14.02.1979
Neðri deild: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2582 í B-deild Alþingistíðinda. (2024)

168. mál, útvarpslög

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég vildi samt að það kæmi skýrt fram, að ég er andvígur þessu frv. Ég tel að það væri stefnt í ranga átt að samþ. frv. af því tagi sem hér liggur fyrir. Ég lít á okkar íslenska útvarp fyrst og fremst sem menningartæki. Þó að það sé fjölmiðill, eins og er farið að kalla bæði blöð og tæki eins og sjónvarp og útvarp, fréttamiðill, á það að vera að mínu viti fyrst og fremst menningartæki. Mér er alveg ljóst að við okkar aðstæður er eðlilegt að þetta menningartæki sé rekið af ríkisheildinni, þar sé reynt að halda uppi ákveðnum og föstum siðareglum, eins og reynt hefur verið, hvernig svo sem það hefur tekist. Ég held að það væri stefnt í mjög ranga átt ef farið væri að afhenda rekstur af þessu tagi mörgum aðilum og þeim sem fyrst og fremst mundu hefja slíkan rekstur í fjáröflunarskyni, því að ég held að það sé enginn vafi á að slíkt lægi þá til grundvallar.

Ég kann annars heldur illa við þann málflutning hjá þeim sem berjast fyrir framgangi þessa frv. þegar þeir eru að kalla hugmyndir sínar um annan útvarpsrekstur frjálst útvarp. Allt er frjálst, hvers konar brask sem það er sem slíkir aðilar leggja til, en það þýðir þá auðvitað í þeirra munni að allt, sem ríkið hefur með að gera, er ófrelsi. Hér er auðvitað um mikla blekkingu að ræða. Stofnun eins og útvarpsstöð verður ekki frjáls þó nokkrir „spekúlantar“ reki stöðina. Hún verður ekki frjálsari við það. Stöð, sem rekin er af ríki eða ríkisheild, getur vitanlega verið jafnfrjáls og hin, sem er rekin af einhverjum fjáraflamönnum.

Auk þess að lýsa yfir afstöðu minni til þessa frv. var í rauninni annað atriði sem gerði það að verkum að ég bað um orðið. Við vitum að það hefur verið mikið áhyggjuefni í sambandi við umr. á Alþ. um útvarpsmál að undanförnu, hvernig ætti að takast að reka íslenska útvarpið — og þá ekki síst sjónvarpið — með þeim hætti að sæmilegt væri fyrir alla landsmenn. Við vitum að það kostar mikið að koma upp slíku sendineti þannig að það sé aðgengilegt fyrir alla landsmenn. Og reksturinn sem heild, ef hann á að vera á sæmilega menningarlegum grundvelli, kostar líka mikið fjármagn.

Þegar umr. voru hér fyrir nokkrum árum um það, hversu hratt ætti að fara í að koma upp litsjónvarpi, þá komu þessar raddir eðlilega upp. Þá bentu allmargir alþm. á að aðstaða okkar t.d. í sjónvarpsmálum væri enn þannig, að á það skorti verulega á mörgum stöðum á landinu að hægt væri að tala um sæmileg sendingarskilyrði og móttökuskilyrði. Ég heyrði engan mann tala á móti því að hér yrði tekið upp litsjónvarp út af fyrir sig. Spurningin var eingöngu um það, hvort það fjármagn, það takmarkaða fjármagn sem menn réðu yfir, ætti að nota í ríkara mæli en áður hafði verið til þess að bæta dreifikerfið, til þess að koma á skaplegri þjónustu við alla landsmenn, eða hvort ætti að nota takmarkað fjármagn til þess að koma á enn þá fullkomnari útsendingu fyrir takmarkaðan hluta landsmanna.

