14.02.1979
Neðri deild: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2578 í B-deild Alþingistíðinda. (2020)

168. mál, útvarpslög

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Aðeins nokkrar aths. vegna ummæla hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar, Ellerts B. Schram og Friðriks Sophussonar varðandi það mál sem hér er til umr.

Það er alveg augljóst að reginhaf er á milli skoðana þessara þriggja manna og okkar Alþfl.-manna sem hér höfum talað um þetta mál. Ég held að hv. þm. Eiður Guðnason hafi komist mjög réttilega að orði og nærri sannleikanum þegar hann talaði um að hér væri verið að prédika af hálfu flm. frelsi peninganna. Það er nú líkast til kjarninn í þessu máli, að hér er verið að túlka það frelsi sem fjármagnið stjórnar.

Ég vil endilega draga skýrt fram, að það verður að skilja mjög greinilega á milli þegar verið er að ræða um frjálst útvarp annars vegar og hið íslenska ríkisútvarp hins vegar. Í frv. því, sem hér er til umr., eru hinu svokallaða frjálsa útvarpi ekki lagðar neinar skyldur á herðar við alþjóð, þ.e.a.s. því er m.a. ekki gert að útvarpa um allt landið, heldur liggur í augum uppi að slíkt útvarp mundi eingöngu verða bundið við þéttbýlisstaðina á landinu. M.a. af þessari ástæðu er fullkomlega réttmætt að andæfa gegn þessu frv. og a.m.k. benda á þá stórkostlegu ágalla sem á því eru.

Það er mikið talað um misvitra embættismenn og stjórnmálamenn í sambandi við Ríkisútvarpið. En þeir menn, sem þannig tala, minnast ekki á misvitra peningamenn. Þeir minnast ekki á það, hvað misvitrir peningamenn gætu gert með frjálsum útvarpsrekstri. Ég dró upp í umr. í gær mynd af ástandi því sem skapast hefur í Bandaríkjunum af frjálsum útvarpsrekstri. Allir eru sammála um að hann sé hvergi til fyrirmyndar. Og þar er komið svo, að ríkisvaldið hefur orðið að grípa í taumana og útvarpar sjálft um eigin útvarpsstöðvar ýmsu menningarlegu efni.

Ég ætla ekki að þæfa þetta mál við hina ungu frjálslyndu sjálfstæðismenn í d., en ég held að mönnum hljóti að vera ljóst að annmarkar á þessu máli eru svo margir og stórir að það er hvergi nærri tímabært að tala um það. Ég vil eingöngu í sambandi við þetta ítreka óskir mínar, ekki bara til þessarar d., heldur til Alþ., að það reyni nú, í stað þess að huga að frjálsu útvarpi, að gera betur við sitt eigið ríkisútvarp og efla starfsemi þess og rekstur, auka og bæta tækjabúnað og öryggi það sem útvarpið býr við og þá um leið landsmenn allir.