26.10.1978
Neðri deild: 8. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

39. mál, kjaramál

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég tel rétt við 1. umr. málsins að gera sérstaklega að umræðuefni þann kafla brbl., sem hér eru til umr., sem fjallar um skattamál. Ég tek eftir því, að hv. stjórnarandstæðingar hafa um það nokkuð stór orð, hvernig að hefur verið farið, og tala um siðleysi í því sambandi og ýmislegt fleira. Ég tel því rétt að víkja nokkru nánar að því atriði sem hér er sérstaklega átt við, þ.e.a.s. afturvirkni skattalaga í IV. kafla brbl.

Með brbl. voru lagðir á þrenns konar skattar, er sækja skattstofn sinn til staðreynda sem fyrir hendi voru fyrir gildistöku laganna. Allir þessir skattar eru í formi tímabundinna sérskatta, þannig að formlega a.m.k. fer ekki fram endurálagning neins þeirra skatta, sem lagðir voru á við reglulega álagningu. lagning skatta þessara krefst sérstakrar aukaálagningar og falla skattarnir til greiðslu á sérstökum gjalddögum. Þessir skattar eru, eins og fram hefur verið tekið og kemur fram í frv., eignarskattsauki samkv. 8. gr. frv., sérstakur tekjuskattur samkv. 9. gr. á menn og sérstakur skattur á tekjur af atvinnurekstri, síðan fleiri skattar sem ekki eru afturvirkir.

Eftir útgáfu þessara brbl. hafa orðið umr. um það, hvort skattlagning þessi fengist staðist, og hafa gagnrýnendur þeirra haldið því fram, að afturvirkni hennar væri slík, að hún stangaðist á við grundvallarreglur íslenskrar stjórnskipunar og að dómstólar hljóti því að meta hana ógilda. Vegna þessara umræðna vil ég hér á eftir leitast við að reifa þau sjónarmið sem til álita koma við mat á lögmæti skattálagningarinnar.

Eins og fram kom í framsöguræðu hæstv. forsrh. geyma íslensk stjórnlög ekkert almennt bann við afturvirkni laga. Ekki er sagt að löggjafarvaldið hafi algerlega frjálsar hendur við setningu afturvirkra laga. Menn eru sammála um að á vissum, afmörkuðum sviðum séu afturvirknisheimild löggjafans settar þröngar skorður. Gildir þetta fyrst og fremst um afturvirkni íþyngjandi lagasetningar á sviði refsiréttar, sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga. Á ýmsum öðrum sviðum réttarins ríkir meiri vafi um heimild löggjafans að þessu leyti.

Ef litið er til lagasetningar á sviði skattaréttar hér á landi á síðustu áratugum verður ljóst, að setning afturvirkra laga er mjög tíð á þessu sviði og mun tíðari en á öllum öðrum sviðum réttarins. Frá árinu 1932 hafa verið sett a.m.k. 30 sinnum lög um skattlagningu tekna eða eigna sem öll eiga það sameiginlegt að vera hvort tveggja í senn: íþyngjandi fyrir skattþegna eða tiltekna hópa þeirra og afturvirk með þeim hætti, að löggjöfin er ekki sett fyrr en eftir lok viðkomandi skattárs. Auk þess má finna allnokkur dæmi þess, að sett hafa verið lög á sviði tekju- og eignarskatts sem ætlað var að ná til allra tekna frá upphafi yfirstandandi skattárs og þannig verið afturvirk að því er hluta ársins varðaði.

