14.02.1979
Neðri deild: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2588 í B-deild Alþingistíðinda. (2028)

Umræður utan dagskrár

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs í dag til þess að fá tækifæri til að koma að gagnrýni á vinnubrögð sem mér sýnast vera nokkuð einstök hér á Alþ., a.m.k. rekur mig ekki minni til eftir nærri 20 ára setu hér á þingi að slík vinnubrögð hafi verið viðhöfð. Að mínum dómi hefur Alþ. verið sýnd lítilsvirðing, eins og ég mun nú koma að.

Það hefur verið í fréttum mjög að undanförnu, að á vegum hæstv. ríkisstj. hefur setið ráðherranefnd til þess að komast að niðurstöðu og reyna að finna stefnu í efnahagsmálum. Henni var ætlað að ljúka störfum 1. febr. — það var dagsetning sem einn af samstarfsflokkunum fann upp þegar hann þurfti að falla frá stærri fyrirheitum. Þegar þessi nefnd hafði lokið störfum sínum afhenti hún hæstv. forsrh. niðurstöðurnar og af blaðafregnum að dæma hugðist hann semja frv., sem lagt yrði fram á Alþ., um lausn efnahagsvandans sem við er að glíma.

Hæstv. forsrh. mun eftir blaðafregnum að dæma hafa lagt það frv. fram, sem hann hafði útbúið, á ríkisstjórnarfundi í gærmorgun. Þá hafði hann haldið ráðstefnu í stjórnmálaflokki sínum, sem stóð fyrir helgina, til þess að kynna flokksmönnum sínum gang mála og sjálfsagt atriði í þessu frv. En í gærmorgun mun hann hafa boðað á sinn fund forustumenn fjölmennra samtaka, afhent þeim eintak af frv. og eftir því sem sagt hefur verið óskað umsagnar þeirra.

Í fréttum í gær, þar sem haft var viðtal við nokkra ráðh., kom í ljós að Alþfl. hafði fjallað um frv. og samþykkt það svona, eins og hann þyrfti þá ekki að vera viðstaddur þegar málið fengi þinglega meðferð á Alþingi. Það kom hins vegar í ljós, að þingflokkur Alþb. hafði sitthvað við frv. að athuga. Þannig upplýstist síðla dags í gær að allir þingflokkar stjórnarflokkanna hér á Alþ. höfðu fjallað um þetta mál. Forustumenn Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Bandalags háskólamenntaðra manna, Farmanna- og fiskimannasambandsins og Stéttarsambands hænda höfðu verið boðaðir upp í Stjórnarráð, þeim afhent eintak af þessu frv. og þeir beðnir að gefa umsögn um það mál.

Ég skal síður en svo finna að því, að hæstv. ríkisstj. hafi samráð við einn eða annan í sambandi við þessi mál. En ég hefði haldið að áður en slíku frv. væri útbýtt á meðal þessara samtaka hefði stjórnarandstaðan á Alþingi Íslendinga átt siðferðilegan rétt á því að fá málið í hendur, ekki til umsagnar, heldur aðeins til upplýsingar, þannig að Alþ. allt hefði í höndum sér það sem ríkisstj. var þá að óska eftir að almannasamtök í landinu segðu skoðun sína á. Ég held að sú reynsla sé ekki af stjórnarandstöðu hér á Alþ., a.m.k. kannast ég ekki við það, að hún bregðist trúnaði að þessu leyti. Ég get sagt það hér, að þann tíma, sem ég gegndi embætti ráðh., brást stjórnarandstaða aldrei þeim trúnaði sem henni var sýndur með því að hún fylgdist með, fengi í hendur, áður en kunngerð voru, skjöl sem ríkisstj. hugðist leggja fram. Ég held að það þurfi ekki að óttast að upplýsingar leki frá stjórnarandstöðu til fjölmiðla. Það sýnast vera margir aðrir tilbúnir að láta þær í té. A.m.k. er það svo í dag, að við lesum meginefni frv. í blöðum landsins, og það er ljóst mál að frá stjórnarandstöðunni er það ekki komið. Við heyrum í fréttum útvarpsins, að stjórnir þessara samtaka hafa tekið þessar tillögur til skoðunar, og við erum spurðir álits sem þm. Við getum að sjálfsögðu ekki svarað, því að stjórnarandstaðan hefur ekki fengið málið í sínar hendur.

Ég held að það, sem hér er að gerast, sé þess eðlis að ástæða sé til að koma fram þessari gagnrýni. Ég trúi ekki að hér eigi að innleiða þær starfsaðferðir, sem sums staðar hafa verið innleiddar, að löglega kjörin stjórnarandstaða, að minni hl. eigi ekki að hafa neinn rétt. Ef svo væri, þá er vissulega ástæða til þess að gera meira en aðeins að gagnrýna þessi vinnubrögð hér á Alþ. Ég trúi því ekki að hæstv. forsrh. hafi slíkt og þvílíkt í huga, heldur hafi hér verið um vangá að ræða og að slíkt komi ekki til með að endurtaka sig.

