10.10.1978
Sameinað þing: 1. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Forseti Íslands setur þingið

Forseti Íslands (Kristján Eldjárn):

Hinn 14. sept. s.l. var gefið út svofellt bréf:

„Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Ég hef ákveðið samkvæmt tillögu forsrh. að Alþingi skuli koma saman til fundar þriðjudaginn 10. okt. 1978. Um leið og ég birti þetta, er öllum, sem setu eiga á Alþingi, boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur, og verður þá Alþingi, sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni sem hefst kl. 13:30.

Gjört í Reykjavík, 14. sept. 1978.

Kristján Eldjárn.

Ólafur Jóhannesson.

Forsetabréf um að Alþingi skuli kom saman til fundar þriðjudaginn 10. okt. 1978.“

Samkvæmt bréfi því, sem ég nú hef lesið, lýsi ég yfir því að Alþingi Íslendinga er sett.

Á þingsetningardegi hafa oft verið rifjuð upp frá þessum ræðustóll nokkur minnisverð ártöl, sem öðrum fremur gnæfa eins og vörður á vegi þjóðarinnar, eða — ef það þætti betur orðað við setningu Alþingis — á vegi þessarar stofnunar um ár og aldir. En einu má raunar gilda hvort orðalagið er notað, því að saga Alþingis verður ekki skilin frá sögu þjóðarinnar, störf þingsins mótast hverju sinni af þörfum hennar og allt, sem hér er gert, skilar sér á einhvern hátt sem áhrifavaldur út í þjóðlífið. Enga nauðsyn rekur til þess að þylja sama lesturinn um merkisár Alþingis á hverju ári þegar þing er sett, en að þessu sinni hlýðir að minnast þess, að það þing, sem nú hefur verið sett, er hið hundraðasta sem haldið er síðan Alþingi fékk löggjafarvald árið 1874. Svo mun mörgum sýnast sem ekki sé óviðeigandi að staldra ögn við svo stórhreinlega tölu og jafnvel láta hana verða sér tilefni til nokkurra þarflegra hugleiðinga. Ef að líkum lætur munu margir gera það með sjálfum sér, og e.t.v. gerir það hver og einn vor á meðal, þó að ég hafi þar ekki mörg orð um.

En lítum þó svipsinnis, í góðrar minningar skyni, til hins fyrsta íslenska löggjafarþings, sem sett var hér í sal lærða skólans hinn 1. júlí 1875. Í þeim boðskap, sem þá var lesinn fyrir hönd þjóðhöfðingjans, var svo að orði komist, að framfarir Íslands, gæfa þess og hagsæld sé nú að miklu leyti komin undir þeim fulltrúum þjóðarinnar sem hún hefur sjálf kosið til setu á löggjafarþinginu. Þessi orð, sem hljómuðu við setningu hins fyrsta löggjafarþings, standa enn í góðu gildi við setningu hins hundraðasta. Sami vandi með sömu vegsemd hvílir nú sem þá á Alþingi sem stofnun og á hverjum einstökum alþm., og þó að því skapi meiri sem hlutur Alþingis í stjórnskipun vorri er meiri nú en þá var. Þetta stendur fast, þó að margt skipti um svip eftir því sem tíminn líður, og þá m.a. Alþingi andspænis þjóðinni sem hefur kosið það. Það eru slíkar tímabundnar breytingar á afstöðu milli þings og þjóðar sem valda því að oft, og að minni hyggju mjög um of, er talað um þverrandi veg Alþingis í augum almennings og áhugaleysi um athafnir þess. En það, sem talað er á hverri tíð, er eins og gárur á vatni, mismunandi eftir því hvaðan og hve mjög vindurinn blæs. Hið rétta er að íslenska þjóðin veit enn sem fyrr harla vel til hvers hún hefur kosið Alþingi, virðir starf þess og skilur hvað hún á undir því og þeirri ríkisstjórn sem ábyrgð ber fyrir því. Svo er fyrir að þakka, því að þá væri í illt efni komið, ef þjóðin léti sér í léttu rúmi liggja, hvernig þessum stofnunum tekst til um forustu og úrræði í málefnum vorum.

Að þessu sinni býð ég velkomna til starfa nýkjörna alþingismenn og nýlega skipaða ríkisstjórn, um leið og ég færi fram þakkir fyrir störf fyrra þingliðs og fyrri ríkisstjórnar. Ég hef veitt því athygli að á þessu þingi má skipta þingmönnum í þrjá nokkurn veginn jafnfjölmenna hópa. Fyrst skal nefna þá sem þegar höfðu setið lengur eða skemur á Alþingi þegar ég stóð hér fyrst í þessum sporum fyrir réttum tíu árum. Þá koma þeir þingmenn sem bæst hafa í hópinn síðan og fram til síðustu kosninga. Og loks þeir sem nú koma til þings í fyrsta sinn og líklega er sá hópurinn ívið fjölmennastur. Orð er á því gert að aldrei hafi eins margir nýliðar komið til þings og eftir síðustu alþingiskosningar og margir hverjir ungir að árum. Þetta er spegilmynd þess að tíminn líður og allt er breytingum háð. Endurnýjun er óhjákvæmileg og nauðsynleg, þótt enginn geti um það fullyrt hversu ör hún ætti helst að vera. En svo munu margir mæla að gott sé gamalli og gróinni stofnun að um sali hennar berist lífgandi andvari sem oft fylgir nýjum mönnum. Og ekki þarf að draga í efa að það sé ungum mönnum fagnaðarefni og eggjun að hafa hlotið traust samborgara sinna til að taka sæti á Alþingi, því að ekki er auðséð hvar í þjóðfélagi voru annað eins tækifæri býðst til að neyta óþreyttra krafta sinna til góðs fyrir land og lýð. Ég tel mig vita fyrir víst að með því hugarfari gengur hver þingmaður inn í þetta gamla hús. Þess vegna er mér fjarri, nú sem endranær, að flytja einhvers konar húskarlahvöt eða bjarkarmál yfir íslenskum alþm. en hamingjuóskir er mér ljúft að bera fram. Á Alþingi Íslendinga verða að fara saman stöðugleiki og endurnýjun. Kjölfesta verður að vera traust, og einnig verður að vera líflegur byr og segl til að fanga hann. Á þingbekkjum sitja nú eins og löngum áður margir þingmenn með langa og dýrmæta þingreynslu að baki, og við hlið þeirra hinir, sem nú eru hér í fyrsta sinn. Vel er því séð fyrir hvoru tveggja, stöðugleikanum og endurnýjuninni.

En hvort sem eru eldri eða yngri, hefur þjóð yðar, góðir alþm., kjörið yður til að standa vörð um frelsi og virðingu landsins og hafa forustu um veigamestu málefni sín. Allir góðir menn óska yður þess að þér berið gæfu til að ná samstöðu um úrræði sem endast mega til að sigrast á þeim örðugleikum sem einmitt nú er við að etja. Ég óska yður góðs farnaðar og læt þá von í ljós að störf þessa þings í þágu þjóðar vorrar megi verða gifturík.

Að svo mæltu bið ég alþingismenn að minnast fósturjarðarinnar með því að rísa úr sætum.

[Þingmenn risu úr sætum og forsrh., Ólafur Jóhannesson, mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.“ — Tóku þm. undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.]

Samkvæmt 1. gr. þingskapa ber nú aldursforseta að stjórna fundi þar til kosning forseta sameinaðs þings hefur farið fram, og bið ég aldursforseta, Odd Ólafsson, 4. þm. Reykn., að ganga til forsetastóls.