Flest þessara 30 laga sem ég hef hér getið um, voru samþykkt á vorþingi og þannig staðfest og birt fyrir útkomu skattskrár. Í flestum tilvikum hefur verið byggt á slíkum lögum við frumálagningu á tekjur og eignir fyrra árs. Þess finnast hins vegar dæmi, að sett hafa verið lög þar sem tekjur og eignir fyrra árs voru andlag skattlagningar eftir að regluleg álagning hafði farið fram. Hér er um að ræða lög frá árunum 1932, 1933, 1934 og 1941. Í einu tilviki var það svo, að það var ákveðið með lögum seint í októbermánuði að hækka tekju- og eignarskatta um 40% frá því sem áður hafði verið ákveðið. Það er margt, sem er óljóst um framkvæmd þessara laga, og hefur verið gerð talsverð athugun á því í fjmrn., hvernig þessum málum hefur undið fram, og er sjálfsagt að sú n., sem fær málið til meðferðar, væntanlega fjh.- og viðskn., fái öll gögn þar að lútandi og allar upplýsingar í því sambandi við þessi efni. En það er alveg ljóst, að álagning viðbótarskatta hliðstæðra þeim, sem getur í brbl., hefur a.m.k. farið fram tvisvar sinnum áður á öllu landinu. Það er árin 1932 og 1934 og líklega að verulegu leyti einnig 1941. Ekki finnast þess merki, að gjaldendur hafi á þessum árum borið brigður á lögmæti skattlagningarinnar. Engir hæstaréttardómar hafa gengið vegna þessara lagsetninga, og ekki hef ég haft spurnir af undirréttardómum.

Ef lítið er til hins mikla fjölda afturvirkra skattalaga gegnir furðu hversu fá úrlausnarefni um gildi afturvirkra skattalaga hafa komið til kasta Hæstaréttar. Þeir fáu dómar, sem gengið hafa í slíkum málum, gefa mjög takmarkaða vísbendingu um hversu langt heimildir löggjafans ná að þessu leyti. Þessir dómar eru við höndina og til reiðu fyrir hv. n. þegar hún fer að fjalla um þetta mál.

Íslenskir fræðimenn á sviði skattamála, skattaréttar og lögfræði hafa skrifað nokkuð um þessi mál. Ég sé ekki ástæðu til að tíunda það hér, en það eru menn eins og Guðmundur V. Jósefsson hæstaréttarlögmaður, Ólafur Lárusson prófessor, Ármann Snævarr prófessor og Gaukur Jörundsson prófessor. Ég hygg að það sé samdóma álit þessara fræðimanna, að það sé enginn vafi á því, að afturvirkni skattalaga sé heimil samkv. íslenskum lögum.

Ég drap nokkuð á það í ræðu minni, sem ég flutti í umr. um stefnuræðu hæstv. forsrh., hvernig væri háttað þessum málum í ýmsum öðrum löndum, hjá öðrum þjóðum, hvernig erlendur réttur líti á þessi málefni. Ég drap þar á lönd eins og Noreg, Svíþjóð, Bretland, Bandaríkin og Vestur-Þýskaland. Þrátt fyrir að það sé bannað í stjórnarskrá Noregs, að lög verki aftur fyrir sig, hefur hæstiréttur Noregs samt í takmörkuðum tilfellum dæmt gild afturvirk viss ákvæði í skattalögum. Í Svíþjóð er þetta hins vegar eins og hjá okkur, þar eru engin ákvæði í stjórnarskrá um bann gegn afturvirkni laga almennt, það er mjög algengt að skattalög séu afturvirk þar í landi og má finna dæmi um hliðstæða skattlagningu í sænskri löggjöf og felst í brbl. Sænskir fræðimenn, sem hafa fjallað um þessi málefni, telja að stjórnskipulega séð sé ekkert í sænskum lögum sem takmarkað geti afturvirk skattalög almennt. Sama er að segja í Bretlandi. Í Bandaríkjunum er almennt bannað í stjórnarskránni, að lög verki aftur fyrir sig, en eigi að síður eru dæmi þess, að þar hafi verið metin gild afturvirk skattalög, og sama er að segja um Vestur-Þýskaland.

Það er ekki þar með sagt, að æskilegt sé að setja afturvirk skattalög. Það er allt annað mál. En það getur verið nauðsynlegt, það getur verið óhjákvæmilegt, ef vissar aðstæður í þjóðfélaginu, vissar aðstæður í efnahagslífinu og atvinnulífinu eru fyrir hendi.