Við höfum að sjálfsögðu skiptar skoðanir um lausn þeirra mála sem Alþ. þarf að glíma við. En ég held að við megum aldrei gleyma því, að eins og meiri hl. Alþ. ræður ferðinni verður minni hl. að fá sitt tækifæri til þess að gagnrýna. Ég held að það hljóti að vera siðferðileg skylda þeirra, sem með stjórnvöld fara, að þessari stofnun sem fer með löggjafarvaldið, séu kynntar tillögur áður en leitað sé út fyrir þetta hús. Ég veit að við, sem í stjórnarandstöðu erum í dag, getum farið á nokkrar skrifstofur í bænum og sjálfsagt fengið fjölrituð eintök af tillögum forsrh. Mér hefur verið tjáð að í dag séu fjölritarar viða í gangi og það sé hægt að hringja og fá tillögur forsrh., þ.e.a.s. það frv. sem hann afhenti samtökum til umsagnar í gær. En það er ekki sú leið sem stjórnarandstaðan á að venjast að mínum dómi, og ég tel að það þurfi að fyrirbyggja að til slíks komi aftur.

Um leið og ég gagnrýni þetta nota ég tækifærið og gagnrýni þá hlutlausu fjölmiðla sem við höfum í þessu landi, þ.e.a.s. ríkisfjölmiðlana. Af fréttum í útvarpi og sjónvarpi verður ekki hægt að segja að þjóðin hafi fengið hlutlausar fréttir af því sem var að gerast í höfuðborginni í gær. Það gerðust ýmsir þeir hlutir sem eðlilegt var að fjölmiðlar létu þjóðina vita um, og það gerðust hlutir sem eðlilegt var að stjórnarandstaðan yrði spurð álits á. Þegar ríkisstjórnarfundinum lauk um hádegið í gær var rætt við nokkra ráðh. og það var síður en svo að þeir væru sammála um það frv. sem hæstv. forsrh. hafði lagt fram. Einn ráðh., hæstv. menntmrh. Ragnar Arnalds, lýsti því yfir, að flokkur hans væri algerlega andvígur fjölmörgum greinum og köflum þessa frv. Við höfum í dag séð yfirlýsingar frá forustumönnum Alþb. Er nema eðlilegt að álit stjórnarandstöðunnar sé fengið á því ósamkomulagi sem nú virðist ríkja og reyndar hefur ríkt í herbúðum stjórnarsinna um langan tíma? Meira að segja segir sjónvarpið frá því í gærkvöld, að miðstjórn Alþýðusambands Íslands hafi fjallað um ákveðinn þátt þessara mála og hafi þar verið gerð samþykkt með 11 shlj. atkv. og samþykktin lesin upp. Síðan er í aukasetningu sagt að fjórir hafi setið hjá með bókun, en þjóðinni var ekki kunngert hverjir þessir fjórir voru né heldur sjónarmið þessara fjögurra manna, sem ekki greiddu atkv. með þeirri tillögu sem ellefu menn í stjórn ASÍ höfðu greitt atkv. með.

Ég held að það sé ástæða fyrir okkur að íhuga þetta og það sé ástæða fyrir okkur að íhuga um leið að við fáum kannske í dag hlutlausari frásögn af því, sem hér er að gerast á Alþ., í pólitísku fjölmiðlunum í landinu. Þetta atriði held ég að hér þurfi líka að koma fram til gagnrýni og skoðunar. Ég skal ekkert um það segja, hvers vegna slíkt gerist. En til þess er gagnrýnin borin fram, að þeir, sem að því standa, geti síðar betrumbætt og sýnt í starfi sínu að Ríkisútvarpið, hljóðvarp og sjónvarp, er hlutlaus fjölmiðill, sem á að flyt ja fréttir til landsmanna með þeim hætti að þeir geti sjálfir dæmt um það sem er að gerast, en ekki að einhliða fréttamennska eigi í raun og veru að vera dómur um það sem er að gerast.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Ég þakka fyrir að geta komið fram þessari gagnrýni minni í dag og hæstv. forsrh., sem ég vissi að var bundinn, fyrir að hann gat komið hingað til þess að hlýða á. Hér er engin fsp. til hans, en sjái hann ástæðu til að taka til máls vonast ég til þess að í ljós komi að hér sé ekki um að ræða ásetning þess eðlis að stjórnarandstaðan verði sett til hliðar, heldur hitt, að hér hafi verið eitthvað að sem hægt sé að bæta úr.