13.02.1979
Sameinað þing: 52. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2548 í B-deild Alþingistíðinda. (2000)

41. mál, varnir gegn olíumengun í nágrenni Keflavíkurflugvallar

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að taka með örlitlum hætti þátt í þessum umr. sem eru hér um þáltill, hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar um rannsókn á vatnsbólum á Keflavíkurflugvallarsvæðinu. Hér er vissulega ekki um neitt nýtt vandamál að tefla og alls ekki heldur ástæðulaust að enn þá skuli vakin afhygli á því. Það hefur ekki farið fram hjá neinum, sem hafa starfað að svokölluðum varnarmálum í mörg undanfarin ár, að hér væri vaxandi hætta á ferðinni, m.a. vegna útfærslu byggða á þessu svæði.

Ég vil gjarnan endurtaka það, sem ég held að hafi komið fram hjá hæstv. utanrrh., að fyrir nokkrum árum, að ég hygg þrem árum, var látin fara fram sérstök athugun á þessum málum, á aðstöðu íbúa þessa svæðis til að afla sér hreins og ómengaðs vatns, og var vissulega full ástæða til þess. Sú n. eða starfshópur sem þá starfaði, — ég hygg að það hafi verið 1976, ég er því miður ekki með þessa skýrslu við höndina, — starfaði undir forustu Þórodds Th. Sigurðssonar vatnsveitustjóra í Reykjavík og þar kemur ýmislegt athyglisvert fram, t.a.m. að það er ekki einungis um olíumengun að ræða á þessu svæði, heldur einnig að vatnið er sjóblandað og mætti kannske nefna það sjómengun. Allt þetta hefur valdið því, að menn á þessu svæði eru áhyggjufullir um að hreint og gott vatn verði ekki fyrir hendi, og þá er auðvitað leitað ráða til þess að ráða bót á því ástandi. Mér skilst og skildist alla tíð sem þáv. utanrrh., að það væri a.m.k. matsatriði, ef ekki nokkuð sjálfgefið, að það bæri fremur að leita nýrra vatnsbóla á þessu svæði heldur en taka til borana á þessu svæði sem hugsanlega gætu leitt til jafnvel verra ástands en þess sem þar þó ríkir nú.

Ég er fyllilega samþykkur þeim ráðstöfunum sem hæstv. utanrrh. hefur nú beitt sér fyrir að framkvæmdar verði í því skyni að leita að hreinu vatni og bæta það ástand sem þarna er. En ég kemst ekki hjá því að undirstrika það, að það er margt fleira en olíumengun sem þarna er um að tefla. Byggðin á þessu svæði hefur þést svo verulega að þar eru miklu erfiðari viðfangsefni nú við að glíma heldur en áður var, auk þess sem réttilega hefur verið á það bent af hæstv. ráðh., að við erum tiltölulega nývaknaðir til meðvitundar um mengunarhættu á þessu landi. Við höfum talið okkur kannske allt of lengi trú um það, að við byggjum í svo hreinu og óspilltu umhverfi að við þyrftum litlar sem engar ráðstafanir að gera til að viðhalda því ástandi.

Eitt af því, sem á tímabili var talin hætta á að mengaði vatnsból Reyknesinga, voru sorphaugar sem varnarliðið og jafnvel sveitarfélög líka höfðu myndað á þessu svæði. Afleiðingin af þessum ótta varð svo sú, að ráðist hefur verið, eins og kunnugt er, í byggingu nýrrar sorpeyðingarstöðvar á þessu svæði með þátttöku varnarliðsins. Ég vænti þess, að þessi ráðstöfun muni einnig, ásamt þeim sem til þurfa að koma og í undirbúningi eru, verða til þess að bæta þær aðstæður sem þarna er við að búa.

Ég vil að engu leyti gera lítið úr því vandamáli sem hér er um að tefla. Þetta er sameiginlegt vandamál þeirra sem Suðurnesin byggja, hvort sem þeir eru íslenskir eða annarrar þjóðar, meðan það ástand varir við.

