15.02.1979
Sameinað þing: 53. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2593 í B-deild Alþingistíðinda. (2034)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár í raun og veru í framhaldi af þeim umr. sem hér áttu sér stað í gær utan dagskrár. Ég hafði þá kvatt mér hljóðs, en þeim umr. lauk allsnögglega þar sem að sögn forseta Nd. voru þingflokksfundir að hefjast. Þótt ég hefði kosið að koma máli mínu fram þá skal ekki um sakast orðinn hlut, einkum og sér í lagi þar sem mér gefst nú tækifæri fyrir velvilja forseta Sþ. að koma að því sem ég þá vildi gjarnan víkja að.

Ég ætlaði mér að taka undir gagnrýni 1. þm. Reykn., Matthíasar A. Mathiesen, um þá málsmeðferð, að stjórnarandstöðunni hefði ekki verið fengið frv. hæstv. forsrh. í hendur, það er hann lagði fram á fundi ríkisstj. s.l. mánudag, en aftur á móti hefði ýmsum samtökum utan Alþ. verið afhent þetta sama frv. fullbúið og það meira að segja í mörgum eintökum og óskað eftir umsögn þeirrar. Þá taldi hæstv. forsrh., í stað þess að svara fsp. hv. þm. beint, þ.e.a.s. hvort stjórnarandstaðan fengi frv. í hendur, að það þyrfti að spyrja ríkisstj. um leyfi til þess arna og það gæti jafnvel verið komið undir neitunarvaldi einstakra ráðh. hvort stjórnarandstaðan fengi þetta frv. í hendur eða ekki. Það var e.t.v. þessi skýring hæstv. forsrh. sem fékk mig fyrst til að kveðja mér hljóðs í gær þegar um þetta mál var rætt. Mér fannst það fráleitt, að það lægi ekki fyrir þegar ákveðið var, væntanlega bæði af hæstv. forsrh. einum og ríkisstj. í heild, að afhenda hagsmunasamtökum frv. til athugunar, að það hefði þá ekki um leið verið til umr. að stjórnarandstaðan og þm. fengju málið í hendur. Í raun og veru, eins og öll málsmeðferð er og meðferð fjölmiðla á þessu frv., má segja að það sé borin von að farið sé með þetta frv. sem trúnaðarmál.

Hins vegar vil ég láta þess getið og þakka það, þótt seint sé við brugðið, að þingflokkur sjálfstæðismanna hefur nú fengið sent frv. þetta til athugunar, væntanlega eftir ákvörðun ríkisstj. nú í morgun. En eftir þennan einkennilega og gagnrýnisverða aðdraganda og þessa óvirðingu við Alþ. í heild — ekki eingöngu stjórnarandstöðuna — og með því að frv. þetta er orðið að umræðuefni á almennum vettvangi, en er þó stimplað sem trúnaðarmál, og auðvitað mun stjórnarandstaðan virða þá ástimplun frv., má benda á, hvort ekki sé ástæða til að aflétta þessum trúnaði og birta þetta frv. opinberlega úr því að það er til umr. í fjölmiðlum. Mér skildist t.d. á hæstv. forsrh., að hann teldi að útdrættir fjölmiðla á ýmsum greinum og ákvæðum frv. væru mjög villandi. Hann getur sem best leiðrétt þessa villandi túlkun og birtingu með því að hirta alþjóð frv. í heild. Þá er spurningin, hvort skýringin á hiki og óákveðni hæstv. forsrh. í umr. hér utan dagskrár í gær sé sú, að einhver. flokkur í ríkisstj. eða einhverjir ráðh. í hæstv. ríkisstj. hafi, þegar frv. var lagt fram á ríkisstjórnarfundi, beitt neitunarvaldi gegn þeirri skoðun, að það ætti að birta þetta frv. opinberlega. Ég vil gjarnan spyrjast fyrir um það, hvort ekki sé ástæða til að þetta frv. verði birt opinberlega og jafnframt hvort einhver ráðh. eða ríkisstjórnarflokkanna hafi beitt neitunarvaldi gegn því.

