08.02.1979
Sameinað þing: 49. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2477 í B-deild Alþingistíðinda. (1939)

36. mál, fisklöndun til fiskvinnslustöðva

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Hafi Páll Pétursson saknað okkar Alþfl.-manna hér úr sal áðan, þá er það skemmtileg hugarfarsbreyting sem orðið hefur. Hins vegar tel ég enga ástæðu til þess að ætla að hann hafi saknað okkar mjög, ef marka má orð hans á þingfundum undanfarnar vikur og mánuði. Það er nú svo komið í sal, að Alþfl.-menn eru orðnir fleiri en framsóknarmennirnir, og þykir mér það mjög gott og vænti þess að svo verði áfram um ókomin ár.

Ég vildi aðeins lýsa áliti mínu á þeirri till. sem hér liggur frammi. Ég tel hana vera hið mesta framfaramál í alla staði og get að flestu leyti tekið undir það sem kemur fram í þessari tillögu.

Þessi mál hafa verið mjög til umr. hér á landi á undanförnum árum, þ.e. hvernig unnt væri að aðstoða staði sem ættu í erfiðleikum með að afla hráefnis og tryggja þar atvinnu svo að einhverju næmi. Í sambandi við þessa hugmynd vildi ég ekki láta hjá líða að koma á framfæri annarri hugmynd sem mjög hefur verið rædd, a.m.k. meðal nokkurra þm. í Alþfl., og hún er sú, að ríkið sjálft beitti sér fyrir því að eignast veiðiskip, og þá helst togara, sem það gæti síðan notað til að afla hráefnis fyrir þá staði sem illa eru settir hverju sinni. Mér dettur í hug í skjótu bragði að benda t.d. á þá tvo Portúgalstogara sem nú eru væntanlegir hingað til lands, en er nú víst búið að binda í önnur verkefni. Það hefði verið kjörið tækifæri að grípa þá og nota þá í þessum tilgangi.

Hins vegar ber þess að gæta í sambandi við skipulagningu á fisklöndun til fiskvinnslustöðva, að frumskilyrði hlýtur að vera í öllu þessu máli að gera sér fyrst grein fyrir því, hvaða staðir liggja vel við við sjávarsíðuna til þess að geta kallast útgerðarstaðir. Einmitt þetta atriði held ég að hafi legið um of á milli hluta og kjördæmasjónarmið fremur ráðið því, hvort þorp og bæir hafi orðið að útgerðarbæjum eða ekki. Þetta er veigamikið atriði, sérstaklega í sambandi við fjárfestingu í hafnargerð og öðru sem til þarf við útgerð.

En úr því að þetta mál er til umr. hér á þingi get ég ekki stillt mig um að nefna tvö atriði sem eru eilítið til hliðar við þetta mál, en koma þó nokkuð við sögu.

Í fyrsta lagi hef ég af því mjög verulegar áhyggjur núna, hve íslenskir togarar sigla ótt og títt með fisk á erlendan markað. Ég tel þetta hreina fásinnu í því vafasama ástandi, sem nú ríkir í atvinnumálum hér á landi, og teldi að því fyrr sem dregið yrði úr þessum siglingum því betra. Mér finnst það óhæfa — og hefur alltaf fundist — að sigla mikið með afla, þótt þar séu fljótteknir peningar fyrir útgerðina. Ég hef verið þeirrar skoðunar, að Íslendingar ættu að stefna af því að fullvinna allt sitt hráefni af þessu tagi og skapa með því meiri verðmæti og meiri vinnu. Það er fyrirsjáanlegt, að fiskiðnaðurinn verður á næstu missirum að taka við einhverju af því vinnuafli, sem ekki getur komist að í þeim atvinnugreinum, sem það hefur verið í að undanförnu, og nægir í því sambandi að benda á byggingariðnaðinn hér í Reykjavík. Fyrirsjáanlegt er, að fjöldi manna verður að leita sér að atvinnu annars staðar, og þegar svo er í pottinn búið hjá okkur verðum við að gæta hófs í því að heimila skipum að sigla til útlanda og selja þar dýrmætt hráefni.

Í annan stað vil ég taka undir orð hv. þm. Stefáns Jónssonar um það ástand sem nú hefur skapast á Þórshöfn á Langanesi. Til þess að greiða fyrir atvinnuástandi þar gerði sjútvrn. sérstakan samning við útgerðarfélag um að togari eða togarar þess lönduðu á Þórshöfn til þess að tryggja þar meiri og betri atvinnu. Undan þessu hefur verið svikist. Þetta skip, sem þarna átti að landa, hefur landað þar tvisvar sinnum, en fjórum sinnum á öðrum stöðum, og við hefur verið borið ýmsum afsökunum, af hverju skipið hefur ekki komið á þennan stað samkv. þeim samningum sem undirritaðir hafa verið. Útgerð þessa skips fékk sérstakt þorskveiðileyfi og átti á því leyfi að hvíla sú kvöð að skipið landaði fiski á Þórshöfn til þess að bæta þar atvinnuástand, sem er mjög slæmt og virðist fara versnandi þessa dagana. Þetta skip er núna í siglingu og ég held að það landi erlendis í dag. Þetta er gersamlega óviðunandi. Ef ekki verður staðið við þennan samning, sem gerður var milli sjútvrn. og útgerðarfélagsins, er það skoðun mín að svipta eigi þetta skip þorskveiðileyfinu og gera samning við önnur útgerðarfélög.

Þetta atriði, dæmið um Þórshöfn á Langanesi, leiðir aftur hugann að því, hve nauðsynlegt gæti verið fyrir ríkið sem slíkt að eiga togara sem það gæti ráðstafað að hentugleikum til staða þar sem lítið hráefni er fyrir hendi. Ég held að sú aðferð gæti gefið verulega góða raun og mætti hugleiða í sambandi við þá till. sem hér liggur fyrir.

Til þess að lengja ekki umr. vil ég endurtaka stuðning minn við þessa þáltill. og tel að horfi mjög til framfara, ef hægt verður að hrinda henni í framkvæmd.