26.10.1978
Neðri deild: 8. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

39. mál, kjaramál

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Það hefði verið gaman að svara hæstv.fjmrh. nokkrum orðum, en ég punktaði ekki niður nema mjög lítið af því sem hann sagði, en mér fannst það vera eins og að ausa vatni í botnlausa tunnu, það hélt bókstaflega ekkert af því sem ráðh. sagði. Ég get ekki með nokkru móti ímyndað mér að þjóðfélag, sem er hátollaþjóðfélag borið saman við þjóðfélög sem hafa svo til enga tolla, þjóðfélag, sem hefur háan söluskatt og vörugjald, sem komið er allt upp í 30% af sumum innfluttum vörum, geti verið sambærilegt við þau lönd, a.m.k. ekki þau lönd sem ég hef búið í í Evrópu og hann minntist á að hlutfalli í skattlagningu. Ég bið hæstv. ráðh. að lofa mér að sjá á blaði þessar tölur sem hann hefur til hliðsjónar þegar hann vitnar í þessi mál.

Mikið af ræðu hæstv. fjmrh. fór í að réttlæta þá afturvirkni, sem þjóðin sjálf sín á milli hefur dæmt sem mjög varhugaverðá ráðstöfun af hendi ríkisstj., og vitna til þess, að líklega mundu dómstólar staðfesta þessa aðferð ríkisstj. sem rétta. Það getur vel verið. Ég er ekki lögfræðingur, ég tek það fram, það er bara mín réttlætiskennd sem segir mér, að komi mál fyrir dómstóla og það snerti beint eða óbeint einhvern sem í dómstólnum situr, þá verður sá hinn sami að víkja, og engir dómstólar hér eru þannig séð hlutlausir til að dæma í máli sem þessu. Ég held að þjóðin verði að dæma sjálf. Það eru allir dómarar að mínu viti skattgreiðendur, og ég þarf ekki að rökstyðja þennan málflutning frekar.

Hæstv. fjmrh. sagði líka að það hefði enginn tími verið til að hugsa vel málin, það varð að hrökkva eða stökkva. Ríkisstj. með fjmrh. í broddi fylkingar kaus að stökkva. En ég vil ráðleggja hæstv. ríkisstj., ef hún ætlar sér að stökkva eitthvað meira frá háhýsum, að hlaupa þá út um kjallaragluggann, því að skellurinn af þeim aðgerðum, sem hún hefur nú stofnað til, hlýtur að verða mikill þegar hún kemur niður.

Hæstv. forsrh. hefur lagt fram hin margumtöluðu brbl. hinnar nýskipuðu ríkisstj. og mælir að sjálfsögðu með staðfestingu þeirra óbreyttra. Fólkið í landinu hefur haft tíma til kynna sér þessar ráðstafanir ríkisstj., og ég hef orðið var við að fyrstu spor hinnar nýju ríkisstj. hræða. Á ég þar sérstaklega við IV, kaflann með 8. gr. sem brotið hefur gegn réttlætiskennd fólksins, og fer ekki á milli mála að hér er um eignaupptöku að ræða, hvort sem afturvirkni umræddra skattaaukalaga stenst eða ekki fyrir þeim dómstólum sem fjmrh. var að vitna til áðan. Hér er lagt til að eignarskattsaukinn sé 50% á einstaklinga og 100% á félög og fyrirtæki sem leggja skal á. Og í 9. gr. í IV. kafla er gert ráð fyrir að 6% sérstakur tekjuskattur verði lagður á alla menn sem tekjuskattsskyldir eru samkv. ákvæðum laga nr. 68/1971. Þessir skattar eru lagðir á eftir að fólk hefur gert ráðstafanir með tekjuafgang sinn frá árinu áður, og þar af leiðandi leyfi ég mér að halda því fram enn þá einu sinni, að þessi nýja skattlagning gangi gegn réttlætiskennd fólks almennt í landinu. Því vil ég láta þá ósk mína fylgja þessu frv. og píslargöngu þess gegnum deildir og nefndir hv. Alþ., að á því verði gerðar breytingar og fólkinu í landinu sýnd meiri tillitssemi af hálfu hv. Alþ. en af hálfu höfunda þessa frv. til l. um kjaramál sem er þskj. 42.

Ég hef þegar lagt fram brtt. við IV. kafla frv. þessa. En þar sem annar hv. þm. hefur lagt fram skrifl. brtt. og óskað eftir að hún yrði tekin á dagskrá, þá mun ég gera það sama. Brtt. mínar eru í þá átt, eins og koma mun fram þegar þeim verður útbýtt hér prentuðum, að fallið verði frá því að leggja á fólk, fyrirtæki og félög aukaskatta á eignir og tekjur, en að innheimta sú, sem hér er lögð til, verði skoðuð sem eins konar skyldusparnaður, þ.e. að gefin verði út ríkisskuldabréf til þeirra, sem greiða þessa aukaskatta, sem endurgreiðist á næstu tveimur árum. Ætla ég að kynna hér þessar brtt. mínar áður en ég athendi forseta þær skriflega, en þær hljóða svo:

Fyrirsögn IV. kafla orðist svo: Um sérstakan skyldusparnað sem leggja skal á eignarskatt og tekjuskatt og tekjur af atvinnurekstri.

8. gr. breytist þannig: „Eignarskattsauki í 1. málsl. verði skyldusparnaður, og síðari málsgr. 8. gr. falli niður. 9. gr. breytist þannig: Á árinu 1978 skal lagður sérstakur tekjuskattur“ í 1. málsl. verði: Á árinu 1978 skal lagður sérstakur skyldusparnaður — og „reiknast þá sérstaki tekjuskatturinn“ í 2. málsgr. verði: reiknast þá sérstaki skyldusparnaðurinn. „Áður en skattur er ákvarðaður“ í 3. málsgr, verði: Áður en skyldusparnaður er ákvarðaður. Síðasta málsgr. falli niður.