Ég hlýt einnig að víkja að því að gefnu tilefni frá hæstv. forsrh., að það er munur á hvort samráð er haft við t.d. aðila vinnumarkaðarins áður en frv. er fullgert eða birt eða lagt fram eða það er afhent samtökum aðila vinnumarkaðarins fullbúið í hendur og til umsagnar áður en þingheimur fær það til skoðunar. Ég kannast vel við það í fyrrv. ríkisstj., sem hæstv. forsrh. minntist á, að það hefði verið algengt þar að hafa samráð við t.d. aðila vinnumarkaðarins. En það samráð var yfirleitt með þeim hætti, að ræddar voru ýmsar hugmyndir eða fyrirætlanir eða ákvarðanir ríkisstj. og spurst fyrir um álit hagsmunasamtaka eða fulltrúa þeirra á þeim fyrirætlunum eða ákvörðunum. Hins vegar minnist ég þess ekki, að í þeirra hendur hafi verið sent fullbúið frv. áður en þm. fengu slíkt frv. í hendur, og á þessu tel ég reginmun þegar við ræðum um þá virðingu sem sýna verður stjórnarandstöðu og raunar Alþ. sem löggjafarsamkomu þjóðarinnar yfir höfuð.

Þessar umr. gefa mér einnig tækifæri til og tilefni til að spyrjast fyrir um það, hvaða fyrirætlanir hæstv. forsrh. og ríkisstj. hafi varðandi meðferð þessa frv. hér á Alþ. Hver er ætlun ríkisstj. hvað snertir framlagningu þessa frv. hér á Alþ.? Er ákveðið hvenær þetta frv. verður lagt fram á Alþ.? Hefur hæstv. forsrh. eða hæstv. ríkisstj. ákveðin tímamörk í huga varðandi afgreiðslu þessa frv.? Og ég spyr ekki að ástæðulausu. Við hv. alþm. höfum ekki einungis orðið varir við ákveðnar tímasetningar ríkisstjórnarflokkanna þegar rætt hefur verið um lausn efnahagsmála, heldur er alþjóð kunnugt að við margvíslegar tímasetningar hefur þar verið miðað.

Þegar ríkisstj. var mynduð 1. sept. var það gert að undangengnum 8 vikna samkomulagstilraunum núv. ríkisstjórnarflokka, þannig að ætla hefði mátt að þessir ríkisstjórnarflokkar, sem tóku höndum saman um stjórn landsins, væru búnir að koma sér saman um úrræði í efnahagsmálum og því fremur sem þeir allir, a.m.k. flestir þeirra, höfðu ráð á hverjum fingri um lausn efnahagsmálanna í kosningabaráttunni og voru mjög kokhraustir í þeim efnum. En samkv. viðurkenningu aðstandenda ríkisstj. sjálfrar voru efnahagsúrræðin í september aðeins bráðabirgðaúrræði til þess að vinna aukinn tíma til þess að ríkisstj. kæmi sér saman um varanlegri lausn efnahagsmála. Og þá var miðað við að þessi varanlegri lausn efnahagsmála skyldi sjá dagsins ljós fyrir 1. des. — Þá birtist hér á borðum þm. frv. til l., en samfara því lýsti hæstv. forsrh. og hver ráðh. um annan þveran yfir að hér væri eingöngu um bráðabirgðaúrræði að ræða enn einu sinni. Og einn ríkisstjórnarflokkanna, Alþfl., lýsti alveg sérstaklega yfir óánægju sinni með, að ekki væri um varanlegri úrræði að ræða, og taldi alla annmarka og galla á þessum bráðabirgðaráðstöfnunum. Eftir að hafa talið þá upp voru samt sem áður 14 hendur þm. Alþfl. á lofti til samþykktar þessum bráðabirgðaúrræðum sem ekki mundu ná tilgangi sínum. En látum það vera. Þá var heitið bót og betrun og jafnvel fyrir afgreiðslu fjárl. fyrir jólin.

