12.02.1979
Neðri deild: 50. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2516 í B-deild Alþingistíðinda. (1969)

168. mál, útvarpslög

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að segja, að í raun fagna ég þessu frv., ekki vegna þess að ég sé hlynntur frjálsum útvarsrekstri, heldur vegna þeirrar umr. sem orðið hefur um hið íslenska ríkisútvarp, dagskrá þess og framtíð. Ég held að sú umr. hafi verið mjög tímabær, hún hafi þegar borið góðan ávöxt og muni eiga eftir að bera enn betri ávöxt í allra næstu framtíð.

Bandaríkjamenn munu vera sú þjóð sem mesta reynslu hefur af frjálsum útvarps- og sjónvarpsrekstri. Staða mála þar er nú á þann veg, að ríkisvaldið hefur talið sig til neytt að grípa inn í og stofna bæði útvarps- og sjónvarpsstöðvar, sem flytja kennsluefni og menningarlegt efni. Það fór nefnilega svo, að hinn frjálsi útvarpsrekstur lét sig einu skipta hinn menningarlega þátt í útvarpsrekstrinum — það var peningasjónarmiðið sem réð ferðinni. Sjálfur hef ég heimsótt allmargar af þessum frjálsu, litlu útvarpsstöðvum í Bandaríkjunum, þar sem þarf ekki nema 3–5 manna starfslið, lítinn útvarpssendi, segulbandstæki fyrir kassettur og síðan er safnað auglýsingum, þær fluttar ásamt stuttum fréttum, en helftin af dagskrárefninu er tónlist af léttara tagi.

Á að leyfa frjálsan útvarpsrekstur? er spurning sem vert er að velta fyrir sér. Á að leyfa hann eða á ekki að leyfa hann? Ég er algerlega andsnúinn því og vil ekki að hann verði leyfður. Ástæður mínar eru einfaldlega þær, að ég tel að það geti orðið miklu alvarlegri einokun á útvarpsrekstri en nú er, ef hann verður gefinn frjáls. Menn gera lítið úr þeim sjónarmiðum, að peningamenn muni geta haslað sér völl á þessum markaði. Hver verður það þá, sem rekur sterkustu útvarpstöðina? Hver verður það þá, sem hefur völdin á þessum frjálsa markaði? Það verður s.í sem mest peningamagnið hefur, sem sterkastan sendinn getur keypt, sem útvarpað getur besta efninu og hefur fjármagn til verulega góðrar dagskrárgerðar. Af þessum ástæðum einum er ég andsnúinn þessari hugmynd.

Hins vegar er ég þeirrar skoðunar, að bæði þessi umr. og það, sem hér er nú fjallað um, hljóti og muni leiða til betri rekstrar á hinu íslenska ríkisútvarpi. Margt bendir til þess þegar í stað. Menn ræða nú, eins og komið hefur fram hjá hv. þm. Friðrik Sophussyni, næturútvarp, m.a. er til umr. að útvarpa í stereo, sem mönnum þykir mikið um. Rætt hefur verið um tvær rásir útvarpsins. Á annarri yrði þá væntanlega útvarpað léttu efni sem mundi höfða til þess unga fólks sem flm. þessa frv. bera mjög fyrir brjósti. Þetta eru allt góðir og gildir þættir og verulega eftirtektarverðir í sambandi við rekstur útvarpsins. Væntanlega komast þeir allir á dagskrá áður en langt um líður.

Ég vil ekki ræða svo um þetta mál, að ég víki ekki að stöðu Ríkisútvarsins eins og hún er í dag. Á sama tíma og gerðar eru mjög verulegar kröfur til bættrar dagskrár og aukinnar tækni í rekstri Ríkisútvarpsins hefur ríkisvaldið og hv. Alþ. leyft sér að hafa þessa stofnun í fjárhagslegu svelti í áratugi. Þessi stofnun á ekki enn þá þak yfir höfuðið. Þessi stofnun er í þeim sporum núna, að hlutverki hennar sem eins helsta almannavarnakerfis á landinu er mjög ábótavant. Þau möstur á Vatnsendahæð, sem eiga að útvarpa langbylgjusendingum, eru nánast ónýt. Það þarf ekki nema rösk 11 vindstig til að setja þau um koll. Svona er ástandið. Tækjakostur Ríkisútvarpsins er lélegur og vægast sagt úr sér genginn, og húsnæði stofnunarinnar er fyrir neðan allar hellur. Það væri frekar að við huguðum nú að því að reyna að bæta stöðu þessarar stofnunar, þessarar mikilvægu stofnunar sem við eigum mikið undir í menningarlegu, fræðslulegu tilliti og í því tilliti að þetta er tengiliður byggðarlaga, þetta er helsta almannavarnakerfi landsins og þetta er sá miðill sem útvarpar 17 klukkustundir á sólarhring 365 daga á ári. Ég held að það væri nær að huga að því að bæta þennan miðil en fara að leyfa frjálsan útvarpsrekstur á Íslandi. Það eru gerðar kröfur til þessarar stofnunar, en það skortir fjármagn til að verða við þeim kröfum.