Ég held að það verði tvímælalaust að telja að dómstólar hér á landi hafi heimild til að ógilda lög, sem þeir telja brjóta í bága við stjórnarskrána, og líklega einnig lög, sem brjóta svo í bága við almennar meginreglur laga að úr hófi keyrir. En hvaða sjónarmið eða meginreglur mundu dómstólar styðjast við í úrlausn eins og um er að ræða í sambandi við skattalagaákvæði brbl.? Þegar allt kemur til alls gæti slík úrlausn ekki byggst á öðru en mati dómstólanna annars vegar á þeim hagsmunum borgaranna að njóta réttaröryggis að því leyti, að þeir eigi heimtingu á að geta séð fyrir skattaálögur og miðað ráðstafanir sínar við það, og hins vegar þeim hagsmunum ríkisvaldsins, Alþingis og ríkisstj., að hafa það svigrúm til að setja skattalög og framkvæma það sem nauðsynlegt er til þess að unnt sé að stýra efnahagsmálum þjóðarinnar á hverjum tíma í samræmi við stefnu sina og til að grípa til ráða er duga til að forða frá efnahagslegu skipbroti.

Það má færa margháttuð rök fyrir því, að löggjafarvaldinu sé nauðsynlegt að hafa svigrúm til afturvirkra lagasetninga. Á síðari árum hefur lögum í sívaxandi mæli verið beitt til stjórnunar efnahagsmála. Hefur vart liðið það ár, að ekki hafi verið sett lög um efnahagsráðstafanir, sem hafa haft í för með sér einhverjar skattaálögur og þær oft afturvirkar. Hlutur ríkisvaldsins í stjórn efnahagsmálanna er orðinn slíkur, að það hefur óhjákvæmilega áhrif á mat þess hvaða svigrúm löggjafarvaldið hefur til lagasetningar og hlýtur þróunin að stefna í þá átt að játa löggjafanum það svigrúm sem honum er nauðsynlegt til að rækja þetta sívaxandi hlutverk sitt.

Ég hef rakið í stuttu máli ýmis almenn sjónarmið, er mæla með því, og einnig vikið að því, sem mælir á móti því, að löggjafanum sé heimil setning afturvirkra skattalaga. Ef dregin er ályktun af þessum vangaveltum er það skoðun mín, að mjög hæpið sé, svo að ekki sé meira sagt, áð dómstólar treysti sér til að setja valdi löggjafans á þessum sviðum of þröng mörk. Mikið þarf áreiðanlega til að koma svo að skattalöggjöf verði dæmd ógild vegna afturvirkni, ef skattlagning samkv. henni er byggð á þeim stofnum sem síðast eru kunnir og byggjast á almennum efnislegum grunni.

Þegar á að meta gildi brbl., sem hér eru til umr., út frá þessum sjónarmiðum hlýtur það annars vegar að byggjast á því, hversu þungbærir skattar samkv. þeim eru og hins vegar hversu rík nauðsyn var til efnahagsráðstafananna. Þegar núv. ríkisstj. var mynduð var ástand efnahagsmálanna vægast sagt mjög ískyggilegt. Helstu útflutningsatvinnuvegir þjóðarinnar voru lamaðir, verðbólgan var um 50% og ómótmælanleg nauðsyn var að grípa til einhverra efnahagsaðgerða af hálfu stjórnvalda. Að sjálfsögðu mátti velja ýmsar leiðir til að snúast við vandanum. En sá pólitíski meiri hl., sem myndaður var eftir almennar kosningar, tók þann kostinn að reyna svonefnda niðurfærsluleið. Fyrst sá kostur var fyrir valinu var ekki um annað að ræða en grípa til skattlagningar til að standa straum af kostnaði ríkissjóðs af niðurfærslu verðlags, og slík skattlagning gat ekki byggst á öðru en síðustu þekktu stofnum til álagningar slíks skatts. Afturvirkni var löggjafanum nauðsyn til að koma í framkvæmd þeim efnahagsráðstöfunum, sem meiri hl. Alþ. taldi réttastar til að snúast gegn óumdeildum og brýnum efnahagsvanda. Þegar þessar staðreyndir eru hafðar í huga og eins hitt, að skatthlutfalli í brbl. er nokkuð í hóf stillt og skattarnir ekki látnir falla í gjalddaga nema að hluta á þessu ári, tel ég engan vafa á því, að niðurstaða dómstóla verði sú, að skattlagningin verði talin standast. Ég vil því vara fólk við að leggja í mikinn kostnað við málaferli til þess að ógilda skattlagninguna samkv. brbl.

