12.02.1979
Neðri deild: 50. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2511 í B-deild Alþingistíðinda. (1967)

168. mál, útvarpslög

Flm. (Guðmundur H. Garðarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breyt. á útvarpslögum, nr. 19 frá 1971, en ég er flm. þessa frv. ásamt hv. þm. Friðrik Sophussyni, Albert Guðmundssyni og Ólafi G. Einarssyni.

Þetta frv. var fyrst lagt fram á Alþ. í apríl 1977, en hlaut ekki afgreiðslu. Síðan var það endurflutt í upphafi 99. löggjafarþings er Ríkisútvarpið, þ.e.a.s. hljóðvarp og sjónvarp, voru lokuð vegna verkfalls opinberra starfsmanna. Af þeim sökum bjó þjóðin við algert þjónustuleysi á þessu mikilvæga sviði nútímafjölmiðla um nokkurn tíma. Það kom sérstaklega illa við þúsundir manna og þó einkum það fólk sem býr í afskekktum landshlutum. Hið alvarlega ástand, sem skapaðist vegna verkfalls opinberra starfsmanna haustið 1977, undirstrikar enn frekar þörfina á að afnema einkarétt Ríkisútvarpsins og rjúfa þá fjötra sem þjóðin býr við í rekstri hljóðvarps og sjónvarps. Ef hérlendis á að ríkja frjáls, óháð skoðanamyndun, eins og m.a. var talað um í umr. áðan af hv. þm., þá er óhjákvæmilegt að breyting verði í sambandi við einkarétt Ríkisútvarpsins.

Með þessu frv. er sem sagt lagt til að einkaleyfi ríkisins á útsendingum til viðtöku almennings á tali, tónum, myndum og öðru efni, hvort sem er þráðlaust, með þræði eða á annan hátt, verði afnumið. Jafnframt verði ráðh. heimilað að veita öðrum leyfi til útvarpsrekstrar að fullnægðum ákveðnum skilyrðum sem ráðh. mundi þá setja í reglugerð.

Það er í sjálfu sér óþarft að fjölyrða um eðli og tilgang frv. Hann er augljós. En þó er rétt að árétta, að stjórnarskrá Íslands felur í sér að fullt tjáningarfrelsi skuli ríkja í landinu. Svo hefur verið hvað prentað mál varðar. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar á prenti, en þó verður hann að ábyrgjast þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar tálmanir fyrir prentfrelsi má aldrei í lög leiða.

Ákvæði íslenskra laga um tjáningarfrelsi er í samræmi við lýðræðisvenjur. En þó hefur Ísland dregist aftur úr á einu sviði og beinlínis lagt hömlur á tjáningarfrelsi umfram það sem þekkist í öðrum lýðræðisríkjum. Er það í sambandi við rekstur hljóðvarps- og útvarpsstöðva í eigu annarra aðila en ríkisins. Enn búum við Íslendingar við tæprar hálfrar aldar fyrirkomulag í þessum efnum, — fyrirkomulag, sem var í sjálfu sér eðlilegt á bernskuskeiði

þessa rekstrarforms hér á landi, þegar fjármagn var af skornum skammti og reynsla lítil í framkvæmd þessara mála og einnig tækni á frumstigi.

Við flm. fullyrðum, að þrátt fyrir að við leggjum fram frv. um breytingu á einkarétti Ríkisútvarpsins hafi hljóðvarp og sjónvarp að ýmsu leyti gegnt hlutverki sínu af mikilli prýði, og þetta frv. er ekki flutt til að kasta neinni rýrð á þessa fjölmiðla né starfsemi þeirra.

