12.02.1979
Neðri deild: 50. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2518 í B-deild Alþingistíðinda. (1970)

168. mál, útvarpslög

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., er raunar gamall kunningi og hefur um það verið fjallað áður. Rétt er að minna á það, sem raunar hefur komið fram, að annað frv. er í meðferð þingsins sem fjallar um breytingu á útvarpslögum í þá veru að komið verði á fót staðbundnum stöðvum eða svokölluðu landshlutaútvarpi. Það mál er allrar athygli vert að stuðlað verði að því að slíkar stöðvar geti komist á fót undir handarjaðri Ríkisútvarpsins. Það er allt annað mál en það mál sem verið er að ræða núna.

Þeir, sem þetta mál flytja, telja sig sérstaka talsmenn frelsis og frjálsra skoðanaskipta. Ég vil telja mig talsmann þess líka, en sé ekki að þetta frv. um breyt. á útvarpslögunum, sem miðar í þá átt að hér geti menn komið upp útvarpsstöðvum, þeir sem vilja, sé beinlínis í þá veru að auka frelsi eða frjáls skoðanaskipti á þessu sviði. Það frelsi, sem til kæmi ef þetta frv. yrði að lögum, yrði frelsi peninganna og lýðræði peninganna. Í 10. gr. þessa frv. segir nefnilega, með leyfi forseta:

„Með sama hætti og að framan greinir skal öðrum útvarpsstöðvum heimilað að afla tekna með auglýsingum eða sérstöku gjaldi vegna útsendingar fræðslu- og skýringarefnis eða annars efnis, sem viðskiptavinir viðkomandi stöðvar kynnu að vilja koma á framfæri við almenning.“

Þarna á ekki neitt vont útvarpsráð eða pólitísk dagskrárstjórn að stjórna því, hvaða efni er unnt að koma á framfæri. Sú stjórn hefur að mínu mati verið með þeim hætti, að allir, sem hafa óskað eftir því og verið með frambærilegt efni, hafa getað komið skoðunum sínum á framfæri í íslenska ríkisútvarpinu. Hér er hins vegar sagt berum orðum, að menn eigi að kaupa skoðanir sínar inn í þetta frjálsa útvarp og þeir einir, sem geta borgað fyrir að koma skoðunum sínum á framfæri, eigi að hafa þar tjáningarfrelsi og tjáningarrétt. Það er frelsi peninganna og lýðræði peninganna sem á að ráða í þessu frjálsa útvarpi, og því er ég andsnúinn.

Það er látið í það skína og þeim röksemdum mjög beitt hér, að slíkt útvarp kosti nánast ekki neitt. Þetta sé hægt að gera án mikils tilkostnaðar, eins og 1. flm., hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, sagði áðan. Það er rétt, eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni, að í þéttbýlinu er kannske hægt að gera þetta tæknilega án mikils tilkostnaðar. Og þá er þetta eingöngu hugsað sem útvarp fyrir þéttbýlissvæði — fyrir Reykjavíkursvæðið og e.t.v. Akureyrarsvæðið, en ekki fyrir aðra landsmenn. Þessa eiga menn að láta getið. Þetta skiptir verulegu máli í þessu sambandi. Það er látið í það skína, að þetta kosti nánast ekki neitt, en það er argasti misskilningur vegna þess, eins og ég minntist á áðan, að menn eiga að kaupa sig þarna inn með efni. Í öðru lagi verður safnað auglýsingum, sjálfsagt með hefðbundnum hætti. Auglýsingamarkaður hér er ekki mjög stór, þannig að það má reikna með að þetta tæki verulegar tekjur frá Ríkisútvarpinu og gerði því þannig erfiðara um vik að gegna hlutverki sínu. Þar að auki fá menn ekki að leika tónlist allan sólarhringinn án þess að borga fyrir það. Ég held að þær upplýsingar séu réttar, að á fyrra hluta síðasta árs hafi Ríkisútvarpið greitt 5 millj. kr. á mánuði til STEFS, Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar. Það er þess vegna mikill misskilningur að þetta kosti ekki neitt eða sé nánast ókeypis.

Það var minnst hér á breytingar á útvarpi og sjónvarpi og skipulagi þeirra mála í Svíþjóð. Það er alveg rétt, að þar er verið að dreifa valdinu og gera það staðbundið, en hvorki er verið af afhenda Volvo né Wallenberg réttinn til að reka útvarpsstöðvar. Það er ekki til umr., þótt í annað sé látið skína hér. Og á Norðurlöndunum hefur þessum málum verið hagað með sama eða svipuðum hætti og hér.

Það má ýmsu breyta í rekstri Ríkisútvarpsins og hefur verið vikið að því hér. Ég held að það sé miklu brýnna þm. og Alþ. að reyna að bæta og efla rekstur þess ríkisútvarps, sem við nú höfum, og bæta þjónustu þess. Það er talað um næturútvarp — hugmynd sem er allra góðra gjalda verð. Það er líka talað um möguleikana á því að byrja að útvarpa á annarri rás. Það yrði sjálfsagt smátt í sniðum til að byrja með, en yrði að vinna eftir áætlun um að slíkt útvarp næði smám saman til alls landsins. Að þessum atriðum eigum við að beina kröftum okkar og fjármagni. Það frv., sem hér er um að ræða, leysir engan vanda á þessu sviði. Sú meginstefna, sem í því felst, er að mínu mati ekki til bóta og þess vegna mun ég greiða atkv. gegn þessu frv.