26.10.1978
Neðri deild: 8. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

39. mál, kjaramál

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Frv., sem hér er til umr., um staðfestingu á brbl.þeim, sem ríkisstj. gaf út og kölluð eru um kjaramál, kemur hér til þings eftir að rúmur hálfur mánuður er liðinn frá því að þing var sett og þá tekið strax til umr. Hv. 4. þm. Reykv. gerði þessu frv. ítarleg skil í ræðu sinni í gær og þá alveg sérstaklega kaflanum um kjarasamninga og greiðslu verðbóta á laun, og skal ég ekki orðlengja um þau atriði, en vil þó bæta nokkru við, einkum í sambandi við III. kafla laganna um niðurfærslu og verðlagseftirlit.

Ákvæði í III. karla veita ríkisstj. heimild til aukningar niðurgreiðslna um 4.9% af verðbótavísitölu, eins og hún var fyrir gildistöku laganna. Þessi heimild hefur þegar verið notuð af hæstv. ríkisstj., og er áætlað að sú aukning niðurgreiðslna og auknar niðurgreiðslur 1. des. n.k. muni kosta ríkissjóð hvorki meira né minna en 3350 millj. kr. til áramóta og að óbreyttu 12 milljarða og 800 millj. kr. á árinu 1979. Hér er fyrst og fremst um að ræða auknar niðurgreiðslur á mjólk, kjöti, smjöri og fleiri landbúnaðarafurðum. Auk þessara niðurgreiðslna veita þessi lög fjmrh. heimild til niðurfellingar sölugjalda á matvælum sem þegar hefur verið notuð. Ég hef áhuga á því, að fram komi, hvort sem það verður við þessa umr. eða þegar frv. kemur frá n., ítarlegar upplýsingar um það, hverjar voru taldar birgðir af kindakjöti, þegar þessi brbl. voru gefin út. Jafnframt komi fram, hvort ekki séu til upplýsingar um hverjir voru eigendur þessara birgða og hvernig var þeim dreift til smásöluaðila. Finnst fjmrh. það ekki athyglisvert hversu dræmt þessar vörur komu í smásöluverslanir og hve ótrúlega margir neytendur hafa kvartað um að hafa misst af þessu niðurgreidda ríkisstjórnarkjöti.

Nú er sagt af ríkisstj. og talsmönnum hennar, að þessar niðurgreiðslur séu fyrst og fremst gerðar fyrir þá sem verst eru settir í þjóðfélaginu, fyrir barnmörgu fjölskyldurnar og fyrir þá sem hafa lægst launin. En hefur hæstv. ríkisstj. engar áhyggjur af því, að allt bendir til þess, að þeir, sem eru með stærstu fjölskyldurnar og hafa lægst kaupið, eru kannske ekki með nema mjög litla frystikistu eða enga og þar að auki lítla peninga handbæra til þess að birgja upp heimili sín? Það liggur því í hlutarins eðli, að þeir, sem átt hafa stóra frystikistu eða kistur eða greiðan aðgang að hólfum í frystihúsum og gnægð peninga, hafa getað birgt sig upp af þessu ríkisstjórnarkjöti á s.l. hausti, en hinir hafa kvartað sáran yfir því að hafa orðið af þessari veislu ríkisstj. Ég held að það hafi verið staðið óskynsamlega og klaufalega að framkvæmd þessarar niðurfærslu til almennings, það hafi ekki verið hægt að gera það klaufalegar en raun ber vitni. Það er því fullkomlega kominn tími til þess, þegar þetta mál kemur frá n., að þessar upplýsingar liggi fyrir. Það er ekki einleikið, hve dræmt var að fá kjöt í smásöluverslanir til þess að selja almenningi af þeim birgðum sem var verið að greiða niður. Og það er nauðsynlegt að kanna það mál. Ég legg ekki til að skipuð verði rannsóknarnefnd þingsins í því sambandi. Ég tel að það megi fara eftir öðrum leiðum, að þau rn., sem hafa með niðurgreiðslur að gera og þá viðskrn. helst og ekki síður fjmrn., sem sér um öflun fjár og greiðslur, þau kanni þessi mál til hlítar og gefi Alþ. skýrslu um, hvernig þessu öllu var varið.

