12.02.1979
Neðri deild: 50. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2504 í B-deild Alþingistíðinda. (1959)

37. mál, meðferð opinberra mála

Flm. (Finnur Torfi Stefánsson):

Herra forseti. Það er liðinn nokkuð langur tími síðan fyrri hluti 1. umr. fór fram um þetta mál, og á þeim tíma, sem liðinn er, hafa gerst nokkrir atburðir sem skipta máli varðandi meðferð málsins. Þá er þess að geta, að nokkur félög í landinu hafa haft þessi málefni til umfjöllunar. Það má minna á félagið Íslensk réttarvernd, sem gerði fyrir nokkrum dögum ályktun þar sem það skoraði á hv. Alþ. að styðja og hraða afgreiðslu á þessu frv. Lögfræðingafélag Íslands hafði þessi efni til meðferðar á fundi hjá sér nýverið. Og síðast en ekki síst hefur Lögmannafélag Íslands gefið út sérstaka ályktun þar sem það skorar á dómsmrh. að beita sér fyrir ýmsum breytingum á lögum um meðferð opinberra mála. Þar er þungamiðjan nánast alveg sama efni og í því frv. sem ég hef leyft mér að flytja á Alþingi.

Ég ætla að leyfa mér að lesa, með leyfi forseta, nokkur atriði úr ályktun Lögmannafélags Íslands til þess að sýna fram á að það er hljómgrunnur fyrir þessu máli hjá fleiri en mönnum hér á þingi. Þeir segja m.a. svo:

„Stjórnin telur brýnt að komið verði á réttarbótum í neðangreinda átt.“

Svo segja þeir m.a.:

„Við rannsókn afbrots, sem við getur legið frelsissvipting, verði sakborningi strax við upphaf rannsóknar veittur réttur til að fá skipaðan verjanda og að rannsóknaraðilum verði gert skylt að kynna sakborningi þennan rétt hans þannig að tryggt sé að þessi réttur verði virkur.“

Þarna er vikið efnislega að sama atriði og er rætt um í 1. gr. þessa frv. og ekki sjáanlegur neinn munur á því, nema orðalagsmunur.

Í annan stað segir Lögmannafélag Íslands svo í ályktun sinni:

„Handteknum manni verði veittur réttur til að fá sér skipaðan verjanda og til að tilkynna eða láta tilkynna honum og nánustu aðstandendum um handtökuna strax eftir að handtaka hefur farið fram, og lögreglumönnum verði gert skylt að kynna handteknum manni þennan rétt hans.“

Þetta efnisatriði er líka í 1. gr. frv., sem hér liggur fyrir. Enn segir í ályktun Lögmannafélagsins:

„Dregið verði verulega úr heimild dómstóla frá því sem nú er til að hneppa menn í gæsluvarðhald og að gæsluvarðhaldi megi að jafnaði ekki beita nema brot geti varðað 6 ára fangelsi.“

Þarna skorar Lögmannafélagið á dómsmrh. að draga úr heimildum til að beita gæsluvarðhaldi. Þeir skýra ekki frá því með hvaða hætti þeir vilja að þetta verði gert, taka ekki afstöðu til þeirrar aðferðar sem lögð er til í frv. hjá mér. en þeir styðja greinilega markmiðið.

Svo eru enn fremur liðir í ályktun Lögmannafélagsins, þar sem þeir skora á dómsmálayfirvöld að gera þær breytingar á lögum um meðferð opinberra mála, að verjandi fái að vera viðstaddur prófanir og yfirheyrslur og eins að maður, sem situr í gæsluvarðhaldi, hafi rýmri tækifæri til þess að fá að ræða einslega við verjanda sinn en nú er.

Ég hef leyft mér að lesa upp úr þessari ályktun til þess að sýna fram á að Lögmannafélagið er í öllum efnisatriðum sammála þessu frv. sem hér hefur verið til umr., og ég tel mikinn feng að því vegna þess að lögmenn eru þeir menn í þjóðfélaginu sem sennilega kynnast högum sakborninga einna best í gegnum starfa sinn.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka þær undirtektir sem frv, fékk hjá dómsmrh. og þeim öðrum þm., sem tóku til máls um það. Ekki komu fram í máli þeirra neinar aths., sem ég sé ástæðu til þess að svara eða víkja að öðru leyti að, og þess vegna ætla ég að láta þetta gott heita í bili og þakka fyrir.