12.02.1979
Neðri deild: 50. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2507 í B-deild Alþingistíðinda. (1962)

37. mál, meðferð opinberra mála

Páll Pétursson:

Herra forseti. Nú er ég farinn að átta mig á því, að ég er ekki á miðstjórnarfundi Framsfl. Hv. síðasti ræðumaður taldi að hér hefði verið blandað saman tveimur ólíkum málum og það hefðu verið framsóknarmenn, skildist mér, nátttröll eins og ég, sem hefðu gert það. Ég hef undir höndum blaðagreinar nokkrar sem ég hef látið ljósrita nú þegar. Ég hygg að við nánari skoðun á þeim sé hægt að finna, að það voru ekki framsóknarmenn sem byrjuðu að blanda saman hlutunum. Það er alveg rétt, það hefur skýrst, að málin voru tvö, en það er beinlínis reynt að tengja saman og tengja við stjórnvöld í landinu með röngum sakargiftum, með óeðlilegum hætti ábyrgð á þessum málum báðum og saman tengdum.

Hv, þm. Vilmundur Gylfason telur að það eigi ekki heima að tala um þessi atvik sem orðið hafa, í umr. um þetta mál. Það segir beinlínis á þskj. 40, ef hann vill gera svo vel að lesa það: „Rangar sakargiftir geta auðveldlega orðið til þess, að menn verði hnepptir í gæsluvarðhald, og eru þess sorgleg dæmi.“ — Ég held að menn þurfi ekki vitnanna við um það.

Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta á þessu stigi. Ég er hér með grein eftir Vilmund Gylfason frá föstudegi 30. jan. 1976, hún heitir: „Er hægt að þegja öllu lengur?“ Ég er með grein úr sama blaði frá 20. 2. 1976 eftir sama höfund, hún heitir: „Loddarar.“ Ég er með grein úr sama blaði eftir sama höfund frá 13. 2. 1976: „Er íslensk þjóð samviskulaus?“ Ég er með grein frá 6. 2. eftir sama höfund, hún heitir: „Barn eða bandítt“, og er þar átt við hæstv. þáv. dómsmrh., núv. forsrh. og leiðtoga okkar beggja hv. þm. Ég er með grein úr Dagblaðinu, þar sem fyrirsögnin er þessi: „Vonsvikinn ef Alþingi lætur þar við sitja“, segir Sighvatur Björgvinsson alþm., sem segist hafa frekari upplýsingar í Klúbbmálinu.“ Það kann að vera að hv. þm. vilji fara nánar út í þetta, en vegna þess að við erum í miklu friðarins húsi á þessu stjórnarheimili ætla ég að láta hér við sitja í bili.