08.02.1979
Sameinað þing: 49. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2489 í B-deild Alþingistíðinda. (1945)

36. mál, fisklöndun til fiskvinnslustöðva

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil að gefnu tilefni, vegna orða sem hér hafa fallið um togskipið Dagnýju frá Siglufirði, láta koma fram, að þetta skip hefur haft sínar afsakanir fyrir því að leggja ekki upp á Þórshöfn. Það hefur átt við bilanir að stríða, það hefur verið skrúfa í einhverju ólagi. Nú siglir þetta skip með afla sinn til útlanda, en það mun eiga að gera við skrúfuna í því ferðalagi og sú sigling, sem nú stendur yfir, mun vera þannig til komin. Mér skilst að útgerðarmaðurinn hafi gert sjútvrn. grein fyrir þeim bilunum, sem hafa orðið, og vænti þess, að grg. hans sé á rökum reist. Ég vil láta það koma fram að maðurinn mun hafa málsbætur. Hitt er svo annað mál, að ég er ekki að leggja dóm á útgerð eins og hefur verið á Dagnýju. Það hefur verið ætlast til þess að þessi útgerð skilaði hagnaði, og ég hygg að hún hafi gert það. Hún hefur skilað þeim sjómönnum, sem á skipinu hafa verið, góðum tekjum og að því leyti verið lyftistöng fyrir bæjarfélagið á Siglufirði, en hefur hins vegar ekki alltaf lagt upp þann afla á Siglufirði, sem maður hefði kannske óskað. Allt um það hefur þarna verið unnið brautryðjendastarf, ekki einasta á þessu skipi, heldur er kannske rétt að minna á að Siglfirðingar voru brautryðjendur í skuttogaraútgerð á Íslandi.

Vegna orða sem fram komu hjá hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni um Byggðasjóð, að hann hefði ekki lánað á Suðurnes, þá er rétt að rifja upp að Byggðasjóður er myndaður úr Atvinnujöfnunarsjóði. Atvinnujöfnunarsjóður var myndaður á viðreisnarárunum og til hans hneig m.a. framleiðslugjald frá álverinu og átti að vera til atvinnujöfnunar í öðrum kjördæmum. Nú held ég að þeir tímar séu runnir upp, að Suðurnesjamenn eigi orðið býsna sterk ítök í stjórn Byggðasjóðs—mig minnir að þeir séu orðnir þrír í stjórninni — og ég hygg að ástæðulaust sé að hafa áhyggjur af að Suðurnes séu afskipt lengur.