14.02.1979
Neðri deild: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2584 í B-deild Alþingistíðinda. (2025)

168. mál, útvarpslög

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég átti satt að segja ekki von á því að inn í þessar umr. blandaðist litsjónvarp, en hef ekkert á móti því að um það sé rætt hér og þá sérstaklega út frá því sem síðasti hv. ræðumaður sagði.

Það er hins vegar rétt, sem fram kom í ræðu hv. þm. Friðriks Sophussonar, að þegar umr. hófust í alvöru um að innleiða litsjónvarp á Íslandi áttu sér stað veruleg átök um það, hvort stíga skyldi það skref, vegna þeirra raka að hætta væri á því að litsjónvarpið næði aðeins til ákveðins hluta landsins og það þjónaði aðeins fáum efnamönnum sem hefðu efni á því að kaupa sér slík tæki. Þetta tvennt hafði mikil áhrif á umr. á sínum tíma.

Ég man ekki nákvæmlega hvaða ár það var sem ég leyfði mér að flytja hér till. til þál. um að hefja skyldi útsendingar í lit. Sú till. náði ekki fram að ganga, en hún átti þátt í því að þetta mál náði fram að ganga. Ég er ekkert að þakka þessari till. eða mér fyrir það, en vegna þeirrar till. fóru fram nokkrar umr. í þinginu og var m.a. skipuð nefnd á vegum þáv. menntmrh. til þess að kanna möguleika á þessari framkvæmd. Og það var þá fyrst þegar þessi nefnd og þm. úr kjördæmum utan af landi áttuðu sig á því, að tekjur af innflutningi litsjónvarpstækja gætu orðið svo verulegar að þær gætu staðið undir útbreiðslu þess kerfis, sem gerir útsendingar litsjónvarps mögulegar um allt land, og með því eflt einnig hljóðvarpið, að þeir féllust á að mæla með þeim útgjöldum, sem varð að leggja út fyrir tæknibúnaði vegna litsjónvarps. Það fer ekkert milli mála að þessi sjónarmið voru fyrir hendi á þeim augnablikum þegar ákvarðanataka lá fyrir.

Nú upplýsir hv. þm. Lúðvík Jósepsson, að hann hafi fengið upplýsingar um það í morgun að tekjur Ríkisútvarpsins af innflutningi sjónvarpstækja hefðu verið verulega skertar, þetta hefði honum komið á óvart. Ég verð að segja eins og er, að mér kemur á óvart að hv. þm. skuli ekki hafa betur fylgst með fjárlagaafgreiðslunni en raun ber vitni. Ég flutti m.a. ræðu við afgreiðslu fjárl., þar sem ég vakti allrækilega athygli á þessum fjárveitingum, og ég hef verið að nefna það í þessari umr. núna að mér finnist það vera tvískinnungur af hálfu talsmanna og stuðningsmanna ríkisstj. að halda hér miklar ræður um það fjárhagslega svelti sem Ríkisútvarpið er í á sama tíma sem þeir standa að skertum fjárveitingum til Ríkisútvarpsins.

Það er hárrétt, sem fram kemur hjá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni, að tekjur á árinu 1979 eru áætlaðar rúmlega 1 milljarður af aðflutningsgjöldum á viðtækjum, en fjárl. gera aðeins ráð fyrir að af þessari upphæð renni 340 millj. til Ríkisútvarpsins. Til skamms tíma var það svo, að allar tekjur, sem af innflutningum fengust, runnu óskiptar til þessarar stofnunar. (MB: Hvenær breyttist það?) Þessi breyting, sem hér er um að ræða, átti sér stað að ég hygg á árinu 1976 eða 1977, en hefur raunverulega nú fyrst og fremst komið til framkvæmda vegna þess að þarna er orðið um stórkostlega skerðingu að ræða á þessum tekjum. Bróðurparturinn af þessum tekjum er nú látinn renna beint í ríkissjóð í stað þess að Ríkisútvarpið sjálft njóti þeirra. Ég hefði haldið, og gerði mér reyndar von um það á sínum tíma, að hv. þm., sem bæru hagsmuni Ríkisútvarpsins fyrir brjósti, stæðu með mér í þeim málflutningi að koma í veg fyrir þessa ósvinnu. Það reyndist ekki vera á þeim tíma, fyrir áramótin, og þess vegna er lítið mark á því takandi þó að þm. standi nú hér upp og fjalli um það hversu Ríkisútvarpið sé illa statt fjárhagslega. (Gripið fram í: En árið 1978. Hvernig stóð á því?) Árið 1978 voru áætlaðar verulegar tekjur af innflutningi sjónvarpstækja, og það skal viðurkennt, þó ég beri á því enga ábyrgð, að tekjur voru ekki óskiptar látnar renna til Ríkisútvarpsins. En þess ber líka að geta, að við áætlanagerð, sem gerð var fyrir fjárl. 1978, var ekki gert ráð fyrir svo miklum aðflutningsgjöldum sem reyndin sýndi. Verður því að virða mönnum til nokkurrar vorkunnar hvað það snertir. Tekjurnar fóru langt fram úr því sem áætlun gerði ráð fyrir og fjárlagadæmið byggðist á.