IV. kafli þessa frv. fjallar um eignarskattsauka og sérstakan tekjuskatt og sérstakan skatt á tekjur af atvinnurekstri til að standa undir kostnaði af niðurfærslu vöruverðs. Með þessum sérstaka eignarskattsauka er lagður eignarskattur á gjöld ársins í ár sem nemur 50% af eignarskatti einstaklinga, en 100% af eignarskatti félaga, innlendra og erlendra. Það kom fljótt í ljós, þegar skattstjórar höfðu lokið við álagningu þessara skatta, að hér var um mjög rangláta skattaðferð að ræða, þar sem þessi eignarskattsauki kemur hart niður á mörgum þeim, sem sáralitlar tekjur hafa. Ég sá í samtali, sem Morgunblaðið átti við fjmrh., að fjmrh. segir að þessar ráðstafanir núna hafi verið gerðar við sérstakar aðstæður og í nokkrum flýti og því við því að búast að einhverjir agnúar kæmu í ljós. Það hefur því ekki farið fram hjá fjmrh. frekar en öðrum landsins börnum, að hér voru ýmsir agnúar, sem hafa í ljós komið. En þá er auðvitað fyrst og fremst að bregðast fljótt við og leiðrétta og laga þá herfilegustu agnúa sem á þessum málum öllum eru. Frá mínum bæjardyrum séð eru þessi lög ranglát, þegar á heildina er litið og ég er alfarið á móti þeim fyrir mitt leyti, en tal þó það alversta í þessum lögum vera að beita afturvirkni skatta. Hæstv. forsrh. sagði í gær að hann varaði við notkun þess orðs að tala um siðleysi í sambandi við þessa skattlagningu ríkisstj. Ég fyrir mitt leyti er staðráðinn í því að hafa þessa aðvörun forsrh. að engu og ætla að nota þetta orð alveg eins og mér sýnist, hvort sem honum líkar það betur eða verr, enda er það í fullu samræmi við vilja alls þorra almennings í landinu, sem litur á þetta sem siðleysi, hvernig farið er að því að leggja skatta á tekjur manna og eignir þegar komið er fram á níunda mánuð ársins eftir að tekna er aflað og búið er að leggja fulla skatta á tekjur þessa fólks.

Nú segja þeir sem mest skammast sín fyrir þessa skattlagningu: Þetta er bara til bráðabirgða og við höfum ekki ætlað okkur að halda þessari ósvífni áfram. — En hinir auðvitað, sem eru ekki enn þá farnir að skammast sín fyrir þessa skattlagningu, segja lítið um þetta atriði, en vilja helst ekki að menn ræði mikið um þessa nýbreytni í skattamálum. Ég kalla það nýbreytni, því að þetta er aðferð, sem hefur ekki verið notuð áratugum saman og síðast á styrjaldarárum. Ég spyr: halda ráðh. þessarar hæstv. ríkisstj. að þeir, sem afla tekna á árinu 1977, reikna út nokkurn veginn hverjir skattarnir verða af þeim tekjum og af eignum þeirra, leggi svo til hliðar ófyrirséð, ef skyldi koma til valda ríkisstj. í landinu sem gangi lengra en nokkur önnur hefur leyft sér að ganga? Ég held að þeir menn séu ekki til og ekki heldur meðal stuðningsmanna núv. stjórnarflokka. Í fyrsta lagi er siðleysi að grípa til afturvirkni skatta. Það er ekkert við því að segja og alls ekki hægt að gagnrýna það, þó að lagðir séu á eyðsluskattar, því að það eru skattar sem fólk getur að verulegu leyti ráðið við hvað það greiðir háar upphæðir með því að draga úr kaupum og eyðslu á ýmsum sviðum. Við því er ekkert að segja. Það má auðvitað deila um alla slíka skatta eins og annað. En þetta var versta aðferðin sem ríkisstj: gat tekið — sú alversta. Það hefði mátt leita lengi, lengi, og þeir hefðu aldrei getað fundið verri aðferð. Og ég spyr: Hvernig stendur á því, að það skuli fyrst og fremst ráðist gegn þeim aðilum í þjóðfélaginu sem hafa unnið hörðum höndum langa eða skamma starfsævi og hafa hagað tekjum sínum og eyðslu með þeim hætti að vilja eignast eitthvað — það sé fyrst og fremst ráðist að þeim? Ef allir eyddu öllu jafnharðan og aflað væri, þá slyppu þeir. Hér er verið að ráðast að þeim sem vilja halda eftir af því sem þeir vinna sér inn og eignast eitthvað til þess að mæta erfiðari árum. Það kemur í ljós og hefur mjög komið í ljós undanfarna daga, að á fjölda af ellilífeyrisþegum sem eru með litlu meira en ellilífeyri, búa í eigin húsum sem standa á dýrum lóðum með háu lóðamati, — á þetta fólk er lagður eignarskattsviðauki, á sama tíma og fulltrúar allra flokka hér á hv. Alþ. eru að rembast við að lýsa yfir vilja sínum og áhuga að búa sem best að þeim í þjóðfélaginu sem eru aldraðir og hafa lokið að verulegu eða öllu leyti starfsdegi sínum. Hvaða meining er á bak við allt þetta tal, þegar ráðist er að þessu fólki með þessum hætti, eins og þessi IV, kafli laganna gerir ráð fyrir?

