26.10.1978
Sameinað þing: 9. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

12. mál, efling þjónustu- og úrvinnsluiðnaðar í sveitum

Hannes Baldvinsson:

Herra forseti. Það má líklega með sanni segja, að á undanförnum árum hafi fáar iðngreinar verið í jafnörum vexti og hinn svokallaði ullariðnaður. Það er því eðlilegt, þegar verið er að fjalla um vaxandi iðnað í sveitum landsins, að menn renni hýru auga til þeirrar iðngreinar. Ég tel því að ekki verði undan því vikist í sambandi við þær umr., sem hér fara fram, að vekja athygli hv. þm. á þeim vanda sem nú steðjar að þessari iðngrein. Vaxandi framboð á erlendum eftirlíkingum á íslenskum ullarfatnaði stefnir framtíð íslenska ullariðnaðarins í beinan voða. Þessi hætta hefur verið á vitorði framámanna í þessum iðnaði um nokkurt skeið, þótt ekki hafi menn verið sammála um hversu mikil hætta væri þarna á ferðinni eða hversu við skyldi bregðast. En þó voru á síðasta ári og s.l. vor send erindi til fyrrv. ríkisstj. með ósk um aðgerðir til að tryggja viðgang þessarar iðngreinar. Viðbrögð þáv. ríkisstj. voru þau að setja nokkrar hömlur á útflutning á svokölluðu loðbandi, en ýmsir töldu að útflutningur á þessu loðbandi væri einmitt undirstaða í svokallaðri prjónavoð, sem aftur er notuð til þess að sauma úr og gerði útlendum aðilum kleift að framleiða eftirlíkingar á hinum eftirsótta íslenska fatnaði. Þetta var að sjálfsögðu jákvæð aðgerð. En ýmsir draga í efa að nóg hafi verið að gert, því að þarna var ekki um neitt útflutningsbann að ræða, heldur aðeins hömlur á útflutningi, þannig að enn á sér stað verulegur útflutningur á loðbandi til erlendra samkeppnisaðila. Auk þess leikur sá grunur á, að loðband sé flutt út undir vöruheitinu lopi, sem er nokkuð villandi því að lopi og loðband er tvennt ólíkt, en það vöruheiti sé notað til þess að dylja raunverulegan útflutning loðbands.

Jafnhliða því að setja fram ósk um útflutningshömlur þá var líka sett fram sú ósk, að sett yrði reglugerð um það, hversu miklu mætti blanda af erlendri ull í hina íslensku til þess að kalla mættu vöruna, sem framleidd væri úr ullinni, íslenska. Þessi reglugerð hefur því miður ekki verið sett og því hafa bandframleiðendur á Íslandi óbundnar hendur um hversu miklu magni af erlendri ull þeir mega blanda í hina íslensku og kalla bandframleiðslu sína áfram íslenska ull. Reyndar hefur annar af stærstu bandframleiðendunum horfið frá því og kallar framleiðslu sína bara hreina ull, ekki lengur íslenska. En við, sem lítum þessi mál alvarlegum augum, teljum að nauðsynlegt sé að fá sett í reglugerð ákvæði um hámarksíblöndun erlendrar ullar í þá íslensku.

Það má auðvitað segja, að hægt sé að virða bandframleiðendum það til vorkunnar að vilja nota erlenda ull til íblöndunar, því að hún er mun ódýrari en sú íslenska. En margir álíta að með þessu sé gæðum framleiðslunnar stefnt í voða. Undirstaða þess, að hægt er að framleiða mjög seljanlega fatnaðarvöru úr íslenskri ull, er fyrst og fremst sérkenni íslensku ullarinnar, léttleiki og hlýja. Það er undirstaðan undir vaxandi ullariðnaði okkar.

Það má raunar segja að málefni ullariðnaðarins heyri undir þrjú rn. og það sé kannske ástæðan fyrir því, að lítið hefur verið aðhafst. Þau heyra undir iðnrn., viðskrn. og óbeint undir forsrn., en Framkvæmdastofnunin, sem heyrir undir forsrn., er eigandi að einni stærstu bandframleiðsluverksmiðjunni.

Mér er kunnugt um að á borð ykkar alþm. hefur borist erindi frá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands, þar sem vakin er athygli á þeim vanda og þeirri hættu sem það telur felast í því að blanda íslenska ull erlendri í jafnríkum mæli og gert hefur verið. Ég held að nauðsynlegt sé, þegar verið er að bollaleggja um vaxandi iðnað í sveitum og binda sérstakar vonir við úrvinnslu úr ullarvörum í því sambandi, að þm. og þá hæstv. ríkisstj. geri sér grein fyrir þeim vanda sem þarna er við að etja. Það má segja, að hættan stafi fyrst og fremst frá tveimur eða þremur löndum. Upphaflega mun framleiðsla á eftirlíkingum hafa hafist í Danmörku, og sá, sem þar kom á fót verksmiðju til framleiðslu og eftirlíkinga á íslenskum fatnaði, hefur gengið mjög langt í því að blekkja viðskiptavini sína og telja þeim trú um að þarna sé um íslenska vöru að ræða. Hann mun hafa í hyggju að færa út kvíarnar, og heyrst hefur að hann hafi í undirbúningi að stórauka framleiðslu sína á Puerto Rico. Sömuleiðis er vitað að um verulega framleiðslu í eftirlíkingum á íslenskum ullarfatnaði var að ræða í Kóreu, en þangað fluttu Íslendingar töluvert magn af íslensku loðbandi fyrir einu eða tveimur árum. Sá útflutningur hefur að vísu haldið áfram, en hömlurnar, sem settar voru af viðskrn. s.l. vor, drógu úr þeim útflutningi. En í staðinn hefur band verið flutt til Japans, og leikur grunur á að í gegnum Japan sé það selt áfram til Kóreu og þannig sé haldið áfram að framleiða íslenskar eftirlíkingar í því láglaunalandi.

Ég sagði áðan, að menn greindi á um hversu alvarlegt þetta ástand væri. Þeir, sem fást við útflutning úr þessari framleiðslu okkar Íslendinga, eru stundum kallaðir af þeim, sem við þá skipta, hinir þrír stóru, en það eru Álafoss, Samband ísl. samvinnufélaga og svo Hilda hf.

Ég veit að tveir af þessum aðilum telja þarna mjög mikla og vaxandi hættu á ferðum, en þriðji aðilinn hefur heldur dregið úr því áliti manna, að ástæða sé til að gera mikið úr þessari hættu. Það er kannske skýringin á því, að ekki hefur nægilega verið aðhafst af hálfu íslenskra yfirvalda varðandi þennan vanda.

Útflutningsmiðstöð iðnaðarins hefur boðað til fundar framleiðenda í ullariðnaðinum nú eftir liðlega viku, og ég er viss um að þar ber þessi mál á góma. Ég vil því hvetja viðkomandi rn, til þess að senda fulltrúa á þennan fund og fylgjast þar gjörla með umræðum og áliti þeirra, sem um þessi mál fjalla þar, og hefja að því loknu undirbúning af hálfu íslenskra stjórnvalda sem megi duga til verndar þessari iðngrein sem vafalaust gæti orðið gott búsílag fyrir þá till. sem hér er til umr. um uppbyggingu iðnaðar í sveitum landsins.