14.02.1979
Neðri deild: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2590 í B-deild Alþingistíðinda. (2029)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil í hvívetna reyna að ástunda sem besta samvinnu við stjórnarandstöðuna um þingstörf. Mér finnst skiljanleg sú ósk, sem mér fannst felast í ræðu hv. síðasta ræðumanns, þó að hún kæmi kannski ekki alveg fram berum orðum, sem sagt sú ósk, að stjórnarandstöðunni væru afhent þau frv.-drög sem ég lagði fram í ríkisstj. á mánudagsmorgun til skoðunar. Þeirri beiðni, ef ég hef skilið hann rétt, get ég ekki svarað hér og nú, af því að ég tel mig þurfa að bera það atriði undir samráðh. mína. Það mun ég gera á ríkisstjórnarfundi á morgun. Ég mun þar leggja til að stjórnarandstöðunni verði afhent þetta frv. En til skýringar og í tilefni af gagnrýni hv. ræðumanns vil ég taka þetta fram:

Það er auðvitað svo, að ég tel alveg sjálfsögð vinnubrögð, og mun fylgja þeim, að frv. af þessu tagi sé í tæka tíð sent stjórnarandstöðu, áður en það er lagt fram á Alþ. Þetta frv. er að svo stöddu ekki á því stigi að um það sé að ræða að það verði lagt fram á Alþ. á morgun eða hinn daginn. En um það get ég fullvissað hv. síðasta ræðumann, að stjórnarandstöðunni mun verðagefinn kostur á að sjá þetta frv. og skoða það með nægum fyrirvara, áður en það verður lagt fram á Alþ., hver sem afdrif beiðni hans verða á ríkisstjórnarfundi. – Eins og hann þekkir manna best um afgreiðslu mála á ríkisstjórnarfundi, þá er oft og einatt litið svo á að menn hafi þar neitunarvald í raun og veru og það þurfi samþykki allra til þess að slíkt sé gert sem hann var að fara fram á.

Mér fannst megininntakið í þeirri gagnrýni, sem hv. þm. Matthías Á. Mathiesen bar fram, það, að þetta frv. eða frv.-drög hefðu verið sýnd ákveðnum aðilum og afhent þeim til þess að óska eftir áliti þeirra og umsögn um málið. Ég held að hv. þm. þurfi ekkert að verða hissa á þessu. Það stendur skýrum stöfum í samstarfsyfirlýsingu þeirra stjórnmálaflokka, sem fara með völd þessa stundina hér á landi, að þeir skuli hafa samráð við tilteknar stéttir. Það samráð felst auðvitað í því að gefa þessum aðilum tækifæri með viðræðum og með öðrum hætti að tjá sig um þau frv. t.d. sem í smíðum eru. Hitt fer svo auðvitað eftir atvikum, til hvers það samráð leiðir, hvort hægt verður að taka til greina að meira eða minna leyti þær ábendingar sem frá slíkum samstarfsaðilum koma. En samráð á að hafa við þessa aðila og til þess er ríkisstj. skuldbundin samkv. málefnasamningi sínum. Það er þess vegna á engan hátt óeðlilegt að haft hafi verið samráð við þessa aðila og þeim afhent mál þetta til athugunar og skoðunar. Ég held að það sé ekkert nýtt í þingsögunni að haft hafi verið samráð við aðila utan þings um mál, m.a. minnist ég þess frá fyrrv. ríkisstj., og það mun hafa verið gert áður en stjórnarandstöðunni voru send þau mál til athugunar. Það hefur að vísu síðan sprottið deila um það, hvort það samráð hafi verið nægilegt eða ekki og hvort það hafi verið í því formi sem eðlilegt var. En samráð var haft við tiltekna aðila þá, einmitt aðila vinnumarkaðarins, þar sem hæstv. þáv. forsrh. skýrði mál fyrir aðilum og m.a. að mér viðstöddum. Það er því ekkert nýtt að haft sé þannig samráð við aðila.

Nú skal ég taka undir það með hv. síðasta ræðumanni, að stjórnarandstaðan hér á Alþ. er vissulega ágæt. En Sjálfstfl. er þó ekki enn þá orðinn samráðsaðili núv. hæstv. ríkisstj. og þess vegna ekki hægt að skipa honum í sveit með þeim aðilum sem rætt var við í gær. Ef Sjálfstfl. eða stjórnarandstaðan fær þessi frv.-drög til meðferðar eins og þau eru nú, þá er það auðvitað með þeim fyrirvara og þeim áskilnaði, að frv. getur auðvitað tekið breytingum eftir að umsagnir hafa borist frá þeim aðilum sem samráð hefur verið haft við. En í raun og veru sé ég ekkert því til fyrirstöðu, að stjórnarandstaðan fái frv. þrátt fyrir það og með þessum fyrirvara til skoðunar, og það ætti aldrei að geta gert mein, að hún yrði enn betur undir það búin en ella að ræða málin þegar þar að kemur. En hitt vil ég endurtaka, að þegar verður alveg búið að ganga frá frv. þannig að það sé ákveðið til flutnings á Alþ. þá mun stjórnarandstaðan fá það í því formi, sem verður gengið frá því, til skoðunar áður en til meðferðar þess á þingi kemur.