Skattlagning af þessu tagi er ekki æskileg, en hún er óhjákvæmilegur liður í baráttunni gegn verðbólgunni og nauðvörn ríkisvaldsins til að vernda þá hagsmuni almennings, að undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar verði reknir sem truflanaminnst, og í þessu tilfelli að forðast stöðvun atvinnugreina, e.t.v. í allstórum stíl.

Þegar ríkisstj. settist að völdum var ástandið, eins og ég gat um áðan og hefur verið margtekið fram, mjög ískyggilegt í efnahagsmálum og atvinnumálum. Það hafði dregist um langa hríð að mynda ríkisstj., allt frá seinni hluta júnímánaðar og fram í ágústlok, og sífellt herti að í þessum efnum. Það hafði vofað yfir gengislækkun, vil ég segja, í allt sumar. Það var talað þannig, að menn bjuggust við gengislækkun þá og þegar. Frystiiðnaðurinn, sem er ein þýðingarmesta undirstöðugrein atvinnulífsins í landinu, var að hluta til stöðvaður. Í Vestmannaeyjum og á Suðurnesjum höfðu frystihúsin stöðvast. Frá 1. ágúst hafði verið tekin ábyrgð af hálfu ríkissjóðs á framleiðsluverðmætum frystihúsanna án þess að tekna væri aflað. Í ágústlok mundu útgjöld ríkissjóðs hafa numið, ef til hefði komið, milli 500 og 600 millj. vegna þessa. Verðbólgan í landinu var um 50%. Hún er, eins og hefur verið margtekið fram, undirrótin að þeim mikla efnahagsvanda og margvíslegum öðrum vanda, sem við búum við, þannig að auðvitað bar brýna nauðsyn til að gera ráðstafanir til þess að forða frá frekari stöðvun atvinnulífsins og til þess að treysta þolanlegan rekstrargrundvöll.

Hv. stjórnarandstæðingar hafa drepið á ýmis atriði sem varða þetta mál. Hv. þm. Geir Hallgrímsson taldi að ríkisstj. hefði gripið til alveg nýrra ráða með því að lengja árið úr 12 mánuðum í 16 mánuði. Það er nokkuð til í þessu þannig lagað, að það var liðið svo mjög á árið, þegar ríkisstj. loksins varð til, að ekki vannst tími til að afla tekna á þessu ári til að standa undir þeim ráðstöfunum í efnahagsmálum og atvinnumálum sem ríkisstj. taldi nauðsynlegar. Þess vegna er það, að dreifa verður skattheimtunni yfir á næsta ár. Auðvitað er höfð hliðsjón af því, að margir þeir aðilar, sem hér um ræðir, þar á meðal fyrirtæki í atvinnulífinu, þurfa að hafa nokkurt svigrúm til þess að greiða þessa auknu skatta, og sjálfsagt og eðlilegt er að taka tillit til þess.

Þá hefur einnig verið minnst sérstaklega á einstaka skatta. Það hefur einnig verið minnst sá eignarskattinn, að hann væri ekki verðbólguskattur. Ekki er þetta alls kostar rétt. Eignarskatturinn er að hluta til verðbólguskattur og er auðvelt að sýna dæmi um það. Það þarf ekki annað en benda á tvo menn. Annar á verulegar eignir og skuldar e.t.v. ekkert. Hinn á litlar eignir. Síðan malar verðbólgan, og sá, sem á miklar eignir, hagnast á verðbólgunni, en hinn tapar á henni. Það er eigi að síður rétt að skuldakóngarnir græða mest á verðbólgunni. Það er alveg rétt, þeir gera það. En eignarskattur er auðvitað að hluta til verðbólguskattur og engin spurning um það, að þeir, sem eiga miklar eignir, hagnast meira á verðbólgunni en hinir, sem litlar eða engar eignir eiga, en þurfa að mæta útgjöldum vegna verðbólgunnar með e.t.v. lágum tekjum og litlum sem engum eignum.

