13.02.1979
Sameinað þing: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2527 í B-deild Alþingistíðinda. (1982)

337. mál, hefting landbrots

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. svörin. Eins og ég sagði áðan, virðast ekki hafa orðið þáttaskil í þessum málum í sambandi við lagasetninguna 1975. Ef litið er t.d. á framlög á undanförnum árum, þá var árið 1971 varið til þess arna 4 millj 625 þús. Niðurstöðutölur fjárlaga þá voru 11 milljarðar 534.7 millj. eða hafa átjánfaldast rúmlega síðan. Sambærileg tala nú hefði átt að vera um 83.8 millj., ef verið hefði sama hlutfall á fjárlögum. Árið 1974 voru ætlaðar til fyrirhleðslna 17.2 millj. Þá var niðurstöðutala fjárl. 29 milljarðar og 400 þús., hefur rúmlega sjöfaldast síðan. Ef hefði verið sama hlutfall á fjárl. til þessa verkefnis hefði það átt að vera í dag 122 millj. Árið 1976 var varið 23.9 millj. til þessa verkefnis. Fjárlög þá voru rétt rúmlega 60 milljarðar, hafa hækkað síðan 3.6 sinnum. Sambærileg tala nú hefði átt að vera 82.9 millj. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðh. er varið til fyrirhleðslna á þessu ári 53 millj. á fjárl. sem eru tæplega 209 milljarðar. Þessar tölur tala í raun og veru sínu máli.

Nú standa þessi mál þannig, að ekkert er líklegra en verulegar skemmdir verði á túnum og öðru gróðurlendi á mörgum stöðum á landinu ef ekki verður brugðist við í tíma og gerðar viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir það. Þá hlýtur sú spurning að koma upp í hugann, hvort ekki verði að gera einhverjar breytingar á þessum lögum. Jafnvel dettur mér í hug, hvort það væri ekki eðlilegra þá að landgræðslustjóri ætti að hafa eftirlit með þessu eða a.m.k. einhver slíkur aðili, þannig að sú hugsun, sem á bak við lá þegar þessi lög voru sett, komi að notum. Því miður virðast lögin eins og þau eru ekki hafa náð tilgangi sínum.