13.02.1979
Sameinað þing: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2523 í B-deild Alþingistíðinda. (1975)

170. mál, áætlanagerð Framkvæmdastofnunar ríkisins um Dalabyggð

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég fagna því, eins og fram kom í svari hæstv. forsrh., að þetta mál er í fullri vinnslu. Það var eitt af fyrstu verkefnum, sem Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi beittu sér fyrir eftir að þau voru stofnuð, að óska eftir því, að hafinn yrði vinna við Vesturlandsáætlun sem yrði á breiðum vettvangi. Þessi vinna var hafin í Framkvæmdastofnuninni, og eins og kom fram hjá hæstv. forsrh. hefur verið um þetta fjallað á þingum samtaka sveitarfélaga í Vesturlandi á undanförnum árum. Hafa verið gerðir frumdrættir að Vesturlandsáætlun, m.a. um samgöngumál, raforkumál, jarðhitaleit, heilbrigðismál, skólamál og lýsing á fiskimiðum og ýmsum öðrum möguleikum sem eru á Vesturlandi. Þetta hefur fengið mjög góðar undirtektir meðal íbúa Vesturlands og hefur verið rætt víðs vegar, ekki aðeins á þingum sveitarfélaga, heldur einnig í einstökum sveitarfélögum. Menn binda miklar vonir við að að lokum fáist vel unnin Vesturlandsáætlun, sem hægt verður að byggja á vissar framkvæmdir á Vesturlandi.

Það var vel valið að byrja á Dalabyggðaráætlun, því að í Dölum er ástand þannig, miðað við bæði við Vesturlandsbyggðir og eins miðað við landið í heild, að þar eru meðaltekjur manna miklu lægri en víðast annars staðar. Þess vegna er mjög áríðandi að þessi áætlun nái fram að ganga og hægt verði að hefja ráðstafanir til eflingar byggðar í Dalasýslu á grundvelli hennar.

Þess vegna vil ég fagna því, að málið er í fullri vinnslu.