Það hefur verið um það rætt og er einmitt drepið á það í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna að setja á verðbólguskatt, og það er ástæða til þess í þjóðfélaginu vegna þess, hversu verðbólgan er mikil og hvað hún hefur verið varanleg. En það er ekki vandalaust verk frekar en skattlagning yfirleitt, og þess vegna vannst ekki ráðrúm til þess — ég vil segja á örfáum dögum — að skoða það mál nægilega gaumgæfilega. Það er sjálfsagt að viðurkenna það, að undirbúningur þeirrar skattlagningar, sem felst í brbl, var mjög skammur og í raun og veru allt of skammur. Það skal ég vera fyrstur manna til að viðurkenna. En ástandið var þannig, að það þoldi enga bið að gerðar yrðu ráðstafanir. Það varð að hefjast handa þegar í stað, því að yfir vofði stöðvun þýðingarmikilla þátta atvinnulífsins til viðbótar við þá sem þegar voru stöðvaðir. Þess vegna var það ráð tekið að nota þá skattstofna, sem þekktir eru, menn vita hverjir eru, og leggja á aukaskatta.

Hv. stjórnarandstæðingar hafa notað nokkuð stór orð í sambandi við afturvirkni og aukaálagningu, notað orðið „siðleysi“ nokkuð mikið — einum of mikið, vegna þess að það má finna dæmi þess í okkar sögu að lagðir hafa verið á skattar sem verka aftur fyrir sig, og útsvör, sem verka aftur fyrir sig, hafa verið lögð á til viðbótar við þegar álögð gjöld. Og það eru fordæmi fyrir í raun og veru miklu róttækari aðgerðum en hér var gripið til, vegna þess að þeir aukaskattar, sem lagðir eru á samkv. brbl., eru um 2% af útgjöldum fjárlaga fyrir árið í ár. Ég get t.d. bent á það, að árið 1951 framkvæmdi bæjarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík, sem var hreinn meiri hluti Sjálfstfl., aukaálagningu útsvara. Það var gert í ágústmánuði, eftir að skattskrá hafði verið lögð fram, eftir að útsvör höfðu verið lögð á, og þessi aukaálagning var ekki 2%, hún var 10% hækkun á útsvörum borgarbúa, þannig að ef út í það er farið má finna a.m.k. nokkur dæmi þess, að hliðstæðar ráðstafanir við það, sem nú er verið að gera, hafi verið gerðar. Þessi aukaálagning útsvara í Reykjavík, sem fór fram í ágústmánuði 1951, var auðvitað gerð af brynni nauðsyn, þó að um það væru að vísu miklar deilur. Ég hef til fróðleiks fengið úrklippur úr dagblöðum á þessu tímabili, og það var auðvitað deilt mikið um þetta. Og það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt, þó að deilt sé um svona ráðstafanir. Vandann sem stjórnendur, hvort sem er ríkis, borgar eða bæjar, geta komist í, verður hins vegar að leysa með einhverjum hætti, og þegar um ástand er að ræða eins og hér hefur verið, þá er ekki um annað að ræða heldur en að grípa til skattlagningar til að afla tekna til nauðsynlegra ráðstafana til að leysa þann mikla vanda sem við er að fást, sem í þessu tilfelli var að við blasti stöðvun heilla atvinnugreina. Þetta var liður í að leysa launadeilur sem höfðu staðið í marga mánuði og valdið miklum truflunum í atvinnulífinu. Og þegar allt er talið saman, þá er kannske þýðingarmesta atriðið í þessum efnum og það vandasamasta, þegar þarf að grípa til svona aðgerða, að þær aðgerðir, sem eru gerðar, séu réttlátar. Um slíkt má auðvitað deila.