Fjárlög voru afgreidd, en engin bót eða betrun fólst í þeim. Þá var því lýst yfir, að mikil ráðherranefnd skyldi sett og úr hennar hendi skyldu bjargráðin örugglega koma. Því plaggi hefur verið útbýtt á fjölmennum fundi og til fjölmiðla, en er í raun og veru svo ómerkilegt og segir svo lítið að það er tæplega umræðuefni hér eða á öðrum vettvangi. Því er út af fyrir sig skiljanlegt að hæstv. forsrh. hafi haft lítið gagn af því plaggi við samningu frv. síns, enda segja sögur að frv. hæstv. forsrh., sem svo hefur verið nefnt, hafi verið samið — að hans tilhlutan að vísu — af sérfræðingum ríkisstj., eins og ekkert er við að athuga, áður en álit ráðherranefndarinnar lá fyrir. Ég er ekki að gagnrýna þetta út af fyrir sig. Þetta er aðeins forvitnilegt um vinnubrögð á stjórnarheimilinu.

En 1. febr. er kominn, og liðinn og ekkert gerðist. Þá hefur verið rætt um að eitthvað þyrfti að gerast fyrir 1. mars n.k. Nú hefur frv. verið lagt fram í hæstv. ríkisstj, af hæstv. forsrh. s.l. mánudag, og miðað við öll þau tímamörk sem klingt hafa í eyrum ekki eingöngu þm., heldur og allra landsmanna, er ekki að ófyrirsynju að spurt sé, hver sé fyrirætlun hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstj. varðandi málsmeðferð þessa frv. og hraða í tíma hvað snertir meðferð þess hér á Alþ. Það er líka sanngirnismál, að við hv. þm., svo hátíðlega sé til orða tekið, fáum að vita hvað ætlast er til af okkur í þessum efnum.

Hæstv. forsrh. drap á það í svarræðu sinni í umr. utan dagskrár í gær, að tvö væru þau mál sem jafnvel skyggðu á og raunar yfirgnæfðu algerlega efnahagsvanda Íslendinga að öðru leyti, þótt í þeim fælist auðvitað efnahagsvandi í sjálfu sér — aukinn efnahagsvandi, og það væru væntanlegar olíuverðshækkanir og skýrsla fiskifræðinga um ástand fiskstofna hér við land. Haft hefur verið eftir hæstv. forsrh., að honum hafi fallíð allur ketill í eld við fréttir um olíuverðshækkunina, og hæstv. viðskrh. hefur talað um, að hér væri stórpólitískt mál á ferðinni. Ég skal ekki með einu eða neinu orði draga úr alvöru þess fyrir okkur Íslendinga eða afleiðingar þess fyrir okkur Íslendinga sem felst í olíuverðshækkuninni sem yfirvofandi er. En þó vil ég vara við því, að sú olíuverðshækkun sé notuð sem yfirskin í öðrum tilgangi, til að koma á aðgerðum eða ráðstöfunum sem beinast að þeim efnahagsvanda sem við þegar stöndum frammi fyrir. Ég tel eðlilegt og sjálfsagt að við ráðumst gegn honum með hreinskilnum og opinskáum hætti, en hljótum um leið að takast á við vanda olíuverðshækkunar sér á parti, þótt það sé einnig efnahagsvandi og skyldur hinum viðloðandi vanda okkar, verðbólgunni, að því leyti að auka á hana væntanlega og gera hana illleysanlegri. Því spyr ég, hverjar séu helstar ráðagerðir af hálfu ríkisstj., og beini þeirri fsp. hvort heldur sem er til hæstv. forsrh. eða hæstv. viðskrh., hverjar séu fyrirhugaðar ráðstafanir ríkisstj. til að mæta væntanlegum olíuverðshækkunum. Í tengslum við það vil ég gjarnan fjalla aðeins um þessi mál og e.t.v. koma með nokkrar ábendingar í því sambandi.

