13.02.1979
Sameinað þing: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2528 í B-deild Alþingistíðinda. (1983)

122. mál, snjómokstursreglur

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Á þskj. 144 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. samgrh. um hvort ekki sé fyrirhugað að endurskoða reglur þær sem í gildi eru um snjómokstur á þjóðvegum landsins. Ástæðan fyrir þessari fsp. er sú, að reglur þær, sem í gildi eru um snjómokstur, eru þannig, að ekki er hægt við þær að una. Hér fyrir framan mig hef ég kort af landinu þar sem greinilega er merkt hvaða reglur gilda nú í þessu efni. Er bæði fróðlegt og lærdómsríkt að kynna sér þær.

Alla daga vikunnar er mokað út frá Reykjavík í allar áttir þegar þess þarf með: 1) Suður til Keflavíkur og Keflavíkurflugvallar. 2) Suðurlandsvegur allt austur til Hellu og þaðan til Hvolsvallar. 3) Vesturlandsvegur um Hvalfjörð og sem leið liggur til Borgarness.

Þá koma vegir sem eru mokaðir alla virka daga, sem mun þýða 5 daga vikunnar, þ.e.a.s. frá mánudegi til föstudags að báðum dögum meðtöldum: Af Keflavíkurvegi til Grindavíkur og frá Keflavík til Sandgerðis, báðar leiðir, þ.e.a.s. yfir heiðina og um Garðinn. 2) Af Suðurlandsvegi: Þrengslavegur til Þorlákshafnar, Eyrarbakka, Stokkseyrar og frá Hvolsvelli til Víkur. 3) Af Vesturlandsvegi til Akraness. 4) Milli Sauðárkróks og Varmahlíðar. 5) Frá Akureyri að Dalvíkurvegamótum, þ.e.a.s. 11 km vegarkafli. 6) Frá Egilsstöðum um Fagradal til Reyðarfjarðar. 7) Frá Húsavík, Ísafirði og Höfn til flugvalla þessara staða.

Þá koma þeir staðir, sem eru mokaðir tvo daga í viku: 1) Frá Keflavíkurflugvelli suður í Hafnir. 2) Á Suðurlandsvegi austur um Grímsnes, Biskupstungur og hringinn um Skeiðaveg, og frá Vík til Hafnar í Hornafirði. 3) Af Vesturlandsvegi frá Borgarnesi til Ólafsvíkur og Hellissands, yfir Kerlingarskarð til Stykkishólms og þaðan til Búðardals og einnig um Heydal. Af Vesturlandsvegi um Reykholt á Norðurlandsveg hjá Munaðarnesi. 4) Um Norðurlandsveg allt til Akureyrar og þaðan um Dalsmynni til Húsavíkur. Af Norðurlandsvegi til Hvammstanga, Skagastrandar og Dalvíkur. 5) Frá Sauðárkróki til Siglufjarðar. 6) Frá Þórshöfn um Þistilfjörð. 7) Frá Egilsstöðum til Eiða. Frá Reyðarfirði til Eskifjarðar og Breiðdalsvíkur.

Á þessari upptalningu sést að erfitt er að gera sér grein fyrir hvaða rök liggja til grundvallar þessum reglum. Hvernig stendur t.d. á því, að moka á 5 daga vikunnar á milli Varmahlíðar og Sauðárkróks, Egilsstaða og Reyðarfjarðar, en aðeins tvisvar í viku frá Akureyri til Dalvíkur, svo dæmi séu nefnd. Og hvers vegna að moka tvisvar í viku yfir Kerlingarskarð og einnig Heydal og frá Sauðárkróki til Siglufjarðar, en einu sinni í viku til Ólafsfjarðar. Þó tel ég þörfina fyrir samgöngur og allar aðstæður svipaðar t.d. við Siglufjörð og Ólafsfjörð, og ætti að vera nægilegt að moka annaðhvort Kerlingarskarð eða Heydal, miðað við þá þjónustu sem ýmsir aðrir búa við. Einnig er mokað einu sinni í viku norðanvert Snæfellsnes og tvisvar í mánuði er mokuð Brattabrekka. Á allri leiðinni frá Húsavík til Vopnafjarðar, nema smáspöl í Þistilfirði, er aðeins mokað tvisvar í mánuði. Þessi vegalengd mun vera a.m.k. 2/3 af þeim vegum sem á annað borð eru mokaðir á kostnað Vegagerðarinnar. Þó að enginn læknir sé staðsettur á Kópaskeri eða Raufarhöfn og alla mjólk þurfi að flytja frá Húsavík til Raufarhafnar og Kópaskers hefur ekki fengist enn breyting á þessum reglum. Skip Skipaútgerðar ríkisins hafa um árabil fellt Kópasker niður sem viðkomustað í strandferðum og fækkað um helming ferðum til Raufarhafnar og Þórshafnar og eru þær ekki nema tvær í mánuði nú. Er því enn brýnna nú en áður að vegirnir séu færir og þeir mokaðir ekki sjaldnar en aðalleiðir annars staðar á landinu. Og það mætti spyrja að fleiru í þessu sambandi. Hvers vegna eru hliðarvegir mokaðir t.d. á Suðurlandi og Vesturlandi, en ekki í sveitum Eyjafjarðar? Ekki er farið eftir framleiðslumagni eða þéttbýli a.m.k. í þessu tilliti. Í þessum tilvikum er því ekki úr vegi að spyrja, hvaða rök eða ástæður séu fyrir því að slík mismunun á sér stað í þessum efnum. Vegirnir eru slagæðar byggðanna og þeir eru ekki þýðingarminni fyrir þá, sem búa á Norðurlandi eystra, en annars staðar á landinu.

Ég tel að eðlilegt sé að reglur um snjómokstur séu samræmdar og landshlutarnir búi við sem svipaðasta þjónustu hvað þetta snertir, eftir því sem við verður komið, og ekki sé hægt að sætta sig við neitt annað. Því hef ég leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp. til hæstv. samgrh. Er hún á þskj. 144 og er þannig, með leyfi forseta.

„Eru ekki fyrirhugaðar breytingar á gildandi reglum um snjómokstur á þjóðvegum til að minnka þann aðstöðumun, sem menn búa við í þessum efnum: a) Um skiptingu snjómoksturskostnaðar milli Vegagerðar ríkisins og sveitarfélaga í snjóþungum svæðum? b) Á leiðinni frá Akureyri til Dalvíkur og þaðan til Ólafsfjarðar? c) Á leiðinni frá Húsavík um Kópasker, Raufarhöfn, Þórshöfn og þaðan til Vopnafjarðar?“