Í þessum tilfellum hefur verið lögð áhersla á að reyna að leggja þessi gjöld þannig á, að þau væru réttlát og það væri gert sem mest í hlutfatli við efni og ástæður. Hins vegar er enginn vafi á því, að þessi lagasmíð eins og öll skattalög, sem sett eru, verður að þola dóm reynslunnar, og ég hygg að flestum skattalögum, sem hafa verið sett, þó að þau hafi verið undirbúin mjög vandlega, hafi þurft að breyta í ýmsum efnum. Það hefur komið fram missmiði á þeim sem menn ekki gátu séð fyrir. Svo kann einnig að verða í þessu tilfelli, að það sé ástæða til þess að bæta úr augljósum ágöllum, vegna þess að stuttur tími var til stefnu til að undirbúa þessa lagasetningu, og er sjálfsagt að athuga það í hv. fjh.- og viðskn. sem sjálfsagt fær þetta mál til meðferðar, og ríkisstj. er opin fyrir því að athuga með breytingar sem þarf að gera vegna augljósra galla.

Það hefur verið bent á það réttilega, að einn af göllunum við beina skattlagningu er sá, að hætt er við að erfitt verði að ná til allra, þannig að þeir greiði þá skatta sem þeir eiga raunverulega að greiða. Þetta hefur verið umræðuefni í sambandi við skattalagasetningu hér á Alþingi um áratugaskeið. Í þessu sambandi vil ég benda á að þær ráðstafanir, sem þarna er verið að gera, eru miðaðar við það að hamla gegn verðbólgunni. Þær eru öðrum þræði ráðstafanir gegn aukinni verðbólgu. Það er gripið til þess að greiða niður í talsvert stórum stíl verð á landbúnaðarvörum, og það er einnig gripið til þess ráðs að fella niður söluskatt af matvörum. En það er aflað tekna með beinum sköttum. Það er ekkert launungarmál, að beinir skattar falla ekki inn í vísitölugrundvöllinn eins og kunnugt er. Það er ein af ástæðunum fyrir því, að menn neyðast til þess e.t.v. meira en annars væri að grípa til beinna skatta til þess að afstýra því að verðbólgan og verðlagið skrúfist upp. Í þessu tilfelli beindust þessar ráðstafanir að því að reyna að hamla gegn verðólgunni og skapa svigrúm á meðan menn koma sér saman um varanlegri stefnumörkun á sviði efnahagsmála sem beinist að því að ná verðbólgunni niður. Verðbólguvandamálið er að minni hyggju langsamlega mesta vandamálið sem þjóðin býr við. Um það eru raunar allir sammála. Og aðgerðir í efnahagsmálum og fjármálum eiga að beinast að því að ná verðbólgunni niður á sambærilegt stig við þær þjóðir sem við höfum mest skipti við. Auðvitað deila menn um leiðir að þessu marki. Ekki hefur tekist með þeim aðferðum, sem hafa verið notaðar fram að þessu, að kveða verðbólguna niður, og þess vegna þarf að leita nýrra úrræða og nýrra leiða í þeim efnum.

Varðandi beina skattlagningu vil ég geta þess, að sérstakt ákvæði er í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna um að herða skattaeftirlit, og það mun koma fram, þegar fjárlög verða lögð fyrir Alþ., að gerðar verða tillögur um aukið fé í þessu skyni. Það er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því, að það er í raun og veru út í bláinn að hugsa sér að herða skattaeftirlit nema á þann veg, að það kosti peninga, það kosti útgjöld, og e.t.v. mest í þá veru að tryggja þarf hæfa menn til að vinna að þessum störfum, og þeir fást ekki nema þeim sé vel borgað. Það er staðreynd og þarf raunar ekki um það að ræða. Það er þegar hafinn undirbúningur að því að herða skattaeftirlit til þess m.a. að mæta þeirri gagnrýni, sem ég álít að sé að sumu leyti réttmæt, að sumir skattþegar sleppi of vel þegar um er að ræða beina skattlagningu.

