14.02.1979
Neðri deild: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2573 í B-deild Alþingistíðinda. (2016)

184. mál, tollskrá

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breyt. á l. nr. 120 31. des. 1976, um tollskrá o. fl., sbr. l. nr. 24 10. maí 1977 og l. nr. 82 18. maí 1978 um breyt. á þeim lögum. Frv. er á þskj. 353.

Þetta frv. er aðeins tvær greinar. 1. gr.: Í 14. tölul. 3. gr. laganna falli orðin „ráðherra og“ brott. Og 2. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi.

Í allmörg ár hafa verið í gildi sérstakar reglur um tollmeðferð bifreiða er ráðh. hafa til afnota. Með lögum nr. 1 frá 1970, um tollskrá o.fl., var veitt heimild til þess að veita undanþágu frá greiðslu aðflutningsgjalda af bifreiðum ráðh. í samræmi við reglur um bifreiðamál ríkisins.

Reglur þær, er nú gilda um bifreiðamál ríkisins, er að finna í reglugerð nr. 6 frá 1970. Í 10. gr. reglugerðar þessarar eru svofelld ákvæði:

„Hver ráðh. getur fengið til umráða ríkisbifreið, sem ríkissjóður ber allan kostnað af. Bifreiðar þessar skulu sérstaklega auðkenndar, og er óheimil notkun þeirra nema í embættisþágu.

Ráðh., sem ekki óskar að fá til umráða ríkisbifreið, á þess kost að fá keypta bifreið, er hann tekur við embætti, með sömu kjörum og gilt hafa um bifreiðakaup ráðh., er lætur af embætti. Heimilt er að veita ráðh. í eitt skipti lán til slíkra kaupa með sömu kjörum og gilda um ríkisforstjóra, sem haft hafa ríkisbifreið til afnota.“

Ríkisstj. telur óeðlilegt að ráðh. fái bifreiðar, er verði einkaeign þeirra, með öðrum kjörum en almennt gilda í landinu og er því með frv. þessu lagt til að lagaheimild til veitingar slíkra fríðinda verði felld úr gildi.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.