útgerð eru mjög vel samantvinnaðar, að góður árangur hefur náðst. Þó er það engan veginn skilyrði að þetta sé á einni hendi eignalega séð, heldur einungis að um mjög góða samvinnu er að ræða. Dæmi um þetta eru Vestfirðir, Útgerðarfélag Akureyringa, Austfirðir, að hluta Norðurland, en einungis lítill hluti af Suðvesturlandi.

Vandamálið, sem þessi þáltill. fjallar um, finnst mér vera skýrt afmarkað í grg., þar sem segir, ef mætti vitna í það, með leyfi hæstv. forseta:

„Og enn má finna þess mörg dæmi, að í sömu útgerðarstöð sé ástandið þannig, að um allt of mikinn afla sé að ræða í einni vinnslustöðinni, þegar hráefni vantar í aðra, eða allt of mikill afli berist á land í einu byggðarlagi á sama tíma og nálægt byggðarlag skortir hráefni til vinnslu.“

Þetta vandamál er víða leyst með samvinnu fiskvinnslustöðva. Þetta á einkum við um fiskvinnslustöðvar sem verða að skipta hráefni sínu til að hafa jafna vinnslu. Mig tangar til að taka hér dæmi um Reykjavík, sem er mjög háþróuð á þessu sviði. Reykjavík er stærsti togaraútgerðarstaður landsins og þar er mjög náin samvinna á milli fiskvinnslustöðvanna. Hafnarfjörður og Grindavík með sína togara eru líka inni í þessum stóra skiptimarkaði sem verkar mjög vel án nokkurrar íhlutunar. Það er eiginlega sama hvaða skip er inni, menn ganga í það og skipta síðan þegar þeirra eigin skip koma inn, þannig að hér hefur tekist að skapa nokkuð jafna vinnslu.

Aftur á móti dæmi um það, þar sem ekki hefur tekist samvinna um skiptifisk þó að skilyrði séu fyrir hendi, eru Suðurnesin, enda er þar mjög bágborin afkoma fiskvinnslustöðva. Með aukinni samvinnu fiskvinnslustöðva er hægt að ná mestum árangri í skipulagningu fiskvinnslunnar. Ef frystihúsamenn sjá ekki kosti slíkra samvinnu, og þeir eru til sem sjá þá ekki, þá er ólíklegt að löggjöf breyti þar nokkru um.

Ég vil víkja hér að nokkrum ummælum, sem hafa komið fram í þessari umr., og vekja sérstaklega athygli á einu atriði, sem hv. þm. Stefán Jónsson nefndi, að miða afkastagetuna e.t.v. hvorki við fiskiskip eða fiskvinnslu, heldur við fólkið. Það er einmitt þetta atriði sem hefur brugðist á undanförnum árum, eins og við sjáum, að í einstökum byggðarlögum verður að flytja inn fólk til fiskvinnslunnar. Þetta eru atriði sem hefur ekki verið tekið tillit til í upphafi, þegar fjárfestingin var ákveðin. Að vísu er þetta oft erfitt vandamál, því að það er á mörgum stöðum þannig að einn togari er of lítið, en tveir togarar of mikið það þyrfti þá að vera 11/2 togari. Þetta er náttúrlega leyst á þeim stöðum þar sem samgöngur eru sæmilegar og menn ná samkomulagi um það. Því miður er þetta víða ekki gert þó að menn hafi skilyrði til að vinna sameiginlega úr tveimur togurum. Það er eins og menn veigri sér við að skipta á fiski. Ég þekki sjálfur fjölmörg dæmi um það, að mönnum finnst fiskurinn, sem þeir láta, vera miklu betri en fiskurinn, sem þeir fá. Þetta er vandamál sem menn ættu þó að hafa skilning á að leysa.

Eitt atriði er bara lauslega drepið á í þessari þáltill. Ég var því miður ekki við þegar hv. 1. þm. Austurl. flutti framsögu sína, en það er nokkuð opið í þessari þáttill., hvort átt sé við að togarar landi ekki í sinni heimahöfn. Ég satt að segja veit ekki hvort eigi að skilja þessa þáltill. þannig, ég geri það ekki. Mér skilst af umr. að þetta sé nú opið. Ég held að þetta yrði mjög erfitt í framkvæmd, að láta togara landa að ráði annars staðar en í sinni heimahöfn. Það hefur ekki lánast. Það var nefnt dæmi um Dagnýju, og væri fróðlegt að fá að vita af hverju það er, að þetta samkomulag hefur ekki haldist. Það getur verið, — mig grunar það, en ég veit það ekki, — það getur legið í því vandamáli sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson nefndi, að menn hafi ekki getað greitt fyrir aflann. Það er vandamál sem ég get staðfest að er víða til. Það er ekki nóg að fá afla ef menn geta ekki greitt fyrir hann. Dæmi er um það, mig minnir að það hafi verið 1977, að þá landaði einn Akureyrartogari á Suðurnesjunum og ekki er búið að greiða aflann enn þá, þannig að þetta vandamál leysist ekki bara með því að skikka menn til að landa á ákveðnum stað. Þó að vanti hráefni, þá verður að koma til greiðslna.

