13.02.1979
Sameinað þing: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2533 í B-deild Alþingistíðinda. (1987)

122. mál, snjómokstursreglur

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það er sennilega erfitt að setja reglur um snjómokstur sem allir geta við unað. Þó verður því ekki neitað, að þegar lítið er á Íslandskortíð, sem snjómokstursreglur frá því í jan. 1977 hafa verið markaðar á, búa landsmenn við mjög ójafna aðstöðu í þessu efni. Og það verður vitanlega erfitt að jafna þessa aðstöðu öðruvísi en byggja upp vegina, eins og hér hefur verið tekið fram. Þó verð ég að segja það, að vitanlega veltur afskaplega mikið á að halda þeim leiðum vel við þar sem t.d. fara fram daglegir mjólkurflutningar. Einnig finnst mér ekki koma til mála áð taka snjómoksturstæki, t.d. veghefla, úr sveitum þar sem þeir hafa verið um áraraðir, og vil ég þá tilnefna Snæfellsnes sunnanvert, en heyrst hefur að þaðan eigi að taka veghefil sem hefur þjónað þeim byggðum undanfarin ár mjög lengi. Auk þess verð ég að segja það, að ég tel að það mætti marka eða líta, skulum við segja, fleiri leiðir á þessu korti. Við sjáum þarna vegaleiðir þar sem aldrei fer hefill um, og vil ég þar nefna leið sem við Breiðfirðingar köllum „i kringum Strandir“, þ.e.a.s. Klofninginn út með Hvammsfirði norðanverðum og inn með Gilsfirði sunnanverðum, svo og leiðina um Breiðavík „framan undir“ Jökli, sem kallað er. Þarna mætti að mínum dómi a.m.k. — svo gætt sé ýtrustu hófsemi — fara hefill eða eitthvert annað tæki einu sinni í hálfum mánuði meðan fært þykir vegna veðráttu og snjóþyngsla og heimilt ætti að vera að opna vikulega haust og vor meðan snjólétt er. Þetta held ég að væri allra hófsamlegasta krafa eða ósk sem hægt væri að bera fram í þessu efni.