En tímar hafa hins vegar gerbreyst frá því að einkaleyfi Ríkisútvarps var ákveðið árið 1930, þ.e.a.s. fyrir tæpri hálfri öld, og kröfur fólks eru allt aðrar og meiri. Ef við lítum til nágrannaríkja okkar, sem eru lýðræðisríki, þá kemur í ljós að í flestum þeirra eru margar útvarps- og hljóðvarpsstöðvar. Þær eru ýmist í eigu opinberra aðila eða félaga og einnig í eigu einstaklinga. Reynslan af þessu fyrirkomulagi hefur víðast hvar verið góð. Notendur þessara fjölmiðla hafa notið meiri fjölbreytni í efnisvali vegna aukinnar samkeppni, á sama tíma sem fleiri hafa fengið tækifæri til að vera virkir þátttakendur á þessu sviði. — Og ég vil sérstaklega undirstrika þetta atriði, að fleiri fái tækifæri til að vera virkir þátttakendur á þessu sviði með svipuðum hætti og tíðkast í útgáfu dagblaða og yfirleitt í sambandi við hið prentaða mál. Ég mun víkja að því nokkuð á eftir, hvað áhugi ungs fólks er mikill á þessu. En ég vil víkja örlítið að því sem lýtur að tækni í sambandi við hljóðvarp og sjónvarp.

Það er alveg ótrúlegt, hvað tækniframfarir hafa verið miklar í útsendingu á tali, tónum og myndum á aðeins einum áratug. Hið sama gildir um viðtökutækni þess eðlis sem hér um ræðir. Sem dæmi má nefna, að án mikils tilkostnaðar má koma upp staðbundnum útsendingum á sviði hljóðvarps og sjónvarps sem mundu auka mjög á fjölbreytni í efnisvali, auk þess sem unnt er með fjölgun stöðva að fullnægja kröfum um aukna fræðslu á sviði almennra og staðbundinna mála. Þetta er hægt að gera án mikils tilkostnaðar.

Í sambandi við frv. það, sem við leggjum fram, er áhersla lögð á að fyllsta hlutleysis sé gætt í stjórnmálum við útsendingu efnis, og það er þá með svipuðum hætti og nú tíðkast í útsendingum Ríkisútvarpsins. Gert er ráð fyrir að hinar frjálsu útvarpsstöðvar stuðli að almennri menningarþróun þjóðarinnar og efli íslensku tungu. Þær skulu m.a. leggja áherslu á að flytja efni á sviði lista, bókmennta, vísinda og trúarbragða, einnig efla alþýðumenntun og veita fræðslu um hin fjölbreytilegustu efni. Þá skal þeim heimilt að halda uppi fréttaþjónustu. Útvarpsstöðvarnar skulu í öllu starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur. Þær skulu virða tjáningarfrelsi og gæta fyllstu óhlutdrægni gagnvart öllum flokkum og stefnum í opinberum málum. Hið sama gildir gagnvart stofnunum, félögum og einstaklingum.

Um rekstrarréttindi og skyldur útvarpsstöðva í eigu einstaklinga og félaga fer að öðru leyti eftir íslenskum lögum. Með reglugerð setur ráðh. nákvæmar reglur um fyrirkomulag og framkvæmd þessara mála, þ. á m. ákvæði er heimila útvarpsstöðvum að selja auglýsingar eða útsendingartíma, m.a. vegna fræðslu og kynningarefnis sem innlendir aðilar kynnu að vilja koma á framfæri. Þá er nauðsynlegt að setja ákvæði sem girða fyrir að erlent fjármagn renni til slíkra fyrirtækja.

Sem sagt, með frv. þessu eru lögð drög að því, að á Íslandi ríki hliðstætt tjáningarfrelsi og þekkist í lýðræðisríkjum á sviði hljóðvarps og sjónvarps. Það er að mati okkar flm. spor í áttina að auknu frelsi fólksins frá miðstýringarvaldi embættis- og stjórnmálamanna á þessu sviði.