Ég skal ekki endurtaka mikið af því sem ég sagði áðan. Það er þó athyglisvert, að í ræðum þeim, sem hv. þm. Árni Gunnarsson og Eiður Guðnason fluttu á mánudaginn, voru það þeirra einu röksemdir gegn frv., sem hér er til umræðu, að það hefði í för með sér aukin völd peningamanna og það þýddi frelsi peninganna. Nú er hins vegar gripið til þeirra röksemda, að ekki sé hægt að heimila slíkar stöðvar vegna þess að þær nái aðeins til hluta landsmanna. Þetta eru ný rök í málinu og þeim hefur nú þegar verið svarað af hv. þm. Friðrik Sophussyni og sýnt fram á haldleysi þeirra. Inn í það blönduðust svo umr. um litsjónvarpið, sem ég ætla ekki að endurtaka hér.

Ég vil að lokum segja, að þegar ég mæli með samþykkt á þessu frv. og tel að það sé aðeins tímaspursmál hvenær frjálsar útvarpsstöðvar verði leyfðar er ég ekki að gera mér neinar vonir um að ég geti sannfært Alþfl.-menn eða Alþb.-menn um sjónarmið mín. Mér kemur ekkert á óvart þó einn „kerfiskarlinn“ í viðbót bætist í hópinn sem andmælandi gegn þessu frv., frá Alþb. Auðvitað liggur það ljóst fyrir, að Alþb. er í grundvallaratriðum á móti því að einstaklingarnir fái möguleika til athafna og möguleika til aukins frjálsræðis, hvort heldur e,r í atvinnurekstri eða í tjáningarformi. En þegar menn eru að tala um að hér sé verið að efla áhrif peninganna, þá var því þegar svarað af 1. flm. þessa frv. á þá leið að hann lýsti því yfir að hann væri tilbúinn að gera breytingar á þessu frv. sem tryggðu að enginn einn aðili gæti átt nema óverulegan hlut í væntanlegri útvarpsstöð eða útvarpsstöðvum, þannig að um það gætu stofnast t.d. almenningshlutafélög sem kæmu í veg fyrir að áhrif peninganna frá einum aðila skiptu þar nokkru máli.

Þegar ég segi það, að mér komi ekki á óvart að Alþb.menn og Alþfl.-menn séu á móti þessu frv., þá er það vegna þess að það endurspeglar þá meginstaðreynd, að menn skiptast í flokka, og þess vegna eru flokkar myndaðir á Íslandi að menn hafa ólík viðhorf til þessara mála sem og t.d. til þess, hvort hér eigi að efla atvinnurekstur í höndum einstaklinga og félaga eða hvort eigi að efla atvinnurekstur ríkisins, hins opinbera. Við sjálfstæðismenn höfum t.d. stutt svokallaðan frjálsan atvinnurekstur. Það er óþarfi að snúa út úr því sem við er átt með því. Við styðjum hann ekki til þess að menn geti grætt peninga, heldur vegna þess að við teljum hann vera besta formið til þess að fólk fái að njóta hæfileika sinna og fái útrás fyrir athafnaþrá sína. Við teljum að hann sé besta aðferðin til þess að skapa atvinnu, til þess að skapa framfarir og til þess að skapa velmegun. Það skapar arð í þjóðfélaginu sem gerir þjóðfélaginu svo aftur kleift að standa undir félagslegri þjónustu. Hið sama gildir um útvarpsrekstur, um tjáningaraðferðir. Við erum ekki að mæla með því, að hér sé veitt aukið svigrúm til að reka útvarpsstöðvar vegna þess að þar eigi menn að græða, það sé í einhverju fjáröflunarskyni, heldur vegna þess að við teljum eðlilegt og sjálfsagt mál seint á 20. öld að menn hafi möguleika til þess að tjá sig með þessu formi, alveg eins og þeir hafa möguleika til þess að gefa út blöð, gefa út bækur eða standa að hvers konar annarri tjáningaraðferð.

Þegar prentfrelsið ruddi sér til rúms fyrir mörgum öldum beittu vissir kerfiskarla sér gegn því, að það breiddist út til alls almennings svo að alþýðan fengi að njóta þess. Það var drottnunarvald kirkjunnar t.d. og önnur slík öfl sem töldu að fólkinu og þjóðfélaginu stafaði mikil ógn af því að fólk fengi að njóta prentfrelsis. Þess vegna voru ákvæði um prentfrelsi tekin upp í mannréttindayfirlýsingar og stjórnarskrár allra lýðfrjálsra ríkja og þykja sjálfsagt mál núna. Í eðli sínu er enginn munur á prentfrelsi og á frelsi manna til að reka stöðvar á öldum ljósvakans. Þetta er spurning um það að fá að tjá sig.

Ég held að það sé aðeins tímaspursmál hvenær þykir sjálfsagt að menn fái að reka slíkar stöðvar, og þá skiptir ekki máli hvort tilgangurinn er vondur eða slæmur. Enginn, hvorki ég né hv. þm. Alþfl., segir til um hvort slíkt sé í góðum eða slæmum tilgangi gert. Það er útilokað fyrir alþm., embættismenn eða aðra slíka að segja til um það, hvað sé gott og slæmt, hvað sé þjóðinni fyrir bestu. Peningarnir eru notaðir til góðs og ills, alveg eins og öll önnur mannanna verk hafa margvíslegar afleiðingar. Við hljótum að hafa það fyrst og fremst í huga, að fólkið fái frelsi til að athafna sig, frelsi til að tjá sig. Síðan eru almennar reglur settar í þjóðfélaginu um að menn gangi ekki of langt, og það hlýtur að gilda um þessar útvarpsstöðvar eins og um prentfrelsi og annað það sem mannfólkið tekur sér fyrir hendur.