Þó að ég sé alfarið á móti eignarskattsauka, þá býst ég ekki við að frá því verði horfið að leggja á þessa ranglátu og óheilbrigðu skatta. En ég vil freista þess að taka af agnúana sem hæstv, fjmrh, viðurkenndi fyrir nokkrum dögum í blaðaviðtali og það sé ekki ráðist að þeim sem eru orðnir aldraðir. Því leyfi ég mér, hæstv. forseti, að flytja hér skrifl. brtt., að við 8, gr. bætist ný mgr., svo hljóðandi:

„Eignarskattsauki skal eigi lagður á þá menn sem orðnir voru 67 ára fyrir 1. jan. 1978.“

Þó að þessi till. fjalli eingöngu um aldraða, eða þá menn sem eru orðnir 67 ára fyrir 1. jan. 1978, þá er það auðvitað eindreginn vilji minn, að þessari till. verði vísað til hv. fjh.- og viðskn., sem fær þetta frv. til meðferðar að lokinni þessari 1. umr., og hún athugi þá þessa till., hvort hún treysti sér til að mæla með henni óbreyttri eða með einhverjum breytingum. En þá ætlast ég til að hv. fjh.- og viðskn. athugi einnig í sambandi við þá sem njóta örorkulífeyris, að hlutur þeirra verði eigi fyrir borð borinn frekar en aldraðra í þjóðfélaginu. Ég hefði mjög gjarnan viljað að upplýsingar lægju fyrir um hversu háar upphæðir er hér um að ræða, hversu mörgum ellilífeyrisþegum eða örorkulífeyrisþegum er gert að skyldu að greiða 50% eignarskattsauka og þá jafnframt hve há upphæð þetta er. Þetta ætti auðveldlega að geta legið fyrir hv. fjh.- og viðskn., því að þetta er ekki lengi unnið ef öll skattumdæmi landsins eru látin vinna bæði þessar og aðrar upplýsingar í sambandi við álagningu bæði eignarskattsaukans og sérstaks tekjuskatts og sérstaks skatts á tekjur af atvinnurekstri, hvernig það sundurliðast á milli hinna ýmsu atvinnugreina í landinu. Það er mjög fróðlegt og nauðsynlegt að slík sundurliðun og slíkar upplýsingar liggi fyrir. Það er mjög nauðsynlegt að það liggi fyrir, hversu mikið útflutningsatvinnuvegirnir eiga að greiða bæði í eignarskattsauka og í sérstakan tekjuskatt af atvinnurekstri, þegar látið er að því liggja og það með réttu, að ekki varð komist hjá að breyta skráðu gengi íslensku krónunnar til þess að stöðva ekki útflutningsatvinnuvegina. En eftir að slík gengisbreyting er gerð, þá finnst mér að það verði einnig að taka til greina til hvers var hún gerð — eða var í leiðinni verið að leggja þunga skatta á þessa sömu aðila sem var verið að breyta skráðu gengi krónunnar fyrir til þess að þessi atvinnurekstur gæti gengið, ekki fyrir þá sem einstaklinga, sem að þessu standa, heldur fyrir þjóðfélagið í heild?

Ég fyrir mitt leyti tel að það sé rangt að breyta gengi krónunnar og skapa útflutningsatvinnuvegunum þar með fleiri krónur fyrir þær afurðir sem seldar eru úr landi, ef á sama tíma á að taka af þeim aftur með hinni hendinni það sem rétt var með annarri. Ég held líka að það væri nauðsynlegt að gefa hér upplýsingar um hvernig fjárhagur og rekstrarstaða hinna ýmsu fyrirtækja í landinu var til þess að mæta stórfelldum auknum skattaálögum, bæði tekjuskatts og eignaskattsauka. Ég heyri að fjölmargar greinar iðnaðarins kvarta sáran undan afkomu sinni. Var á bætandi að leggja á þessa afturvirku skatta? Er það til þess að treysta stoðir atvinnu- og efnahagslífs? Er það til að treysta stoðir þess að atvinna geti gengið með eðlilegum hætti og fólkið í landinu, launþegarnir, haldi vinnu sinni? Ég tel að með þessari skattlagningu eða afturvirkni skatta sé hart og illa vegið að þeim sem lagt hafa sig fram í þjóðfélaginu að hafa háar tekjur, lagt á sig mikla vinnu í því sambandi. Þegar farið er að taka í skatta og skyldusparnað allt að 70% af launum fólks, þegar komið er í ákveðið mark, þá hlýtur það að draga alvarlegan dilk á eftir sér.

