13.02.1979
Sameinað þing: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2535 í B-deild Alþingistíðinda. (1989)

122. mál, snjómokstursreglur

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég tel að forseti sýni nokkurt langlundargeð að hringja ekki oftar bjöllunni í þessari umr. Ég er ekki viss um að þingsalurinn sé rétti vettvangurinn til þess að fara svona ítarlega út í þessi mál.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar um vegamál, eins og hefur verið ráðstafað fjármagni til vegagerðar, að þeirri ráðstöfun sé ekki háttað eins og ætti að vera. Ég er á móti því að þm. séu að mylgra þessum peningum út um kjördæmin. Eftir að búið er að ætla hverju kjördæmi tiltekinn kvóta setjumst við þm. niður og ákveðum hvað eigi að fara í hvern vegarspotta. Ég tel að Vegagerðin sjálf eigi að ráða þessu. Hins vegar eigum við þm. að hafa valdið til þess að gagnrýna verk hennar og þá héðan úr þessum ræðustól. En ríkjandi fyrirkomulag ýtir undir heldur óviðurkvæmilega hreppapólitík og alls konar tækifærismennsku og lágkúru. Þegar búið er að ráðstafa peningum í tiltekinn kafla, þá eru menn býsna fljótir að senda skeyti til viðkomandi oddvita eða hringja í hann í síma: peningarnir séu til reiðu. En það er yfirleitt alltaf fullkomið samkomulag milli þm. um að þessir tilteknu peningar fari í þennan tiltekna kafla. Sá, sem fær heiðurinn, er hins vegar sá sem er fljótastur að hlaupa, fljótastur að koma skeytinu á framfæri.

Snjómokstur á vegum er að sjálfsögðu mjög þýðingarmikið mál fyrir kjördæmin víða, og þó ég taki undir það sem vinur minn, hv. þm. Friðjón Þórðarson, sagði áðan varðandi Vesturlandið, þá verðum við þó að viðurkenna að það eru önnur kjördæmi sem eiga við meiri erfiðleika að búa í þessum efnum heldur en Vesturland. Erfiðastir þar eru fjallvegirnir á Snæfellsnesi. Og ég tek fram, að ég er sammála þessum hv. þm. um að það ætti endilega áfram að vera veghefill á Vegamótum eins og verið hefur. Það væri best. En hinu getum við ekki neitað, að sunnanvert Snæfellsnesið er yfirleitt snjólétt og verulegir erfiðleikar verða þar að jafnaði ekki fyrr en vestur undir Jökli, hjá vinum okkar þar. Og það er hverju orði sannara, sem hv. þm. sagði hér áðan, að þar er mikil þörf fyrir aukinn mokstur. Mönnum er kannske ekki öllum kunnugt um það, að börn á þessu svæði sækja skóla alla leið í Laugagerði, æðilangan veg, og komast iðulega ekki í skólann vegna snjóa. (Forseti: Nú verð ég að fara að nota bjölluna.) Já, ég tek undir það. Það er rétt. Eitt vil ég þó segja að lokum í sambandi við Heydalinn. Við eigum allir að sameinast um að gera Heydalsveginn góðan, því það er sá vegur sem iðulega hentar best þegar heiðar lokast vegna snjóa. Þá er þetta heppilegasti vegurinn norður í land. Og svo eigum við að bæta veginn upp Laxárdal og yfir Laxárdalsheiði. Við eigum að taka höndum saman um þetta við Norðlendinga. Þannig bætum við Vestlendingar að sjálfsögðu líka vegaástandið í okkar eigin kjördæmi.

Ég vil í lokin ítreka þá skoðun mína, að umr. af þessu tagi eiga ekki heima í þessum sal. Þetta á allt saman að ræða á öðrum vettvangi. Og eins er það með vegaféð. Vegagerðin á að ráðstafa því sjálf, og það á að vera réttur okkar að gagnrýna hvort það hefur verið skynsamlega gert eða ekki. En þetta skipulag, sem ýtir undir alls konar lágkúru í viðskiptum við kjósendur, er alls kostar ótækt að mínum dómi.

Þrátt fyrir mikla þýðingu snjóruðnings á vegum og þrátt fyrir samgönguerfiðleika ýmsa hygg ég að þjóðin bíði með meiri eftirvæntingu eftir því, hvernig gangi að komast yfir það skarð, sem mætti kannske nefna Ólafsskarð, eða eigum við að segja: hvað sé að frétta af þeim ýtustjóra sem á að ryðja brautina yfir það skarð og heitir Ólafur.