En um málsmeðferð að öðru leyti langar mig að segja örfá orð.

Till. gerir ráð fyrir að utanrmn. láti fara fram sérstaka rannsókn á þessu atriði. Hér er komið að mjög veigamiklu atriði í starfsemi þm. að mínu mati. Það er sem sagt það atriði sem hér hefur áður verið gert að umtalsefni, hvort þm. hafi vald eða eigi að hafa það vald að gerast rannsóknaraðilar. Nú er hér á döfinni í hv. Alþ. vísir að slíkri rannsókn, þar sem er starf allshn. Nd. Alþingis á svokölluðu Laxalónsmáli. Mér er ekki enn þá ljóst hvaða niðurstaða verður úr því þingskapalega og stjórnarfarslega séð. En mér finnst að það verði að gera sér grein fyrir því og hv. alþm. verði að gá vel að því og mynda sér um það rökstudda skoðun, studda á sérfróðum álitum, hvort nefndir, t.a.m. utanrmn., þar sem ég hef nú formennsku á hendi í svipinn, hafi vald til þess að framkvæma slíka rannsókn, geti kvatt fyrir sig umrædda aðila, geti lagt þeim á herðar tilteknar skyldur, þ.e.a.s. hvert verksvið n. er. Mig minnir að í till. sé aðeins gert ráð fyrir að n. gefi skýrslu til Alþingis. Slíkt er auðvitað framkvæmanlegt, en þó því aðeins að þeir menn, sem til yfirheyrslu — ef ég mætti taka svo til orða — eru kvaddir, vilji af fúsum og frjálsum vilja gefa sig fram við n. og svara þeim spurningum sem hún leggur fyrir þá. Hér er um að tefla mjög þýðingarmikið atriði í störfum Alþingis, og er nauðsynlegt að mínu mati að fram fari allsherjarkönnun á því, hvert valdsvið slíkar n. hafa. Meðan það liggur ekki fyrir vil ég ekki undirgangast það skilyrðislaust að gangast fyrir sem formaður umræddrar n. þeirri könnun sem till. gerir ráð fyrir. Ef hins vegar sérfræðingar og Alþingi sjálft kemst að þeirri niðurstöðu, að þetta sé eðlilegt og rökrétt verksvið þessarar tilteknu n., þá mun ég ekkert skorast undan því fyrir mitt leyti að takast það hlutverk á herðar.

Ég heyrði flm. leggja til að þessari till. yrði vísað til utanrmn. til athugunar, og þar mun þá þetta tiltekna atriði koma til meðferðar fyrst og fremst eða í upphafi, skulum við segja. Fyrr en niðurstaða um það liggur fyrir mun ég fyrir mitt leyti ekki lofa að gangast fyrir slíkri rannsókn, enda þótt ég telji að það sé fullkomlega eðlilegt að Alþ. láti málið til sín taka. En ég bendi á það, að fram undir þetta a.m.k. hefur það verið venjan og sú aðferð, sem við höfum búið við, að viðkomandi rn. hafi framkvæmt tiltekna rannsókn og lagt síðan niðurstöður fyrir Alþ., sem síðan hefur tekið ákvörðun um hvort frekar skyldi í málinu gera eða ekki.

Ég endurtek það, herra forseti, að ég geri mér fyllilega grein fyrir því, að mengunarmál á þessu tiltekna svæði, Reykjanessvæðinu, eru brennandi spursmál og verður að leita leiða til úrbóta. Ég hef áður sagt að þeir sérfræðingar, sem ég studdist við meðan ég starfaði að þessum málum, voru þeirrar skoðunar, að fremur bæri að leita að nýjum vatnsbólum heldur en taka áhættu af nýjum borunum sem gætu leitt til jafnvel verra ástands en fyrir hendi er. En ef ný n. og ný augu sjá betur, þá er sjálfsagt að hafa það sem betur reynist.