Frá því að þetta frv. eða frv. svipaðs eðlis var lagt fram árið 1977 hafa orðið talsverðar breytingar á afstöðu manna gagnvart því efni sem frv. fjallar um. Þegar frv. sama efnis var lagt fram í ársbyrjun 1977 urðu nokkrar umr. hér á hv. þingi og tóku flestallir hv. þm. þá vel undir frv. sem slíkt, þó að menn greindi nokkuð á um leiðir. T.d. má geta þess, að þegar hv. þm. Svava Jakobsdóttir, sem er að vísu ekki viðstödd í dag, tók til máls í þessu máli, þá undirstrikaði hún það, að þó að hún væri ekki sammála því út af fyrir sig að á Íslandi væru stofnaðar frjálsar útvarpsstöðvar eins og frv. gerir ráð fyrir, þá taldi hún fulla þörf á því að auka útsendingartíma Ríkisútvarpsins og einnig fannst henni mjög koma til greina að Ríkisútvarpið beitti sér fyrir því, að settar yrðu á laggirnar staðbundnar stöðvar.

Núv. formaður útvarpsráðs, Ólafur R. Einarsson, ritaði greinar um þetta efni, þar sem einnig kom fram svipað sjónarmið og hjá hv. þm. Svövu Jakobsdóttur, að vel kæmi til greina að koma á fót staðbundnum stöðvum. Í mjög athyglisverðri grein, sem hann ritaði 28. jan. 1978 — með leyfi hæstv. forseta — kemst hann að þeirri niðurstöðu að það ríki ákveðin stöðnun í íslenska Ríkisútvarpinu sem verði að aflétta. Hann segir í umræddri grein, að endurskoðunar sé þörf á rekstri Ríkisútvarpsins. Í greininni segir hann m.a.:

„Ég tel, að það sé hlutverk Alþingis og ráðandi aðila í menntamálum að gera úttekt á stöðu hljóðvarpsins og ákveða hvaða stefnu skuli hafa varðandi sess ríkisfjölmiðla í íslensku fjölmiðlasamfélagi.“

Síðan fjallar hann um það, að hann sé þeirrar skoðunar að fyrst og fremst beri að efla ríkisrekið sjónvarp og hljóðvarp, en leggja þetta ekki í hendurnar á fólkinu sjálfu að einu eða neinu leyti umfram það sem ríkið mundi ákveða á hverjum tíma. Í stuttu máli sagt voru flestallir sammála um að breytinga væri þörf.

Við flm. teljum að sú breyting sé æskilegust að gefa fleiri tækifæri til að fjalla um þessi mál og að það sé ekki í valdi stjórnmálamanna í útvarpsráði að ákveða hverjir skuli um þetta fjalla. Það hefur margoft komið fram, eins og þeir þekkja til sem utan við standa, að það getur verið mjög erfitt fyrir fólk að komast að með efni í hljóðvarpi og sjónvarpi. Það stafar ekki af því, að starfsmenn Ríkisútvarpsins eða útvarpsráð út af fyrir sig vilji leggja hömlur á að menn geti tjáð sig í þessum fjölmiðlum, heldur er það vegna þess að tími þeirra og fjármagn er að sjálfsögðu takmarkað. Þess vegna er nauðsynlegt að hér komi til fleiri möguleikar. Við flm. leggjum áherslu á, að þessir möguleikar séu í frjálsu formi, — formi sem veiti Ríkisútvarpinu ákveðið aðhald, ákveðna samkeppni. Við getum hins vegar fallist á það sem ákveðið stig út af fyrir sig, að Ríkisútvarpið komi á fót staðbundnum útvarpsstöðvum eða annarri rás hjá sjónvarpi.

Ég vil vekja athygli á því, að í Svíþjóð hefur farið fram mjög nákvæm athugun og úttekt á sænska útvarpinu. Þar ákváðu þeir á árinu 1977 á grundvelli tillagna, sem stjórnarnefnd hafði unnið, að breyta skipulagi sjónvarps- og hljóðvarpsútsendinga verulega. Í áliti, sem stjórnarnefnd lét frá sér fara í ársbyrjun 1977, er lagt til að í stað tveggja sjónvarpsrása, þ.e.a.s. TV-1 og TV-2 Svíþjóð, sem sendi þá að mestu frá Stokkhólmi um allt landið, komi ein TVS-rás sem sendir frá Stokkhólmi um allt land og 9 TVR-rásir sem sendi um ákveðna landshluta.