Ég fellst algerlega á það með hv. þm., að það er auðvitað ófullnægjandi að þm. fái þessa lesningu í dagblöðum, þar sem frvgr. eru birtar með úrfellingum, eftir því sem hentugt þykir, og kannske lagfæringum. Það er að mínu mati miklu betra, að stjórnarandstæðingar og frá mínu sjónarmiði sem allra flestir fái að lesa frv. í þeirri mynd sem það er í, þó það kunni að taka breytingum. Auðvitað er ekki heldur sagan nema hálfsögð um frv. nema aths. fylgi með, sem eru allítarlegar og menn þurfa auðvitað að kynna sér um leið og þeir fjalla um frv. En slíkar aths. er ekki að finna, að ég hef séð, í þeim dagblöðum sem hafa birt útdrátt úr þessu frv.

Ég held að þetta sé það helsta, sem ástæða sé til fyrir mig að segja út af þeirri gagnrýni sem hv. þm. bar fram. Það er varla von að hann viti alveg nákvæmlega hvað fer fram á ríkisstjórnarfundum, og ég held að það hafi ekki verið alveg nákvæmlega gerð grein af hans hálfu fyrir afstöðu flokka. Alþfl. lét í té umsögn um frv. Þá umsögn skoða ég auðvitað fyrst og fremst um það, hvort flytja megi frv. sem stjfrv. Það er það sem liggur fyrir. Hitt er ekkert leyndarmál, að Alþb. hefur ekki verið reiðubúið til að taka afstöðu til þess atriðis eða ljá samþykki sitt til þess.

Um heimilisástæður þar í stjórnarráðshúsinu skal ég ekki fjölyrða á þessu stigi. Það á sér stað á bestu heimilum og þar sem jafnvel ástúð er heitust með hjónum, að þau deila stundum. En þeim mun heitari verða faðmlögin þegar sættir hafa tekist.

Það er afsakanlegt að ég haldi, af því að enginn er dómari í sjálfs sín sök, að þetta frv., sem ég hef saman tekið á grundvelli sem fyrir lá, sé harla gott. Kannske er það svo gott, þegar allt kemur til alls, að allur þingheimur sameinist um að samþykkja það. Þetta frv. er um stjórn efnahagsmála og fleira og m.a. um það atriði, sem mönnum hefur orðið tíðrætt um, bæði hér í þingsölum og annars staðar, um skaðsemi verðbólgu og nauðsyn þess að reynt væri að spyrna fótum þar við og draga úr verðbólgunni. Afstaðan til þess máls og frv. gæti orðið nokkur prófsteinn á það, hvað menn meina með þessu tali, og það er kannske kominn tími til að láta reyna á það, hver alvara býr að baki öllu talinu um skaðsemi verðbólgu og nauðsyn á því að draga úr henni.

Það liggur í augum uppi, að ég fer ekki að ræða þetta frv. hér, þar sem það hefur ekki komið til kasta Alþ. og væri auðvitað með öllu óviðeigandi að fara að ræða það. En ég vil segja það, að í þessu frv. er fjallað um mikil og alvarleg mál, mikil vandamál. En það er fjarri því að að því sé stefnt með því frv. að leysa allan vandann sem við er að glíma í efnahagsmálum Íslendinga nú. Að mínu viti er um að ræða nú tilfallandi vanda sem er jafnvel enn þá stærra vandamál og er enn þá meira vandamál heldur en fjallað er um í þessu frv., og geri ég þó ekki lítið úr því. Þar á ég auðvitað við þá olíuverðhækkun, sem á sér stað, hefur átt sér stað í heiminum og kemur auðvitað fram hér innan tíðar. Það er stórkostlegt áfall sem íslenska þjóðin verður fyrir vegna þess. Og það er alveg sama hvað menn tala mikið um það efni, að þar komast menn ekki hjá því að horfast í augu við staðreyndir — og þær staðreyndir eru kaldar, að það hlýtur að hafa áhrif á lífskjör allra landsmanna, vil ég segja, vegna þess að það er ekki sanngjarnt eða eðlilegt að láta það koma eingöngu eða fyrst og fremst niður á þeim sem næst standa, þeim atvinnuvegi sem þetta snertir, eða nota olíu til annarra hluta. Þetta er vandamál sem verður að standa andspænis innan tíðar. Hitt vandamálið er það, sem hefur komið fram í skýrslu fiskifræðinga, þar sem lagt er mjög eindregið til að mjög verulega sé dregið úr þorskveiðum á Íslandsmiðum. Hvort tveggja þetta, ef ekki verður hreyting til batnaðar í þessu efni, þýðir samdrátt lífskjara hér á landi, alveg sama hvað menn segja um það eða hvernig menn velta því fyrir sér. Þetta er sú alvarlega staðreynd sem skiptir kannske ekki síður máli fyrir hv. alþm. að horfast í augu við heldur en það frv. sem vonandi lítur dagsins ljós innan tíðar hér í sölum Alþingis.