Við vitum hvað hefur verið gert í þessum efnum og það er ekkert um að villast, það fór eins og marga grunaði að litvæðingin gekk hratt yfir. Flutt var inn geysilega mikið af slíkum sjónvarpstækjum, og mér skilst að þau muni nú vera orðin í kringum 15 þús. Þetta hefur gengið miklu hraðar yfir en þeir spáðu sem einkum lögðu til að farið yrði út á þessa braut.

Auðvitað varð það svo, að vegna þessara miklu tækjakaupa féllu til miklar tekjur. Og nokkuð hefur miðað áleiðis í því að bæta útsendingarskilyrðin viða á landinu frá því sem áður var, en þó er aðstaða manna þarna enn mjög misjöfn og fráleit víða á landinu.

Það var einmitt nú í morgun sem ég ásamt öðrum þm. Austurl. fékk nokkrar upplýsingar varðandi þessi mál. Satt að segja hrökk ég við þegar ég fékk þar vissar upplýsingar sem mér þykir full ástæða til að komi hér fram. Það kom m.a. fram, að sérstakar tolltekjur ríkisins af innflutningi á litsjónvarpstækjum hefðu orðið á s.l. ári 1 milljarður 160 millj, kr., en hins vegar hefði sjónvarpið ekki fengið af þessari fjárhæð og ætti ekki að fá nema 340 millj. kr. Það virtist því skakka allverulega að tolltekjur af þessum aukna innflutningi yrðu notaðar til þess að bæta úr í sambandi við dreifingu á sjónvarpi.

Við fengum þær upplýsingar einnig á þessum fundi, sem ég játa að komu mér einnig á óvart og ég verð að segja að það hefur farið fram hjá mér eflaust eins og fleiri í sambandi við afgreiðslu fjárl. nú að þessu sinni, að á nýsamþykktum fjárl. væri gert ráð fyrir því, en þar er að vísu aðeins um áætlunartölur að ræða, að sjónvarpið fengi af þessum innflutningi 340 millj. kr. aftur, eða sömu fjárhæð og á síðasta ári. — Stofnunin hafði hins vegar gert ráð fyrir því í upplýsingum sínum að búast mætti við að tolltekjur af innfluttum tækjum mundu nema a.m.k. 800 millj. kr. Augljóst er því að hér er orðið um það að ræða, að þrátt fyrir veikt dreifingarkerfi og þrátt fyrir að ýmsum þyki ekki nægilega vel búið að þessari stofnun, sem eflaust er ekki, er svo komið að ríkissjóður virðist farinn að gera þetta að stórkostlegum tekjustofni árlega hjá sér.

Ég efast ekkert um að það er þörf á því, ef á að halda hér uppi rekstri á slíku menningartæki sem ég hygg að flestir landsmenn vilji hafa okkar útvarp og sjónvarp, að leggja allmiklu meira fé til, sérstaklega í dreifi- og móttökukerfið víðs vegar um land, ef það á að þjóna landsmönnum öllum. Mér sýnist því að það sé langvænlegast við allar þessar aðstæður okkar að við rekum hér eitt útvarp, eitt sjónvarp, eina stofnun á þessu sviði, og við reynum að nýta þá fjármuni, sem þarna geta fallið til, þannig að bæði geti orðið um menningartæki að ræða og tæki sem komi öllum landsmönnum til góða. En rétt er að menn hafi það í huga, einnig þeir sem ákafastir vilja nú setja upp fleiri og fleiri útvarpsstöðvar, að enn þá skortir stórkostlega á að þessi stofnun geti haldið uppi eðlilegri eða fullnægjandi þjónustu við landsmenn alla.

Ég vildi gjarnan að þessi þáttur kæmi fram í sambandi við þetta mál, en ítreka svo það sem ég sagði í upphafi míns máls: Ég er andvígur þessu frv. og get ekki flokkað það undir aukið frelsi á nokkurn hátt þó við færum að koma upp nokkrum viðbótarútvarpsstöðvum fyrir þá sem sæju sér leik á borði að geta selt í gegnum það aðgang að auglýsingum og skrapað inn viðbótarfé í gróða sinn eftir þeirri leið.