Ef hið opinbera vill leggja eitthvað af mörkum til að bæta skipulag fisklöndunar og tryggja sem jafnasta vinnslu, þá má nefna önnur atriði sem vert væri að vek ja athygli á. Það má nefna vegakerfið, sem er stærsta málið, að það sé bætt vegakerfi milli fiskvinnslufyrirtækja og hugsað t.d. um Suðurnesin og vegi við útgerðarstaði. Það má benda á að koma upp kældum hráefnisgeymslum og jafnvel sameiginlegum hráefnisgeymslum við hafnir, svo og sameiginlegum geymslum tómra kassa við hafnir. Allt þetta eru jákvæð atriði sem hið opinbera gæti haft forgöngu um. Það er svo á flestum stöðum, a.m.k. hér á Suðvesturlandi, að vinnslustaðirnir eru mun fleiri en löndunarstaðirnir. Það má nefna annað atriði: að gera útgerð og fiskvinnslu kleift að kassavæða flotann meira en nú er gert. Þetta eru allt atriði, sem hið opinbera gæti haft forgöngu um. Svo á að bæta vinnu- og löndunaraðstöðu í höfnum. Það er sömuleiðis verkefni hins opinbera.

Þetta eru einungis nokkur atriði sem mig langaði til að benda á í sambandi við skipulagningu fisklöndunar. En hér hefur verið drepið sérstaklega á þegar of mikill afli berst að landi svo og á fiskvinnslustöðvarnar og fjölda þeirra. Fiskveiðiflotinn er nú svo stór að það má ekki bæta við hann á næstu árum. Það held ég að við viðurkennum. En ég vil líka benda á annað atriði, að fiskvinnslustöðvarnar verða sennilega alls ekki nógu margar eftir 3, 4 eða 5 ár. Ef spádómar rætast og við högum okkur af viti næstu 2–3 ár, þá lendum við í vandræðum með að vinna aflann.

Ég vil benda á það í sambandi við hrotuna, að það var ekki botnlaus fiskur bara fyrir austan og norðan síðasta sumar, það var botnlaus fiskur hér á Suðvesturlandi. Það var ekkert einsdæmi. Auðvitað er hægt að nefna eitt og eitt byggðarlag sem á við sérstakan vanda að etja. Við erum kannske ekki að ræða um það núna. En þá vantaði vinnslustöðvar fólk til að vinna. Aftur á móti er ekki annað hægt en harma hvernig til tókst síðasta sumar þegar mörg hundruð tonn af þorski voru eyðilögð. Vissulega var þarna verkefni fyrir hið opinbera að grípa inn í, þar sem ljóst var að vinnslugeta húsanna réð ekki við þetta. Benda má á að það hefur verið gert. Það var gert á sumarloðnuveiðunum, til að taka dæmi. Það voru samtök vinnslu og veiða sem tóku sig saman um að hætta veiðum vegna þess að þau gátu ekki unnið hráefni. Og það var synd að þetta var ekki gert í þorskhrotunni s.l. sumar. Fiskurinn var betur geymdur í sjónum en ónýtur eða í skreið, sem seldist reyndar án þess að menn vissu um það þá.

Ég vil að lokum taka undir með flm., eins og þeir segja í grg., að fiskiðnaðurinn er stóriðja okkar Íslendinga, og ég styð allar þær hugmyndir sem koma fram í þessari þáltill. En ég legg áherslu á að jafna sveiflur í veiðum og vinnslu. Ég tel mörg atriði þarna vera jákvæð, og þessar umr. hafa verið mjög jákvæðar um þetta atriði. Ég tel þó, miðað við að einungis er um að ræða að flytja fisk á milli vinnslustöðva, að því aðeins sé hægt að gera það að skilyrði til þess séu bætt, en ekki einungis að það sé gert með löggjöf. Þó er ég síður en svo á móti því, að þetta mál verði kannað og þá í samhengi einmitt við það, hvort eðlilegt sé að togarar almennt landi annars staðar en í heimahöfnum og þá í hvaða formi það yrði. Það er miklu erfiðara vandamál en það sem varðar skiptingu á afla.