Ég vil benda á að skipstjórar á skuttogurum eru tekjuháir menn. Þar er vinnutíminn ekki skorinn við nögl. Þeir afla þessara tekna með löngum starfsdegi sem og aðrir sjómenn. Aflamaðurinn, sem er á skuttogara, aflar mikilla tekna og nú eru tekin af þeim 70% þegar langt er liðið á árið eftir að hann aflar tekna sinna: Það hlýtur að verða til þess, að þessir menn draga úr vinnu sinni og vilja hafa lengri frítíma. Það þýðir í reynd, að það verður einn og hálfur skipstjóri á hverjum skuttogara og jafnvel upp í tvo í einstaka tilfellum. Ef á að taka þetta háan hluta af tekjum þessara manna, þá draga þeir enn við sig og auka sitt frí, vilja þá heldur vinna eitthvað heima hjá sér, þegar þeir eiga ekki að halda eftir nema 3 kr. af hverjum 10. Það þýðir að þá verða fleiri sem verða að taka á sig skipstjórn og sjómennsku, það verði 2 eða 21/2 skipstjóri á hvern togara. Það dregur stórum úr þjóðarframleiðslunni.

Hvað með ýmsar aðrar stéttir sem eru tekjuháar? Við skulum taka t.d. stétt eins og læknastéttina. Hún er mjög tekjuhá. Þeir hljóta, þessir aðilar,að mæta slíkri skattheimtu með því að draga úr vinnu sinni, hafa lengri frí. Ekki minnkar læknaskorturinn við það eða batnar heilbrigðisþjónustan. Sama má segja um allar aðrar tekjuháar stéttir eða tekjuháa einstaklinga í þjóðfélaginu. Þessi skattheimta gerir engan mun á því, hversu lengi þetta fólk er að afla þessara tekna og hvað það leggur hart að sér til að afla þeirra. Þessi skattlagning er ekki til þess að ná í þá sem tíunda ekki tekjur sínar til þess að samfélagið geti skattlagt þá. Það er verið að ná sífellt meira og meira af þeim, sem tíunda tekjur sínar samviskusamlega til skatts, og taka meira af þeim. Það er gert með þessum brbl.

Ég held að það sé fyrir löngu kominn tími til að setja ákvæði um það, hversu langt megi ganga í álagningu og innheimtu beinna skatta. Ef við gerum það ekki, þá stefnum við markvisst að því að minnka viðleitni manna til að afla sér hárra tekna. Það stefnir að því, að það verður hugsað eingöngu um miðlungstekjur, en aldrei að hvetja fólk til þess að hafa miklar tekjur, ef þessi stefna á að vera ráðandi í framtíðinni. Þessi kafli laganna er mikið áfall fyrir alla þá sem hafa lagt sig fram um að afla fyrir sjálfan sig og samfélagið hárra tekna á undanförnum árum.

Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að flytja hér lengra mál en ég er búinn. En þegar þetta frv. kemur frá n. verður vafalaust um það miklu ítarlegri umr. en við l. umr., svo sem eðlilegt er. En ég tel að núv. hæstv. ríkisstj. hafi verið sérstaklega seinheppin, þegar hún ætlaði að leysa efnahagsvanda þjóðarinnar, að leysa hann með þessum hætti. Ég tel líka mjög varhugaverðar þessar niðurgreiðslur á vöruverði, jafnvel þó að Alþb. hafi markað alveg spánnýja stefnu fyrir kosningarnar í landbúnaðarmálum sem sló Framsfl. alveg út, því að í þeirri stefnumörkun taldi Alþb. nauðsynlegt að tvöfalda kindakjötsframleiðsluna og jafnframt bráðnauðsynlegt að hætta að greiða útflutningsbætur á kjöt til þess að láta útlendinga éta, — markaði þá stefnu, að þrátt fyrir tvöfalda kindakjötsframleiðslu skyldi allt kjöt fara í gegnum magann á Íslendingum sjálfum, hvort sem þeim væri það ljúft eða leitt. Í framhaldi af því tekur ríkisstj. eða fjmrh. upp þessa stefnu með þeim hætti að stórauka niðurgreiðslur á kjöti með þeim hætti sem frægt er orðið. Ég fyrir mitt leyti hvorki studdi þessa landbúnaðarpólitík Alþb. fyrir kosningar né mun heldur styðja hana þótt kosningar séu um garð gengnar.