26.10.1978
Neðri deild: 8. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

39. mál, kjaramál

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að segja nokkur orð áður en þessari 1. umr. um frv. til l. um kjaramál lýkur.

Ég vil vekja athygli á því, að þau dæmi, sem hæstv. fjmrh. nefndi sérstaklega um afturvirkni skatta sem sambærileg væru við þá löggjöf sem hér er til umr., voru frá árunum 1934, 1936 og 1941. Ég ítreka það, að ég ætla mér ekki að kveða upp dóm um lögmæti þessara skatta, en tek undir þau orð 1, þm. Reykv., að hér er verið að brjóta gegn réttlætiskennd manna, og endurtek það sem ég sagði í umr. í gær, að með þeim hætti er um siðleysi að ræða.

Vissulega getum við verið sammála um það, að nauðsyn var efnahagsráðstafana og efnahagsráðstafanir sem slíkar þoldu enga bið. En í raun og veru hefur ekkert verið gert annað og þurfti ekki að gera annað, til þess að hjól atvinnuveganna héldu áfram að snúast, en gengið væri lækkað um 15% eins og núv. hæstv. ríkisstj. stóð að. Ríkisstj, hefur ekkert gert nema síður sé til að tryggja afkomu atvinnuveganna til frambúðar. Ríkisstj. hefur ekkert gert umfram það til þess að rjúfa víxlverkanir verðlags og launa eða vítahring verðbólgunnar.

Það kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. og var viðurkennt í ræðu hæstv. fjmrh., að eignaaukaskattur næði ekki til verðbólgubraskara. Hann nefndi þó sem dæmi, að eignaaukaskatturinn gæti náð til verðbólgubraskara ef þeim hefði tekist að mynda hreina eign, þ.e.a.s. að heildareignir þeirra væru að mats- eða bókfærðu verði hærri en heildarskuldir. Ég hef þegar bent á í fyrri ræðu minni, að þannig fara verðbólgubraskarar ekki að. Almennt gæta þeir þess að skulda jafnmikið og matsverð eigna þeirra er á hverjum tíma. Til þessara manna, sem hafa verið upp á almannafé komnir, þ.e.a.s. sparifé landsmanna, nær skattlagningin ekki. Verndarhendi er enn haldið yfir þessum mönnum af núv. hæstv. ríkisstj. með óraunhæfri vaxta- og verðtryggingarstefnu. Og þar er fremstur í flokki formaður Alþb. og Alþb. í heild, enda er ekki enn komin fram vaxtastefna núv. ríkisstj., en í starfslýsingu hennar er getið um að hækka skuli bæði og lækka vexti. Auðvitað er hér um blekkingu að ræða og á það eftir að koma betur í ljós.

Ég fagna yfirlýsingu hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskrh., að auðvitað geti mistök átt sér stað og missmíði verið á lögum, og þeir bera fyrir sig skamman tíma sem fyrir hendi var til að undirbúa þessa löggjöf. Hér er verið í raun og veru að framkvæma stefnu Alþb, í skattamálum sem var sett fram s.l. vetur og þeir Alþb.-menn ættu raunar að hafa gert sér nokkra grein fyrir hvernig framkvæma skyldi. Það er enn fremur um það að ræða, að þessar aðgerðir eru árangur af a.m.k. 8 vikna samningsviðræðum núv. stjórnarflokka í sumar, áður en til stjórnarmyndunar kom, og því ættu þessir stjórnmálaflokkar að hafa verið í stakk búnir til þess að koma frá sér löggjöf sem a.m.k. væri ekki svo meingölluð sem þessi löggjöf er.

Hæstv. fjmrh. taldi nauðsynlegt að herða skattaeftirlit, en það mundi kosta peninga. Ég held að það sé sama hve miklum fjármunum verður varið í að herða skattaeftirlitið, ef skattalöggjöfin á Íslandi brýtur í bága við réttlætiskennd alls þorra landsmanna, og það sé ekki markmiðið að stofna til eftirlits til þess að gera kannske helming landsmanna að eftirlitsmönnum með hinum helmingnum. Hins vegar hef ég trú á því, að ef heilbrigð skattalöggjöf er framkvæmd, þá þurfi tiltölulega lítinn mannafla til þess að sjá svo um að hún verði framkvæmd á fullnægjandi hátt. En því miður stefnir sú löggjöf, sem núv. ríkisstj. hefur haft forgöngu fyrir, ekki í þá átt.

