08.02.1979
Sameinað þing: 49. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2486 í B-deild Alþingistíðinda. (1943)

36. mál, fisklöndun til fiskvinnslustöðva

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Sú till., er hér liggur fyrir, er sennilega eitt stærsta efnahags- og atvinnumál sem hér hefur verið rætt. Tel ég að Alþ. eigi hiklaust að samþykkja þessa till. Hún er mjög í takt við þann hugsunargang sem hefur rutt sér mjög til rúms eftir að tekið var upp á því á sínum tíma að skipuleggja löndun á loðnu. Vænti ég þess, að hægt verði að skipuleggja löndun á fleiri sviðum, eins og ætlað er með þessari till. Ég hygg að það sé nægjanlegur sveigjanleiki í þessari þáltill. til þess að hægt sé að stjórna fisklöndun á þann veg að allir geti vel við unað. Það þarf að marka ákveðna stefnu, — stefnu sem lýtur að því að jafna atvinnu í landinu og einnig að því að menn ráði við þann fisk, sem aflast á hverjum tíma, svo hann fari ekki skemmdur út á markaðinn.

Það hefur margt verið sagt hér um hina ýmsu landshluta og það, hvernig að málum hafi verið staðið. Það er bágt til þess að vita, hversu landshlutarígur er ríkur í mönnum og fordómar, sleggjudómar um hina ýmsu landshluta. Þykir mér því rétt að minnast aðeins á það er rætt hefur verið um Suðurnes.

Menn hafa komið hér upp margir hverjir og talað af nokkurri vanvirðu um þann landshluta, sem á vissulega erfitt í atvinnumálum þessi árin. Hér hefur verið sagt, að við Suðurnesjamenn hefðum „völlinn“ og þær auðsuppsprettur sem þar væru. Jafnframt hefur því ekki verið gefinn gaumur, að varla hefur völlurinn orðið til þess að skapa það gífurlega atvinnuleysi sem er þar um slóðir nú. Það er ekki í huga Suðurnesjamanna að byggja á þeirri atvinnu sem þar er, því að við ráðum vissulega ekki hvernig hlutirnir æxlast um þau mál, en því meiri nauðsyn er á því að byggja upp heilbrigt og gott atvinnulíf niðri í byggðinni. Þá hljótum við helst að hugsa til sjávarútvegs og iðnaðar sem e.t.v. mætti koma upp þar um slóðir, en eins og víða hefur oft verið sagt tekur sennilega iðnaðurinn við mestum hluta fólksfjölgunar á næstu árum, þótt vissulega þurfi að hugsa um að hafa sjávarútveginn í sem mestum blóma.

Margur gerir sér ekki ljóst að við sjósókn og vinnslu sjávarafla vinna nær 40% Suðurnesjamanna. Rétt fyrir ofan það eru Vestfirðingar með 41%. Hæst er þetta hlutfall í Vestmannaeyjum og á Snæfellsnesi, um 43%. Miðað við allt landið er mannafli við veiðar og fiskvinnslu um 12.5%. Á Suðurnesjum eru enn framleidd allt að 22% af heildarverðmæti alls sjávarafla landsmanna.

Orsökina til þess, að erfiðleikarnir eru svo miklir sem þeir eru í dag, má rekja til þess að aflabrestur hefur orðið mjög mikill. Árið 1970 öfluðust 84 253 tonn, en síðan hefur aflinn verið að minnka allverulega ár frá ári og svo var það á síðasta ári, þá öfluðust aðeins 37 492 lestir. Það munar um minna. Svo má geta þess, að samfara þessu hefur meðalafli í róðri minnkað frá því að vera 8.84 lestir í róðri 1970. 1976 — þaðan er mín síðasta tala-var afli kominn niður í 5.69 Lestir í róðri.

Það má geta þess, að þegar verið er að jafna á milli landshluta og byggðarlaga, sem oft er gert, þá er það gert á þann veg að kastað er rýrð á stjórnendur og jafnvel fólkið sem býr á Suðurnesjum og það sakað um ódugnað og annað í þeim dúr. En ég vil geta þess, að samfara þessum feikilega minnkandi afla hefur aflasamsetningin verið okkur mjög óhagstæð. Í tölum frá 1975 segir að á Vestfjörðum hafi aflinn verið á þann veg, að 37.6% af aflanum hafi verið þorskur, en aðeins 7.2 % á Suðurnesjum. Og svo að við tökum annað dæmi, þá var karfaafli Vestfirðinga 3.6%, en 20% hjá Suðurnesjamönnum. Þessar fisktegundir eru þannig verðlagðar, að karfi er í mjög lágu verði, en þorskurinn best greiddur. Það er sem sagt margt sem verður til þess, að Suðurnesjamenn hafa ekki getað haldið uppi blómlegu atvinnulífi.

Svo er annað sem við viljum halda fram, að atvinnutækin eða atvinnufyrirtækin á Suðurnesjum hafa ekki sætt sömu kjörum varðandi lánafyrirgreiðslu og aðrir landsbúar hafa haft. Og reyndar er það svo, að mér er sagt að 1971 hafi það verið sett í reglugerð Byggðasjóðs, að á það svæði skyldi alls ekki lána, þ.e.a.s. að önnur svæði hefðu algeran forgang, en þá fyrst átti að fara þá leið að veita til Suðurnesja þegar aflabrestur hófst. Að vísu fékkst sú venjulega fyrirgreiðsla sem allir fengu varðandi togarakaup, en hún dugði skammt. Öll önnur fyrirgreiðsla hefur verið í algeru lágmarki. Reyndar er það svo, að flotinn á Suðurnesjum er nokkurs konar elliheimili íslenska flotans, sem sést best á því að meðalaldur skipa þar er um 18 ár.

Ég vildi aðeins skýra þetta til þess að mönnum væri ljóst að það er margt sem gerir að verkum að atvinnulíf á Suðurnesjum er ekki sem skyldi. Við þurftum að horfa upp á það s.l. vetur, að þegar fiskgengdin var sem mest fyrir Norðurlandi, Vestfjörðum og Austurlandi stóðu frystihúsin tóm á Suðurnesjum, fólkið var atvinnulaust, en afli barst svo mikill að landi annars staðar á landinu að stöðvarnar höfðu ekki við. Nú er komið í ljós að sá afli, er frá þessum stöðum kom, er stórskemmdur og verður okkur til mikils tjóns á fiskmörkuðum.

Ég ætla ekki að hafa miklu fleiri orð um þessa hluti nú, en leggja áherslu á að það er sjálfsagt að samþykkja till. í þá veru sem hér liggur fyrir. Ég tel að hún sé til bóta og tel einnig að flm. eigi skilið þakkir fyrir að hafa flutt þetta ágæta mál á Alþingi.