Það hefur nokkuð verið rætt um það, að — sérstaklega beinu skattarnir séu orðnir úr hófi háir. Ég gerði þetta atriði að umræðuefni um daginn og komst að þeirri niðurstöðu, að þegar toppskattar, hæstu skattar á tekjur manna, eru bornir saman hér á Íslandi og hjá ýmsum öðrum þjóðum, þ. á m. Norðurlandaþjóðunum, þá eru þessir skattar þrátt fyrir allt og þegar tekið er tillit til verðbólgunnar og tillit til þess, að við Íslendingar greiðum okkar skatta árið eftir, en ekki staðgreiðslu, miklu lægri en hjá Norðurlandaþjóðunum, hjá þjóðum eins og Bretum og jafnvel Þjóðverjum. Ég lét gera á þessu sérstaka athugun, og það kom í ljós að hér á Íslandi er hámark gjalda — og þar eru innifaldir bæði tekjuskattur, útsvar, sjúkragjald og viðbótarskatturinn sem lagður er á samkv. brbl. sem hér er verið að ræða, — er 59%. Það er það hæsta sem menn geta komist í. Og ef tekið er tillit til þess, að skattar eru greiddir árið eftir og ef verðbólgan er 40%, þá verður þessi toppur rúmlega 40%, ef málið er skoðað í þessu ljósi. Á Norðurlöndunum er hliðstæð tala yfir 70%, í Vestur-Þýskalandi er hún 56% og í Bretlandi yfir 80%. Nú er rétt og skylt að geta þess, að í þessum löndum er hæsti jaðarskattur miðaður við hærra tekjumark en hér á landi. En þá er hægt að fá annan samanburð, sem gefur nokkra vísbendingu í þessum efnum, og það er heildarskattþunginn þegar allir skattar eru teknir með. Ég hef látið gera nokkurn samanburð á því einnig, til þess að við getum frekar áttað okkur á því, hvar við erum á vegi staddir í þessum málum, og hefur komið í ljós þegar bornir eru saman heildarskattar — og þá á ég við alla skatta: beina skatta, útsvör, tolla og alla skatta, öll gjöld — að heildarskattþunginn hér á Íslandi er í kringum 33% af þjóðarframleiðslunni. Þjóðarframleiðslan í ár er áætluð að verða 540 milljarðar og næsta ár sennilega í kringum 680 milljarðar, þannig að heildarskattþungi allra gjalda er í kringum 33% eða var það 1977, verður e.t.v. aðeins hærri þegar þessir skattar bætast við, ég gæti giskað á 34%. Ef við lítum aftur til Norðurlandanna, þá er hliðstæður skattþungi í Noregi 46%, í Danmörku 46%, í Svíþjóð 43%, í Hollandi 46%, í Austurríki 37%, í Vestur-Þýskalandi 38%, Frakklandi 36%, Finnlandi 36% og í Bretlandi 36%. Þessar tölur, sem ég ber hér saman, eru að vísu frá árinu 1974, ég hef ekki fengið nýrri tölur í þessum efnum. Ég held að þær gefi þó í öllum aðalatriðum til kynna samanburðinn á heildarskattþunganum hér á landi og hjá þeim þjóðum, sem ég hef hér verið að nefna.

Ég rek þessi mál nú frekar til upplýsinga og geri ráð fyrir að flestum þyki þrátt fyrir allt skattarnir háir. Ég held að það sé nauðsynlegt að við reynum að átta okkur á því, hvar við erum staddir í þessum efnum samanborið við þau þjóðfélög sem við viljum helst bera okkur saman við, sem sum hver eru e.t.v., þegar á allt er lítið, bestu þjóðfélög veraldarinnar, þ. á m. Norðurlandaþjóðfélögin og fleiri, þannig að þetta gefur, eins og ég sagði áður, til kynna talsvert hvar við erum á vegi staddir.

Ég held, herra forseti, að ég orðlengi ekki frekar um skattaákvæðin í brbl. að sinni, en mun ræða þau nánar ef tilefni gefst til.