Hæstv. viðskrh. talaði um að núv. ríkisstj. hefði sett kjarasamningana í gildi, og hef ég hrakið það í fyrri ræðu minni. En hann státaði sérstaklega af því, að kaupmáttur launa væri nú sambærilegur við það sem hann hefði hæstur orðið á árinu 1974. Sá kaupmáttur varð aldrei raunverulegur. Það var aðeins pappírskaupmáttur sem stóð í nokkra daga í raun og veru. En það er rétt að það komi hér fram, að skýring forsvarsmanna launþegasamtakanna á því, hvað átt væri við með því að setja samningana í gildi, var að kaupmáttur launa væri sá sami og að var stefnt með kjarasamningunum 1977. Samkv. upplýsingum, sem ég hef um það efni, ætti kaupmáttur launa að vera nú um 112 stig miðað við 100 stig í upphafi þessa árs og miðað við 92 stig að meðaltali á síðasta ári. En eftir þessar aðgerðir ríkisstj. og þær tilfærslur og þær sjónhverfingar sem ríkisstj. stendur fyrir, er kaupmátturinn samt sem áður ekki kominn upp í nema 108 eða 109 stig. Þeim kaupmætti hefur ekki verið náð sem að var stefnt. Hér er um það að ræða að kaupmátturinn er mældur annars vegar með falsaðri framfærsluvísitölu og hins vegar með þeim sjónhverfingum sem ég gat um að átt hefðu sér stað hvað snertir að setja samningana í gildi, vegna þess að í sambandi við kaupmátt kauptaxta er ekki heldur tekið tillit til hvað tekið er af mönnum í sköttum. Og þessi lög gera ráð fyrir stóraukinni skattheimtu, þannig að kaupmáttur ráðstöfunartekna, sem er auðvitað sá rétti mælikvarði, er þeim mun lægri sem skattheimtunni nemur.

Hæstv. viðskrh. talaði um að menn skyldu bera saman heildarálagningu á einstaklinga annars vegar og auknar niðurgreiðslur og afnám söluskatts á matvörum hins vegar. En er þetta fullnægjandi? Ég held ekki. Þarna er ekki tekið tillit til þess, að um rekstrarhalla hjá ríkissjóði er að ræða. Það er ekki séð fyrir tekjuöflun til þess að mæta auknum niðurgreiðslum og afnámi söluskatts á matvörum. Það á ekki að gera fyrr en á næsta ári, og þá eykst skattbyrðin enn. Það er gjarnan háttur þeirra Alþb.-manna, að „það sem ég ber ber hesturinn ekki“. Það er nefnilega svo, að þær álögur, sem á atvinnuvegina eru lagðar, eru auðvitað álögur sem allir landsmenn greiða. Það dregur úr getu atvinnuveganna til að greiða kaup, til að endurnýja atvinnutæki og auka tækni og framleiðni sem ein getur staðið undir auknum kaupmætti þegar til lengdar lætur án þess að um verðbólguþróun sé að ræða. En á þetta er ekki lítið nú frekar en áður.

Ég skal ekki fara í frekari deilur við hæstv. viðskrh. um kosti óbeinna skatta og galla beinna skatta. Við erum á öndverðum meiði um það efni og við getum tekið okkur betri tíma til að ræða það mál. En ég vek aðeins athygli á því, að beinir skattar eru skattar á verðmætasköpunina, en óbeinir skattar eru skattar á eyðsluna. Þeir, sem vilja örva verðmætasköpun og sparnað, eru þess vegna hlynntir beinum sköttum. Ég vil hins vegar ekki ætla hæstv. viðskrh, að hann sé sérstakur formælandi eyðstu og samdráttar á vinnuframlagi einstaklinga í þjóðfélaginu. Það er hins vegar afleiðing af þeirri stefnu hans að velja fremur beina skatta en óbeina.

Hæstv. viðskrh. hrósaði sér mjög af afnámi söluskatts á matvörum. Út af fyrir sig get ég verið sammála honum um, að sú aðgerð sé ekki ámælisverð, nema hún leiði til þess að frekar sé unnt að draga undan greiðslu söluskatts og ógreinilegri skil og verri verði á söluskattstekjum hins opinbera eftir en áður. En á því er mikil hætta, að eftir því sem undanþágur frá greiðslu söluskatts fjölgar verði erfiðara um söluskattsinnheimtu. Og ég bæti því við, að við allir alþm. úr öllum þeim stjórnmálaflokkum, sem eiga fulltrúa á Alþ., erum að ég held, sammála um að taka upp virðisaukaskatt. Ef virðisaukaskattur er tekinn upp, þá kemur hann auðvitað á allar vörutegundir, hverju nafni sem nefnast, þannig að ef núv. hæstv. ríkisstj. ætlar að standa við þá stefnu sem búið er að marka, að virðisaukaskattur sé tekinn upp í síðasta lagi frá ársbyrjun 1980, þá er þetta bráðabirgðaráðstöfun, bráðabirgðaúrræði, eins og raunar allt það sem hingað til hefur séð dagsins ljós af hálfu hæstv. ríkisstj.

Hæstv. viðskrh. lagði mér í munn, að ég ætlaðist til að ríkisstj. leysti öll vandamál. Það var ekki rétt. En ég ætlast til að hún leysi einhver vandamál. Ég ætlast til annars og meira af ríkisstj, Íslands en að hún verði með ráðstöfunum sínum til þess að auka vandann sem við er að glíma. En því miður hefur núv. hæstv. ríkisstj. sýnt hingað til að hún er aðeins megnug um það.