13.02.1979
Sameinað þing: 52. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2547 í B-deild Alþingistíðinda. (1999)

41. mál, varnir gegn olíumengun í nágrenni Keflavíkurflugvallar

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil færa hv. 4. landsk. þm. þakkir mínar fyrir að flytja þetta þarfa mál. Hér er að sjálfsögðu um mikið vandamál að ræða. En ég vil geta þess, að þáttur Alþingis í því að vekja athygli á þessu vandamáli er nokkur, því að þegar á árinu 1972 fluttum við þrír þm. Sjálfstfl. í Reykjaneskjördæmi till. til þál. varðandi þetta mál. Þar var skorað á ríkisstj. að láta kanna réttarstöðu tjónþola vegna ýmiss konar skaða af völdum Keflavíkurflugvallar og flugþjónustu þar í kring, þar sem m.a. var getið um mengunarhættu vegna olíuleka. Síðar flutti ég svo fsp. um framkvæmd þessarar þáltill. Þá svaraði hæstv, þáv, og núv, forsrh. því til, að málið væri í athugun hjá utanrrh. og dómsmrn. Hv. 4. landsk. þm. hefur getið rækilega um þá fsp. sem ég flutti hér 1975 varðandi þetta mál.

Hæstv. utanrrh. sagði í sinni ræðu m.a. að málið væri nú komið á framkvæmdastig. Þetta er alveg rétt, og ég held að þáttur hans í þessu máli sé mjög góður. En málið hefur, þar til það komst á framkvæmdastigið, verið á athugunarstigi, og ég held að það, sem við höfum vakið athygli á bæði 1972 og síðar, hafi að sjálfsögðu haft þá þýðingu að varlegar hafi verið farið í umgengni með olíu á flugvellinum en fram að því hafði verið gert.

Ég verð að segja að ég taldi nokkurt öryggi um að þessi mál yrðu tekin alvarlegum tökum þegar Heilbrigðiseftirlit ríkisins var komið í málið. Af kynnum mínum við þá stofnun lít ég svo á, að því máli sé nokkuð vel borgið sem sé í þess höndum, og ég held að unnið hafi verið að þessum málum enda þótt á framkvæmdastig væri ekki komið fyrr en nú.

Ég vil þakka hæstv, utanrrh. fyrir mjög mikla festu í þessum málum og snögg viðbrögð. Ég held að þessi n., sem skipuð hefur verið, sé mjög vel skipuð, góðir menn séu þar að verki og menn sem þekkja til þarna. Og ég vil vekja athygli á því, að ég held að í einni af þeim ræðum, sem um þessi mál hafa verið fluttar hér í þingi, sé þess getið, að ástæða væri til að leggja til hliðar fjármuni sem grípa mætti til, og þá að sjálfsögðu fjármuni sem kæmu frá tekjum af Keflavíkurflugvelli, ef skyndilega þyrfti að leggja í nýjar neysluvatnsframkvæmdir fyrir Suðurnesin. Slíkt getur að sjálfsögðu gerst, og þá getur verið óþægilegt að hafa ekki sérstakt fjármagn að grípa til. Með því að byrja nú þegar að leggja til hliðar mætti vera betur viðbúinn því áfalli sem yrði ef þyrfti að afla neysluvatns úr fjarlægð.