Eins og kunnugt er eru olíukaup okkar mestmegnis frá Sovétríkjunum og hefur svo verið áratugum saman. Við höfum gert rammasamning síðustu 20 árin, að því er ég held, við Sovétríkin um kaup á olíu og raunar viðskipti okkar til 4 eða 5 ára í senn, en hvað olíu og aðrar vörutegundir snertir hefur verið samið um magn og verð á hverju ári. Á tímabili var verðið miðað við skráningu á olíu við Mexíkófkóa, en síðan 1960, að því er ég hygg, miðað við skráningu á verði frá Curacao eða Arúba við Venezúela, og það mun hafa verið gert allt fram til 1975. En þá var að hálfu leyti samið um olíuverð miðað við skráningu í fyrrnefndum höfnum við Venezúela og að hálfu leyti skráningu í Rotterdam. Þegar olíukreppan skall yfir 1973–1974 munum við hafa haft töluverðan hagnað af því, að olíuverðlag okkar miðaðist við skráningu í Curacao, að því leyti til að olíuverðshækkunin kom seinna fram gagnvart okkur en almennt. Það mun hafa verið að áliti seljenda þeim óhagkvæmt. Þess vegna var lögð á það áhersla að miða skráninguna við Rotterdam í samningunum 1977 fyrir árið 1978 og var ekki, að því er ég minnist, mikil andstaða af hálfu okkar samningamanna þar sem skráningin í Rotterdam hafði á árinu 1977 verið okkur heldur hagstæð. Nú er hins vegar svo komið, að skráningin í Rotterdam er okkur ákaflega óhagstæð. Horfur eru á að olíuverðshækkunin komi fljótar og alvarlegar fram gagnvart okkur Íslendingum heldur en gagnvart öðrum þjóðum.

Nú ber þess reyndar að geta, að olíuverðshækkunin nú er að kunnugra manna sögn nokkuð annars eðlis en var 1973–1974 þegar olíuverð fjórfaldaðist. Þá hækkaði olíuverðið samkv. ákvörðun OPEC-landanna, olíuframleiðslulandanna, en nú stafar olíuverðshækkunin að minnstu leyti af ákvörðun OPEC-landanna eða olíuframleiðslulandanna. Hún stafar annars vegar af minnkandi framboði á olíu vegna þess að olíuframleiðslan í Íran hefur fallið niður eða stórlega minnkað, en mér skilst að Vesturlönd hafi fengið um 20% af olíu sinni frá Íran og hlýtur um það að muna. Hins vegar stafar olíuverðshækkunin einnig af aukinni eftirspurn eftir olíu hér í Evrópu og Vesturlöndum vegna hinna miklu kulda sem gengið hafa yfir og kalla á aukið eldsneyti. Þess vegna eru menn e.t.v. ekki á eitt sáttir um það, hversu varanleg sú olíuverðshækkun verður sem nú er fyrirsjáanleg og við þurfum við að glíma. E.t.v. eru einhverjar vonir til þess, að með hlýnandi veðurfari og vorkomu dragi úr eftirspurninni og enn fremur að ástandið í Íran eigi eftir að batna og olíuframleiðsla þar að aukast eða að önnur olíuframleiðslulönd auki framleiðslu sína og framboðið aukist að nýju þannig að jafnvægi komist á. Aftur eru til þeir sérfræðingar sem halda því fram, að þetta sé aðeins vísbending um að olíuverð verði varanlega töluvert hærra í framtíðinni. Fulltrúar OPEC-landanna munu hafa ráðgert fund fyrir vorið þar sem hætta er á að þeir muni ákvarða enn frekari hækkun en varð niðurstaða fundar þeirra seint á síðasta ári, en ef ég fer rétt með og minni mitt brestur ekki var ákvörðun þeirra um 14% hækkun.

