13.02.1979
Sameinað þing: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2524 í B-deild Alþingistíðinda. (1976)

170. mál, áætlanagerð Framkvæmdastofnunar ríkisins um Dalabyggð

Fyrirspyrjandi (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir mjög greinargóð svör við þessari fsp. Eins og kom fram í máli hans hefur verið unnið að Vesturlandsáætlun hjá Framkvæmdastofnun ríkisins allt frá ársbyrjun 1974. Auðvitað er frumskilyrði þess, að áætlun verði byggð upp, að gagna sé aflað og síðan byggt á þeim grunni. Það hefur komið í ljós m.a. eins og hv. síðasti ræðumaður vék að, að meðaltekjur manna á þessum slóðum eru mjög misjafnar og víða mjög lágar, þannig að segja má að þar sé um aðsteðjandi vanda að ræða. En ég fagna því, að nú er frumlestur handrits að endanlegri skýrslu hafinn, eins og hæstv. forsrh. tók til orða, og ætla að leyfa mér að vona, að þessi áætlun komi bráðlega fyrir almenningssjónir.

Það má geta þess, að í morgun voru hér hjá okkur fulltrúar frá hreppsnefnd Laxárdalshrepps í Dalasýslu og sveitarstjórinn. Þeir voru einmitt að spyrja okkur þm. Vesturl. um þetta atriði sem þeir binda miklar vonir við.

Ég hef þessi orð ekki fleiri, en fagna því, að verið er að vinna að lausn málsins, og ítreka þakkir mínar til forsrh. fyrir góð svör.