10. gr. breytist þannig. „„Á árinu 1978 skal leggja sérstakan skatt“ í 1, málsl. verði: Á árinu 1978 skal leggja á sérstakan skyldusparnað. Þessi sérstaki skattur skal nema 6%“ í 3. tölulið 1. málsgr. verði: Þessi sérstaki skyldusparnaður skal nema 6%. Síðasta málsgr. falli niður.

11. gr. breytist þannig: „Skattstjórar sjá um útreikning þeirra skatta... og gilda um þá“ í 1. málsl. sjá um útreikning þeirra skatta verði: Skattstjórar sjá um útreikning þessa skyldusparnaðar... og gilda um hann. „Skattstjórar skulu við útreikning þessara skatta“ í 2. málslið verði: Skattstjórar skulu við útreikning þessa skyldusparnaðar. „að lækka eða hækka eða leggja á skatta“ í síðasta málslið verði: að lækka eða hækka eða leggja á skyldusparnað.

12. gr. breytist þannig: „Innheimta skatta“ í 1. málslið verði: Innheimta skyldusparnaðar. „Nái samtala þeirra skatta sem lagðir eru á.... skulu þeir felldir“ í 2, málslið verði: Nái samtala þess skyldusparnaðar sem lagður er á.... skal hann felldur. „Skattar þessir skulu innheimtir“ í 3. málslið verði: Skyldusparnaður þessi skal innheimtur.

Við 12. gr. bætist nýr málsl. sem hljóði þannig:

Skyldusparnaður þessi skal færður á sérstakan reikning hvers gjaldanda jafnóðum og hann er innheimtur og endurgreiðast gjaldanda tveimur árum eftir að hann hefur lokið greiðslu hans ásamt fullum vísitölubótum miðað við vísitölu byggingarkostnaðar á hverjum tíma auk 4% ársvaxta. Sömu aðilar og annast innheimtuna skulu annast endurgreiðslu fjárins og útreikning vísitölubóta.“

Álagning hins sérstaka skatts, sem frv. til l. um kjaramál gerir ráð fyrir að verði innheimtur, hefur sætt mikilli gagnrýni og fram hafa komið efasemdir um að hann sé löglegur og unnt reynist að innheimta hann. Hvað sem því líður virðist alla vega ljóst, að álagning þessi brýtur gegn réttlætisvitund fólksins í landinu. Til þess að komast fram hjá þeim erfiðleikum, sem álagning slíks skatts hefur í för með sér, er hér lagt til að skattinum verði breytt í skyldusparnað sem endurgreiðist eftir tvö ár. Með þeim hætti fær ríkissjóður tekjumar sem annars er óvíst um og réttlætiskennd almennings er síður ofboðið. Endurgreiðslutíminn miðast við fyrirætlanir ríkisstj. um að koma fjárhag ríkissjóðs á réttan kjöl. Ég vil leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessar brtt.

Af því, sem ég hef nú sagt, er augljóst að hér tala ég um eins konar lögbundið lán frá þjóðinni til ríkissjóðs, en ekki um þá eignaupptöku sem þessi lög bera með sér. Eins og hv. 1. þm. Vestf. tók fram, vitum við að innheimta þessi kemur mjög hart niður á þeim hópi fólks í þjóðfélaginu sem kannske þolir það síst. En vonandi átta hv. alþm. sig á því,að skattar þessir lenda mjög þungt á öldruðu fólki sem á skuldlausar gamlar eignir, sem með nýju fasteignamati eru háir skattálagningastofnar, en hefur lítið handa á milli til lífsviðurværis. Þetta er okkur öllum ljóst. Ég trúi því ekki, að það sé ætlun ríkisstj. að auka vanda hinna öldruðu og auralitlu, þótt ég trúi því jafnvel að þeir hafi litla sem enga samúð með atvinnurekendum sem þessir skattar lenda á.

Ég hafði hugsað mér að leggja fram brtt. við 7. gr. þessa frv. líka og það er best að ég geri það um leið, úr því að sú málsmeðferð var viðhöfð hér af öðrum þm. á undan mér.

Það er þá fyrst að 1. og 3. mgr. 7. gr. falli niður, en þar er um að ræða endurprentun á gildandi lögum, þ.e.a.s. 10. gr. laga nr. 13 frá 23. maí 1975.

Þetta þýðir einfaldlega að 1. og 3. mgr. 7. gr. eru í lögum sem eru í gildi og hafa verið í gildi í mörg ár. Þess er ekki að vænta, að verðbólgan minnki þótt gildandi verðstöðvunarlög séu samþykkt aftur, fyrst fyrri samþykktin hafði engin áhrif.

Brtt., sem ég leyfi mér einnig að flytja, er við 7. gr. og er um að 2. mgr. falli niður. Við gengisfellinguna í febr. s.l. var álagning verslunar lækkuð. Síðan þá hefur allt verðlag í landinu hækkað með þeim afleiðingum að fella hefur orðið gengið aftur. Þessi hækkun rekstrarkostnaðar hefur að sjálfsögðu komið á verslunina með sama hætti og allar aðrar atvinnugreinar. Þar sem álagningarákvæðin voru aldrei hækkuð aftur af síðustu ríkisstj. til samræmis við verðbólguna skortir allan grundvöll fyrir beitingu svokallaðrar 30% reglu við gengisfellinguna sem núv. ríkisstj. lætur framkvæma. Ég held að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um þessa brtt., hún er svo augljós.