13.02.1979
Sameinað þing: 52. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2544 í B-deild Alþingistíðinda. (1998)

41. mál, varnir gegn olíumengun í nágrenni Keflavíkurflugvallar

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Enginn getur efast um að mengunarhætta frá Keflavíkurflugvelli, sérstaklega varðandi vatnsból sem eru mörg í nágrenni hans, er stóralvarlegt mál. Enginn vafi er á því, og staðfestir það álit fjölmargra kunnugra, að meira eða minna af mengunarefnum. olíur þó mest af ýmsum tegundum. hafi farið út í jarðveg á þessu svæði allt síðan flugvöllurinn var byggður. Er þar ekki eingöngu um að ræða það sem flugvélum viðkemur, heldur einnig ýmsum vinnuvélum og fjöldamörgu öðru.

Við megum ekki gleyma því, að tiltölulega skammt er síðan almenningur og ráðamenn vöknuðu til skilnings á mengunarhættu yfirleitt. Elstu heimildir, sem ég hef fundið um áhyggjur manna út af Keflavíkurflugvallarsvæðinu, eru liðlega áratugs gamlar eða frá árinu 1968. Hefur þegar verið nefnt hér sumt af því sem gerðist þá skömmu síðar, og þarf ég ekki að orðlengja um það. Hreppsnefnd Njarðvíkurhrepps tók myndarlega forustu með nefndarskipun, og á árinu 1972, eftir hálfs annars árs starf, skilaði sú n. skýrslu sem oft hefur verið vitnað í. Blaðið Suðurnesjatíðindi tók málið upp og barðist mikið fyrir því. Það varð til þess að bæði varnarmáladeild og heilbrrn. tóku málið upp á árinu 1973 og Heilbrigðiseftirlit ríkisins var beðið um að gera athugun og till. um það.

Málið hélt áfram í athugun þessara aðila árið 1974, og snemma á árinu 1975 mun Heilbrigðiseftirlitið hafa gert till. þær sem hv. flm. hefur gert að umræðuefni. Þar var lagt til að gerðar yrðu boranir á þessu svæði til að komast að raun um hvar olía væri í jörðu og hve mikil, svo og fleiri aðgerðir sem hefðu átt að veita nánari upplýsingar um hver hætta raunverulega væri þegar fyrir hendi. Ekkert varð af framkvæmdum, og hefur venjulega verið borið við, að deilur hafi verið um kostnað. Eftir því sem ég kemst næst var málið þó örlítið flóknara, því að einn helsti sérfræðingur okkar í þessum málum, Þóroddur Th. Sigurðsson vatnsveitustjóri í Reykjavík, hefur alltaf haft efasemdir um gildi þess að gera miklar boranir. Hann bendir á að þar sem olía hefur í áratugi runnið út í jarðveg eins og þarna er, þar sem grunnvatnslagið er talið vera tiltölulega þunnt og ekki uppspretta önnur en regnvatn, gætu boranir orðið eins konar happdrætti, olía sé þarna í pollum og menn gætu borað með miklum kostnaði án þess að hitta á pollana, þannig að niðurstaðan verði alltaf mjög vafasöm. Þá bendir Þóroddur á annað atriði, að ef borað væri og borarnir hittu á olíupolla og borunarmenn yrðu þess ekki varir, þá gætu þeir hæglega borað í gegnum þá og niður að grunnvatninu. Þannig yrði borunin til þess að ryðja olíunni leið. Ég nefni þetta til þess að undirstrika að sérfróðustu menn okkar eru ekki alveg sammála um hvað gera þurfi.

Þá vil ég nefna, að á árinu 1975 hélt varnarmálanefnd fund með sveitarstjórnarmönnum á Suðurnesjum og var m.a. mikið um mengun rætt. Annar slíkur fundur var haldinn í Stapa í maí 1976. Auk þess gerðu bæði jarðfræðingar og svo Þóroddur Sigurðsson sérstakar skýrslur um málið sem einnig liggja fyrir, þar sem mikið af upplýsingum er að finna. Margar af þessum upplýsingum komu fram, eins og frsm. tíundaði, þegar hv. þm. Oddur Ólafsson vakti máls á þessu vandamali hér á þingi fyrir nokkrum árum.

S.l. haust gerðist það, skömmu áður en núverandi ríkisstj. tók við störfum, að hættulegur olíuleki varð frá stærsta flugskýlinu. Um það varð dálítil höggorrusta hér í þinginu sem við skulum ekki endurtaka, en það varð í raun og veru fyrsta atvikið, rétt áður en ég tók við embætti, sem leiddi mig inn í þetta mál á þeim vettvangi. Ég tók málið fljótlega upp í viðræðum, ekki í varnarmálanefndinni, heldur við yfirmann varnarliðsins sjálfan. Ég lagði á það ríka áherslu, að það mætti ekki líta á þetta sem tímabundið vandræðamál sem hefði komið upp einu sinni við þetta flugskýli, þetta væri sýnilega stórmál sem yrði að hugsa um í samfelldri þróun, mengun hefði gerst í áratugi síðan flugvöllurinn var reistur, yrði að reyna allt hvað mögulegt er til að komast fyrir þetta mál, afstýra hættu á frekari mengunum og reyna að veita Suðurnesjabúum, heimilum þeirra og atvinnuvegum eins fullkomið öryggi í þessum efnum og nokkur kostur er.

