13.02.1979
Sameinað þing: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2527 í B-deild Alþingistíðinda. (1981)

337. mál, hefting landbrots

Dómsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. e. spyr hvernig háttað hafi verið framkvæmd laga um heftingu landbrots og varnir gegn ágangi vatns frá 14. maí 1975 og hvaða ráðstafanir séu fyrirhugaðar til þess að lög þessi nái tilgangi sínum.

Lögin mæla svo fyrir, að unnið skuli að heftingu landbrots og hindra skuli önnur spjöll á nytjalandi af völdum vatna með fyrirhleðslum og lagfæringum á árfarvegum. Til að vinna að því verki og grundvalla það starf skal, segir í lögunum, starfa sérstök matsnefnd í hverri sýslu sem er skipuð fulltrúum Búnaðarfélags Íslands og Vegagerðar ríkisins, þegar matsnefndarmenn hafa starfað í öllum sýslum og hafa gert sér far um að fylgjast með landbroti og hættu á landspjöllum skila þeir árlega inn álitsgerð til Vegagerðar ríkisins um ástand í hverri sýslu. Þessi álitsgerð er kynnt fjvn. Alþingis á hverju ári. Úthlutun fjár og skipting þess til verkefna skv. nefndum lögum er að öllu leyti ákveðin af fjvn. Alþingis.

Ég er jafnframt með yfirlit yfir skiptingu þess fjár eftir að lögin frá 1975 tóku gildi.

Árið 1976 var samtals skipt 23 millj. 940 þús. kr. Það skiptist þannig: Suðurland fékk 9 millj. 490., Reykjanes 200 þús., Vesturland 880 þús., Vestfirðir 100 þús., Norðurland vestra 1 millj. 910 þús., Norðurland eystra 570 þús., Austurland 10 millj. 790 þús.

Árið 1977 var skipt samtals 30 millj. kr., og skiptist það þá þannig: Suðurland 13 millj. 430 þús., Reykjanes 520 þús., Vesturland 2 millj., Vestfirðir 400 þús., Norðurland vestra 3 millj. 190 þús., Norðurland eystra 600 þús., Austurland 9 millj. 880 þús.

Árið 1978 var skiptingin þessi, þá var skipt samtals 40 millj. 700 þús.: Suðurland hlaut 16 millj. 700 þús., Reykjanes 700 þús., Vesturland 2 millj. 770 þús., Vestfirðir 830 þús., Norðurland vestra 4 millj., Norðurland eystra 1 millj. og Austurland 14 millj. 700 þús.