Spurningin er þess vegna, hvort hér verður um sveiflu að ræða í verðlagi olíu sem á þá eftir að jafnast út eða hvort olíuverðshækkunin verður varanleg. Hvort heldur sem er, þá er spurning hvort ekki sé ástæða til fyrir ríkisstj. að óska að nýju eftir viðræðum við seljendur, Sovétríkin, um að breyta verðviðmiðun olíu og þá á þann veg, að verðviðmiðun olíu sé annaðhvort bundin við framleiðsluverð olíuríkjanna, OPEC-landanna, að viðbættum eðlilegum vinnslukostnaði, eða að Rotterdamviðmiðunin sé áfram í gildi, en með einhvers konar hámarki eða þaki. Verður að ætla að báðir aðilar, bæði seljandi og kaupandi, telji eðlilegt að um sanngjarnt verð sé að ræða fyrir olíuna, og ekki ætla ég seljanda að vilja nota sér sérstakar aðstæður til þess að hreppa skammvinnan eða skjótfenginn ágóða. Með því að hér er um viðskiptasamninga til langs tíma að ræða, sem að ramma til eru gerðir til 4 eða 5 ára, þá svipar þeim mjög til olíuviðskipta almennt í heiminum, en þar er um langtímasamninga að ræða sem miðast fyrst og fremst við framleiðsluákvörðunarverð OPEC-landanna og sanngjarnan vinnslukostnað. Sérstaða okkar Íslendinga er e.t.v. fólgin því, að hér fer ekki fram vinnsla olíu, og það er e.t.v. orsökin til þess, ásamt verðviðmiðuninni í Rotterdam, að olíuverðshækkunin, þessi sveifla upp á við, kemur harðar niður á okkur en öðrum þjóðum, þótt einnig sé talað um og í aðsigi séu olíuverðshækkanir meðal annarra þjóða og jafnvel olíuskortur.

Ég vil taka það fram, að þessi ábending mín er sögð og látin í té algerlega án allrar gagnrýni á núv. ríkisstj. varðandi samninga við Sovétríkin og ákvörðun hvað snertir verðviðmiðun við Rotterdam. Það er algerlega samhljóða ákvæði og var í samningum sem gerðir voru á ábyrgð fyrrv. ríkisstj. og fyrrv. viðskrh. sem nú er í gildi á ábyrgð núv. ríkisstj. og núv, viðskrh. Hins vegar held ég að í því sé engin áhætta fólgin, heldur miklu fremur brýn nauðsyn og eðlileg sanngirni, að teknar séu upp viðræður við seljendur um þessi mál til þess að draga úr alvarlegum afleiðingum af fyrirsjáanlegri olíuverðshækkun.

Ég vil, áður en ég lýk máli mínu, herra forseti, einnig víkja mjög stuttlega að öðru alvarlegu máli sem við okkur blasir, þ.e.a.s. ástandi fiskstofnanna við landið. Ég minnist þess að hafa heyrt hæstv. sjútvrh. í sjónvarpi svara spurningu fréttamanns um væntanlegar ráðstafanir í tilefni af þessari skýrslu eitthvað á þá leið, að það væri nauðsynlegt að gera gagnráðstafanir, en hins vegar yrðu þær að vera þannig að þær kæmu sem minnst við hag landsmanna. Ég skildi hæstv. sjútvrh. þannig, að það væri unnt að koma því svo fyrir með sókn í aðra fiskstofna og ýmsum öðrum hliðarráðstöfunum að þetta þyrfti ekki að snerta okkur mjög alvarlega. Um það skal ég ekki fjölyrða sérstaklega að hæstv. sjútvrh. fjarstöddum. Ég vil þó að gefnu tilefni frá hæstv. forsrh. benda á, að þótt hæstv. ríkisstj. — sem ég gagnrýni ekki og sakna út af fyrir sig ekki — hafi ekki kallað á stjórnarandstöðu til beins samráðs í efnahagsmálunum almennt og áður en frv. það, sem hefur orðið mikið umræðuefni, var lagt fram í ríkisstj., enda benti hæstv. forsrh. réttilega á að stjórnarandstæðan væri ekki samráðsaðili núv. ríkisstj. í þeim efnum, þá er það samt svo, að óskað hefur verið eftir því í tilefni af skýrslu fiskifræðinganna, að þingflokkur sjálfstæðismanna tilnefndi fulltrúa til að fjalla ásamt fulltrúum annarra þingflokka um hvaða ráðstafanir ætti að gera eða hver víðbrögð ættu að verða við þessari skýrslu fiskifræðinga.

Herra forseti. Ég þakka fyrir umburðarlyndi og skilning sem í því er fólginn að mér hefur gefist kostur að flytja mál mitt nú utan dagskrár.