Ég held að ef menn hugsa vandlega um þá hugmynd, sem fram kemur í þessu frv., muni þeir komast að því að hún sé í fyrsta lagi illframkvæmanleg, ef slíkur frjáls útvarpsrekstur ætti að ná þeim tilgangi og hlíta þeim reglum sem fram koma í frv., einfaldlega vegna þess að ef slíkur frjáls útvarpsrekstur ætti að vera hér á landi þyrfti að vanda mjög til hans. Þá er spurningin. Hver hefur fjárhagslegt bolmagn til þess að vanda svo til slíks útvarpsrekstrar sem fram kemur í þessu frv.? Það eru örfáir aðilar. Það eru þá fyrst og fremst þeir menn sem yfir verulegu fjármagni ráða, og þá er ég ekki kominn til með að segja að t.d. ákveðin stjórnmálaöfl geti ekki ráðið úrslitum um það, hverjir verða ofan á í þeirri baráttu, sem hlýtur að skapast þegar slíkur útvarpsrekstur fer á annað borð í gang. Ég held að við ættum í þessu máli að hætta að reyna að slá okkur til riddara fyrir unga fólkið og reyna heldur að bæta dagskrá hins íslenska Ríkisútvarps, m.a. með þeim hugmyndum, sem hér hafa verið nefndar: landshlutaútvarpi, stereoútsendingum, tveimur rásum og fleira af því tagi.

Ég er algerlega mótfallinn því, að einkarekstur á ríkisútvarpi og sjónvarpi verði tekinn úr höndum ríkisvaldsins og látinn nánast í hendur Péturs og Páls, sem gætu þá farið að reka útvarpsstöðvar hér á landi. Þá skyldu menn einnig hugleiða það, að sá útvarpsrekstur yrði mjög verulega bundinn við þéttbýlisstaði og dreifbýlið mundi einskis njóta. Þegar menn tala um að það yrði lítill kostnaður að koma upp slíku útvarpi, þá er hann sannarlega lítill í þéttbýlinu. En ef slíkar stöðvar ættu að þjóna hinum dreifðu byggðum landsins, eins og Ríkisútvarpið gerir, er fjármagnið komið upp í hundruð millj. kr. þegar þarf að fara að reisa endurvarpsstöðvar og annað.

Ég hef sagt að ég sé andsnúinn þessari hugmynd. Ég er fylgjandi öllu því sem flokkast getur undir frelsi og lýðræði, en það á ekkert skylt við þetta mál. Það á þann aðgang að því ríkisútvarpi, sem við höfum núna, sem nauðsynlegur er. Ég held að um leið og menn segja að það sé erfitt að koma að efni í Ríkisútvarpinu, þá mæli þeir ekki beinlínis af þeirri þekkingu sem til þarf þegar verið er að fjalla um þessi mál. Það eru tvær ástæður fyrir því, að efni kemst ekki í hið íslenska Ríkisútvarp. Önnur er sú, að efnið er lélegt, fyrir neðan allar hellur, og hin, að flutningur þess og dagskrárgerð kostar meira fjármagn en útvarpið eða sjónvarpið hefur yfir að ráða. Fjölmargar hugmyndir koma á borð útvarpsráðs um gerð dagskrárþátta, en þessar hugmyndir kosta tugi millj. og þaðan af meira. Það er kannske af þeim ástæðum sem frjálst útvarp á að taka við og sjá um að koma þessu efni á framfæri, af því að það sé svo ódýrt. En þá er spurningin: Hvar ætla flm. að taka fjármagnið?

Ég vil ekki lengja þessa umr. Ég hef látið kjarnann í áliti mínu á þessu máli koma fram. Ég vil eindregið vara við því, að menn taki raunverulega mark á þessu frv. Það hefur þegar gert það að verkum, að umr. um útvarpsmál hafa orðið miklar og þar af leiðandi hefur þetta frv. náð verulegum tilgangi. Þar ættu menn að láta staðar numið. Þetta hefur orðið til þess að menn hafa farið að ræða dagskrárgerð útvarps og sjónvarps í alvöru, sem ekki hefur áður verið gert. Menn eru kannske farnir að koma auga á að aðstaða hins íslenska ríkisútvarps er fyrir neðan allar hellur. Þingheimur þyrfti að fara að gera sér ljósa grein fyrir því, að þar þarf að taka til höndum á næstu mánuðum og árum ef ekki á að stofna til mjög alvarlegs og hættulegs ástands hér á landi. Vík ég þar einkum að hlutverki Ríkisútvarpsins í almannavarnakerfinu. Ég sé ríkisvaldið og hið háa Alþingi standa uppi eftir veruleg áföll eða „katastrofu“, ef ég mætti orða það svo innan gæsalappa, sem yrði hér á landi, sem gerði það að verkum að þessi ágætu möstur, sem ég hef nefnt, hryndu og það væri ekki hægt að koma skilaboðum til landsmanna í heild. Ég er sannfærður um að frjálst útvarp mundi ekki heldur koma þeim skilaboðum á framfæri.

En rauði þráðurinn í orðum mínum er þessi: Við skulum heldur reyna að styrkja Ríkisútvarpið, auka veg þess og virðingu og auka þjónustu þess við landsmenn, en láta okkur dreyma um þær hugmyndir sem illa hafa reynst í öðrum löndum. Það ættu menn að þekkja, sem ferðast hafa um þau lönd þar sem frjáls útvarpsrekstur er leyfður. Nágrannaþjóðum okkar hefur ekki dottið í hug að heimila slíkan frjálsan útvarpsrekstur, a.m.k. ekki þeim sem kenndar eru við nokkra menningu.