Þessi stjórnarnefnd lagði einnig til að útsendingarstundum sjónvarpsins þar yrði fjölgað úr 80 í 100 á viku og þá m.a. með endurtekningu s jónvarpsefnis um miðjan dag, svo að fólk, sem vinnur vaktavinnu, hafi sama gagn af s jónvarpi og aðrir. Þá var lagt til í sambandi við endurskipulagningu þessara mála í Svíþjóð, að útsendingarstundum útvarpsins yrði fjölgað úr 360 í 400 á viku og dagskrám fjölgað úr 3 í 4. Þá var lagt til einnig í þessu landi, sem hefur verið mjög íhaldssamt í þessum efnum, að lögum um einkarétt á útvarpi yrði breytt þannig að sjálfstæðum útvarpsstöðvum, sem ekki væru reknar með hagnaðarsjónarmiði, yrði leyft að stunda útvarps- og sjónvarpssendingar með leyfi þingsins en hins vegar gert ráð fyrir að þær ynnu undir félagi sem ríkið yrði aðalaðili að ásamt nokkrum öðrum tilteknum stofnunum í Svíþjóð.

Þessi mál hafa því verið mjög til umræðu viðar en á Íslandi og eins og ég gat um í Svíþjóð þar sem aðilar hafa verið mjög íhaldssamir. Er orðið tímabært að við Íslendingar fjöllum um þessi mál einnig með svipuðum hætti.

Vegna þeirra, sem kynnu að vera á móti því að Íslendingar fengju frjálsir og óháðir að reka frjálsa útvarpsstöð eða sjónvarpsstöð, er vert að ræða það, að á Norðurlandaráðsþingum undanfarin ár hefur verið til umræðu að Norðurlöndin hefðu sameiginlega starfsemi í sambandi við sjónvarpssendingar, þannig að samnorræn sjónvarpsstöð sendi efni til allra Norðurlandanna. Nú er ég ekki nægjanlega kunnugur því, hvernig Ísland kæmi inn í þá mynd, en hvað sem því líður munu ekki vera mikil tæknileg vandkvæði á að slíkt samnorrænt sjónvarp næði til Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs án mikils tilkostnaðar, þegar það væri komið í framkvæmd. Þess vegna er mér spurn, vegna þeirrar andstöðu sem fram hefur komið hjá ýmsum aðilum, hvernig ætti að hafa hönd í bagga um efnisval í slíkri stöð sem næði til Íslands. Er meiri ástæða til þess að vantreysta Íslendingum sjálfum að koma með eigið efni í frjálsri stöð en taka við þessu eða öðru efni frá samnorrænni sjónvarpsstöð?

Ég gat um það í upphafi, að mikill áhugi er á þessu máli. Það er sérstaklega mikill áhugi á því hjá ungu fólki. Þegar þetta mál var til umr. í ársbyrjun 1978 sendu um 600 ungmenni í Iðnskólanum í Reykjavík áskorun til hv. Alþingis um að samþykkja frv. sama efnis og ég mæli hér fyrir. Það fékk ekki hljómgrunn á hv. þingi þá. En við flm. væntum þess, að meiri skilningur sé á þessu máli nú en verið hefur undanfarin 2–3 ár. Við gerum okkur grein fyrir því að þetta mál þarf umr. En á þessum tímum aukins tjáningarfrelsis, rannsóknarblaðamennsku og annars hlýtur að mega að búast við því, að þeir, sem berjast fyrir auknu tjáningarfrelsi, fyrir því að við lifum í enn opnara þjóðfélagi, mæli með því að þetta frv. verði samþ. og komist til framkvæmda sem fyrst.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og menntmn. að lokinni umr. hér í deildinni.