13.02.1979
Sameinað þing: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2532 í B-deild Alþingistíðinda. (1985)

122. mál, snjómokstursreglur

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt aths. út af þessari fsp. og svörum hæstv. ráðh. um snjómokstur. Ég vil fagna því, að hæstv. ráðh. hefur tekið vel í að breyta þessum reglum, og ég er honum sammála um að það er æskilegra fyrir okkur að stefna að því að byggja vegina betur upp, þannig að þeir teppist síður af snjó, heldur en að eyða mjög miklu fé í snjómokstur. Hins vegar verður ekki hjá því komist, að á ýmsum stöðum á landinu verða vegir aldrei þannig uppbyggðir að ekki þurfi að halda þeim opnum með snjómokstri. T.d. er það svo um Múlaveg, að ég held að hann verði seint þannig uppbyggður að þar falli ekki snjór á veginn. Þarna er um að ræða mjög erfiða aðstöðu fyrir fólkið sem við þetta býr, og ég vil taka undir það með hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, að þarna er um lífæð fólksins að ræða. Það er ekkert um það að gera, ef á að bæta samgöngur á t.d. þessum stað, þá verður að standa betur að snjómokstri en gert hefur verið.

Það mun hafa verið í kjölfar þáltill., sem samþ. var hér á hv. Alþ. og ég flutti ásamt fleirum, sem reglur um snjómokstur voru síðast endurskoðaðar. Ég lýsti sérstakri óánægju minni yfir ýmsu að því er varðaði mitt kjördæmi í þessu efni og minnti þá bæði á Múlaveg og veginn frá Húsavík og austur á Þórshöfn. Ég vil nú segja í sambandi við það, að hv. þm. Stefán Valgeirsson hefði kannske getað beitt áhrifum sínum betur 1977, þegar ráðh. úr hans eigin flokki fór með þessi mál og breytti reglunum, en um það er nú ekki beint að sakast hér.

Ég vil samt taka undir það sem kom fram í hans málflutningi. Hér er um óviðunandi ástand að ræða að því er varðar núgildandi reglur um snjómokstur, og ég vil fagna því, að hæstv. ráðh. hefur tekið vel í þessi mál almennt. En ég vil vekja athygli á því, að þó að meginstefnan hljóti að vera þessi sem kom fram í máli hæstv. ráðh., þá verður að taka snjómokstursreglur til athugunar á ýmsum stöðum þar sem uppbyggðum vegum verður ekki komið við til þess að samgöngur séu í eðlilegu horfi.