13.02.1979
Sameinað þing: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2537 í B-deild Alþingistíðinda. (1992)

135. mál, endurskoðun á launakjörum hreppstjóra

Fyrirspyrjandi (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Á þskj. 167 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. fjmrh. um endurskoðun á launakjörum hreppstjóra. Hún er að efni til þannig, að spurt er um hvernig líði athugun og framkvæmd þál. frá 3. maí 1977 um endurskoðun á launakjörum hreppstjóra. Till. til þál. um þetta efni var á sínum tíma flutt af hv. 2. þm. Vestf., núv. hæstv. dómsmrh.

Í umr., sem um þá till. urðu, kom fram að hreppstjórar taka nú laun skv. lögum nr. 32 frá 26. apríl 1965. Þótti þá og nú, að ég held, ástæða til að athuga ýmislegt í þessum lögum.

Það kom fram í umr. um fyrrnefnda till., að hreppstjórar eru umboðsmenn sýslumanna hver í sínum hreppi og vinna hin margþættustu störf. En störfin eru á hinn bóginn mjög breytileg eftir því hvar þeir eru staðsettir á landinu, en yfirleitt ákaflega mikilvæg, ekki síst þar sem löggæsla hvílir á þeirra herðum að verulegu leyti.

Fsp. um þetta sama efni var gerð á s.l. vori, en ekki gafst þá tími til að svara henni. Þar sem þessi þál. frá 3. maí 1977 er nú komin hátt á annað ár, finnst mér ekki úr vegi að bera þessa fsp. fram aftur nú.