Þessum málflutningi mínum var tekið af skilningi, og varnarliðið brást af sinni hálfu þannig við að láta senda eftir tveimur sérfræðingum til Bandaríkjanna, sérmenntuðum verkfræðingum einmitt á sviði mengunar og slíkra mála. Ég kvaðst þá óska þess að fá að láta íslenskan sérfræðing starfa með þeim og fylgjast nákvæmlega með því sem þeir gerðu og legðu til. Þóroddur Th. Sigurðsson, sem áður hafði verið trúnaðarmaður varnarmáladeildar í þessum efnum og er tvímælalaust sérfróðastur manna hér á landi um vatnsveitumál, fylgdist með þessum athugunum og hefur gefið um þær skýrslu sem ég hef fyrirliggjandi og get að sjálfsögðu látið hv. utanrmn. fá til athugunar þegar till. kemur þangað.

Gerðar hafa verið margvíslegar ráðstafanir í kringum flugskýlin og á öðrum stöðum þar sem Þóroddur og hinir tveir amerísku sérfræðingar töldu að gera þyrfti ráðstafanir miðað við það, sem áður hefur verið gert. Ég þarf ekki að nefna að varnarliðið hefur kostað það algerlega, enda hafa þetta allt saman verið staðir og aðstæður við mannvirki sem það verður að teljast bera ábyrgð á, enda þótt t.d. margumrætt flugskýli, þar sem atvikið í haust kom fyrir, sé jöfnum höndum notað af Íslendingum. Eru Boeing-flugvélar Flugleiða þar tíðum inni og þeim er að mestu leyti haldið þar við, svo að við eigum nokkurn hlut að þessu máli og er engin ástæða til að draga dul á það.

Þegar þetta hafði gerst fannst mér að stíga þyrfti einu skrefi lengra til að tryggja það, að nú dytti málið ekki niður, eins og það virðist hafa gert einu sinni eða tvisvar áður. Í því skyni skipaði ég sérstaka n. þriggja manna sem eiga að fylgjast með mengunarhættu á flugvellinum og umhverfis hann og gera þær ráðstafanir eða tillögur um ráðstafanir sem þeir telja þörf á. Formaður þessarar n. er Þóroddur Th. Sigurðsson, en auk þess eru í henni Eyjólfur Sæmundsson deildarverkfræðingur hjá Heilbrigðiseftirliti ríkisins og Jóhann Sveinsson heilbrigðisfulltrúi Suðurnesja. Heilbrigðisfulltrúinn starfar jöfnum höndum fyrir öll sveitarfélögin sem land eiga á Keflavíkurflugvelli, þannig að hann hefur föst tengsl við allar sveitarstjórnirnar.

Það er ætlun mín, að n. fylgist með þessum málum og eigi aðgang að öllu flugvallarsvæðinu hvenær sem henni þóknast.

Varnarliðið hefur af sinni hálfu skipað 4 menn sem eiga að hafa samband við n. og tryggja að engin fyrirstaða verði og væntanlega koma minni háttar kvörtunum á framfæri, en þær, sem meiri háttar eru, fara annaðhvort í varnarmálanefnd eða til annarra aðila í rn. Þessir aðilar munu m.a. byrja á því að meta hvort ástæða sé til að gera víðtækar boranir og bera sig þá saman við skoðanir Þórodds Th. Sigurðssonar.

Það hefur líka verið á dagskrá, sem hv. frsm. nefndi, að hafa þann möguleika opinn hvenær sem er að geta tengt vatnsveitu Njarðvíkur við vatnsveitu flugvallarins og þá fram hjá núverandi vatnsveitubólum Njarðvíkinga sem talin eru vera í mestri hættu, töluvert meiri hættu en t.d. vatnsveituból Keflvíkinga. Þar að auki eru svo vatnsveitu- eða mengunarmál nærri Sandgerði og radarstöð sem þar er, en nú er verið að gera varanlegar ráðstafanir til að forðast hættur með byggingu á nýju og fullkomnu frárennsli.

Ég geri mér vonir um að gagn verði af þessari nefndarskipun sem kemur í kjölfar þess vandamáls, sem skapaðist s.l. haust, og þeirrar ríku áherslu sem ég hef lagt á það við yfirvöld varnarliðsins, að þetta sé alvarlegt mál sem ekki sé hægt að leysa með því að lappa upp á það sem bilar, þegar eitthvert smáatvik gerist, heldur verði að líta á í samhengi. Ég vænti þess, að okkur takist þannig að fá fram það eftirlit sem framast er hægt. Rísi aftur vandamál um kostnað í sambandi við einhverjar aðgerðir sem þessi n. og þá væntanlega sveitarstjórnir á Suðurnesjum eru sammála um, þá verðum við að ganga í að leysa það eftir því hvers eðlis það er, hvort það er talið eiga að greiðast af varnarliðinu eða einhverjum öðrum aðilum.